Þriðjudagur 25.10.2011 - 20:03 - 35 ummæli

Forysta ASÍ svíkur. Aftur.

Í nýlegri skýrslu frá Hagdeild ASÍ er álver í Helguvík nefnt tuttugu sinnum, þ.e.a.s. rúmlega einu sinni á blaðsíðu.  Þetta vekur upp tvær spurningar:

Er Hagdeild ASÍ ekki kunnugt um það sem allir vita sem vilja vita, að það er ekki til, og hefur aldrei verið til, nema örlítill hluti af því rafmagni sem þyrfti fyrir þetta álver?

Og, heldur forysta ASÍ að það væri til hagsbóta fyrir umbjóðendur hennar að fara út í virkjanaframkvæmdir og aukna stóriðju?

Seinni spurningunni er reyndar svarað nokkurn veginn beint í skýrslunni:

Eina leiðin fyrir okkur til að bæta lífskjör og draga úr atvinnuleysi er að auka verðmætasköpun þjóðarbúsins.

Það virðist hafa farið fram hjá forystu ASÍ að Ísland er eitt ríkasta land í heimi.  Það virðist líka hafa farið fram hjá forystunni að brauðmolakenningin svokallaða er röng, eins og glöggt hefur komið í ljós síðustu ár á Íslandi eins og mörgum öðrum löndum:  Aukinn gróði hinna ríku leiðir ekki til þess að kjör hinna fátækari batni.

Það er eiginlega bara hægt að draga eina ályktun af þessu:  Forysta ASÍ er, eina ferðina enn, komin upp í fangið á Vilhjálmi Egilssyni og Samtökum Arðræningja.

Ef forystu ASÍ væri í raun umhugað um félagsmenn sína, þá væri hún að berjast fyrir betri kjörum þeirra lægst launuðu.  Leiðin til að bæta þau er ekki að tala upp hagvöxt, allra síst með því að sífra um framkvæmdir sem löngu er vitað að eru jafn ómögulegar og að flytja út lambakjöt til Mars.

Leiðin sem forysta ASÍ færi ef hún hefði minnsta áhuga á að bæta kjör verkafólks er að krefjast þess að undið verði ofan af þeirri misskiptingu sem tröllriðið hefur þjóðfélaginu.  En á því virðist hún hafa litinn áhuga, enda mun forseti ASÍ hafa lagst eindregið gegn því að verðtrygging yrði afnumin í kjölfar hrunsins.  Greinilega var honum meira í mun að vernda hagsmuni fjármagnseigenda en þess fjölda ASÍ-félaga sem nú eru að kikna undir stökkbreyttum húsnæðislánum.

Eina ráðgátan í þessu sambandi er af hverju félagsmenn ASÍ eru ekki löngu búnir að senda Gylfa í ævilangt frí.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (35)

  • Þórhildur Lilja Þorkelsdóttir

    Búin að segja það áður. Það vantar MANNVÖXT, ekki hinn svokallaða HAGVÖXT. Út í hafsauga með þessa kauða, sem eru að drepa Ísland.

  • S. Guðmunds

    Þetta eru einfaldlega staðreyndir þó svo að þetta hljómi illa í þínum eyrum, Einar.

    Ert þú annars með einvherjar lausnir á því hvernig við fáum 15.000 manns í vinnu næstu 2-3 árin?

    Ps. Það er geinilegt að þú skilur ekki hugtakið „atvinnulíf“, Einar.

  • S. Guðmunds

    Og meira Ps. Einar;

    Ertu virkilega svona ánægður með núverandi ástand atvinnu- og efnahagsmála hér á landi?

    Ef svo er, þá ertu í algjörum minnihluta.

  • Leifur A. Benediktsson

    Gylfi Arnbjörsson og forystusauðir sem honum fylgja eru veruleikafyrrtir. Þeir hafa engan skilning á stöðunni hjá OKKUR sem greiðum þeim launin.

    Eitt stærsta þjóðþrifaverk OKKAR væri að losa OKKUR við þetta lið og koma Vilhjálmi Birgissyni til valda hjá ASÍ.

    Hann er sá eini sem talar tungumál sem við launþegar skiljum. Honum verðum við að koma til valda á næsta ASÍ þingi.

  • Leifur A. Benediktsson

    S. Guðmunds.

    Komdu fram undir nafni ,,nafnleysingi“ Einar er ekki í algjörum minnihluta,þú veður hér þoku og mistur minn kæri.

    Ég tek undir hvert orð Einars Steingrímssonar. Hér verður ekki byggt upp nýtt Ísland með stóriðju. Það er fullreynt með þessi skrímsli.

  • Þórhildur Lilja Þorkelsdóttir

    S. Guðmunds. Þetta er um það að ræða, að AÐILAR vinnumarkaðarins séu ekki að fá ROSAGRÓÐA á kostnað venjulegra launþega OG komandi kynslóða. Það væri vel hægt að leysa atvinnuleysið ef þessar kröfur væru ekki hjá þeim sem eiga nóga peninga til að skapa störf.

  • Mér sýnist þetta rétt hjá S.Guðmunds með orðið „atvinnulíf“. Ég hel að Einar leggi þann skilning í orðið að „atvinnulíf“ sé fyrir borgarana og vegna borgaranna.

    Það sem verkalýðshreyfingin er auðvita að berjast fyrir er „fjölgun starfa“, vegna þess að á hverju nýju starfi er verkalýðshreyfingin að fá tvöfalda upphæð í sjóði sína miðað við það sem ríkissjóður fær af hverju starfi og stóriðjan gefur verkalýðshreyfingunni langmest fyrir engan pening.

  • S. Guðmunds

    Þórhildur, ertu með einhverjar hugmyndir um fjölgun starfa á næstu árum?
    Svona 15 -20.000 störf?

  • S. Guðmunds

    Leifur A. Benediktsson, heitir þú þessu nafni? Hvað veit ég.

    Mínar skoðanir eru alveg jafn góðar og gildar og þínar eða hvers annars.

  • Hagdeild ASÍ er dýrustu sendisveinar sem til eru á atvinnumarkaðinum í dag !
    Auðvitað ætti að loka hagdeildinni og lækka launin hjá verkalýðsrekendum innan ASÍ !

    Laun félagsmanna innan ASÍ hafa í raun lækkað í hlutfalli við hækkun launa hjá verkalýðsrekendunum innan ASÍ og hagfræðingum ASÍ !

    Hvar hafa þessir hálunaða ASÍ lið verið frá bankahruni ?

  • Pétur Örn Björnsson / JJJ

    „Það virðist hafa farið fram hjá forystu ASÍ að Ísland er eitt ríkasta land í heimi. Það virðist líka hafa farið fram hjá forystunni að brauðmolakenningin svokallaða er röng, eins og glöggt hefur komið í ljós síðustu ár á Íslandi eins og mörgum öðrum löndum: Aukinn gróði hinna ríku leiðir ekki til þess að kjör hinna fátækari batni.“

    Alveg rétt hjá Einari, en má ég benda á að allar hinar hugmyndfræðilegu stofnanir ríkisins (og miða ég þar við skilgreiningu Louis Althusser á þeim)
    hafa hér brugðist, bæði fyrir hrun og nú … eftir hrun … er dragspilið enn á ný dregið fram og dansinn skal duna í Hruna, meðan almúginn er hæddur og spottaður með útrunnum og mygluðum brauðmolum.

    Misskiptingin hefur aukist eftir hrun. Ég skil ekki hvernig stjórnsýslan og tengdar stofnanir, svo sem æðstu prestar „vinnumarkaðarins“, geta blessað hér allt heilagt, meðan misskiptingin vex og vex. Er þetta lið orðið geðveikt af eigin velgengni og hefur algjörlega gleymt náunga sínum og meðbræðrum og systrum?

  • Pétur Örn Björnsson / JJJ

    RSA var bara pro forma til að friða lýðinn.
    En hirðin er öll á sínum stað eins og ekkert Hrun hafi orðið.
    Hvernig í ósköpunum stendur á því?
    Kann þetta lið ekki að skammast sín?

  • Hvaða fáránlega framsetning er sett á hagvaxtaspá ASÍ fyrir 2012-2014 á þessum vef? Þar er sagt að hagvöxtur verði rúm 5% á árunum 2012-2014. Þar með er gefið undir fótinn að hagvöxtur verði rúm 5% á ári, en ekki að meðaltali 1,5-2,0% ári. Þetta er svipað og ef veðurfræðingur væri að spá helgarveðrinu og myndi tala um þetta 30-35 stiga hita. Þá væri það 10-12 stiga hiti á dag. Hvaða fjölmiðlun er eiginlega stunduð á þessu kratalandi?

  • Ég er reyndar með ýmsar hugmyndir um fjölgun starfa, SGuðmunds:

    Þjóðnýta bankana.

    Endurheimta kvótann, þ.e.a.s. láta útgerðina borga fyrir auðinn sem hún eys úr auðlindinni.

    Hækka skatta tímabundið á hálaunafólki.

    Færa stökkbreytt lán í krónutölu sína fyrir hrun.

    Fyrstu þrjú atriðin myndu skila miklu fé í ríkissjóð, og það er nóg af nauðsynlegum störfum hægt að vinna fyrir þá peninga. Síðastnefnda atriðið myndi færa mikla peninga út í hagkerfið, því þeir sem eru að kikna undan stökkbreyttum lánum hafa þurft að draga mjög úr neyslu sinni.

  • Ef ég má bæta við: Gera lífeyrissjóðina upptæka í ríkissjóð.

  • Ætlar fólk ekkert að átta sig á að Tortola-Gilfi er að vinna fyrir hagvaxtar-rugludallana í auðvaldsmafíunni. Hagvöxtur, verðmætasköpun og öll hin slagorð auðvaldsins hafa ekkert með kjör almennings að gera. Öll verðmætaaukning í þjóðarbúsins fer óskert í vasann á auðvaldsmafíunni eins og kerfið er uppbyggt í dag.

  • Leifur A. Benediktsson

    Enn ein tillaga til sparnaðar: loka og selja 90% af prjáli utanríkisþjónustunar
    Lækka eftirlaun embættismanna og fyrrv. þingmanna og ráðherra um 50%.

  • Leifur Björnsson

    Árið 1995 var álframleiðsla Íslendinga 10% af því sem hún er í dag atvinnuleysi um 4,5% .
    Núna 16 árum seinna hefur álframleiðslan verið tífölduð í þeim tilgangi að útrýma atvinnu leysi og 74 % af því rafmagni sem framleitt er í landinu fer til álframleiðslu, atvinnuleysið er komið upp í 6.9% prósent.
    Niðurstaða aukinn álframleiðala eykur atvinnuleysi eykur atvinnuleysi en útrýmir því ekki.

  • Ætla að stela þessu, Leifur Björnsson, og birta á Facebook. 🙂

  • S. Guðmunds

    Leifur Björnsson,

    Árið 1995 toppaði atvinnuleysið í kreppunni sem ríkti hér árin 1989-1996.

    Eftir það fór það hraðminnkandi og var öll árin fram til 2008 ca, 1-2% að undanskyldum árunum 2002-2003 í enda litlu kreppunnar sem hófst árið 2001 og endaði árið 2003, er atvinnuleysi var 3-3,5%.

    Upp úr 2003 hófust stóriðjuframkvæmdir fyrir austan og atvinnuleysi hvarf að mestu.

    Álframleiðsla hér á landi hefur ekkert með hrunið að gera né aukið atvinnuleysi.
    Þau fyrirtæki sem ollu auknu atvinnuleysi hér á landi upp úr 2008 voru al-Íslensk stjórnuð af Íslenskum „fjármálasnillingum“ sem settu þau á hausinn.

    Ekki fóru fyrirtæki hér á landi í eigu útlendinga í þrot eða urðu að segja upp fólki, t.d. ALCOA, ALCAN, Marel, Actavis, Alfesca eða Össur.

    Niðurstaðan er að þessi fullyrðing þín er rakalaust þvaður í þér, Leifur Björnsson.
    Ekki einu sinni ölvaður maður myndi koma með svona bull eins og þú, Leifur.

  • S. Guðmunds

    Greinum aðeins þessar tillögur þínar til úrlausnar á efnahagvanda þjóðarinnar;

    Þjóðnýta bankana:

    Varla hægt. Margir bankanna eru nú þegar í eigu ríkisins, t.d. Landsbankinn, sparisjóðirnir.
    Að þjóðnýta Íslandsbanka, MP Banka og Arion banka myndi kalla á hrynu málaferla gegn Íslenska ríkinu frá núverandi eigendum þeirra, þar sem Íslenska ríkið yrði krafið um hundruði mia.kr. í skaðabætur.
    Auk þess myndi lánshæfismat Íslands hrynja, enginn myndi vilja fjárfesta hér að lána hingað peninga.

    Endurheimta kvótann, þ.e.a.s. láta útgerðina borga fyrir auðinn sem hún eys úr auðlindinni.

    Þetta er nokkuð sem tæki mörg ár að framkvæma. Svo er vafamál hvort að þetta skapi fleiri störf.
    Væri þetta gert með einu pennastriki, færu flestar útgerðir landsisn á hausinn með ófyrirsjánalegum afleiðingium, t.d. útlanatapi hjá bönkum, miklu atvinnuleysi úti á landi, heilu byggðarlaugin færu á vonarvol og algjör kollsteypa yrði í efnahagsmálum landsins.

    Svo er er spurningin; Hvað á að gera við þær skuldir útgerðanna sem hafa orðið til vegna kvótakaupa? Á að afskrifa þær um leið og kvótinn yrði gerður upptækur af þeim?

    Þetta er svona svipað dæmi og að taka íbúð af manni sem hefði keypt hana á lánum, og segja honum bara leigja hana í staðinn, auk þess að halda áfram að greiða af húsnæðislánunum.

    Hækka skatta tímabundið á hálaunafólk:

    Ekki galin hugmynd, en gallinn er bara sá að lítið er orðið eftir af hálaunafólki hér á landi af augljósum ástæðum, svo þessir skattar munu gefa lítið í aðra hönd.

    Færa stökkbreytt lán í krónutölu sína fyrir hrun.

    Þetta er ekki ókeypis aðferð og kostnaður við þetta mun lenda á skattgreiðendum.
    Svo er spurningin, hverjir eiga að nóta þessara leiðréttingar? Almenningur, fyrirtækin í landinu, eða báðir þessir aðilar?
    Reyndar hefur verið að framkvæma þessa aðferð svona óbeint með afskriftum skulda hjá ýmsum aðilum.

    Þessar hugmyndir þínar eru hvorki fugl né fiskur og er vandséð hvernig þær skapi atvinnu. Þú nefnir t.d. ekkert hvaða störf gætu orðið til við þetta.
    Þetta sannfærir mig bara um það að þá skiljir ekki hugtakið „atvinnulíf“ eða „efnahagsmál“ með fullri virðingu fyrir þér.

  • Grétar Thor Ólafsson

    Andstaða við iðnaðaruppbyggingu eru trúarbrögð. Fyrir þeim sem trúir þarf ekkert að sanna. Fyrir þann sem ekki trúir duga engin rök.

    Það er sama hvaða rök verða á borð borin fyrir þig, Einar, og þá sem eru hér þér sammála, orkufrek iðnaðaruppbygging verður alltaf tabú. Jafnvel þó svo að það sé alger staðreynd að til að auka þjóðarframleiðslu, sérstaklega til útflutnings (fyrir gjaldeyristekjur), þarftu annað hvort orkuöflun eða hráefnaöflun, nema hvoru tveggja sé.
    Í dag er mikið fjallað um „skapandi greinar“ en ákaflega lítið fjallað um hversu mikill hluti af þeim starfsgreinum eru á beinu framfæri ríkisins á einn eða annan hátt. Hagvöxtur á slíkum herðum er falskur.

    En það sem ég rek þó augun harkalega í hér eru tillögurnar sem þú komst með, Einar, til að fjölga störfum, auka velferð. Kommúnismi. Þjóðnýting hægri vinstri og skatta sig út úr vandræðunum. Kommúnismi hefur ALDREI virkað sem gott hagstjórnartæki fólkinu til hagsbóta. Það eina sem kommúnismi gerir er að dreyfa eymdinni jafnt. Er það tillaga þín, Einar?

    Við skuldum miklar upphæðir í erlendum gjaldeyri. Við ÞURFUM uppbyggingu atvinnuvega sem skapa VERÐMÆTI með framleiðslu og sem er til ÚTFLUTNINGS fyrir gjaldeyri. Fiskveiðar eru þarna að sjálfsögðu fremst í flokki, 220 milljarðar í fyrra, álið kemur þar á eftir, svipuð upphæð, og svo eru ferðamenn að skilja eftir 120 milljarða í gjaldeyri. Ef við viljum auka velferð þjóðarinnar VERÐUM við að stækka þessa tekjuþætti. Fjölgun ferðamanna í ár skilaði sér ekki í auknum tekjum, því miður. Fiskurinn skilaði sér í meiri tekjum. Álið má líka stækka. EN einnig aðra iðnaðaruppbyggingu en ál, sem gerir það sama, notar endurnýtanlega orku og býr til útflutningsverðmæti.

    ASÍ er á réttu róli með þessa skýrslu sína. Það eru bara hindranir í veginum, byggðar á trúarbragðakreddu gegn iðnaðaruppbygginu. Hindranir sem í dag hafa yfirhöndina í ríkisstjórninni og eru allt að drepa.

  • Andres Kristjánsson

    Áhugavert er þetta. Við erum í raun að tala um tvö álver sem bæði áttu að vera á stærð við álverið á Reyðarfirði eða um 350 þúsund tonna afkastagetu. Slík álver þurfa orku. Orkugetan á hvorugum stað var næg. Í flestum siðmenntuðum löndum væri búið að slá þá álverin af. En ekki hér. Menn héldu áfram. Fjármögnun var næsta hindrun. Landsvirkjun reyndi eins og rjúpa við staur að fjármagna Búðarhálsvirkjun og það gekk loks og um síðir en á mjög óhagstæðum vöxtum. Búðarhálsvirkjun kostar ekki nema 26 milljarða, og ég segi ekki nema því þessi virkjun er bara fyrir stækkun álversins í Straumsvík. Hefði virkjunin átt að fara í að búa til orku fyrir þessi tvö álver, þá væntanlega álverið suður með sjó, þá dyggði það fyrir 6% af orkuþörf þessarar álvera sem menn lögðu upp með.

    Aflið hefði þurft að vera c.a. 1380MW milli allra virkjana til að keyra þessi álver. Kostnaður liggur á bilinu 400 og 500 milljarða sem færir skuldir orkufyritækjana upp í c.a. 1000 milljarða. Í ljósi þess að Lándsvirkjun gat varla fjármagnað 26 milljarða fyrir Búðarhálsvirkjun þá verður að teljast ólíklegt að hún næði að fjármagna allt hitt.

    Mikilvægi álvera er ofmetið og er það markvisst gert af þeim urmul lobbýista sem fyrir þá vinna. Nýjustu áróðursmenn þeirra eru snillingarnir í Samáli. Þeir auglýsa gjarnan útfluttningsverðmæti. En ekki er öll sagan sögð. Því við eigum ekki álverin og njótum því einungis brots af allri veltunni. Innan við helmingur útfluttningsverðmæta verður eftir hér sem gjaldeyristekjur og þá á eftir að gera greiða svimandi háar skuldir orkufyritækjana. 100 milljarðar urðu eftir í íslenska hagkerfinu árið 2010 og ef við gefum okkur það að orkufyritækin gefi sér 24 ár til að greiða niður erlendar skuldir sínar þá erum við einungis með 75 milljarða.

    Til samanburðar þá urðu eftir hér um 155 milljarðar vegna ferðamanna árið 2010 og spár gera ráð fyrir því að tekjurnar verði um 180 milljarðar fyrir árið 2011. 10 ára markmið ferðamannaiðnaðarins gerir ráð fyrir rúmmlega 300 milljörðum í efnahaginn á núvirði. Það næst ekki ef náttúran sem 88% ferðamanna koma til að skoða verður alltaf lögð undir virkjanir fyrir álver.

    http://www.visir.is/gjaldeyristekjur-af-ferdamonnum-aaetladar-155-milljardar/article/2010448068041

    http://visir.is/alverin-kaupa-vorur-og-thjonustu-af-yfir-500-fyrirtaekjum/article/2011295209962

  • S. Guðmunds

    Mikið rétt, Grétar Thor Ólafsson.

    Einar boðar hreinan sósíalisma með þessum tillögum sínum og vill að við förum á sama stig og ríki austur Evrópu fyrir 1989.

    Andstaða við iðnaðaruppbyggingu er forpokuð trúarleg hugsjónakredda sem gengur ekki upp, því oftast eru hugjsónir skynsemininni yfirsterkari.
    Um það vitna fjölmörg sorgleg dæmi í veraldarsögunni.

    Og áhrifin af ferðamennsku sem máttastólpa atvinnulífsins hér á landi eru stórlega ofmetin.

    Ferðamannatíminn er einungis 3 mánuðir alls staðar annars staðar en í Reykjavík og nágrenni.

    Auk þess er dreifing ferðamanna misjafn eftir landshlutum. Á suma staði landsins koma bara engir ferðamenn.

    Ferðamennska getur því einungis orðið ágætis búbót við aðra atvinnustarfsemi í landinu.

    Ps. Dæmi erlendis frá sýna að iðnaðaruppbygging, orkunýting og ferðamennska fara ágætlega saman.

    Nægir að benda á Frakkland sem er eitt mesta iðnaðarríki vereldar með hergagnaiðnað, skipasmíðar, ál – og stáliðjuver, flugvélaiðnað, bílaiðnað, efnaiðnað, olíuhreinsunarstöðvar.

    Samt sem áður er Frakkland það land sem flestir ferðamenn í heiminum heimsækja, og það þrátt fyrir að um 75% af öllu rafmagni í landinu er framleitt með kjarnorku.

    Vissuð þið það að Niagara-fossarnir eru virkjaðir, en þar er eitt stærsta vatnsorkuver í heimi?
    Samt sem áður eru Niagarafossarnir mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn.

  • Einar Steingrímsson

    Skrítin kenning, SGuðmunds, að það sé hreinn sósialismi að vilja þjóðnýta bankana eða endurheimta kvótann. Var þá hreinn sósialismi á Íslandi þar til bankarnir voru einkavæddir fyrir tæpum tíu árum?

    Það er líka skrítið að halda fram að andstaða við meiri virkjanir sé andstaða við iðnaðaruppbyggingu. Svo skrítið að ég nenni satt að segja ekki að munnhöggvast um þá staðhæfingu.

  • Andres Kristjánsson

    S Guðmundsson.

    Vatnsaflsvirkjanir við Niagara eru yfir 50 ára gamlar. Ég er ekki viss um að menn hefðu farið í slíka virkjun í dag. Frekar en að það sé vilji fyrir að virkja háhitasvæðið við Yellowstone.

    Hvað Frakkland varða þá sækir fólk þar menningararfleið Frakka heim meðan fólk sækir náttúruna hér. Ég tók það fram í síðasta svari. Þannig að sá samanburður nær ekki neinum áttum. Hitt er svo annað mál að á meðan 83 milljónir fara til Frakklands árlega þá búa þar 66 milljónir. Hér er gert ráð fyrir að tveir ferðamenn komi fyrir hvern sem býr hér sem er hlutfallslega mun meira.

  • Leifur Björnsson

    SGuðmunds þú ættir að sýna af þá lágmarks kurteisi að koma fram undir fullu nafni og vera ekki að saka fólk um ölvun að ástæðulausu.
    Ég get með góðri samvisku upplýst að áfengi hefur ekki komið inn fyrir mínar varir síðan 1992.
    Margur heldur mig sig það ert þú sem hefur í athugasemdum við þessa færslu Einars ítrekað gert þig sekan um dæmalaust þvaður.

  • S. Guðmunds

    Andrés Kristjánsson

    Einmitt. Fólk kemur til Frakklands til að njóta menningararfleifðar, auk þess að sjá falleg sveitahéruð og strandhéruð.

    Ekkert af þessu hefur spillst þó svo að mikil stóriðnaður sé í Frakklandi og þrátt fyrir það sækist fólks eftir að komast til Frakkklands.

    Þú vilt sem sagt að Ísland sé algjörlega ósnortið amk. fyrir utan Höfuðborgarsvæðið þannig að landsbyggðin verði einn allsherjar þjóðgarður sem opinn er 3-4 mánuði á ári.
    Vilt að landsbyggðin verði vanþróuð eins og að tíminn hafi staðið þar í stað og þar sem er fólk sem býr í litlum krúttlegum húsum þess a milli sem að það siglir út á tillunni sinni og kemur með nokkra fiska að landi í lok dags.

    Jú, sökum orkuskorts hefððu Niagarafossarnir verið virkjaðir nú í dag tila ð beisla þar græna órþjótandi orku.
    Jafnvel þó að Niagarafossarnir séu virkjaðir nú þegar, þá hættir fólk ekki að koma þangað.

    Ég vil svo benda þér á aðra stóra stíflu, Hoover Dam, sem myndar stöðuvatnið Mead og er í Nevada-eyðimörkunni í Bandaríkjunum.
    Þangað koma milljónir ferðamanna árlega til njóta svæðisins og þess sem það hefur upp á að bjóða.

    Fleiri milljónir Bandaríkjamann fá rafmagn sit fra Hoover virkjunni, auk þess að fá þaðan allt sitt drykkjarvatn.

    Borgin Las Vegas sem er í miðri eyðimörkinni fær allt sitt neysluvatn úr Lake Mead.

    Ef Lake Mead hefði aldrei orðið til með Hoover Dam stílunni, þá hefði Las Vegas aldrei orðið til.

    Þrátt fyrir þessi „náttúruspjöll“ (eins og Íslenskir öfgaumhverfissinnar myndur kalla þetta) og í raun þess vegna, flykkjast ferðamenn til Nevada og Las Vegas.

  • S. Guðmunds

    Leifur Björnsson.

    Var ég að saka einhver um övlun???

    Ertu ekki læs maður?

    Ég sagði „að ekki einu sinni ölvaður maður myndi koma með svona bull“.

    Stendur hér að einhver sé ölvaður?

    Og hvað er þvaður í mínum málflutningi? Nefndu dæmi.

  • Grétar Thor Ólafsson

    Við upphaf hrunsins varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi að detta inn á online fyrirlestur/námskeið/fræðslu manns er heitir Chris Martenson. Fyrirlesturinn heitir „The Crash Course“, tekur 3,5 klst.
    http://www.chrismartenson.com/crashcourse

    Bankarnir voru nýfallnir, allt að hrynja, og ég hugsaði „Djöfull erum við heppin á Íslandi“ eftir að hafa horft á þetta. Þar eru sett í samhengi stór hugtök og stór málefni á borð við fólksfjölgun, skuldaaukningu, orkunotkun, aldurssamsetningu, auðlyndir, náttúru, peningaprentun og fleira og hvernig þetta spilar allt saman. Veldisvöxtur spilar þar stórt inn í. Chris sagði, þá, að allt stefnir í óefni ef ekkert er að gert. Núna, þrem árum síðar, er Evrusvæðið að falla út af skuldaaukningu, enn í veldisvexti, sama á við um USA og Bretland, og þau ríki sem standa sterkast á Evrusvæðinu eru þau sem eru mikið vædd hvað IÐNAÐARFRAMLEIÐSLU varðar.

    Ég hvet alla þá sem vilja breikka sjónsvið sitt hvað þessa þætti varðar til að eyða 3-4 klst í að horfa á þennan fyrirlestur. Hann setur flókna hluti í gott samhengi og maður áttar sig á því hvað það er ekki hægt að loka augunum fyrir iðnaðaruppbyggingu (á heilbrigðum forsendum að sjálfsögðu 🙂 og hversu mikilvæg hún er ef við viljum byggja hérna upp stórkostlega ríkt, auðugt og öflugt samfélag á eins sjálfbæran máta og hægt er.

  • Andres Kristjánsson

    S. Guðmunds // 26.10 2011 kl. 15:43
    Afhverju virkja BNA menn ekki Yellowstone?

    Ferðamenn koma til Frakklands til að upplifa menninguna. 88% ferðamanna koma til Íslands til upplifa ósnortna náttúru. Ekki reyna að snúa út úr.

    10 vinsælustu áfangastaðirnir í Frakklandi eru:
    1 Eiffel Turnin
    2 Louvre safnið
    3 Versalir
    4 d´Orsay safnið
    5 Sigurboginn
    6 Pompidou safnið
    7 Mont Saint-Michel
    8 Chamord
    9 Koeningsburg
    10 Picasso safnið

    ósnortin náttúra sem aðdráttarafl og menningararfur eru ekki sami hluturinn. Þessir 10 eftirsóttustu ferðamannastaðir frakka eru söfn, hallir klaustur og byggingar. Fólk ferðast til Frakklands til að upplifa þetta. Ef ferðamaður myndi vera spurður afhverju fórstu til Frakklands hversu margir myndu svara ósnortin náttúra?

    Þessi samanburður hjá þér nær ekki neinum áttum.

  • Algjörlega innilega sammála þér Einar, gæti ekki orðað þetta betur.

  • S. Guðmunds

    Andrés Kristjánsson;

    Af hverju virkja BNA menn ekki Yellowstone?

    Af því að það er til nóg af öðrum virkjanasvæðum í BNA.

    (Þetta Yellow-stone dæmi er orðið svolítið þreytt og ofnotað dæmi).

    Minni á að Yellow-stone er í rauninni risaeldstöð sem getur sprungið í loft upp hvenær sem er með hörmulegum afleiðingum fyrir Bandaríkin og í raun í heiminn allan.
    Slík sprenging mun eyðileggja stór svæði í N-Ameríku auk þess að valda kólnum Jarðar um 1-2 gráður að meðaltali í nokkur úr með uppskerubresti og hungursneyð í kjölfarið.

    Ef ég væri spurður (og reyndar fleiri) af hverju ég færi til Frakklands myndi ég svara:
    til að sjá falleg sveitahéruð,
    fara í vínsmökkun,
    sjá fallegt kvenfólk,
    til að sjá Frönsku Riveríuna,
    til að sjá Alpana,
    sjá skemmtilega menningu
    til að fara á fallegar strendur og
    til að njóta þægilegs loftslag.

    Þetta dæmi um Frakkland sýnir að bara að mikill iðnaður og ferðamennska fer vel saman, ólíkt því sem margir halda hér á landi.

    Þarf endilega að friðlýsa allt á Íslandi?

    Og hvers vegna koma ferðamenn til Íslands?

    Hvaða náttúru eru þeir að skoða.

    Flestar koma til að sjá og upplifa Reykjavík.
    Til að fara The Golden Circle
    Til að sjá Bláa Lónið (sem reyndar er manngert).
    Til að sjá Akureyri
    Af því að hér er svo ódýrt í þeirra augum.

    Mjög lítið af þessum ferðamönnum er í raun að fara út á land til að upplifa hina raunverulega náttúru Íslands.

    Og það er ekki þannig að þó að orkuauðlindir Íslands verði nýttar að þá hætti ferðamenn að koma landsins. Eða er það?

  • S. Guðmunds

    Andrés Kristjánsson;

    Nær allir þessir 10 merku ferðamannastaðir í Frakklandi sem þú nefnir eru byggðir upp af skattborgurum Frakklands sem hafa orðið að færa fórnir fyrir þetta.

    Þar að auki eru flestir þessara staða í eða við höfuðborgina, París, en ekki annars staðar í Frakklandi nema kannski Mt. St. Michael.

    En, ok, fyrst þú ert svo hrifinn af svona manngerðum ferðamannastöðum, þá finnst mér ekki nema sanngjarnt að Húsvíkingar (og reyndar fleiri landshlutar) eigi að fá sína Hörpu.

    Þetta myndi auka ferðamannastrauminn til þessar staða úti á landi og skapa langþráðar tekjur, þannig að það er bara ekki Höfuðborgarsvæðið sem nýtur slíkra gæða.

    T.d. væri hægt að hafa hvalaskoðunarsafn í hinni Húsvísku Hörpu, tónlistarsali, skautahöll, vatnaland, flytja Reðursafnið þangað, eldfjalla og hversafna, koma fyrir hugmynd Ómars Ragnarssonar um safni „Myndun lands í eldsumbrotum, spilavíti, veitingastaði, Norðurljósasafn, o.m.fl.

    Svo mætti byggja stóran alþjóðaflugvöll við Húsavík til að taka á móti öllum þeim fjölda erlendra ferðamann sem myndu sækja staðinn heim.

  • Vilhjálmur Birgisson er að tala máli almennings,að sjálfsögðu á hann að vera í forystusveit ASÍ, hann var settur út í kuldann af fólki sem hefur takmarkaðan skilning á þörfum launamannsins.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fjórum? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur