Sunnudagur 13.11.2011 - 17:20 - 16 ummæli

Við þurfum erlenda fjárfestingu. Not.

Hann er orðinn síbylja, kórinn um að Ísland þurfi mikla erlenda fjárfestingu.  En það gildir sama um hann og ýmsar aðrar staðhæfingar í pólitísku „umræðunni“ á Íslandi:  Það eru aldrei færð fram nein rök, og allt of fáu fjölmiðlafólki dettur í hug að spyrja þá út úr sem slíku halda fram.

Þangað til einhver rök koma fram er skynsamlegast að leiða hjá sér þessa staðhæfingu, svona almennt séð.  En, ein nýleg sérútgáfa af henni er svo frumleg að sjálfsagt er að benda á það, jafnvel þótt kórinn sem kyrjar hana hafi ekki heldur í því tilviki fært fram nein rök.  Nefnilega að sjálfsagt sé að veita í hvelli undanþágu frá lögum til að auðjöfurinn Huang Nubo fái að kaupa Grímsstaði á Fjöllum, af því að það vanti svo sárlega útlenskt fé til Íslands.  Eða, eins og haft er eftir Hjörleifi Sveinbjörnssyni, aldavini Huangs, í China Daily í gær„Iceland has gone through a deep economic crisis since the banking problems in 2008. We need foreign investment to get things going“.

Hjörleifur þessi er mágur utanríkisráðherra, og eiginmaður fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar, auk þess sem sendiherrann í Kína, Kristín Árnadóttir, sem er yfir sig hrifin af áformum Huangs, er fyrrum náin samstarfskona Ingibjargar til margra ára (Ingibjörg gerði hana svo að sendiherra) og reyndar systir ráðuneytisstjórans í Fjármálaráðuneytinu.  Þetta skýrir ef til vill af hverju Huang virðist svona viss um jákvæð viðbrögð úr íslensku stjórnsýslunni; maðurinn er í talsambandi við gott fólk.

Þetta var nú útúrdúr, um hið klassíska íslenska talsamband og mægðir valdafólks.  Hitt er athyglisverðara að svo illa sé komið fyrir Íslandi að nauðsynlegt sé að flytja hingað fé í stórum stíl frá Kína.  Síðast þegar ég vissi voru nefnilega milljónir manna þar eystra við hungurmörk, og mér datt svona í hug að skárra væri að Huang notaði auðæfi sín til að gera eitthvað í þeim málum, frekar en að láta okkur Íslendinga njóta rausnar sinnar.  En, hvað veit ég; vel má vera að fólk svelti tugþúsundum saman á sléttunum fyrir norðan, þarna á þessu landflæmi sem er jörðin Grímsstaðir á Fjöllum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (16)

 • Jón Jón Jónsson, bóndi á Bala

  Mér, svona gömlum sveitamanni með móvit og þúfna og líkast til eilítið skyldur þeim tíbetsku í anda, er það líkt og Einari gjörsamlega óskiljanlegt að þetta hirðlífis-hyski fái að vaða áfram í alþjóðarembu sinni á kostnað heimila landsins og sér í lagi þar sem þessu hyski virðist vera skítsama um að bankavaldið fær á sama tíma að valdnauðga heimilum landsins. Þetta nýfrjálshyggju Samfýósalið er greinilega að missa sig algjörlega og endanlega í útþenslustefnu auðræðisins og bírókratanna og gjörspilltra pólitíkusa.

  Því þetta er ekkert annað en útþenslustefna glórulausrar öfga nýfrjálshyggju, þar sem skinhelgin ræður ríkjum. Ekkert er verra á þeim tímum sem við lifum, en flærð og skinhelgi þeirra sem tjalda fögru, en beita valdakerfinu til græðgi sinnar. Forðast skal í lengstu lög að taka á þeim vanda sem heimili landsins þurfa að líðpa fyrir, vegna sjálfhverfu þessa hirðliðs. Alveg sama hvað pútur Samfylkingarinnar gagga um annað. Júró í nös og nú Núbó í nös. Hvað er eiginlega að þessum stundargróða-fíklum, sem misnota vald sitt til eigin brasks? Eru þau enn undir áhrifum frá Jóni Gullnös í einhverjum Borgarnes bridge, eða kannski í fatapóker keisara-hirðarinnar?

  Af hverju getur þetta lið ekki bara glaðst yfir þeirri dásemd að „om lidt er kaffen klar“? Við sem höfum úr litlu að moða gleðjumst bara yfir því og reynum að vera trú yfir litlu, en erum ónæm fyrir enn einu inn-og-út-rásar stundarfixi og skjálfta hirðafólksins í hnjám, eins og td. hennar Kristínar Árnadóttur, sendiherra í Kína, sem kiknar nú í rað-runu í hnjám þegar Núbbi flytur henni sín rósamál. Af hverju eigum við sauðsvartur almúginn að borga fyrir svoleiðis tjatt og tull og daður og pjatt og perversjón hirðarinnar? Og það á meðan við hin óbreyttu fáum ekki einu sinni hundakex, hvað þá biskví, frá þessu uppstrílaða hirðfólki.

  Svei þessu alþjóðrembu pakki í öryggisráðum sjálfra sín.

 • Halldór I. Hannesson

  Hefðu einhverjir tengdir Sjálfstæðisflokkunum verið svona innvíklaðir í þetta Huang mál líkt og þetta Samfylkingarlið er núna, þá hefðu nú einhverjir öskurapar ekki verið lengi að hrópa; – spilling, spilling!

  En af því að þetta er Samfylkingarfólk sem á í hlut, þá hlýtur þetta að vera í lagi.

 • Þorsteinn Úlfar Björnsson

  Flottur pistill, Einar! Alveg eistaklega skemmtilega kvikindislegur og hæðinn.

 • aagnarsson

  Það er of einfalt að leyfa frjálsar handfæraveiðar, sem leysa byggða,
  mannréttinda, fátæktar og atvinnuvanda gjaldþrota þjóðar.
  Óvíða getur fólk haft betri tekjur en á litlum handfærabát,
  frelsi er það sem vantar.

 • Hér er nýlega birt ítarleg greinagerð, sem því miður hefur ekki farið víða, um Century Aluminum (Norðurál) og stærsta eiganda þess, Glencore International:

  http://www.savingiceland.org/is/2011/11/fra-siberiu-til-islands-century-aluminum-glencore-international-og-vinattuvaeding-i-heimi-namuvinnslu-3/

  eða hér:

  http://smugan.is/2011/11/fra-siberiu-til-islands-century-aluminum-glencore-international-og-skuggaverold-namuvinnslu/

  Þurfum við ekki akkúrat þessa erlendu fjárfestingu?

 • Jon Thorisson

  Huang Nubo er nr 114 á lista Forbes yfir ríkustu kínverjana. Það þýðir að um 1.338.612.854 manns eru fyrir neðan hann í píramídanum og eins og Einar bendir á búa margir þeirra í sárri fátækt. Eins og máltækið segir, „Charity begins at home“.

 • víst, og svo þarf að virkja alla þjórsá annars DEYR þjóðin! :O

 • Leifur A. Benediktsson

  Ég er viss um að Ömmi sjái í gegnum þetta hirðskáld Kínverja. Núbó getur einfaldlega ort sín ljóð fyrir kratana sem flykkjast unnvörpum til Kína á hans vegum.

  Sendiráð Íslands í Kína er alveg tilvalinn samkomustaður fyrir ljóðelskandi ferðakrata.

  Hver veit nema næturgalinn komi svo líka og syngi fyrir gesti Núbós.

 • Bjarni Bjarnason

  Þarf þessi Kínverji að kaupa allt þetta land til að byggja eitt eða fleiri hótel og reka ferðaþjónustu?
  Ég held að ráðamenn mega ekki vera bergnumnir þó einhver ríkur Kínverji vilji láti heyrast í peningapyngjunni.
  Ef honum vanta lóð undir hótel er enginn ástæða til að selja honum meira en eina lóð undir hótel.

 • Kári Kristinsson

  Það eru nú ekki sérlega flókin rök fyrir því að við þurfum erlenda fjárfestingu Einar.
  Við þurfum fjárfestingu til að skapa hagvöxt, innlend fjárfesting er mjög lítil svo erlend fjárfesting er einn af kostunum til að skapa meiri fjárfestingu á Íslandi. Reyndar bendir ýmislegt til að erlend fjárfesting skapi meiri hagvöxt en innlend.

 • Sigurður Hr. Sigurðsson

  Nokkur vel valin orð um erlenda fjárfestingu:

 • Undarleg rök að þurfi erlenda fjárfestingu, þegar bankarnir eru stútfullir af peningum og skila milljarða hagnaði, trekk í trekk, enda arðrán þeirra á fullu.

  ÞJÓÐNÝTUM BANKANA og ekkert helvítis kjaftæði lengur.
  Skuldaleiðréttum og komið draslinu í gang, til hagsbóta
  FYRIR ÖLL HEIMILI LANDSINS.

  Hvers konar helvítis gungu og druslu stjórn er hér eiginlega í landinu ????

 • Einar Steingrímsson

  Kári: Það er hægt að skapa hagvöxt með fleiru en fjárfestingu. Aukinn straumur ferðamanna til landsins leiðir t.d. af sér hagvöxt, og aðeins lítill hluti af þeim auknu tekjum krefst fjárfestingar. Það eru heldur ekki rök að segja „Reyndar bendir ýmislegt til að erlend fjárfesting skapi meiri hagvöxt en innlend.“ Það er staðhæfing, en henni fylgdu hvorki gögn né rök.

  Auk þess er Magmadæmið mjög sláandi, þar sem HS orka var seld erlendum fjárfesti. Hagnaðurinn af því fyrirtæki fer nú nánast allur úr landi. Sú erlenda fjárfesting leiðir því væntanlega til neikvæðs hagvaxtar, eða hvað?

 • Berglind Hilmarsdóttir

  Sammála þér Einar!
  ,,Við þurfum að laða að erlenda fjárfesta“ og ,,fá erlent fjármagn inn í landið“ eru óljósar staðhæfingar. Ég hef ekki heyrt neinn halda áfram með þessar setningar og segja af hverju við þurfum ERLENT fjármagn og aðila.
  Myndi það kannski bjarga okkur frá verðbólgnum lánum eða eitthvað þannig?

  Einn milljarður fyrir Grímstaði er ekkert fjármagn og engin fjárfesting fyrir íslenskan hagvöxt eitt og sér. Ekki frekar en ef Nubo keypti sér nokkrar blokkir á Melunum fyrir sama pening. Hvernig á þessi milljarður að ávaxta sig?

  Það væri nær að leigja karlinum landið ef hann langar svona mikið að byggja hótel og sjá til hvernig hann stendur sig og ef allir eru sáttir við hótelið og golfvöllinn og ,,erlenda fjárfestingin“ færi að skila hagnaði í þjóðarbúið, þá mætti skoða sölu.

  En það rignir nú svo lítið á Grímsstöðum að Nubo karlinn yrði líklega að vökva golfvöllinn með tárum.

 • Kári Kristinsson

  Einar: Já þú getur ábyggilega fundið dæmi um hagvöxt sem hefur komið án fjárfestinga. En flest það sem leiðir af sér hagvöxt er komið til vegna fjárfestinga. Hvort sem það eru beinir peningar eða einfaldlega í gegnum fórnarkostnað.
  Nýjar vörur krefjast fjárfestinga, menntun krefst fjárfestinga og aukin framleiðni krefst fjárfestinga. Dæmið þitt um ferðamenn er gott og gilt. En til þess að fá fleiri ferðamenn þurfum við samt alltaf að fjárfesta eitthvað (t.d. bara að leigja flugvélar til að koma þeim hingað, rútur um landið, veitingastaði til að gefa þeim að borða o.s.frv.). Það er fínt ef sú fjárfesting er lítil miðað við tekjurnar (t.d. vegna slaka í hagkerfinu) en hún er samt til staðar.

  Varðandi athugasemd mína um kosti erlendra/innlendra fjárfestinga þá átti ég nú bara við grein sem ég las um daginn. Borensztein, E., De Gregorio, J., og Lee, JW (1998). How does foreign direct investment affect economic growth? Journal of international economics, Vol: 45 Issue: 1 Pages: 115-135. Það er hinsvegar aukaatriði. Aðalatriðið er að við þurfum fjárfestingu. Og þar sem innlend fjárfesting er mjög lítil tel ég óþarfi að fúlsa við allri erlendri fjárfestingu.

  Því miður þekki ég ekkert Magma málið og hef því engar forsendur til að ræða það. Kæmi mér ekkert á óvart ef það væri klúður frá A-Ö.

 • stefán benediktsson

  Ferðaþjónusta getur verið mikilvæg fyrir afkomu okkar ef hún gengur ekki á náttúruauðinn, en hún þarf fjárfestingu, þolinmóða fjárfestingu. Það er kostnaðarsamt að vernda náttúruna og sá kostnaður vex ekki línulega með fjölgun ferðamanna heldur logaritmiskt og þennan kostnað er erfitt að innheimta. Það er líka kostnaðarsamt að byggja upp þjónustu við ferðamenn og hún verður að skila þjóðarbúinu ávöxtun, það krefst fagmennsku. Lykilorðið er í öllum tilvikum þolinmótt fé…… og lágir vextir. Króna með polkavöxtum sem verður að engu á 50 ára fresti er ekki þolinmótt fé, þessvegna eru milljarðarnir í bönkunum okkar svo gagnslitlir. Allt sem þeir eru notaðir í þarf að gerast mjög hratt. Þessvegna þurfum við erlent fé, alvörupeninga. Fjárfestar eru ódýrari kostur en lán því þeir taka á sig tapið ef af verður.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og þremur? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur