Mánudagur 07.03.2011 - 14:28 - 11 ummæli

Gráðugir bankastjórar — máttlaus forsætisráðherra

Af hverju dettur fólki í hug að borga  íslensku bankastjórunum svona há laun?  Skýring varaformanns stjórnar Arionbanka í hádegisfréttum RÚV í dag var engin skýring, nefnilega að það hefði þurft að borga svona mikið til að ráða þennan mann.  Spurningin er hvort það ætti ekki að leggja blátt bann við því að ráða í bankastjórastöðu mann sem heimtar svona há laun.  Öfugt við það sem margir halda fram virðist ekki vera nein jákvæð fylgni milli þess að hafa ofurlaun og að standa sig vel í starfi.  Reyndar er ýmislegt sem bendir til hins gagnstæða.  Þar á meðal er þessi áhugaverði fyrirlestur.

En eiginlega þurfum við ekki að fara langt til að sjá villuna í þeirri staðhæfingu að þeir sem heimta og fá ofurlaun séu líklegri til að vera góðir stjórnendur en hinir nægjusömu.  Þetta eru rökin sem notuð voru fyrir brjálæðislegum launum í bankakerfinu fyrir hrun.  Ljóst er ef reynslunni að margt af fólkinu sem naut þeirra launa var versta fólk sem hægt var að finna í þessi störf.

Hneykslun forsætisráðherra á ofurlaunum væri gleðileg ef ekki vildi svo illa til að hún er búin að tjá sig um mál af þessu tagi í meira en þau tvö ár sem hún hefur setið í embætti.  Úr því henni finnst þetta siðlaust, og það virðist löglegt, þá stendur upp á hana að kippa þessu í lag.

Ég á ekki við að setja eigi sérstök lög um þetta, því ég sé ekki að það yrði auðvelt (þótt vel mætti velta fyrir sér möguleikunum á slíku).  Ég er eindregið fylgjandi frjálsum markaði þar sem hann virkar vel, og sem minnstum afskiptum ríkisvaldsins af atvinnulífinu.  En ég get ekki fyrir mitt litla líf séð annað, eftir reynsluna af íslensku bönkunum fyrir og eftir hrun, en að það yrði betra fyrir almenning að bankarnir yrðu þjóðnýttir í einhvern tíma, meðan verið er að koma siðferðinu og hugsunarhættinum innan þeirra í geðslegri farveg.  Ef það er þá einhver raunverulegur vilji innan ríkisstjórnarinnar til að bæta siðferðið …

Á meðan forsætisráðherra lætur sér nægja að lýsa vanþóknun sinni á framferði bankanna, án þess að lyfta litla fingri til að breyta því, hlæja fjármálaklíkurnar bara að henni á bak við alvörugefin smettin um leið og þær halda áfram að maka krókinn á kostnað almennings.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Rannsóknarskýrsla 3. bindi bls. 31.
    Systursonur Jóhönnu Sigurðardóttur, Bernhard A. Petersen, var stjórnarmaður í Glitni 2007. Laun: 24 milljónir á mánuði.

    Jú, hún hlær sig máttlausa konan.

  • Það liggur við að ég vorkenni Jóhönnu Sigurðardóttur.

    Allt hennar tal í áratugi hefur reynst hrein markleysa, bull sem engin sannfæring eða alvara var á bakvið þegar til kastanna kom.

    Þegar kallið loksins kom reyndist hún ekki geta neitt.

    Massív óheilindi, heimska eða algjört hæfileikaleysi?

  • Er eitthvað betra að eigendur bankans (sem eru erlendir) hirði allan arðinn,
    Helmingurinn af þessum launum rennur þó aftur til ríkisins og fyrir utan það þá er þetta einkabanki og bankastjórinn ráðinn af eigendum sínum sem hljóta að ráða því hvað þeir greiða starfsmönnum sínum í laun.

  • Almenningur hlýtur að yfirgefa Aríon banka í stórum stíl, því fólk lætur ekki bjóða sér þetta, á sama tíma segist bankinn þurfa að segja upp starfsfólki með áratuga starfsreinslu.

  • Við uppbyggingu og þróun bankakerfisins eftir hrun hefur máttleysi ríkisstjórnar og þingsins komið berlega í ljós. Á þeim tímamótum þegar kerfið hrundi fékk Alþingi Íslendinga kjörið tækifæri til þess að láta að sér kveða í uppbyggingu fjármálakerfisins og ná þar með til baka trúverðugleika sínum og virðingu hjá þjóðinni. Tækifærið rann þeim úr greipum. Ástæðurnar eru margar. Of margir liðléttingar sitja á þingbekk og forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa hvorki kjark né að því er virðist vit til þess að glíma við bankaelítuna. Fyrstu mistökin og þau afdrifaríkustu voru þau að hreinsa ekki rækilega út úr kerfinu alla þá sem sannanlega áttu þátt í hruni bankakerfisins. Þeir eru margir hverjir enn að störfum í kerfinu, hátt settir og hafa smám saman náð vopnum sínum og gera nú gys að veikum tilburðum forsætisráðherra til að mótmæla ofurlaunum í bankakerfinu. Og það undarlega er, að hún gerir það ekki með því að tala til þjóðarinnar og lofa inngripi. Hún vælir á facebook. Lagasetningar Alþingis varðandi gengistryggð lán hafa fjármálastofnanir hunsað og útfæra að eigin vild.
    Með undirlægjuhætti sínum og getuleysi hefur ríkisstjórnin gefið banka og fjármálakerfinu lausan tauminn. Og allar tilraunir þingsins til að bæta fyrir mistökin og ná til sín frumkvæðinu á ný hafa mistekist. Viðskiptanefnd hefur reynt með því að kalla bankamenn á teppið en tilraunin er dæmd til að mistakast. Það er orðið of seint. Stjórnlagaþings ruglið og Icesave klúðrið er barnaleikur miðað við þau mistök sem þing og ríkisstjórn hafa gert við uppbyggingu fjármálakerfisins.
    Skaðinn sem af því hefur hlotist fyrir almenning í landinu er svo gríðarlegur að bara það atriði eitt nægir til að krefjast alþingiskosninga á þessu ári.

  • Það er alveg sama hvar horft er á Jóhönnu og þessar liðleskjur sem í kring um hana eru. Eigum við að nefna það: Verðtryggingin, hún fór fram með þingmannafrumvarp árið 2005 um afnám verðtryggingar. Hvað stöðvar frúnna núna? Siðleysi bankanna: Um þetta gólaði konan stundum löngum í stjórnarandstöðu, hvað stöðvar frúnna núna í að taka á þessum málum. Klúðrið í kringum Magma, icesave, stjórnlagaþingið, endurreisn bankanna, endur reisn tryggingarfélaga, skjaldborgin um auðmagnið vs tjaldborgin um heimilin. Þetta er ein stór endalaus runa að getuleysi, viljaleysi, máttleysi, sinnuleysi, kraftleysi, kunnáttuleysi…
    Ofan á þetta allt saman virðist manni þeir sem hruninu ollu vera orðinn einhverskonar Über-stétt sem hvorki lög né réttur ná yfir. Lögbrot þeirra eru orðin öllum mönnum bersýnileg en ekkert er gert.

    Karl spyr hér að ofan; „Massív óheilindi, heimska eða algjört hæfileikaleysi?“

    Það þarf stóran skammt af þessu öllu saman til að klúðra málunum eins kröftuglega og gert hefur verið.

  • GSS.

    Þetta er mjög rétt hjá þér og vel orðað.

  • Steingrímur J Sigfússon flutti ræðu á fundi suður með sjó um innlimun Spkef í Landsbankann. Miðað við það sem á undan er gengið um samskipti ríkisstjórnar og fjármálageirans má gera ráð fyrir því að fjármálaráðherrann hafi fengið leiðsögn við ræðusmíðina. Og það þarf ekki að velkjast í vafa um hver var honum innan handar og lagði honum orð í munn. Steinþór Pálsson.

  • Fólkið barðist á Austurvelli og fékk það sem það sem það vildi.
    Valdasjúka amatöra og viðvaninga til að stjórna sér.

  • Björgvin Þór

    Alveg ótrúlegt hvernig þér tekst að láta grein um ofurlaun einkabankastjóra snúast uppí árás á forsætisráðherrann. Þú byggir ekki mikið upp með skrifum þínum, virðist aðallega vera í því að rífa niður. Og hið tvöfalda siðferði: „Ég er eindregið fylgjandi frjálsum markaði þar sem hann virkar vel, og sem minnstum afskiptum ríkisvaldsins af atvinnulífinu.“ En í hinu orðinu viltu setja lög um hámarkslaun. Fyrir hvað stendurðu eiginlega?

  • Er ekki ástæðan fyrir þessu moldviðri sú að Höskuldur gekk fram af miklum dugnaði og gaf Jóni Ásgeiri myndarlegt spark í afturendan þannig að hann flaug í loftkostum út úr Arion banka. Náskerið er núna að beita fjölmiðlaveldi sínu af miklum móð til að níða af honum skóinn ………nema að mönnum finnist svona agalega skelfilegt að hann hafi 2.9 millj. í laun sem gera útborguð laun upp á 1.600 þúsund. Hvað er forseta fíblið með mikið útborgað ?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fimm? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur