Miðvikudagur 1.6.2011 - 22:42 - FB ummæli ()

Fiskveiðistjórnunar málin

Byrjað var að ræða frumvörp um breytingar á fiskveiðistjórnunarlögum á mánudaginn og þegar þetta er ritað á miðvikudagskvöldi stendur umræðan enn og enn er verið að ræða minna frumvarp sjávarútvegsráðherra eða Jónsbók hina skemmri eins og sumir kalla það.

Við munum væntanlega geta mælt fyrir okkar frumvarpi (sjá hér) á föstudaginn en það er allt annars eðlis og miklu mun róttækara en hálfkáksfrumvörp þau sem ríkisstjórnin hefur lagt fram. Ég tók þátt í umræðunum um frumvarp sjávarútvegsráðherra á mánudagskvöldið og fékk bágt fyrri að ræða frekar það sem vantaði í frumvarpið heldur en beint innihald þess en að mínu matið snýst frumvarpið um aukatriði og stóru myndina vantar alveg. Hvað um það, hér er tengill  á þá umræðu og vonandi verður áframhald á þessari umræðu og menn geri sér grein fyrir því að það þarf að gera róttækar breytingar ef sátt á nokkurn tíma að nást um málið.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 27.5.2011 - 16:19 - FB ummæli ()

Falun Gong afsökunarbeiðni, loksins!

Í umræðum á Alþingi í dag undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir spurði Margrét Tryggvadóttir utanríkisráðherrann hvort honum fyndist það rétt að biðja Falun Gong afsökunar á framferði íslenskra stjórnvalda árið 2002 þegar ríkisstjórnin undir forystu Davíðs Oddsonar og Halldórs Ásgrimssonar og með fulltingi Björns Bjarnasonar svipti hóp friðsömustu trúariðkenda sem um getur, málfrelsi, tjáningarfrelsi og ferðafrelsi auk þess að læsa hóp þeirra inni í ólöglegu varðhaldi í Njarðvíkurskóla.

Þetta var allt saman gert til að yfirstétt stjórnmála og viðskiptalífs á Íslandi með áðurnefnda prjóna í broddi fylkingar gæti nú nuddað saman lendum í friði með forsætisráðherrra Kína sem var hér í opinberri heimsókn. Þess má svo einnig geta að sá embættismaður í dómsmálaráðuneytinu sem framfylgdi áður nefndum skipunum og tryggði árangur þeirra heitir Stefán Eiríksson og er núna lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins.

Hvað um það, okkar skeleggi utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson gerði sér lítið fyrir og úr pontu Alþingis baðst afsökunar fyrir hönd þjóðarinnar á þessari hörmulegu framgöngu íslenskra stjórnvalda.  Hér má sjá tengil á umræðuna.

Það er oft talað um að lítið hafi breyst og það finnst mér sjálfum oftar en ekki. Þetta hefði þó hins vegar aldrei gerst í ríkisstjórn þar sem Sjálfstæðismenn réðu ferðinni og er enn ein ástæðan fyrir því (ásamt um þúsund öðrum) að þeim verði haldið frá völdum hér á landi í a.m.k. tíu ár.

Takk fyrir þetta Össur Skarphéððinsson, þetta var vel gert.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 21.5.2011 - 11:58 - FB ummæli ()

Fiskveiðistjórnunin – þriðja leiðin.

Hreyfingin lagði fram sem þingmál í gær frumvarp til laga um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu (Þskj. 1510 – 839. mál).  Þetta gerum við vegna tvenns, ítrekaðra yfirlýsinga forsætisráðherra um að breytingar á kerfinu eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu og vegna þess að stefna Hreyfingarinnar er að auðlindir eigi að vera í þjóðaraeigu.  Það er náttúrulega algerlega óboðlegt af hálfu forsætisráðherra að ætla að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um illskiljanlega málamyndabreytingu ríkisstjórnarinnar annar vegar og óbreytts ástands hins vegar og lýsir þvílíkri vanvirðingu við þjóðina í þessu gríðarlega mikilvæga máli að ekki verður við unað og það verður að vera alvöru valkostur uppi á borðinu.

Frumvarpið okkar er einfalt, skýrt og snýst fyrst og fremst um grundvallaratriðin svo sem byggðasjónarmið, sanngirni, aðgengi að og greiðslu fyrir auðlindinanýtingu, en fer ekki út í nákvæmar útfærslur (nema með strandveiðaranar) enda geta þær orðið nánast óendanlega margar.  Frumvarpið gerir ráð fyrir að allar aflaheimildir fari aftur heim til þeirra sveitarfélaga þar sem þær voru (gegnum skráð fiskiskip) áður en framsal kvóta var leyft árið 1990 og að sveitarfélögum verði gert að selja heimildirnar á uppboðum yfir hvert fiskveiðiár.  Aflaheimildirnar verða sama hlutfall af heildakvótanum og þær voru fyrir framsal en heildarkvótinn er áfram ákvarðaður af Hafró.  Öllum landsmönnum er heimilt að bjóða í aflaheimildir en fari þær út fyrir sveitarfélagið (framseljist) greiðist við það 10% álag á uppboðsverðið.  Að auki bætast við strandveiðar sem að mestu eru á sömu formerkjum og fyrr nema að heimilt verður að veiða 40.000 tonn og tímabilið lengist í einn mánuð í hvorn enda. Gjald fyrri þær veiðar er ákveðið við löndum aflans og tekur mið af meðalverði tegundanna á uppboðsmörkuðum hvers landssvæðis sem eru áfram fjögur eins og í núverandi lögum.

Eins verður skylt að landa öllum afla á innlenda fiskmarkaði (uppboðsmarkaði) og ef landaður afli er seldur úr sveitarfélaginu leggst 10% álag á verðið.  Þessi breyting ein og sér mun samkvæmt Samtökum fiskútflytjenda og fiskverkenda án útgerðar, fjölga störfum um 800 til 1.000 með mjög skömmum fyrirvara og litlum tilkostnaði.  Uppboðin tryggja hæsta verð hverju sinni og geta allir boðið, erlendir verkendur og fisksalar líka.

Fjárhagsstaða sjávarútvegsins er svo rétt af eins og réttmætt getur talist með því að allar skuldir útgerða sem til eru komnar vegna kvótakaupa verða afskrifaðar og færðar í sérstakann kvótskuldasjóð sem verður svo gerður upp með 5% gjaldi af öllum uppboðnum aflaheimildum.

Frumvarpið hefur þegar vakið mikla umræðu og við höfum fengið mikið af jákvæðum athugasemdum.  Fjölmiðlar hafa þó flestir hverjir haldið sig við sama heygarðshornið þegar kemur að Hreyfingunni og þrátt fyrir vel boðaðan blaðamannafund var RÚV eina fréttastofan sem sendi fulltrúa.  „Fjórða valdið“, þ.e. upplýsinga- og aðhaldsskylda fjömiðla á Íslandi er nánast algerlega vanrækt af þeim flestum og umfjöllun og áhugi þeirra tekur fyrst og fremst mið af pólitískum tengslum ritstjórna og fréttamanna við áveðna stjórnmálaflokka og stjórnmálamenn.  Þannig hefur það verið í allt of mörg ár og það er verðugt íhugunarefni fyrir alla, því það snýr að framtíð lýðræðisins á Íslandi sem er sem stendur að standa fyrir áhugaverðri en hættulegri tilraun um hvort hægt sé að halda úti lýðræðisríki án aðhalds- og upplýsingahlutverks frjálsra fjölmiðla.

Hvað um það,  hér er tengill á frumvarpið í heild  og hér fyrir neðan er greinargerðin sem fylgir því.  Ég vil hvetja alla þá sem tjá sig um málið að lesa frumvarpið og greinargerðina rækilega og vera ekki með eitthvert skítkast.  Þar færist í aukanna að „tröll tali“ eins og einhver sagði og ég vil ekki vera í hópi þeirra (sem fer fjölgandi) sem þarf að loka fyrir athugasemdir.

Greinargerð

Markmið þessa frumvarps er að færa úthlutun á aflaheimildum úr sameiginlegum fiskveiðiauðlindum þjóðarinnar til þess horfs sem hún var í áður en framsal aflaheimilda kom til árið 1991, en fram að þeim tíma hafði úthlutunin byggst á veiðireynslu til margra ára og var því bæði sanngjörn og réttlát. Með frumvarpinu er einnig reynt að tryggja að aflaheimildir fari til þeirra byggða sem þeim var upprunalega úthlutað til. Miðað er við að aflahlutdeildin sé nýtt í viðkomandi sveitarfélagi. Þó er sveigjanleiki í nafni hagkvæmni tryggður þar sem aflahlutdeildin er framseljanleg þegar hagkvæmnisrök gefa tilefni til. Með því móti verður réttur íbúa sjávarbyggða á Íslandi til sjósóknar tryggður eins og verið hefur frá örófi alda sem eini raunverulegi grundvöllur tilvistar flestra þeirra.

Skýrt er kveðið á um eignarhald þjóðarinnar á fiskistofnunum í kringum landið í fyrstu tveimur greinum laga um stjórn fiskveiða. Þar segir orðrétt:

1. gr. Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.

2. gr. Til nytjastofna samkvæmt lögum þessum teljast sjávardýr, svo og sjávargróður, sem nytjuð eru og kunna að verða nytjuð í íslenskri fiskveiðilandhelgi og sérlög gilda ekki um. Til fiskveiðilandhelgi Íslands telst hafsvæðið frá fjöruborði að ytri mörkum efnahagslögsögu Íslands eins og hún er skilgreind í lögum nr. 41 1. júní 1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn.

Frumvarp þetta tryggir að arður af nytjastofnum á Íslandsmiðum skili sér til réttmætra eigenda þeirra, íslensku þjóðarinnar. Upptaka uppboðskerfis við sölu aflaheimilda tryggir hámarksverð fyrir nýtingarrétt auðlindarinnar en þó eingöngu að því marki sem útgerðirnar geta borið. Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir að hluta aflaheimilda megi selja framvirkt til allt að fimm ára í senn þannig að þeir sem hyggjast fjárfesta í útgerð geti gert ráð fyrir aðgengi að heimildum til lengri tíma en eins árs. Þá er sveigjanleiki tryggður með því að útgerðir utan viðkomandi sveitarfélaga geta keypt aflaheimildir gegn greiðslu 10% álags eða gjalds. Með ákvæði um meðafla er stefnt að því að girða að mestu leyti fyrir brottkast afla. Þó væri æskilegast að settar yrðu skýrar og afdráttarlausar reglur sem alfarið banni brottkast afla gegn þungum viðurlögum.

Frumvarpið gerir ráð fyrir mikilli beinni atvinnusköpun vegna löndunar alls afla og sölu í gegnum innlenda uppboðsmarkaði í samræmi við ákvæði frumvarps til laga um sölu sjávarafla o.fl. frá 139. löggjafarþingi (þskj. 51 – 50. mál) en þar segir m.a.:

„Allur sjávarafli, þó ekki rækja, humar og uppsjávarfiskur, sem veiddur er úr stofnum sem að hluta eða öllu leyti halda sig í efnahagslögsögu Íslands, skal seldur á innlendum uppboðsmarkaði sjávarafla er fengið hefur leyfi Fiskistofu. Heimilt er að selja afla í beinum viðskiptum í innlenda fiskvinnslu og skal þá verð milli útgerðar og fiskvinnslu ákvarðast af markaðsverði söludagsins eða síðasta þekkta markaðsverði á uppboðsmarkaði.

Heimilt er að selja fullunninn frystan afla utan innlends fiskmarkaðar skv. 12. gr. a. Til fullunnins frysts afla telst sjávarafli sem hefur verið veiddur og í kjölfarið unninn um borð í frystiskipi, honum pakkað og hann verið flakaður, flattur, sneiddur, roðdreginn, hakkaður eða verkaður á annan hátt og hann frystur að vinnslu lokinni. Þegar aðeins fer fram frysting um borð í frystiskipi á heilum eða hausskornum fiski eða heilfrysting á rækju telst slíkur afli ekki til fullunnins frysts afla í skilningi laga þessara.“

Þessi breyting ein sér mun að öllum líkindum leiða til um 800–1.000 nýrra starfa við fiskverkun með mjög litlum tilkostnaði á skömmum tíma.

Framsal aflaheimilda hefur leitt til gríðarlegrar byggðaröskunar víða um land og gert að engu eina bjargræði sjávarbyggða, sjósóknina, sem þær hafa notið í aldaraðir. Með því að taka lífsbjörgina af sjávarbyggðunum hefur öll afkoma og eignastaða íbúa á þessum stöðum raskast við atvinnuleysi, brottflutning og eignabruna. Með samþykkt þessa frumvarps mun sú þróun snúast við og fólksflótti af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins stöðvast og komið í veg fyrir þann gríðarlega samfélagslega tilkostnað sem slíkir hreppaflutningar hafa í för með sér.

Aukning á afla til strandveiða, sem hér eftir verða utan tillagna Hafrannsóknastofnunarinnar um heildarafla og standa yfir stærri hluta ársins en nú er, mun hafa umtalsverð áhrif á atvinnulíf um allt land. Auðlindagjald og strandveiðar munu og skila umtalsverðum tekjum til þeirra sveitarfélaga þar sem aflanum er landað.

Sá skaði sem útgerðir og núverandi handhafar aflaheimilda verða fyrir vegna missis aflaheimilda verður bættur með því að skuldir útgerða sem eru til komnar vegna kaupa á aflaheimildum verða færðar í sérstakan kvótaskuldasjóð. Skýrt er í lögum að aflahlutdeild útgerðar er ekki eign hennar og þær skuldir sem stofnað hefur verið til vegna kaupa á slíkum heimildum eru og hafa alltaf verið áhættulánveiting viðkomandi lánveitenda. Kvótaskuldasjóður verður greiddur niður með 5% gjaldi á allar seldar veiðiheimildir þar til sjóðurinn er að fullu upp gerður. Skuldir kvótaskuldasjóðs bera enga vexti.

Varðandi þá umræðu sem skapast hefur og lýtur að hugsanlegum brotum á eignarréttarákvæði stjórnarskrár skal tekið fram að um langa tíð hefur skýrt verið kveðið á um það í lögum að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign þjóðarinnar. Þrátt fyrir að möguleiki sé á þeirri ólíklegu niðurstöðu dómstóla að ríkið væri skaðabótaskylt vegna innköllunar aflaheimilda eða annars þess sem leiðir af frumvarpi þessu, þá er engu að síður þess virði að þær breytingar sem hér eru lagðar til komist til framkvæmda. Betra er að þurfa hugsanlega að sæta slíkri niðurstöðu dómstóla en að búa áfram við óbreytt eða lítið breytt fyrirkomulag fiskveiða.

Í framhaldi af þeim breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir er brýnt að fram fari víðtæk og ítarleg úttekt á Hafrannsóknastofnuninni og veiðiráðgjöf hennar með tilliti til aðferðafræðilegra sjónarmiða. Þar verði einnig kannað hversu vel hefur tekist til með verndun fiskistofna, fiskimiða og lífríkis og uppbyggingu fiskistofna. Í þeirri úttekt er brýnt að fiskveiðar við Ísland verði skoðaðar heildstætt með tilliti til þess skaða sem þær hafa valdið á lífríkinu og lagt mat á hagkvæmni togveiða annars vegar og krókaveiða hins vegar. Slík úttekt ætti að vera gerð af hlutlausum erlendum sérfræðingum í samráði við sjómenn, íslenska fiskifræðinga og vistfræðinga.

—————————————————–

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 19.5.2011 - 23:27 - FB ummæli ()

Launaþak á verkalýðsforystu.

Mælti í dag fyrir frumvarpi Hreyfingarinnar til laga um þak á laun forystumanna verkalýðshreyfingarinnar þar sem kveðið er á um að þau megi ekki vera hærri en þreföld lágmarkskjör í því verkalýðsfélagi eða hagsmunasamtökum sem formaðurinn veitir forystu. Við teljum mikilvægt að sett sé hámark á laun forsvarsmenn verkalýðsfélaga og hagsmunasamtaka launafólks enda er oft erfitt fyrir almenna félagsmenn að hafa áhrif á störf stjórna verkalýðsfélaga þar sem mörg þeirra skipulögð eftir mjög gömlum miðstýringaraðferðum. Að baki slíku hámarki eru rík sanngirnissjónarmið enda eru þessi laun greidd af sameiginlegu framlagi félagsmanna.

Tengill á frumvarpið er hér, tengill á ræðuna er hér.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 17.5.2011 - 16:36 - FB ummæli ()

Fjármál stjórnmálaflokka

Á dagskrá Alþingis í dag er frumvarp um breytingu á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka, lagt fram af þingmönnum Hreyfingarinnar.  Breytingarnar sem lagðar eru til eru í samræmi við markmið gildandi laga um að draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og tryggja gagnsæi í fjármálum, sem og að auka traust á stjórnmálum og efla lýðræði.

Helstu breytingar frumvarpsins frá núgildandi lögum eru þær að banna framlög lögaðila til stjórnmálasamtaka og takmarka fjárframlög einstaklinga við 200 þús. kr. á ári, þó þannig að framlög hærri en 20 þús. kr. skuli gera opinber innan þriggja daga frá greiðslu. Þá er lagt til að horfið verði frá því fyrirkomulagi að stærri stjórnmálasamtök sem eiga sæti á Alþingi fái hærri fjárframlög úr ríkissjóði en þau smærri og að framlagið miðist við rekstur á hóflegri skrifstofu og fundaraðstöðu í hverju kjördæmi, auk framlaga til launa framkvæmdastjóra og starfsmanns í hálfu starfi í hverju kjördæmi fyrir sig. Þá verði fjárframlög til þingflokka þau sömu fyrir alla flokka. Hvað varðar framlög vegna kosninga er í frumvarpinu gert ráð fyrir jöfnu framlagi til stjórnmálasamtaka sem bjóða fram á landsvísu en bjóði stjórnmálasamtök ekki fram í öllum kjördæmum fái þau fjárframlag í samræmi við fjölda frambjóðenda þeirra sem hlutfallstölu af 126.

Áttunda bindi skýrslu RNA ber heitið Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008. Í kafla II. 3 segir:  „Eitt augljósasta tæki viðskiptalífsins til að hafa áhrif á stjórnmálamenn eru bein fjárframlög, bæði til stjórnmálaflokka og einstakra stjórnmálamanna“. Enn fremur segir í niðurlagi kaflans: „Leita þarf leiða til þess að draga skýrari mörk á milli fjármálalífs og stjórnmála. Ekki er líðandi að gæslumenn almannahagsmuna gangi erinda einkafyrirtækja með þeim hætti sem gert var í aðdraganda bankahrunsins.“

Vegna ábendinga Evrópuríkja gegn spillingu (Greco) var sett á laggirnar nefnd sem endurskoðaði lög um fjármál stjórnmálasamtaka sem sett voru 2006 (líka vegna ábendinga Greco).  Það er svo sérstakt rannsóknarefni hvers vegna sú löggjöf sem samþykkt var 2006 hefur leitt af sér stórauknar fjárveitingar til flokkanna úr ríkissjóði eins og Guðmundur Magnússon segir í bókinni Nýja Ísland – listin að týna sjálfum sér (bls 144).  Niðurstaðan úr umræddri endurskoðunarvinnu var lagasetning í september 2010.

Málið var lagt fram af formönnum allra flokka á þingi utan Hreyfingarinnar sem gagnrýndi að frumvarpið gerði hvorki ráð fyrir rofi á óeðlilegum tengslum á milli viðskipta og stjórnmála né jafnræðis við úthlutun opinberra fjármuna. Stjórnmálasamtök og stjórnmálamenn geta áfram tekið við stórum fjárhæðum frá fyrirtækjum.  Þá er flokkum og flokksmönnum heimilt að taka við fé frá einstaklingum án þess að upplýst sé í öllum tilfellum um viðkomandi styrkveitendur.  Þessar ráðstafanir eru í andstöðu við markmið laganna sjálfra, að „…draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og tryggja gagnsæi í fjármálum.“  Einnig er lögunum ætlað „…að auka traust á stjórnmálastarfsemi og efla lýðræðið.“ 

Í byrjun október birtust niðurstöður skoðanakönnunar um efnið.  Dagana 8. – 15. september 2010 kannaði Capacent Gallup afstöðu almennings til styrkja frá fyrirtækjum og einstaklingum til stjórnmálamanna og stjórnmálasamtaka.  Í ljós kom að afgerandi meirihluti, eða 68%, eru andvíg því að íslenskum stjórnmálamönnum og stjórnmálasamtökum sé heimilt að taka við fjárframlögum frá fyrirtækjum.  Þá segjast 79% þjóðarinnar andvíg því að stjórnmálamönnum og stjórnmálasamtökum sé heimilit að taka við fjárframlögum frá einstaklingum án þess að nafn þess einstaklings sem veitir styrkinn sé gefið upp.

17. maí 2011
Birgitta Jónsdóttir
Margrét Tryggvadóttir
Þór Saari

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 12.5.2011 - 18:50 - FB ummæli ()

Falskir Hörpustrengir

Ég er einn af þeim sem fagna því að ákveðið var að klára tónlistarhúsið og studdi það á Alþingi. Ég tel að það muni verða mikil lyftistöng fyrir tónlistarlíf í landinu og efla umgjörð þessarar mikilvægu menningargreinar sem og að verða lyftistöng fyrir ráðstefnuhald sem við vonandi getum eitthvað lært af vitsmunalega. Húsið er mikilúðlegt og fallegt og ótrúleg litbrigði birtast í ótal gluggum þess og breytast með birtuskilyrðum og sólargangi.

Ég er hins veggar mjög ósáttur hvernig stjórn hússins og menningarelíta landsins hefur brugðist því fólki sem borgar fyrir öll ósköpin og hefði sannarlega kosið að sjá gesti valda með slembiúrtaki úr þjóðskrá á fyrstu tónleikunum og á opnunarhátíðinni á morgun 13. maí. Í staðinn er húsið frátekið fyrir sérvalinn hóp boðsgesta af lista sem engin fær að sjá og ef rétt er er m.a. notaður til félagslegrar endurreisnar á þeim útrásarvíking sem hvað mesta ábyrgð ber á Hruninu.

Verandi sjálfur yfirstétt að mati einhverra sem sömdu þennan lista var mér boðið og miðarnir skráðir á nafn svo óbreyttur pöpullinn geti nú örugglega ekki fengið þá gefins. ISS! Þarna feilaði menningarelítan illa. Hér hefði sannarlega átt að sýna almenningi smá virðingu og bjóða með öðrum hætti á opnunarhátíðina. Hvað um það gert er gert. Takið samt vel eftir hverjir verða í sætum 10-1 og 10-2 í sal.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 16.4.2011 - 00:29 - FB ummæli ()

Vantrausttillöguræðurnar

Umræðan um vantrausttilögu og kosningar fór fram á miðvikudaginn. Línur skýrðust svo sannarlega þegar Ásmundur Einar Daðason yfirgaf ríkistjórnarmeirihlutann og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Ósk Vilhjálmsdóttir (sem leysti Valgerði Bjarnadóttir af) staðfestu stuðning sinn við Magma málið og sölu náttúruauðlinda úr landi. Merkileg umræða í mjög taugatrekktu þingi.

Setti hér inn ræðurnar okkar í Hreyfingunni:  Ræðan mín  og  atkvæðaskýringinræða Margrétar  og  ræða Birgittu. Góðar stundir.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 9.4.2011 - 12:43 - FB ummæli ()

Þjóðaratkvæðagreiðslur

Í dag er tilefni til að gleðjast og það er mikið fagnaðarefni að almenningur fái að ganga til kosninga um svo mikilvægt mál sem Icesave III samingarnir eru.  Vantraust almennings á stjórnvöldum, stjórnsýslu og stjórnarfari almennt er mikið og við þær aðstæður er mikilvægt að stjórnvöld sýni almenningi virðingu og traust. Hver svo sem úrslitin verða í þessari kosningu þá hefur beint lýðræði unnið sigur og því ber að fagna.

Beint lýðræði með þjóðaratkvæðagreiðslum eru það aðhald sem stjórnvöld þurfa á að halda og þó fyrr hefði verið.  Endurskoðun stjórnarskrárinnar mun vonandi gera þjóðaratkvæðagreiðslur að eðlilegum viðburði og aðferð til ákvarðanatöku hér á landi í framtíðinni og vonandi tekst okkur að búa til umgjörð um slíkt ferli þannig að sómi sé að.  Ný stjórnarskrá þarf að tryggja að hluti kosningabærra manna (10%) geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um mál, með undantekningum þó og það þarf einnig að tryggja að minnihluti þingmanna (1/3) geti vísað frumvörpum og jafnvel öðrum þingmálum til þjóðaratkvæðagreiðslu. Það og það eitt myndi gerbreyta vinnulagi á Alþinig og væri góð sárabót fyrir Hrunið.

Það sem gerðist hér á Íslandi hefur haft þau áhrif að orðspor Íslands út á við mun verða núll næstu árin, ekki síst þegar það er haft í huga að það var ríkisstjórnin, Alþingi, eftirlitsstofnanir og stór hluti stjórnsýslunnar sem tók þátt í að spinna þann blekkinga- og lygavef um Ísland á alþjóðavettvangi og heima við, sem gerði Hrunið enn verra og umfangsmeira en þörf hefði verið á. Það verður ekki fyrr en Íslandi hefur tekist að gera upp Hrunið af alvöru að nágrannaþjóðirnar fara að taka mark á okkur aftur.  Það uppgjör þarf að vera pólitískt, lagalegt, siðferðilegt og persónulegt og þó margir hafi tekið sig til pesónulega og endurhugsað framtíðina hefur einungis einn hlotið dóm, einungis einn þingmaður hefur sagt af sér og meirihluti Alþingis hafnaði ábyrgð stjórnmálanna í atkvæðagreiðslu þann 28. september síðastliðinn þar sem 23 siðferðilega vanhæfir þingmenn þ.á.m. forseti Alþingis og forsætisráðherrann, greiddu atkvæði.  Sú atkvæðagreiðsla ein og sér sýnir mikilvægi beins lýðræðis og persónukjörs en persónukjör gerir kjósandanum kleyft að hafa bein áhrif á hvar atkvæði hans lendir m.t.t. einstakra frambjóðenda.

Kosningabaráttan um Icesave III hefur verið kraftmikil og dýnamísk, all óvægin í restina en líka ógagnsæ og manni óar við umhverfi ESB kosninganna þegar þar að kemur.  Þetta ferli þarf að laga og í frumvarpi Hreyfingarinnar um þjóðaratkvæðagreislur er m.a. gert ráð fyri s.k. Lýðræðisstofu sem hefur það hlutverk að halda utan um undiskriftarsafnanir og hafa eftirlit með þeim, búa mál til þjóðaratkvæðagreiðslu með viðeigandi kynningum og fleira og tryggja gagnsæi kosningabaráttunnar eftir því sem hægt er, sérstaklega með tilliti til fjármögnunar.  Hreyfingin hefur lagt  þetta frumvarp  fram þrisvar sinnum en ríkisstjórnarflokkarnir hafa ekki stutt það nema með undantekningum.  Vonandi mun Alþingi og Allsherjarnefnd taka við sér stax í næstu viku og koma hreyfingu á þetta mikilvæga mál.  Valgerður Bjarnadóttir og fleiri þingmenn Samfylkingar ásamt þingmönnum Hreyfingarinnar, hefur einnig lagt fram frumvarp um persónukjör í kjölfar þess að Innanríkisráðherrann og ríkisstjórnin hafa heykst á loforði sínu um þess háttar lýðræðisumbætur.  Frumvarpið má sjá  hér, vonandi fær það einnig góðan framgang.

Það er kominn tími til að byggja upp að nýju traust milli Alþingis og þjóðarinnar og fyrsta skrefið í því ferli á að sjálfsögðu að vera að þingið og stjórnmálamennirnir treysti þjóðinni betur til ákvarðanatöku en verið hefur hingað til.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 8.4.2011 - 12:11 - FB ummæli ()

Icesave- Af hverju Nei.

Inngangur

Það er mikið fagnaðarefni að almenningur fái að ganga til atkvæðagreiðslu og kjósa um svo mikilvægt mál sem Icesave III samingarnir eru. Vantraust almennings á stjórnvöldum, stjórnsýslu og stjórnarfari almennt er mikið og við þær aðstæður er mikilvægt að stjórnvöld sýni almenningi virðingu og traust. Beint lýðræði með þjóðaratkvæðagreiðslum eru það aðhald sem stjórnvöld þurfa á að halda og sú aðgerð forseta Íslands að vísa þessu mikilvæga máli til þjóðarinnar í annað sinn ber merki um traust á skynsemi almennings og kjark.

 Icesave I og II

            Hreyfingin hefur á öllum stigum Icesave-málsins barist gegn því að þessari byrði yrði velt yfir á almenning, enda ekki skuld sem fólkið í landinu stofnaði til. Alveg frá upphafi í því þverpólitíska starfi sem átti sér stað sumarið 2009 með Icesave I samingnum börðumst við til að ná fram sem bestri niðurstöðu. Í þeirri baráttu voru helstu andstæðingar þjóðarinnar fulltrúar Samfylkingar og VG. Á endanum náðist þverpólititískt samkomulag um niðurstöðu sem Bretar og Hollendingar gengu ekki að. Í minningunni er fyrsta heimsókn Lee Bucheits til Íslands þetta sumar en hann kom fyrir fjárlaganefnd og skilaboð hans voru skýr. Þið eigið bara að láta þetta mál eiga sig og ekki vera að elta neitt samkomulag við Breta og Hollendinga sagði hann. Þeir munu sennilega heldur aldrei koma til með að stefna ykkur fyrri dómstóla.

            Icesave II var svo kynnt um haustið 2009 af engu minni óheilindum af hálfu meirihlutans en fyrri Icesave-samningur. Við nánari skoðun kom í ljós, eins og með alla þessa Icesave-saminga, að ekki var allt sem sýndist og milli línanna var fjöldi áhættuatriða sem gerðu það að verki að samningurinn var óásættanlegur. Hann var á endanum keyrður í gegn um þingið af hálfu meirihlutans í miklu ósætti og eftir talsvert málþóf.

Í upphafi árs 2010 ákvað forseti Íslands hins vegar að synja þeim lögum staðfestingar og vísa þeim til þjóðarinnar. Þar reyndu formenn Samfylkingar og VG allt sem þau gátu til að gera þá atkvæðagreiðslu tortryggilega, fyrstu þjóðaratkvæðagreiðsluna frá lýðveldisstofnun, og þau þóttust meira að segja geta dregið fram nýjan og betri samning sem gerði þjóðaratkvæðagreiðsluna óþarfa. Tap þeirra var hraksmánarlegt og hafa kosningar aldrei tapast með svo miklum mun sem þessi kosning um þetta stóra áhugamál Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar.

Í kjölfarið bjuggu menn sig undir hin sjö mögru ár sem forysta ríkisstjórnarinnar og allir helstu talsmenn hennar, atvinnulífsins, verkalýðshreyfingarinnar og háskólasamfélagsins höfðu hótað þjóðinni. Engin af þeim hörmungum sem dynja áttu yfir þjóðina með höfnun samningsins rættist og sá gengdarlausi hræðsluáróður sem rekin var af hálfu ríkisstjórnarinnar og jábræðrum hennar var algerlega ómarktækur. Kúba norðursins var í raun lýsing á huga og hugsun þeirra sem börðust fyrir samningnum, huga og hugsun sem er þröngsýn og sér aðeins eina leið, leið hótana og hræðsluáróðurs.

 Icesave III

Í framhaldi hinnar afgerandi niðurstöðu kröfðust Bretar og Hollendingar þess að þverpólitísk sátt allra flokka á Alþingi næðist um samninganefnd ef reyna ætti að semja aftur. Það tókst og undir forystu Lee Bucheits og með Lárus Blöndal sem fulltrúa stjórnarandstöðunnar hófust samninga umleitanir. Innlegg Hreyfingarinnar í samningagerðina var að Bretar og Hollendingar ættu með réttu að fá það sem fengist úr þrotabúi Landsbankans og ef eitthvað stæði eftir þegar skiptum væri lokið ætti sú greiðsla að skiptast jafnt milli allra þriggja þjóðanna.

Sú niðurstaða náðist ekki og þótt samningurinn væri umtalsvert betri en fyrri samningar þá var áhættan og ábyrgðin engu að síður öll Íslands megin þ.e. 700 milljarða króna ríkisábyrgð á skuldum sem stofnað var til af mönnum sem líklega voru fjárglæframenn. Mikið var hamrað á því að þetta væri nú samningur sem fulltrúi stjórnarandstöðunnar ætti þátt í að gera en litið var framhjá því að það var endanleg niðurstaða sem skipti máli og niðurstaðan eftir ítarlega áhættugreiningu er einfaldlega ekki sú sem menn væntu. Þess vegna höfum við hafnað þessum samningi og fögnum því að forsetinn skuli hafa sett hann í dóm þjóðarinnar.

Í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem verður næstkomandi laugardag eru nokkur atriði sem helst hefur borið á í umræðunni og lúta að siðferðilegum, lagalegum og efnahagslegum rökum og verður nú fjallað um þau.

Siðferðileg rök

Siðferðilegu rökin fyrir já-i hafa helst verið þau að með því að segja já væru menn að sýna traust, orðheldni og ábyrgð því:

a) Eigendur innstæðna á Icesave reikningunum í Hollandi og Bretlandi hefðu treyst á íslenska innstæðutryggingasjóðinn og að hann myndi greiða þeim tapið ef yrði Landsbankinn yrði ógjaldfær og

b) Ríkisstjórn Íslands með fjármálaráðherra Árna M. Mathiesen, utanríkisráðherra Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, bankamálaráðherra Björgvin G. Sigurðsson og ráðuneytisstjórann Baldur Guðlaugsson í broddi fylkingar hefðu skrifað undir samning í Brussel sem skuldbatt Ísland til að endurgreiða Bretum og Hollendingum innstæðurnar á reikningunum.

Svarið við fyrri liðnum er að íslenski tryggingainnstæðusjóðurinn var settur upp í samræmi við EES reglur og þar er í raun tekið sérstaklega fram að ríkið, vegna samkeppnissjónarmiða, eigi ekki að vera í ábyrgð á innstæðutryggingum. Bresk og Hollensk stjórnvöld hafa þegar greitt út allar innstæður upp að 20.887 evrum sem er lágmarks trygging samkvæmt Evrópureglum. Þrátt fyrir að íslenski innstæðutryggingarsjóðurinn hafi ekki getað endurgreitt Bretum og Hollendingum þetta fé að fullu má gera ráð fyrir að þrotabú Landsbankans dugi fyrir stórum hluta þess, eða m.v. síðasta mat á eignasafninu, um 86% af kröfunum.

Svarið við seinni liðnum er að sá samningur sem gerður var strax í kjölfar hrunsins var gerður við aðstæður neyðarástands á Íslandi þar sem allt fjármálakerfið var að hruni komið, erlendur gjaldeyrir upp urinn og enga erlenda aðstoð að fá. Efnahags- og skattanefnd Alþingis var upplýst um að ekki væri einu sinni til gjaldeyrir fyrir lyfja- og olíukaupum. Við þær kringumstæður voru fulltrúar Íslands beittir þvingunum og afarkostum enda var sá samningur mjög fljótlega sleginn út af borðinu.

Það má gefa sér að eftir allt sem á undan var gengið hafi fulltrúar Íslands í Brussel í raun ekki haft umboð til að ljúka málum fyrir Íslands hönd. Þótt formlega séð hafi þau verið fulltrúar þjóðarinnar þá leiddi skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis síðar í ljós að þau höfðu sagt þjóðinni og alþjóðasamfélaginu ósatt um raunverulega stöðu íslenska fjármálakerfisins og höfðu ítrekað blekkt íslenskan almenning, a.m.k. frá því í febrúarmánuði ársins 2008. Slíkir fulltrúar, þótt formlegt umboð hafi til verka, hafa misfarið með þetta umboð með svo grófum hætti að ekki er hægt að gera þá kröfu á almenning að hann eigi að bera ábyrgð á gjörðum þeirra.

Siðferðilegu rökin fyrir því að segja nei eru hins vegar þau að almenningur á einfaldlega ekki að borga skuldir sem hann stofnaði ekki til og sem að því er virðist var stofnað til á fölskum forsendum af fyrirtæki sem virðist hafa verið rekið í glæpsamlegum tilgangi.

Lagaleg rök.

Eins og oft og ítrekað hefur komið fram eru ekki nein lagaleg rök til fyrir já-i og því að Íslendingar eigi að borga þessa kröfu Breta og Hollendinga. Stjórnvöld beggja landa greiddu innstæður á Icesave-reikningunum án þess að ráðfæra sig við íslensk stjórnvöld og hafa síðan þá reynt að senda okkur reikninginn, oft með það háum vöxtum að þeir komi út í umtalsverðum hagnaði. Tilskipun ESB um innstæðutryggingar tekur fram, vegna samkeppnissjónarmiða, að það eigi ekki að vera ríkisábyrgð á innstæðutryggingum og það má auðveldlega gefa sér að Bresk og Hollensk stjórnvöld hefðu fyrir löngu síðan höfðað mál á hendur Íslenskum stjórnvöldum ef þau teldu sig geta unnið það. Mismununin sem átti sér stað milli innstæðueigenda á Íslandi sem fengu sínar innstæður bættar að fullu og Breskra og Hollenskra innstæðueigenda er ekki byggð á þjóðerni heldur heimilisfesti, enda fengu allir hér á landi, hverrar þjóðar sem þeir voru innstæður sínar greiddar. Bankahrunið á Íslandi var fordæmalaust og fráleitt að ætla að nokkurt innstæðutryggingarkerfi gæti staðið undir slíku áfalli. Þess vegna voru neyðarlögin sett en neyðarlögin sjálf gerðu það hins vegar að verkum að innstæðurnar í Bretlandi og Hollandi eru nú forgangskröfur sem þýðir að miklu meira fæst greitt upp í þær heldur en ella. Þannig má segja að íslensk stjórnvöld hafi með setningu neyðarlaganna tryggt frekar hagsmuni innstæðueigenda í Bretlandi og Hollandi.

Efnahagsleg rök

Efnahagslegu rökin sem sett hafa verið fram fyrir já-i eru nokkur:

a) Með já-i opnist lánalínur til íslendinga hvaðanæva að og hingað muni streyma inn fjármagn til framkvæmda á hagstæðum kjörum.

b) Efnahagslegur stöðugleiki náist og hagvöxtur verði tryggður.

c) Ímynd Íslands á alþjóðavettvangi batni og við verðum “þjóð meðal þjóða.”

d) Hægt verði að aflétta gjaldeyrishöftunum.

Svörin við fyrsta liðnum eru að hingað til hefur AGS þvertekið fyrir það að lán til Íslands séu háð Icesave og að erlend lán hafa þegar fengist á ágætis kjörum. Þeirri spurningu er hins vegar aldrei svarað hvort það sé nokkur raunveruleg þörf á innstreymi erlends fjármagns þar sem allir bankar og Seðlabankinn eru fullir af peningum en þeir komast ekki í umferð vegna 3,5 raunvaxtagólfsins sem reglur um ávöxtun lífeyrissjóða setja. Þetta er auðvelt að laga hér heima við og þörfin á öðru fjármagni hverfur þar með.

Liður b hefur ekki verið rökstuddur enda er hér eins mikill efnahagslegur stöðugleiki og við er að búast með mjög veikburða hagkerfi, einkum vegna yfirskuldsetningar sem frekari lántökur myndu ekki laga. Hagvöxtur með lántökum er eitthvað sem við höfum slæma reynslu af og Ísland ætti að reyna að ná upp hagvexti á eðlilegum forsendum framleiðslu og þjónustugreina frekar en á forsendum lánabóla á fjármálamarkaði. Hagvöxtur hér á landi myndi fyrst og fremst aukast ef yfirskuldsetning heimilanna yrði færð niður, ekki ef tekin eru frekari erlend lán.

Liður c er ein af þessum ímyndunum um að hlutir eins og „viðskiptavild Íslands“ sé mikið til tals meðal nágrannaþjóðanna. Það sem gerðist hér á Íslandi hefur haft þau áhrif að viðskiptavild Íslands mun verða núll næstu árin, ekki síst þegar það er haft í huga að það var ríkisstjórnin, Alþingi, eftirlitsstofnanir og stór hluti stjórnsýslunnar sem tók þátt í að spinna þann blekkinga- og lygavef um Ísland á alþjóðavettvangi og heima við, sem gerði hrunið enn verra og umfangsmeira en þörf hefði verið á. Það verður ekki fyrr en Íslandi hefur tekist að gera það upp af alvöru að nágrannaþjóðirnar fara að taka mark á okkur aftur. Það uppgjör þarf að vera pólitískt, lagalegt, siðferðilegt og persónulegt og þó margir hafi tekið sig til pesónulega og endurhugsað framtíðina hefur enn enginn hlotið dóm, einungis einn þingmaður hefur sagt af sér og meirihluti Alþingis hafnaði ábyrgð stjórnmálanna í atkvæðagreiðslu þann 28. september síðastliðinn þar sem 23 vanhæfir þingmenn þ.á.m. forseti Alþingis og forsætisráðherrann, greiddu atkvæði.

Liður d hefur verið notaður sem tálbeita en augljóst er að ef Icesave verður samþykkt er mesti áhættuþátturinn gengi íslensku krónunnar og því verður gjaldeyrishöftum ekki aflétt í bráð. Þetta hefur nú þegar verið staðfest þar sem í síðustu viku boðaði Seðlabankinn gjaldeyrishöft í fimm ár til viðbótar.

Efnahagslegu rökin fyrir nei-i eru helst þau að áhættan er allt of mikil en samkvæmt áhættumati GAMMA getur það gerst við alls ekki ólíklegar aðstæður að skuldbindingin fari í 233 milljarða króna. Undir því stöndum við ekki. Greiðslur til Breta og Hollendinga eru beinar greiðslur úr landi og bein blóðtaka fyrir hagkerfið öfugt við það sem gerist þegar ríkið innir af hendi greiðslur innanlands sem fara í hringrás hagkerfisins með tilheyrandi margfeldisáhrifum. Peningar fyrir greiðslunum á Icesave eru ekki til í ríkissjóði og fást eingöngu með því að hækka skatta eða skera frekar niður og hvor sú leið eða sambland beggja myndi við núverandi aðstæður vera atlaga að grunnstoðum samfélagsins og sennilega ganga endanlega frá öllum möguleikum um hagvöxt.

 Niðurstaða

Íslendingar eiga að fagna því að vera spurðir álits á þessu mikilvæga máli og fjölmenna á kjörstað á laugardaginn. Þjóðaratkvæðagreiðslur eru mikilvæg leið til að veita stjórnvöldum hverju sinni aðhald og eru ekki síst mikilvægar þegar stjórnvöld hafa í áratugi misfarið með vald sitt. Endurskoðun stjórnarskrárinnar mun vonandi gera þjóðaratkvæðagreiðslur að eðlilegum viðburði og aðferð til ákvarðanatöku hér á landi í framtíðinni og vonandi tekst okkur að búa til umgjörð um slíkt ferli þannig að sómi sé að. Það og það eitt væri góð sárabót fyrir hrunið.

Hreyfingin er eina stjórnmálaaflið á Íslandi sem er með klausu um Icesave á stefnuskránni og þar segir að við eigum ekki að borga Icesave skuldbindingar Landsbankans nema það sé tryggt að okkur beri lagaleg skylda til þess.

Hvað aðra flokka varðar þá er það er ekki beint í anda vinstrimennsku VG eða jafnaðarmennsku Samfylkingar að greiða Icesave en samt berjast þeir flokkar fyrir því. Það er heldur ekki í anda Sjálfstæðisflokksins að greiða Icesave, “Gjör rétt, þol ei órétt” og allt það, en samt berst forysta flokksins og flestir þingmenn hans fyrir því að það verði gert.

Tökum afstöðu með almannahag og gegn sérhagsmunum. Förum á kjörstað á laugardag, greiðum atkvæði um Icesave samninginn og segjum NEI.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 8.4.2011 - 10:55 - FB ummæli ()

Smá saga

Dúddi lánaði Bjögga bækur. Bjöggi fór í felur og bækurnar hverfa enda er hann mikill áhugamaður um bækur og hefur verið virkur safnari í mörg ár. Vinahópur Dúdda borgar honum bækurnar og byrjar að leita þeirra á heimili Bjögga. Þótt hægt gangi þá segist vinahópurinn sannfærður um að bækurnar finnist með tímanum. Sendir engu að síður foreldrum Bjögga (Jóku og Steina) reikninginn, með vöxtum, vegna óvissu um málið. Foreldrar Bjögga segja reikninginn mjög sanngjarnan þó þau eigi ekki að borga hann, viti ekki hvað hann er hár né hvort þau ráði við hann. Þau klappa Bjögga sínum á kollinn og framsenda svo reikninginn til stjúpbarna sinna. Stjúpbörnin segja Ha?

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur