Miðvikudagur 26.06.2013 - 09:53 - FB ummæli ()

Að setja sjálfan sig að veði

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur lengi verið einn einarðasti andstæðingur verðtryggingarinnar. Þegar það var komið á hreint að boðuð skjaldborg Samfylkingarinnar var plat þá gerðist hann einn harðasti andstæðingur síðustu ríkisstjórnar. Ekki lét hann þar við sitja heldur greiddi því eðlilega götu, fyrrverandi stjórnarandstöðuflokka og þó einkum Framsóknarflokksins, í aðdraganda síðustu Alþingiskosninga.

Vihjálmur Birgisson hefur sett sig í þá stöðu að vera gísl núverandi stjórnar.  Það er eins gott að eitthvað verulega gott komi út úr núverandi stjórn.  Vilhjálmur er nefnilega ekki formaður endilega stuðningsmanna Sjálfstæðisflokks eða Framsóknar.  En háværari stuðningsmaður núvernandi stjórnar er sennilega ekki til, hann er jafnvel háværari en margir nýir þingmenn núverandi stjórnar svo sem Brynhildur Pétursdóttir, Elsa LáraArnardóttir, Haraldur Einarsson, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Karl Garðarson, Líney Anna Sævarsdóttir, Páll Jóhann Pálsson, Sigrún Magnúsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Valgerður Gunnarsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Willum Þór Jónsson, Þorsteinn Sæmundsson og Þórunn Egilsdóttir. Eflaust eru þau ekki minni stuðningsmenn stjórnarinnar en Vilhjálmur en það fer minna fyrir þeim.  Spurningin er; hvað gerir verkalýðsforinginn ef uppskeran bregst?

Eftir kosningar hefur hann verið í góðu SMS-sambandi við Sigmund Davíð forsætisráðherra og bíður vongóður, eins og ég aðrir landsmenn, eftir tafarlausri skuldaleiðréttingu og afnámi verðtryggingarinnar. Reyndar gerir formaðurinn gott betur en að bíða nokkuð rólegur eftir tafarlausum úrræðum heldur hefur hann haldið áfram að ráðast á vinstri flokkana sem sviku íslensk heimili og hefur með heitingum sínum nánast tekið sjálfan sig sem gísl fyrir efndir kosningaloforða ríkisstjórnarinnar.

Það sem ræður kappi foringjans er án efa að hann er í góðu sambandi við félagsmenn sína, sem eru hart leiknir af verðtryggingunni. Hætt er við því, ef að formaður Verkalýðsfélags Akraness spyrðir sig of fast saman við forystu Framsóknarflokksins, að hann verði ekki í aðstöðu til þess að ýta kröftuglega við ríkisstjórninni, ef að biðin eftir „tafarlausu leiðréttingunni“fer að lengjast.

Ég myndi að minnsta kosti hafa varann á mér ef litið er til forgangsröðunar ríkisstjórnarinnar á sumarþinginu.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur