Fimmtudagur 25.08.2011 - 13:34 - 37 ummæli

Örsögur úr hruninu og undirskriftasöfnun HH

Tölurnar í eftirfarandi sögum eru ekki nákvæmar, en nógu nærri lagi til að kjarni málsins sé réttur.

Manneskja A keypti, fyrir hrun, íbúð sem kostaði 21 milljón.  Hún átti 7 milljónir sjálf sem hún setti í þetta, og tók 14 að láni, með verðtryggingu.  Lánið var sem sé fyrir 67% af andvirði íbúðarinnar, sem telst yfirleitt varkárt í slíkum viðskiptum, í löndum þar sem efnahagslífið er ekki í tómu rugli, og þar sem hægt er að treysta stjórnvöldum til að gera allt sem þau geta til að borgararnir lendi ekki í stórum stíl í óyfirstíganlegum vandræðum ef þeir haga sér skynsamlega.

Núna er íbúðin metin á 16 milljónir, en skuldin er komin í 20.  Það sem var 7 milljóna eign er orðið að 4 milljóna skuld.  Tapið er 11 milljónir.  Samt hafði A hagað sér með afar ábyrgum hætti, miðað við það sem gert er ráð fyrir í löndum með alvöru efnahagsstjórn og stjórnvöld sem hafa einhverja sjálfsvirðingu.

Manneskja B , sem einnig átti 7 milljónir, keypti ekki íbúð, heldur geymdi féð í banka.  Innistæðutryggingar hefðu líklega átt að tryggja um þriðja hluta fjárins í hruninu, en ríkisstjórnin ákvað að allt skyldi tryggt (hjá þeim sem áttu innistæður á Íslandi).  Á rúmum tveim árum eftir hrun fékk B eina og hálfa milljón í vexti frá bankanum, svo milljónirnar 7 urðu að 8,5.

Það hefur verið deilt um nýlega útreikninga Hagsmunasamtaka Heimilanna varðandi verðtryggingu.  Það er aukaatriði hér, því staðreyndirnar tala skýru máli:  Rîkisstjórnin ákvað eftir hrun að tryggja hagsmuni fjármagnseigenda, en setja fjöldann allan af fólki sem hafði keypt fasteign í góðri trú, og  með ábyrgum hætti, út á guð og gaddinn.

Það var hryllileg skammsýni, ef ekki svívirðileg afglöp, að taka verðtryggingu lána ekki úr sambandi strax eftir hrun.  Það hefði verið hægðarleikur, úr því hægt var að yfirtaka allt bankakerfi landsins á hálfum sólarhring, auk þess sem skuldir fjölmargra milljarðamæringa, sem enn eru fokríkir, hafa verið afskrifaðar.  Í ljósi þess er bæði rangt, og fullkomlega siðlaust, að halda fram að ekki sé hægt að leiðrétta lán þess saklausa fólks sem margt er að kikna undan byrðunum af verðtryggðum lánum.  Það er hægt að afnema verðtrygginguna í dag, og það er hægt að niðurfæra lán þeirra sem sáu þau stökkbreytast.  Þess vegna ættum við sem flest að skrifa undir áskorun Hagsmunasamtaka Heimilianna þessa efnis.  Hún er hér.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (37)

 • Thad er lika haegt ad snua thessu vid og spyrja sig hvad hefdi gerst hefdi rikid ekki tryggt innistaedur. Tha hefdi eg t.d. ekki getad keypt ibud, ekki hefdi mer hugnast thad

 • Finnur Birgisson

  Mér finnst þú helst til ónákvæmur af stærðfræðingi (?) að vera. Þessi með 7 millj. kr. innistæðuna átti sennilega ekki kost á nema 6% ávöxtun og af vöxtunum þurfti hann að borga 20% fjármagnstekjuskatt. Eftir rúm 2 ár var innistæða hans því um 7,5 milljónir en ekki 8,5. Og þeir aurar voru helmingi minna virði en það sem hann átti fyrir hrun, vegna gengisfalls krónunnar.

 • Einar Steingrímsson

  Kalli: Ég er ekki að fetta fingur út í innistæðutrygginguna í sjálfri sér. Hins vegar að stjórnvöld skyldu tryggja áframhaldandi ávöxtun innistæða samtímis sem þau létu óðaverðbólguna dynja á skuldurum.

  Finnur: Tölurnar um ávöxtunina eru teknar beint af mínum eigin bankareikningi á þessum tíma (nema hvað ég átti miklu minna en 7 milljónir). Á tímabili voru vextirnir nálægt 25%, og að meðaltali hátt 20% sýnist mér. Þetta var bara einhver ósköp venjulegar „vaxtareikningur“ með engri bindingu. Þessar tölur eru ekki nákvæmar, en ljóst er að ávöxtunin var vel yfir 15% á tímabilinu, þ.e.a.s. yfir milljón.

 • Magnus Björgvinsson

  Svona að velta fyrir mér! Eignaðist ríkið nokkurntíma Glitni eða Arionbanka? Voru þeir ekki yfirteknir af FME sem svaraði til þess að þeir fóru í þrot og skipuð var skilastjórn. Sem mér skilst að sé samsvarandi og skilastjóri í þrotabúi. Þ.e. fer með eignarhluti í banka fyrir hönd þeirra sem hann skuldaði eða áttu kröfur hjá honum. Finnst alltaf að menn tali eins og ekkert mál hefði verið að gera þetta eða hitt með eignir sem ríkið átti aldrei. Og þó ég viti að Geir Haarde gerði mikil mistök þá voru nær öll ríki í Evrópum og víða sem lýstu yfir að innistæður væru varðar í bönkum alveg eða að háum upphæðum. Enda held ég að það væru kannski nokkrir tugir þúsunda í vandræðum núna ef þeir hefðu misst sparifé sitt ofan í lækkun á virði eigna sinna. En við því hafði jú verið varað um árabil að hér væri fasteignabóla og fólk ætti að reikna með að virði íbúða þeirra gæti lækkað. Alveg eins og fólk var varað við að taka meira en 60% að láni við íbúðakaup. En fólk hlustaði ekki. Og yfirbauð hiklaust í þá íbúði sem það langaði í og tók fyrir því 100% gengistryggt þrátt fyrir viðvaranir ýmissa.

 • rafn guðmundsson

  Þetta er auðvitað ljótt dæmi og eitthvað sem flestir þekkja. Ég vil samt ekki skrifa undir beiðni HH (allavega núna) – Ég trúi að það se bara ein leið út úr þessum vanda og það er að taka upp annan gjaldmiðil. Allt annað er bara ………

 • Og athugaðu líka að ef viðkomandi hefði haft tækifæri til að láni þessar 7 milljónir verðtryggt, þá væri eignin 10 miljónir núna. Einu eigninrnar sem ekki brunnu upp að verulegu leiti, voru penginar sem lánaðir höfuð verið öðrum verðtryggt. Aðrir peningar (líka þeir á bankabók, þó þeir hafi sloppið betur en átti að vera), fasteignir og fyrirtæki misstu stóran hlut af verðgildi sínu.

 • Finnur Birgisson

  @Einar: Í nóv. 2008 rétt eftir hrun voru vextir á hávaxtareikningi í LÍ (Varðan 60) 18,5%. 5 mánuðum síðar voru þeir komnir í 13,05% og ári síðar, í nóv. 2009, í 7,05%. Í mars 2011 voru vextir á þessum reikningum 3,15%. – Ef ég hefði vitað af þessum banka þínum þá hefði ég sko örugglega flutt öll mín viðskipti í hann :-).

 • Einar Steingrímsson

  Finnur: Eins og ég sagði í upphafi pistilsins eru tölurnar ekki nákvæmar, og skiptir litlu fyrir kjarna málsins hvort ávöxtunin á tímabilinu var 10% eða 15%. Auk þess geri ég ráð fyrir að hægt hefði verið að fá betri ávöxtun en bankavexti á reikningi með engri bindingu.

  Ég ætla því ekki að reyna að reikna þetta nákvæmar, en get hins vegar sagt þér að tölurnar sem ég studdist við voru allt árið 2009 og allt árið 2010.

 • Geir Guðmundsson

  Hefði ekki verið eðlilegra að verðtryggja fasteignalán í vísitölu fasteignaverðs frekar en neysluvísitölu. Þá hefði fólk ekki „stórgrætt“ á bólgnandi íbúðaverði í upphafi bólunnar og svo „stórtapað“ þegar bólan sprakk. Bankar og íbúðarlánasjóður hefðu líka farið mun varlegar í útlán. Verðtygging með fasteignavístitölu er mun áhættu minni fyrir bæði lántaka og banka og dregur úr sveiflum á húsnæðisverði.

 • Þetta er saga sem margir kannast við, en ég skil ekki hvernig hún getur staðist.
  Ég keypti íbúð fyrir hrun, á 12 milljónir, seldi hana núna eftir hrun á 16 milljónir. (Bæði verð myndu kallast gangverð skildist mér). Tók 100% lán eða svo gott sem, það stóð í 16 milljónum þegar ég seldi.
  Ég keypti árið 2006, á hvaða tímapunkti sinnti þessi aðili sínum íbúðarkaupum, svo hann fékk svona ótrúlega góða sneið af verðbólgu en um leið svona ótrúlega góða sneið af verðlækkun á íbúðinni?

 • Gunnar Ingarsson

  Af hverju er krafan sú að refsa skuli fólki sem fór fram með gætni í fjármálum og lagði fé sitt í banka í stað þess að taka lán á sturluðum vöxtum. Nú er krafan sú að hinir ráðdeildarsömu greiði skuldirnar fyrir óreiðufólkið. Það er eðlileg krafa þeirra sem leggja fé til hliðar að féð rýrni ekki í höndum Bankans. Verðtrygging í einhverju formi er við líði um allan heim. Víðast í formi breytilegra vaxta. Vandræðin hér eru fyrst og fremst þau að fimm prósent raunvextir eru sturlaðir vextir og finnast sjálfsagt ekki í hinum siðmentaða heimi. Stóra vandamálið er skortur á fjármálalæsi almennings sem hefur verið þokkalega sáttur við sturlaða vexti, einfaldlega vegna þess að verðbæturnar hafa að mestu bæst við höfuðstólinn en ekki aukið greiðslubyrðina frá mánuði til mánaðar. Almenningur virðis ekki hugsa lengra en um lausafjárstöðuna um næstu mánaðarmót. Það er vandamálið í hnotskurn.

 • Finnur Birgisson

  @Einar: Mér finnst það snerta kjarna máls hvort málflutningur um alvarleg málefni er byggður á staðreyndum eða ýkjum.

 • Einar Steingrímsson

  Finnur: Þetta voru upphafsorð pistilsins:

  „Tölurnar í eftirfarandi sögum eru ekki nákvæmar, en nógu nærri lagi til að kjarni málsins sé réttur.“

 • Það er magnaður djöfull að fólk skuli mæla þessu arðráni bót.

 • Kristján Kristinsson

  Ég keypti íbúð fyrir 16,5 milljónir árið 2004 og tók til þess 12,3 milljónir í lán en lagði út 4,2 milljónir. Lánið stendur nú í 16,8 milljónum (ég borgaði einu sinni inn á lánið). Í dag gæti ég selt íbúðina á 22,5-23,5 milljónir. Ég geri því ráð fyrir að yfir tímabilið hafi ég tapað lítillega á þessum viðskiptum.

  Ég því ekki af hverju verðmæti íbúðarinnar, sem þú nefnir í þínu dæmi, hafi fallið úr 21 milljón niður í 16 milljónir á þessu umrædda tímabili. Lét manneskja A svindla á sér? Íbúðaverð hefur ekkert lækkað og ef það hefur lækkað þá er það ekki mikið. Það er ekki séns undir eðlilegum kringumstæðum að manneskja sem skuldar í upphafi (fyrir hrun) 67% af íbúðaverðinu skuldi nú 125% af verðmæti eignarinnar (3-5 árum síðar).

 • Kristján Kristinsson

  Ég næ því ekki…. á að vera í upphafi annarar málsgreinar.

 • Ásmundur Harðarson

  Það var nauðsynlegt að bregðast skjótt og örugglega við þegar hrun blasti við. Það þurfti því að tryggja allar innistæður um leið og bera tók á fjármagnsflótta á sama hátt og gert var í nágrannalöndunum. Ef einhver vafi hefði komið upp um tryggingar hefði brostið á svo alvarlegur fjármagnsflótti úr bönkunum að ekki hefði verið hægt að tryggja áframhald á bankastarfsemi með stofnun nýrra banka á rústum hinna gömlu.

  Það er rétt að ríkið hefði getað selt skuldabréf gömlu bankanna með því skilyrði að verðtryggingin gilti ekki lengur. En þá hefðu þau auðvitað selst á miklu lægra verði og ríkið þurft að borga mismuninn. Murnurinn hefði skipt hundruðum milljarða ef ekki meira. Ríkið gat einfaldlega ekki tekið á sig slíkar byrðar.

  Á sama hátt hefði ríkið þurft að bæta Íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðunum tapið. Skuldastaða ríkisins var auðvitað fjarri því að geta það. Eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar koma í veg fyrir fjármagnstilfærslur frá lánardrottnum til skuldara nema með samþykki beggja aðila. Þess vegna er undirskriftasöfnun HSH marklaus. Verðtryggingunni verður ekki aflétt aftur í tímann.

  Það er einkenni hruna að sumir tapa gífurlega, aðrir minna og einstaka menn hagnast jafnvel. Ekkert réttlæti er í hvernig tapið skiptist með þeirri undantekningu að hinir varkárustu sleppa oftast við mikið tap. Hér er um svo gífurlegar upphæðir að ræða að ríkið getur ekki jafnað út tapið. Menn sitja því óhjákvæmilega að mestu uppi með það. Það er einnig slæmt að gefa það fordæmi að ríkið komi til bjargar ef fjárfestingar þróast öðruvísi en vonir stóðu til um.

  Í stað þess að væla yfir orðnum hlut eiga menn að leggja áherslu á það sem hægt er að gera til að koma í veg fyrir hrun eða draga úr áhrifum hruna í framtíðinni. Mikilvægast er að skipta um gjaldmiðil. En jafnvel með þeim stöðugleika sem fylgir stórum gjaldmiðli verða sveiflur á Íslandi. Það er því nauðsynlegt fyrir okkur að hafa bandamenn sem styðja okkur þegar á þarf að halda.

  Mér hefur sýnst að einmitt margir þeirra sem kvarta mest yfir hækkun lána séu á móti ESB-aðild og evru. Þeir gera sér greinilega enga grein fyrir þeim stöðugleika sem fylgur evrunni. Þeir vilja krónu áfram og vilja svo að ríkið bæti þeim upp allt tap vegna hennar. Það er auðvitað með öllu óraunhæft.

 • Annað dæmi..Hús keypt á 23 milljónir 18.4 að láni og restin úr eigin vasa…
  Í dag er lánið í tæpum 22, þannig að um 4 milljónir eru að engu orðnar klárlega.. Auk þess sem að húsið yrð sennilega ekki selt nema á um 20….

  Þarna var heldur ekki neitt djarft spilað.. fjölskyldur þurfa þak yfir höfuðið… Er það ekki.. fólk býr ekki í tjaldi og safnar peningum inn á bók…. það er frekar lítið skjól í því…

 • Kristján Kristinsson

  Það er reyndar rangt hjá mér að íbúðaverð hafi ekki lækkað og biðst afsökunar á því. Vísitala íbúðaverðs í fjölbýli hefur lækkað frá því sem hún var hæst árið 2007 eða úr um 345 í um 315. Hins vegar hefur hún hækkað frá því að ég keypti mína íbúð árið 2004 eða úr 220 í 311. Því eru dæmin ekki sambærileg. Þetta fer allt eftir því hvenær viðkomandi keypti íbúðina í hvaða stöðu hann/hún er.

 • Þessu landi er og hefur verið stjórnað af siðleysingjum, algjörlega hæfileikalausu fólki sem hugsar fyrsr og fremst um eigin hag.

  Þetta hefur fólkið í landinu látið bjóða sér í áratugi. Menn kjósa bara áfram
  „sinna flokk“ og styðja sinn „gamla flokk“.

  Þjóðin er svo illa menntuð og svo hörmulega illa upplýst.

  Lýðræðið sjálft er ónýtt á Íslandi.

 • Merkilegt hvað margir sem hér skrifa verja gjörninga ríkisstjórnarinnar eftir hrun sem bætti innistæður sparifjáreigenda uppí topp en lét lántakendur taka á sig allan skellinn af hruninu. Þeir urðu líka fyrir jafn miklum skaða og fjármagnseigendur vegna lækkunar krónunnar!

  Sérstaklega þegar komið hefur í ljós að margir þeirra sem áttu stærstu upphæðirnar voru glæpamenn. Fólk eins og útrásarvíkingarnir sem stunduðu kerfisbundna glæpastarfsemi. Þessu fólki var bætt uppí topp inneignir sínar í bönkunum.

  Ef þetta er ekki vitnisburður um siðspillt og rotið þjóðfélag þá veit ég ekki hvað það er. Ísland er spillingarbæli – því miður staðreynd.

 • Þetta dæmi Einars er ekki fjarri lagi í sumum tilfellum

  Vinkona mín keypti íbúð á 18,5 milljónir, hún hafði ekki efni á að leigja, nýflutt í borgina. Átti 4,5 milljónir inní banka sem hún var búin að geyma í 5-6 ár eftir aðra íbúðarsölu. Tók lán fyrir 14 milljónir, það lán er tæpar 20 milljónir í dag. Hún auglýsti fasteignina til sölu og fékk tilboð uppá 14,5 milljónir, hafði að sjálfsögðu ekki efni á að selja

 • Hvað er sparifé?
  Frændi minn keypti 2ja herb. íbúð árið 1988 á 6 milljónir. Seldi hana 2007 á 19 milljónir og keypti sér stærra. Sagði öllum sem heyra vildu (eða ekki) ægilega stoltur hvað hann hefði grætt mikið á fasteignaviðskiptum, heilar 13 milljónir. Auðvitað var þetta ekki allt saman gróði því hann var búinn að borga af íbúðinni í níu ár, en, jú, mikið af þessu var fasteignabólugróði.

  Nú segir hann öllum sem heyra vilja (eða ekki) að hann sé búinn að tapa 13 milljón kr. „sparifé“ sínu. En hann er í rauninni aðallega búinn að tapa fasteignabólugróða. Svo er hann ekkert að fara að selja seinni íbúðina svo hann veit ekkert hvað hann fær fyrir hana þegar þar að kemur, hún gæti allt eins hækkað aftur í verði.
  En það væri óneitanlegra þægilegra fyrir hann ef skattgreiðendur myndu vera búnir að borga niðurfellingu á lánunum hans áður en þar að kemur. Ekki það að hann taki mikinn þátt í því, hann reynir að vinna eins mikið svart og hann kemst upp með.

 • Vinkona mín keypti íbúð á 14 milljónir árið 2004. 2007 var hún metin á 25 milljónir og hún þar með búin að græða 11 millur í „sparifé“. Núna er hún metin á 20 milljónir. Hún lítur ekki svo á að hún hafi tapað, frekar grætt ef eitthvað er. En karlinn hennar er alveg brjálaður yfir að hafa tapað 5 milljónum af „sparifé“ sínu.

  Þeir sem töpuðu voru einungis þeir sem keyptu sína fyrstu íbúð í fasteignabólunni. Og þeir töpuðu miklu.

  Sumir notuðu arf og kalla það sparifé. Arfur er ekki heldur sparifé, heldur bólugróði foreldranna.

 • „Á tímabili voru vextirnir nálægt 25%, og að meðaltali hátt 20% sýnist mér. Þetta var bara einhver ósköp venjulegar “vaxtareikningur” með engri bindingu. Þessar tölur eru ekki nákvæmar, en ljóst er að ávöxtunin var vel yfir 15% á tímabilinu, þ.e.a.s. yfir milljón.“

  Ég hef skoðað vaxtatöflur allra viðskiptabankanna aftur til ársins 2007 og ég finn hvergi ávöxtun sem kemst nálægt þessum tölum á óbundnum reikningum… Í hvaða banka varst þú eiginlega með þína peninga.

  Að íbúð hafi fallið í verði úr 21 milljón niður í 16… þar hangir eitthvað meira á spýtunni, íbúðarverð hefur allmennt ekki hrunið með þessum hætti og enn síður hefur verð á litlum íbúðum lækkað svo mikið. Svo hvað hangir á spýtunni hjá þér ?

 • Magnus Jonsson

  Það vill til að svona dæmi lenti ég nánast í orðrétt sjálfur.

  Keypti iðnaðarhúsnæði sem ég hafði leigt í 8 ár, eftir verulega varkárni og að hafa sparað upp fyrir nánast 1/3

  Kaupverðið var 26m og var greitt 7m út, 19 m að láni í gengiskörfu.
  Tek fram að ekkert annað var í boði á þessum tíma en myntkörfulán fyrir fyrirtæki þannig að það var ekkert val. Greiddi svo niður í 16m þá brast á hrunið. Strögglaði við greiðslur í sem hækkuðu 150% 1-1 1/2 ár. Þa´tók ég kalt mat á þetta þar sem þessar 16m voru komnar í 35 sagði ég bless enda þetta ekkert í líkingu við það sem stóð á uppgreiðsluplaninu. Verðið á eigininni sveiflaðist auðvitað upp og niður eða efit því hvernig skapi sérfræðingurinn hjá lánastofnunninni m ætti þann daginn.

  Náttúrulega ekki hægt að taka þátt í svona rugli.

 • Eftir að menn skoða svona sögur og líkurnar á reglulegu „hruni krónunnar“ í framtíðnni hvaða ályktanir er hægt að draga? Að það sé skynsamlegt að halda í krónuviðmiðað hagkerfi en lagfæra skuldir þeirra sem er hægt að bjarga og vona að þetta komi allt út á besta veg þegar „fram líða skuldir“? Persónulega finnst mér lærdómurinn vera sá að íslenska hagkerfið þarf á sterkari og stöðugri gjaldmiðli að halda. Ætli ég sé í minnihluta?

 • „Fólk þarf þak yfir höfuðið“, segja menn. Það er rétt, en 1) þakið þarf ekki að vera út gulli og haldið uppi af marmarasúlum og 2) viðkomandi þarf ekki að eiga þakið.

  Umræðan hér að ofan snýst að mestu um aukaatriði. Grundvallarspurningin er: Er eðlilegt að ætlast til þess að almenningur taki áhættu á markaði sem hann skilur ekki (og er hugsanlega ekki hægt að skilja)? Flestir virðast gera ráð fyrir að húsnæðismarkaðurinn sé vel skilgreindur og gæddur þeim galdri að verðið er alltaf hærra í dag en í gær. En þannig er enginn raunverulegur markaður og öðru hvoru birtist raunveruleikinn.

  Í mínum huga er þetta leikur fyrir hina ríku. Þeir sem setja peninga í húsnæði verða að hafa efni á því að tapa þeim. Það er ekkert náttúrulögmál að fjárfesting í húsnæði skili sér til baka. Það vill þannig til að húsnæðisverð hefur að jafnaði verið upp á við í langan tíma, en á mörgum (kannski flestum) mörkuðum segir fortíðin lítið eða ekkert til um framtíðina.

  Það er hins vegar alveg rétt hjá Einari að það er óeðliegt að mismuna fólki eftir því hvaða fjárhættuspil menn kjósa sér.

 • Ásmundur Harðarson

  Ólafur, það er rétt að ríkið ábyrgðist innistæður rétt fyrir hrun eins og reyndar mörg önnur ríki. Það var þó ekki af sérstakri umhyggju fyrir innistæðueigendum heldur var það neyðarráðstöfun til að koma í veg fyrir að bankar tæmdust að fé. Fordæmi fyrir þessu voru þá þegar mörg meðal annars í Írlandi og Bretlandi.

  Það er hins vegar alrangt að ríkisstjórnin hafi látið lántakendur taka allan skellinn af hruninu. Í fyrsta lagi tóku flestir skell og sumir stærri skell en skuldarar eins og hlutafjáreigendur. Ríkisstjórnin hafði ekkert með það að gera.

  Hver og einn ber ábyrgð á sínum gjörðum. Það væri slæmt fordæmi ef ríkið kæmi alltaf til bjargar ef menn gerðu mistök auk þess sem það myndi aldrei ganga upp. Öryrkjar, lífeyrisþegar og launþegar eru auðvitað ekki tilbúnir til að greiða skuldir þeirra sem hafa hærri tekjur en þeir.

  Í stað þess að væla yfir orðnum hlut ættu menn að hugleiða hvað olli hruninu og hvernig er hægt að koma í veg fyrir að það endurtaki sig eða hvernig er hægt að draga úr áhrifum hugsanlegs hruns. Fyrsta skerfið er að skipta um gjaldmiðil enda var það gengishrun krónunnar sem olli því að skuldir hækkuðu upp úr öllu valdi.

 • Baldur Örlygsson

  Það má bara bjarga milljarðamæringum á Íslandi. Hinir eiga bara að borga hvað sem er endalaust. Hér er auðlindunum stjórnað af auðmönnum….

 • Eftir þessa eldmessu hér að ofan, held ég að ég geri best í að stinga aurunum mínum undir koddann (þessum sem duga fyrir helmingsútborgun í þokkalegri íbúð) og hafa þá þar til frambúðar. Flytja svo til Breiðdalsvíkur eða eitthvað (með koddann og peninginn), og leigja hús á 10 þúsund á mánuði.

 • Hákon Frank Bárðarson

  á síðustu 70 árum hefur verið um 15% verðbólga að meðaltali á ári á Íslandi. þetta hrun var ekki það fyrsta og mér virðist það ekki verða það síðasta heldur.
  Gerið ráð fyrir því þegar þið takið ný íbúðarlán til 40 ára en ekki 4-5% verðbólgu og þá takið þið ekki lán á Íslandi aftur.

 • Þetta var athyglisverð lesning Einar.
  Ég man þegar ég var á leið í doktorsnám til Englands 2007, að hafa átt samtal við þig um einmit þessi mál. Ég keypti hús á 11 milljónir 2004 það er í dag metið á 15 milljónir og ég er ekki í erfiðleikum með að borga af lánunum, leigan stendur undir því. Ég var með 11,5 milljón í lán og þau eru nú komin niður í um 7 milljónir.

  Þú ráðlagðir mér að selja þegar ég fór út vegna þess hvað verðið væri hagstætt og setja peningin í svona fjárfestinga sjóði sem voru svo vinsælir þá 🙂 Mannstu þessir sem voru ekki tryggðir af ríkinu og fólk missti allt sitt á einni nóttu?. Ég hefði semsagt tapað öllu ef ég hefði fylgt þínum ráðum!

  Ég benti þér á, að vegna þess að ég keypti húsið áður en verðið hækkaði og hefði hagstæð lán að þá væri mun skynsamara að halda áfram að byggja up eign á landinu, það myndi jú einnig tryggja að ég gæti snúið aftur heim úr námi, fjárhagslega séð. Enda væri ólíklegt að fasteignamat myndi falla niður fyrir það verð sem ég keypti húsið á og notaði sem tryggingu fyrir lánunum. Það reyndist rétt hjá mér.

  Þér fannst þetta mjög óskynsamlegt af mér og vildir meina að ég væri bara svona léleg í reikningi. Ég kynni bara ekki að reikna dæmið!

  Hmmmm, það var víst ekki ég sem kunni ekki að reikna dæmið Einar 😉

 • Einar Steingrímsson

  María: Ég ætla rétt að vona að það séu ýkjur að ég hafi „ráðlagt“ þér að setja peninga í fjárfestingasjóði, enda man ég ég ekki til að hafa nokkurn tíma ráðlagt slíkt, hvað þá að ég hafi sjálfur gert það. 🙂

  Ég var hins vegar sannfærður um alveg frá því húsnæðisverð fór að hækka verulega 2004, að það myndi lækka verulega aftur. Það var einfaldlega af því að ég hafði horft upp á nákvæmlega sama dansinn í Svíþjóð í byrjun tíunda áratugarins.

 • Ég hef oft hugsað til þessa samtals Einar eftir hrunið 2008 þegar maður horfði á fólk missa allt sitt af því að því var ráðlagt að setja háar fjáræðir inn í fjárfestingasjóði. Þú sagðir líka þá að þú sjálfur værir ekki að gera það en ráðlagðir mér það samt. Ég man það mjög greinilega sérstaklega vegna þess að þú hafðir mjög sterkar yfirlýsingar um að ég skildi einfaldlega ekki reikninginn sem liggur að baki kaupi og sölu á húseign. Þú vildir meina að eina sem skipti máli væri söluverð hverju sinni. Að hversu mikið eignin væri veðsett fyrir hefði engin áhrif á dæmið.
  Ég reyndi ítrekað að útskýra fyrir þér hvaða samspil er milli kaupverðs, veðsetningar og sveiflna á fasteignamarkaði. Að það er lykilatriði að kaupa eign þegar hún er á undirverði vegna þess að þá er ólíklegt að fasteignamat falli niður fyrir veðsetningarhlutann og þá lendir maður ekki í þeirri ljótu stöðu sem þú nú lýsir í dæminu að ofan. Ef ég myndi ekki geta greitt af láninu þá get ég selt eignina eða látið up í skuldina og stend eftir með hagnað. Það getur ekki einstaklingurinn í dæminu að ofan vegna þess að þar er keypt eign á gróflega yfir markaðsverði sem er ekki mjög skynsamt. Í dæminu að ofan er einstaklingurinn í svo slæmri stöðu að geti hún/hann ekki staðið undir greiðslum og selur eignina að þá greiðir það bara upp hluta af skuldinni.

  Semsagt ég er að mynda eign án þess að gera mikið nema leigja eignina út. Á meðan að einstaklingurinn að ofan er að tapa eign. Ég get svo nýtt eignina í framtíðar fjárfestingar endurtekið. Það er kosturinn við að eiga eign.

  Kannski skilur þú þetta betur í dag þegar þú sérð sjálfur hvaða áhrif verðfall á markaðinum hefur á húseigendur í raun.

 • Einar Steingrímsson

  Ég hef efasemdir um að það sé til einhvers að standa í þessu tveggja manna tali hér, María. Ef þú vilt ræða þetta frekar við mig (og heyra hvað ég hef að segja um málið, sem kemur ekki alveg heim og saman við þína útgáfu), sendu mér þá póst á einar@alum.mit.edu

 • Ég hef enga sérstaka laungun til að ræða þetta frekar við þig og ég heyrði þína skoðun mjög skýrt á sínum tíma. Hinsvegar ef þú vilt koma einhverju fleiru á framfæri þá er það vitaskuld velkomið.
  maria@cs.york.ac.uk
  Gangi þér allt hið besta Einar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fimm? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur