Sunnudagur 23.06.2013 - 22:52 - FB ummæli ()

Veiðileyfagjaldið og frjáls markaður

Talsmenn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks eru komnir út í algera þvælu í röksemdafærslum sínum þegar þeir reyna að skýra það út fyrir þjóðinni hvers vegna það sé í forgangi að aflétta álögum af þeim sem njóta einokunarforréttinda til þess að nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar. Sömuleiðis er ekki mikill hljómgrunnur fyrir því að aflétt verði sérstaklega sköttum af ríkustu Íslendingunum áður en skuldir heimilanna verða leiðréttar, sem að ríkisstjórnin var einmitt kosin út á.

Örvæntingarfull röksemdafærsla stjórnarinnar gengur m.a. út á að það sé verið að vernda sjávarbyggðirnar og litlu útgerðirnar og ennfremur að verið sé að tryggja hámarks verðmætasköpun í besta fiskveiðistjórnunarkerfi heims.

Öðruvísi mér áður brá!

Hugmyndafræðingar  fjórflokksins  hafa einmitt talið að kostirnir við framseljanlegan kvóta séu samþjöppun útgerða og fækkun útgerðarstaða.  Það ætti að vera öllum ljóst að hnignun sjávarbyggðanna og fækkun útgerða mun halda áfram á meðan núverandi kerfi er við lýði og það alveg burtséð frá því hver upphæð veiðileyfagjaldsins verður.  Að halda því fram að við búum við besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi, þar sem verðmætasköpun er hvað mest minnir um margt á aðrar skondnar fullyrðingar um að allt hér á landinu bláa sé það besta og fallegasta  í heiminum s.s. lambakjötið, smjörið, vatnið  og konurnar. Svo þegar menn lenda í einhverjum vandræðum með að rökstyðja það er gripið til þess að benda á að við séum a.m.k. best í heimi miðað við höfðatölu.

Það vill stundum gleymast í umræðunni að veiðileyfagjaldið, sem Sjálfstæðisflokkurinn óttast að sökkvi útgerðinni, er uppfinning Sjálfstæðisflokksins sjálfs, sem réttlæting fyrir að úthluta þeim sérréttindum til fárra útvalinna að nýta sameiginlega auðlind.

Mín skoðun er sú að umrætt veiðileyfagjald sé vond aðferð til þess að auka verðmætasköpun og afla tekna. Miklu nær væri að  láta allan afla taka verð á opnum fiskmarkaði, þá er ekki verið að taka eitt né neitt af útgerðinni heldur er verið að tryggja henni hæsta verðið hverju sinni. Engin spurning er um að sú leið myndi hækka laun sjómanna og þar með skatttekjur og myndi sömuleiðis leiða af sér hærri hafnargjöld, sem renna til sveitarfélaganna. Með markaðslausn væri verið tryggja að þeir sem gætu gert sem mest verðmæti úr aflanum fengju hann til vinnslu. Það myndi án nokkurs vafa efla verðmætasköpun og opna á nýliðun í þessari mikilvægu undirstöðuatvinnugrein landsmanna og skapa ríkinu mun meiri tekjur heldur en með því að skrúfa upp gjaldtöku.

Aðferðafræðin við að ákvarða veiðigjaldið á lítið skylt við hægri stefnu, ekki frekar en opinber verðlagning á fiski í gegnum Verðlagsstofu skiptaverðs, sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur einnig vörð um.  Það að ætla að setja saman flókinn gagnagrunn um afkomu fyrirtækja, skuldir og verðvísitölur einstakra afurða, sem embættismenn eiga síðan að nota til að ákvarða eitthvert gjald, getur ekki verið ásættanlegt fyrir þá sem eru fylgjandi markaðslausnum.

Besta leiðin er að leyfa útgerðarmönnum sjálfum að ákvarða veiðileyfagjaldið með því að bjóða í veiðiheimildirnar á opnum markaði.  Til að byrja með væri hægt að byrja smátt og láta einhvern hluta veiðiheimilda á uppboð, t.d. aukningu á þorskveiðiheimildum næsta árs. Ríkisstjórnin, sem stendur frammi fyrir því að efna fjölmörg kosningaloforð, hlýtur að skoða allar leiðir til aukinnar verðmætasköpunar, en skjótvirkasta og öruggasta leiðin til þess er að auka fiskveiðar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur