Sunnudagur 10.3.2013 - 22:26 - FB ummæli ()

Vantrauststillaga

Eftirfarandi tillaga verður borin upp af mér á Alþingi nú á mánudaginn:

Alþingi ályktar að lýsa vantrausti á ríkisstjórnina. Alþingi lýsir þeim vilja sínum að þing verði rofið og efnt til almennra þingkosninga. Fram að kjördegi sitji ríkisstjórn skipuð fulltrúum allra flokka á þingi.

Tillagan er borin fram vegna þessa að stjórnarmeirihlutinn hefur svikið það loforð og það ferli sem var í gangi til að færa þjóðinni nýja stjórnarskrá, stjórnarskrá sem þjóðin hafði áður samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu að hún vildi. Slík vinnubrögð eins og formenn Samfylkingar, Vinstri-grænna og Bjartrar framtíðar hafa nú iðkað eru einsdæmi í ríki sem vill kenna sig við lýðræði og býður upp á hættulegt fordæmi hvað framtíðarþróun lýðræðis á Íslandi varðar. Þess vegna er mikilvægt að sitjandi stjórnvöldum verði komið frá hið fyrsta. Svona óhæfuverk má ekki líðast.

Svo virðist sem óöryggi nýkjörinna forystumanna Samfylkingar og VG hafi leitt þá til þess að fara í sömu hjólför og Davíð Odsson og Halldór Ásgrímsson voru í með sína þinglokka og troða ákvörðun sinni ofan í kokið á þingmönnum sínum þvert gegn vilja flestra þeirra, svona bara til að árétta völd sín. Það ótrúlega er að þetta DOHÁ foringjaræði virkaði og þingmennirnir gáfust upp og lúffuðu líkt og þingmenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks gerðu árum saman undir DOHÁ.

Það er þó athyglisvert að hvorugur formannanna, hvorki Árni Páll né Katrín hafa umboð nýlokinnna landsfunda til að ganga svona fram. Þau nefndu það aldrei einu orði að þetta yrði afstaða þeirra til stjórnarskrárinnar ef þau yrðu formenn heldur þvert á móti voru þau kosin til að klára málið á þessu þingi. Með þessu hafa þau því algjörlega gjaldfellt flokka sína með nákvæmlega sama hætti og formenn og þinglið Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks hafa gert með sína flokka. Flokkarnir sem stofnanir og fundir þeirra og samþykktir eru merkingalaust þvaður sem stillt er upp til blekkingar fyrir almenna félagsmenn sem eru hinir sönnu nytsömu sakleysingjar. Hið raunverulega gluggaskraut eru ekki formennirnir heldur flokkarnir sjálfir í heild sinni.

Verði tillagan samþykkt mun það þó ekki einungis leiða til afsagnar ríkisstjórnarinnar heldur einnig gefa flokksmönnum Samfylkingar og Vinstri-grænna tækifæri á að endurskoða afstöðu sína til nýkjörinna formanna og krafa um afsögn þeirra sem formenn verður sjálfsögð. Í því liggja sóknarfæri fyrir lýðræðissinnaða félaga í þessum flokkum og gefur þeim nýtt tækifæri til að meta hvaða leiðarljós flokkarnir skuli hafa inn í framtíðina. Vilja þeir vera eins og Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur undir DOHÁ eða vilja þeir vera eitthvað annað.

Verði tillagan felld mun núverandi meirihluti starfa áfram, lok þingsins verða sama baktjaldamakk og venjulega, það verður tilviljunum háð hvað þingmál verða að lögum og ríkjandi siðleysi verður áfram við völd, á Alþingi og innan Fjórflokksins. Það er einnig athyglisvert við þetta að Borgarstjórinn í Reykjavík Jón Gnarr og fylgismenn hans í Besta flokknum eru nú komnir í eina sæng með þessum vinnubrögðum í gegnum Guðmund Steingrímsson og Róbert Marshall sem hafa leynt og ljóst grafið undan stjórnarskrármálinu mánuðum saman. Stendur þeim virkilega líka á sama um niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar og hugmyndina um lýðræði.

Vonandi tekst að koma þessu fólki frá völdum sem fyrst. Það er ekki vandanum vaxið og það er lýðræðinu hættulegt. Foringjaræði í anda DOHÁ má ekki endurtaka sig því hvers kona framtíðarsýn er það fyrir land og þjóð að sitja uppi með gömlu stjórnaskrána, gömlu ósnertanlegu valdaklíkurnar og gamla ósnertanlega Fjórflokkinn. Lýðveldið Ísland verður þá sennilega innan skamms skráð í sögubækur sem 70 ára tilraun smáþjóðar sem mistókst. Fyrir mér er það eitthvert það versta sem hugsast getur.

Restin af vantrauststillögunni, þ.e. greinargerðin fylgir með hér fyrir neðan.

Greinargerð.

Sú vantrauststillaga sem hér er lögð fram beinist gegn ríkisstjórninni þar sem hún situr í umboði meiri hluta þingsins, en þingið getur ekki afgreitt frumvarp til stjórnarskipunarlaga byggt á þeim drögum sem samþykkt var að leggja til grundvallar nýrri stjórnarskrá og samþykkt voru með yfirgnæfandi meiri hluta í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012.

Lýðræðisumbætur sem lofað var í aðdraganda kosninga hafa ekki séð dagsins ljós og enn er við lýði ójafn kosningarréttur eftir landshlutum, ójafnrétti í fjármálum stjórnmálaflokka og skortur á persónukjöri og beinu lýðræði.

Með hliðsjón af því grundvallaratriði í lýðræðisríkjum að allt vald komi frá þjóðinni virðist ríkisstjórnin ganga í berhögg við augljósan vilja þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá. Slíkri ríkisstjórn er eðli málsins samkvæmt ekki stætt að vera við völd og ber því að fara frá. Lagt er til að fram að kjördegi sitji ríkisstjórn skipuð fulltrúum allra flokka á þingi í stað þess að fráfarandi stjórn sitji sem starfsstjórn fram að þeim tíma. Með því eru meiri líkur á að sátt náist um mál sem varða hagsmuni þjóðarinnar.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 6.3.2013 - 14:48 - FB ummæli ()

Jón Gnarr???

Hvar er Jón Gnarr?

Nú þegar komið er formlega í ljós að formaður Bjartrar framtíðar Guðmundur Steingrímsson er einn af aðalforsvarsmönnum þess að stöðva framgang stjórnarskrármálsins á Alþingi og hefur ásamt Árna Páli lagt fram tillögu sem er órar einir um framhald málsins á næsta þingi, þá spyr ég um afstöðu Jóns Gnarr til alls þessa.

Sem kunnugt er þá er Borgarstjórinn í Reykjavík ásamt föngulegum hópi úr Besta flokknum s.s. Óttari Proppé og fleirum í framboði fyrir Guðmund Steingrímsson formann Bjartrar framtíðar. Sá sami Guðmundur hefur róið að því öllum árum undanfarnar vikur að eyðileggja framgang stjórnarskrármálsins á Alþingi á forsendum þess að eftir kosningarnar 27. apríl náist breið samstaða á Alþingi um að klára málið þá. Hefur hann hugsað upp þá fráleitu hugmynd og lagt hana fram sem þingmál að hið nýja hallelújaþing samþykki nýja stjórnarskrá 17. júní 2014 á Þingvöllum, væntanlega með tárin í augunum og hann sjálfan framarlega á myndinni.

Nú er svo sem ekki hægt að banna fólki að lifa í skáldsagnaheimi ef það svo kýs en hér er um grafalvarlegt mál að ræða þar sem Guðmundur og Björt framtíð og þá væntanlega með samþykki Jóns Gnarr og Besta flokksins eru að stöðva framgang stjórnarskrármálsins. Máls sem yfirgnæfandi meirihluti eða 67% samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu að yrði grundvöllur að nýrri stjórnarskrá.

Jón Gnarr og félagar verða nú að svara því hvers vegna þeir styðja þetta athæfi formanns Bjartra framtíðar sem með sama áframhaldi mun tryggja Íslandi svarta en ekki bjarta framtíð.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 2.3.2013 - 13:30 - FB ummæli ()

Árni Páll og lýðræðið.

Árni Páll Árnason hefur postullega tilkynnt að þjóðin fái ekki nýja stjórnarskrá þrátt fyrir afgerandi samþykkt þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvað segja aðrir þingmenn Samfylkingar, að ekki sé talað um þingmenn VG við þessu? Held að lýðræðinu og þjóðinni hafi aldrei fyrr verið sýnd slík vanvirðing af stjórnmálamanni.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 28.2.2013 - 18:44 - FB ummæli ()

Að ræna auðlind

Eftirfarandi bókun var lögð fram af mér á fundi Atvinnuveganefndar Alþingis í dag í tilefni þess að nefndin ætlar að afgreiða málið með miklum hraði. Hér er um að ræða mesta auðlindarán Íslandssögunnar.

Bókun

á fundi Atvinnuveganefndar Alþingis þann 28. febrúar 2013 vegna máls 570, Stjórn fiskveiða.

 

Fulltrúi Hreyfingarinnar/Dögunar mótmælir harðlega meðferð og afgreiðslu frumvarps til laga um Stjórn fiskveiða (mál 570) í Atvinnuveganefnd Alþingis.

Ef frumvarpið verður samþykkt óbreytt mun það festa í sessi núverandi kvótakerfi með 20 ára  nýtingarsamningum sem valda því að ríkið verður að fullu skaðabótaskylt ef reynt verður að breyta kerfinu innan þess tíma.

Frumvarpið afhendir núverandi útgerðum kvótann til 20 ára í stað eins árs í senn og þegar haft er í huga að útflutningsverðmæti sjávarafurða á síðasta ári var um 251 milljarður króna þá er hér verið að afhenda örfáum aðilum auðlind að verðmæti að upphæð um 5.000 milljarða, já fimm þúsund milljarða, án þess að beint gjald komi fyrir.

Efnahagsleg áhrif frumvarpsins verða gríðarleg og sú þróun byggðar í landinu sem hefur átt sér stað frá lögfestingu frjálsa framsalsins á aflaheimildum verður fest í sessi til frambúðar. Meirihluti Atvinnuveganefndar undir stjórn Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur (VG) og Ólínu Þorvarðardóttur (Samfylkingu) hefur hafnað því að þessi áhrif verði metin og gengur þar með fram af miklu ábyrgðarleysi í störfum sínum.

Vinnubrögð meirihluta Atvinnuveganefndar og stjórnarmeirihlutans á Alþingi í þessu máli eru með miklum ólíkindum og algerlega óskiljanleg, því verði frumvarpið að lögum er um að ræða mesta auðlindarán í sögu þjóðarinnar. Frumvarpið gengur og þvert gegn auðlindaákvæði nýrrar stjórnarskrár sem nú er í meðferð Alþingis.

Samþykki Alþingi málið óbreytt mun þess verða formlega óskað við Forseta Íslands að hann synji lögunum samþykkis og að þjóðin öll fái þá í framhaldinu tækifæri til að segja álit sitt á málinu.

Þór Saari

Þingmaður Hreyfingarinnar/Dögunar

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 15.2.2013 - 13:39 - FB ummæli ()

Eðlileg stjórnmál eða aðför að löggjafarvaldinu?

Sá atburður gerðist í gær á Alþingi vegna mikillar umræðu um „Skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál“ að fara þurfti fram úr hefðbundnum lokum dagskrártíma klukkkan 20:00 og hafa fund lengur inn í kvöldið svo hægt væri að klára umræðuna, en skýrsla þessi er árviss viðburður og umræðu um hana lýkur alltaf á einum degi.

Samkomulag náðist af hálfu stjórnarliða við Framsóknar- og Sjálfstæðisflokk um slíka framlengingu en þegar á reyndi krafðist formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins að greidd yrðu atkvæði um tillöguna um framlengdan þingfund. Atkvæðagreiðsla var boðuð með tveggja tíma fyrir vara klukkan 16:40 en slík atkvæðagreiðsla er yfirleitt formsatriði þar sem þingmenn eru flestir mjög passasamir upp á mætingu, en skylt er að vera við atkvæðagreiðslur.

Um klukkan 16.30 fóru hins vegar nokkrir Framsóknar- og Sjálfstæðismenn að tínast út úr húsi og vegna veikinda eða lögmætra fjarvista náðu stjórnarliðar ekki fullu liði í hús. Til að þingfundur sé ályktunarbær þarf meirihluti þingmanna að vera á staðnum, þ.e. minnst 32 þingmenn og sú tala náðist ekki og atkvæðagreiðslunni var frestað til klukkan 19:30.

Þegar leið að atkvæðagreiðslunni klukkan 19:30 kom í ljós að um skipulega fjarveru af hálfu Framsóknarmanna var að ræða og ekki einn einasti þingmaður þeirra mætti. Þeir voru á tískusýningu út í bæ en það var samt ekki skipulögð fjarvera sagði formaður þingflokksins Gunnar Bragi Sveinsson. Sjálfstæðismenn voru líka flest allir fjarverandi og sá t.d. undir iljarnar á Ólöfu Nordal klukkan 19:29. Þrír þeirra mættu þó, Illugi Gunnarsson sem bað um atkvæðagreiðsluna sem og þingmennirnir Einar K. Guðfinnsson og Jón Gunnarsson sem greiddu atkvæði gegn tillögunni en sáu þó sóma sinn í að mæta.

Nú má vissulega segja að það sé hálf hallærislegt ef stjórnaliðum hverju sinni tekst ekki að manna atkvæðgreiðslur í þinginu enda yfirleitt um meirihlutastjórnir að ræða. Þó geta komið upp aðstæður eins og í dag þar sem einhverra hluta vegna það er ekki hægt en þá eru yfirleitt nægilega margir þingmenn í salnum til að fundurinn sé ályktunarbær. Það hefur hins vegar gerst í nokkur skipti að Framsóknar- og Sjálfstæðismenn stunda að því er virðist skipulegar fjarvistir frá atkvæðagreiðslum þegar þeir vita að ekki næst í alla þingmenn. Skemmst er að minnast stöðu sem komu upp á síðasta þingi þegar greiða átti atkvæði og Framsóknarmenn hlupu allir sem einn út úr húsi um miðja nótt og létu ekki ná í sig.

Það má svo sem segja að svona séu stjórnmálin hér á landi en þetta er svo sannarlega ekki það Alþingi sem almenningur í landinu vill sjá og svona vinnubrögð eru í mínum huga ekkert annað en aðför að lýðræðislegri afgreiðslu mála sem núverandi stjórnarandstaða virðist vera komin upp í vana með að stunda. Þar er rétt að minna á málþóf um alla mögulega og ómögulega hluti til þess eins að tefja fyrir eða eyðileggja önnur þingmál sem aftar eru í röðinni. Ræðustóll Alþingis og þingsalurinn er sá lýðræðislegi vettvangur sem við höfum til að afgreiða þingmál og þessari aðför að lýðræðislegri afgreiðslu mála verður að linna.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 12.2.2013 - 20:28 - FB ummæli ()

Hagræðing eða svindl?

Í umræðu í atvinnuveganefnd þingsins í morgun um breytingu á lögum um „Umgengni um nytjastofna sjávar“ eins og þau heita, kom ítrekað upp að Atvinnuvegaráðuneytið sem samdi frumvarpið notar orðalagið „að hagræða vigtun“ og „hagræðing vigtunar“.

Þegar eftir því var gengið hvað þetta sérkennilega orðalag þýddi kom í ljós að sennilega væri um að ræða svindl á vigtun, í þessu tilfelli á sjávarafla sem landað er, vegna þess að ráðuneytinu var ekki kunnugt um að vigtun sé „hagrætt“ upp á við. Við nánari eftirgrennslan kom það svo í ljós að „hagræðing vigtunar“ er bara svindl þar sem landaður afli er vigtaður of naumt og er því ekkert annað en þjófnaður á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Þessi „hagræðing“ hefur átt sér stað árum saman og það með vitneskju ráðuneytisins og ráðherra sem hafa oft reynt að taka á málinu og er áður nefnd breyting á lögum m.a. sett fram sem enn ein tilraun til að hamla „hagræðingaraðgerðum“ í höfnum landsins.

Ég veit ekki hvað skal segja um stjórnsýslu og stjórnvöld lands sem nota með formlegum hætti orðið „að hagræða“ yfir þjófnað, að ekki sé talað um stjórnvöld sem hafa eftirlitshlutverki að gegna, en mér finnst eitthvað bogið við það.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 9.2.2013 - 00:16 - FB ummæli ()

Skuldastaða ríkis og þjóðar

Eins og glöggt má sjá á stöðu Landsspítalans þessa dagana er að rætast sá spádómur að heilbrigðiskerfi landsins yrði að hruni komið vegna niðurskurðar innan tiltekins tíma frá hruninu. Eins og staðan er í dag og ef áfram heldur á sömu braut næstu sex mánuði, mun það ekki eiga sér viðreisnar von þrátt fyrir stóraukin fjárframlög, nema þá kannski á mjög löngum tíma.

Sú hugmyndafræði ríkisstjórnar Samfylkingar og VG með stuðningi AGS að hægt yrði að koma á jafnvægi með blandaðri leið niðurskurðar og skattahækkana hefur ekki gengið upp og að mati þess er þetta ritar gat aldrei gengið upp. Það var augljóst strax eftir Hrunið að skuldastaða ríkissjóðs yrði slík að ekki yrði við ráðið og að skuldirnar væru það sem kallað er á fagmáli ósjálfbærar. Þetta átti ekki bara við um skuldir ríkissjóðs heldur einnig sveitarfélaga, heimila og fyrirtækja, skuldir sem höfðu blásið út vegna verð- eða gengistryggingar sem gerði það að verkum að skuldirnar urðu ekki í neinu samræmi við mögulegan efnahagslegan raunveruleika.

Á það var bent af mörgum að þótt það næðist jafnvægi í ríkisfjármálum yrði það eingöngu með stórfelldum niðurskurði þeirra stoðkerfa sem gera okkur að nútímalegu landi með góðum samgöngum, samskiptatækni, mennta- heilbrigðis- og velferðarkerfi. Slíkur niðurskurður yrði of kostnaðarsamur þar sem hann myndi leiða til niðurbrots á starfsemi og brottflutnings sérfræðinga með afleiðingum sem ekki væri fyrir séð hverjar yrðu. Vaxtakostnaður ríkissjóðs upp á um 90 milljarða á ári eða nærri 20% af tekjum yrði allt of mikill til að undir yrði staðið. Því hlyti eina raunhæfa lausnin að liggja í samningum við skuldunauta um umtalsverðar afskriftir eða hagstæðari endurgreiðslur á lánum hins opinbera.

Viðhorf stjórnvalda og AGS til þessa var alla tíð neikvætt og ríkisstjórnin boðaði hörmungar og hefndaraðgerðir af hálfu skuldunauta ef farið yrði þá leið, þótt hún sé algeng og eigi sér stað einhvers staðar í heiminum á hverju ári. Nei, frekar skyldi böðlast áfram með auknum álögum sem nú hafa knésett heimilin og fyrirtækin og með niðusrskurði sem hafa eyðilagt vegi, stefnt heilbrigðiskerfinu í mikla hættu og skaðað velferðar- og menntakerfið.

Málið snýst nefnilega um miklu meira en einhverja einfalda launhækkun eins og uppsagnir á þriðja hundrað hjúkrunarfræðinga á Landsspítalanum sýnir. Áralangur niðurskurður hefur leitt til vinnumórals sem komin er á hættustig og álag á starfsfólk veldur því að það bara gefst upp og hættir þrátt fyrir boð um jafnvel umtalsverðar launahækkanir. Læknar, hjúkrunarfræðingar, geislafræðingar, meinatæknar, sjúkraliðar og sjálfsagt fleiri, allt hæft, duglegt og samviskusamt fólk eins og allir vita sem hingað til hafa kynnst heilbrigðiskerfinu, er einfaldlega búið að fá nóg og búið að missa trúna á að framtíðin beri bjartari daga í för með sér. Það er nefnilega einnig líka búið að stórskemma starfsumhverfi þessa fólks og það er ekki bætt með einum launaflokki upp á við.

Hér er ekki við forstjóra og stjórnendur Landspítalans eða annarra heilbrigðisstofnana að sakast heldur mistæka stjórnmálamenn sem virðast ekki geta tekið á vandanum af því raunsæi og þeim kjarki sem þarf. Meðalmennska þeirra, falin bak við tillögur AGS og íslenskra embættismanna er hjákátleg og vanhæfni þeirra til að sjá stóru myndina og bregðast við henni er hrópandi.

Það er alveg augljóst að hinn helmingurinn af Fjórflokknum, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur, munu ekki heldur bjóða upp á neinar raunhæfar lausnir á skuldavandanum enda ekkert annað en pólitískir armar sérhagsmunafla á Alþingi sem munu hiklaust gjalda sínum sitt þótt af skattfé landsmanna sé tekið.

Það er því brýn þörf fyrir aðkomu nýs fólks að stjórn landsins. Fólks með ferska og hugrakka sýn á vandann og hvernig á að leysa hann. Sem betur fer er stutt í kosningar og þar verður af nógu að taka hvað valkosti við Fjórflokkinn varðar. Það er hins vegar á valdi kjósenda að velja. Munu þeir versla aftur við kaupmanninn sem seldi þeim skemmdan mat, jafnvel ár eftir ár, eða munu þeir treysta nýju fólki með aðra og betri vitund um samfélag, stjórnmál og siðferði? Það kemur í ljós.

Þór Saari

Höfundur er þingmaður Hreyfingarinnar og í framboði fyrir Dögun í kosningunum á Apríl.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 28.1.2013 - 13:02 - FB ummæli ()

Fullnaðarsigur í Icesave

Icesave málinu lauk í dag. Fullnaðarsigur siðferðis, réttlætis, sanngirni og lýðræðis er í höfn. Einhverju mesta pólitíska deilumáli lýðveldistímans lauk með sigri almennings og þeirrar siðferðisvitundar að almenningi ber ekki að greiða skuldir þeirra skúrka sem áttu og stjórnuðu íslensku fjármálakerfi og sem með dyggum stuðningi stjórnvalda þess tíma bjuggu til það ógeðsumhverfi samspils stjórnmála og fjármálalífs sem gerði Icesave mögulegt.

Icesave I (Svavars samningurinn) var furðulegur og óásættanlegur en það náðist þó þverpólitísk samstaða á þingi um niðurstöðu, sem Bretar og Hollendingar svo höfnuðu. Sú aðgerð ríkisstjórnarinnar að koma með nýjan Icesave samning inn í þingið, ekki bara einu sinni heldur tvisvar, getur ekki flokkast sem annað en einhver ljótasti pólitíski leikur sem stjórnvöld hér á landi hafa gripið til. Sá fyrri af þeim, Icesave II, var keyrður í gegnum þingið með atkvæðum stjórnarmeirihlutans og eftir mikla baráttu inn á þingi sem og ómetanlega baráttu grasrótarhópa utan þess sýndi Forseti Íslands mikinn kjark og hafnaði lögunum sem enduðu með gjörsigri almennings gegn stjórnvöldum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sá síðari, Icesave III sem unnin var í samráði við alla stjórnarandsöðuna var á endanum óásættanlegur fyrir Hreyfinguna og Framsóknarflokkinn en stærstur hluti þingmanna Sjálfstæðisflokksins studdi hann. Honum var líka hent á haugana af þjóðinni í þjóðaratkvæðagreiðslu eftir aðra höfnun Forsetans á lögunum og mikla baráttu grasrótarinnar.

Sá ömurlegi hræðsluáróður ríkisstjórnarinnar um málið allan tímann mun vonandi verða eftir í minningu þjóðarinnar og það gleymist vonandi aldrei að samkrull stjórnmálamanna og fjármálamanna er orsökin að öllu þessu. Þeir stjórnmálamenn sem stóðu að því að búa til þetta umhverfi fyrir Hrun, sú ríkisstjórn sem tók við 2007 og vissi hvað myndi gerast allt árið 2008 en laug að almenningi og alþjóðasamfélaginu, og stjórnarmeirihlutinn sem tók við árið 2009 mega skammast sín og skulda þjóðinni afsökunarbeiðni. Þau ættu líka öll að láta sig hverfa af vettvangi stjórnmálanna.

Framundan er að byggja upp umhverfi viðskiptalífs, fjármálalífs og stjórnmálalífs þar sem svona lagað getur ekki gerst aftur. Ný stjórnarskrá er ein varðan á þeirri vegferð. Andstaðan gegn henni sýnir þó skýrt að gerspillt Hrunöfl hafa ekkert lært og ekkert viðurkennt. Icesave sýnir okkur hins vegar að samstaða almennings ber árangur. Framundan er því einnig að koma á nýrri stjórnarskrá og moka svo Hrunverjum út í næstu Alþingiskosningum.

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 29.12.2012 - 18:04 - FB ummæli ()

Kryddsíldin fræga

Kryddsíld Stöðvar 2 var tekin upp fyrr í dag (29. des.) á Hótel Borg í einhvers konar þykjustu gamlársdags-stemningarsetti með ýlum og höttum og bjór og ákavíti og mat. Sama úrkynjaða og úrelta umhverfið og umræðan sem leiddi til þess að almenningur tók Kryddsíldina úr sambandi á gamlársdag 2008. Sponsorinn var sennilega enn einu sinn Ríó Tintó Alcan, þó það hafi ekki fengist staðfest.

Stjórnendurnir þau Kristján Már Unnarsson og Lóa Pind Aldísardóttir gerðu sitt besta og stóðu sig ágætlega sem stjórnendur en hvorki þau né Stöð 2 virðast gera sér grein fyrir að það er ekki hægt að endurtaka 2007 hversu mikil sem þráin er. Umræðurnar féllu í sama gamla fjórflokkahjólfarið á fyrstu mínútunni og staðfestu það að Fjórflokkurinn mun ekki og getur ekki nokkru breytt.

Þátturinn er þó athyglisverður að því leiti að raddir Bjartrar framtíðar og Hreyfingarinnar/Dögunnar fengu að heyrast og komast vonandi til skila sem valkosturinn í komandi kosningum. Hann verður líka athyglisverður fyrir þær sakir að frábærir útverðir Búsáhaldabyltingarinnar, þau Dalli og Helga Björk mótmæltu á gluggunum allan tímann með ýmsum skilaboðum, köstuðu snóboltum, flöttu nefin á glerinu, sungu og dönsuðu. Þau voru sponsoruð af Tarkett Parket sem engin annar en Skafti Harðarson frjálshyggjumaður var með umboð fyrir.

Baráttu-áramótakveðja (þetta er nefnilega ekki búið enn),

Þór Saari

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 19.10.2012 - 13:52 - FB ummæli ()

Ný stjórnarskrá. Af hverju Já.

Á morgun fá Íslendingar einstakt tækifæri til að kjósa umhvort þeir vilji nýja stjórnarskrá. Stjórnarskrá sem samin hefur verið í svo einstöku ferli að athygli hefur vakið um allan heim. Alþingi ákvað árið 2010 að frumkvæði forsætisráðherra að útvista ritun nýrrar stjórnarskrár til þjóðarinnar í samræmi við háværa kröfu þjóðarinnar í kjölfar Hrunsins og vegna þeirrar staðreyndar að Alþingi hefur á þeim rúmlega 60 árum sem liðin eru frá stofnun lýðveldisins mistekist verkið, sem þó var sammæli um að hefja strax árið 1944. Þetta ferli tóku þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins líka fullan þátt í að skipuleggja og einungis einn þingmaður greiddi atkvæði gegn málinu við loka afgreiðslu þess.

Fyrst tók til starfa sjö manna Stjórnlaganefnd sem valin var samhljóða af Allsherjarnefnd Alþingis. Sú nefnd skipulagði um þúsund manna þjóðfund sem valið var á með slembiúrtaki úr þjóðskrá og sem tyggði fullkomið þversnið þjóðarinnar. Þjóðfundurinn var skipulagður af þaulvönu fagfólki, gekk snurðulaust fyrir sig og komst að mjög afgerandi niðurstöðum.  Stjórnlaganefndin vann í sameiningu úr tillögum Þjóðfundarins og skrifaði drög að tveimur stjórnarskrám, safnaði saman miklu magni gagna úr vinnu fyrri stjórnarskrárnefnda Alþingis og efndi svo til almennrar kosningar til 25 manna Stjórnlagaþings sem 522 einstaklingar af öllu landinu buðu sig fram til. Í kjölfar stórfurðulegs úrskurðar Hæstaréttar um kosninguna sem ógilti hana vegna mjög smávægilegs ágalla sem aldrei var sýnt fram á að hefðu haft minnstu áhrif á úrslitin, skipaði Alþingi hina sömu kjörnu fulltrúa í Stjórnlagaráð. Það starfaði í um fjóra mánuði og skilaði af sér „Frumvarpi til stjórnskipunarlaga“ sem er formlegt orð yfir stjórnarskrá til Aþingis um sumarið 2011. Alþingi ræddi málið í formi skýrslu ítarlega strax á haustþinginu það ár og eftir ítarlega yfirlegu var ákveðið að leggja frumvarpið í dóm þjóðarinnar áður en Alþingi tæki það formlega til efnislegrar meðferðar. Þetta var ákveðið vegna þess almenna vantrausts sem ríkt hefur á Alþingi og stjórnmálum almennt undanfarin ár og til að lágmarka þá hættu á að missa málið ofan í flokkspólitískar skotgrafir þar sem hver flokkur og hver einstaklingur á þingi myndi gera kröfu um „sína“ stjórnarskrá.

Á morgun 20. október mun svo almenningur geta sagt álit sitt á hvort hann vill nýja stjórnarskrá byggða á þessum tillögum. Ef svarið verður Já mun Alþingi fá málið til formlegrar efnislegrar meðferðar, væntanlega aðeins sníða af tæknilega agnúa ef einhverjir eru en ekki fara af stað með neinar meiriháttar efnislegar breytingar, enda væri það þá í andstöðu við vilja meirihluta þjóðarinnar. Ef svarið verður Nei munu íslendingar þurfa að búa áfram við danska stjórnarskrá sem samin var af danakonungi um 1850 og afhent þjóðinni einhliða af honum árið 1874. Sú stjórnarskrá er barn síns tíma og hvorki góð til brúks í dag né sem veganesti inn í framtíðina. Það verður því vandséð hvers konar framtíð bíður okkar ef Nei verður ofan á. Við munum alla vega ekki sjá neinar breytingar á stjórnmálaumhverfinu, því umhverfi sem er ábyrgt fyrir Hruninu. Það er alveg víst.

Nú er það svo með mig og sennilega marga aðra að ég hefði viljað sjá ýmislegt öðruvísi í nýrri stjórnarskrá en þannig er einfaldlega ekki hægt að vinna málið. Mín stjórnarskrá eða samstaða allra um stjórnarskrá eru draumar sem aldrei verða að veruleika og þess má m.a. geta að bandaríska stjórnaskráin var samþykkt með mjög litlum meirihuta í flestum fylkjum ríkisins á sínum tíma. Þessi stjórnarskrá uppfyllir hins vegar að mestu leiti allt sem ég vil hafa í stjórnarskrá þó mislangt sé gengið í ýmsum atriðum. Ég mun því segja Já í þjóðaratkvæðagreiðslunni á morgun við fyrstu spurningunni. Hvað hinar varðar mun ég segja Já við öllum nema spurningunni um hvort ég telji að ákvæði um þjóðkirkju eigi að vera í stjórnarskrá. Slíkt ákvæði er ekki í anda nútíma hugmynda um trúfrelsi og setur okkur á bekk með mörgum trúarríkjum í hinum íslamska heimi sem skilja ekki milli hins veraldlega og hins andlega þegar kemur að stjórn ríkisins. Svör mín verða því  Já, Já, Nei, Já, Já, Já.

Sérstök umræða var um málið á Alþingi í gær. Eins og vænta mátti þá reyndu þingmenn Sjálfstæðisflokksins að tala niður þjóðaratkvæðagreiðsluna en þeir voru ómálefnalegir enda ekki með neinn málefnagrundvöll að byggja á og það voru grímulausir sérhagsmunir yfirstéttarinnar í Sjálfstæðisflokknum sem réðu ferðinni. Formaður flokksins meira að segja bolaði Pétri Blöndal frá sem fyrsta ræðumanni þó að umræðan hafi verið að frumkvæði hans og Pétur því átt að leiða málið.

Mestum vonbrigðum ollu þó Lilja Mósesdóttir, Jón Bjarnason og Einar K. Guðfinsson. Lilja vegna þessa að hún fór að mestu leiti með rangfærslur og klykkti svo út með að ætla að segja Nei því hún fékk ekki skrifa nýja stjórnarskrá eftir eigin höfði. Að segja Nei við ímyndaðri stjórnarskrá er svo eitthvað sem aðrir verða að útskýra sem betur eru til þess fallnir en ég. Jón Bjarnason féll einnig í þann pytt að vilja sína eigin persónulegu stjórnarskrá og geta ekki samþykkt annað. Einar K. Guðfinnson fór hins vegar með algerlega staðlausa stafi þegar hann hélt því fram að ef stjórnarskráin yrði samþykkt yrði landsbyggðin bara með 11 þingmenn. Þetta er alrangt en sýnir hvernig sumir menn svífast einskis þegar kemur völdum.

Hér er svo tengill  á ræðun mína í þinginu í gær. Gangi okkur vel á morgun 20. október. Ný stjórnarskrá er mikilvægari en nokkuð annað þessi árin.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur