Laugardagur 19.11.2011 - 12:54 - 33 ummæli

Pólitísk ritskoðun á RÚV. Fyrir LÍÚ.

Eins og flestir hafa tekið eftir sem hlusta á Ríkisútvarpið hefur undanfarið birst urmull auglýsinga í nafni „íslenskra útvegsmanna“, þar sem haldið er fram að stjórnvöld séu að „lama fjárfestingar“ í sjávarútvegi, og að tugir þúsunda starfa séu í hættu vegna stefnu ríkisstjórnarinnar, svo fátt eitt sé nefnt.

Þótt ég sé enginn vinur núverandi ríkisstjórnar blöskraði mér svo þessi  áróður að ég ákvað að setja auglýsingu á móti.  Hún birtist síðastliðinn miðvikudag og hljóðaði svo:

Íslenskir útvegsmenn vilja lama þjóðfélagið með kröfum sínum.  Borgari.

Mér skilst að daginn eftir hafi komið svohljóðandi auglýsing sem annar borgari setti inn:

Í krafti peninga ætlar útgerðaraðallinn líka að kaupa almenningsálitið. Er það sæmandi? Borgari.

Í gær bað ég svo um að eftirfarandi auglýsing yrði lesin:

Er herferð útgerðaraðals gegn almenningi siðleg?  Borgari.

Þá kom babb í bátinn og ég fékk eftirfarandi svar frá Auglýsingadeild RÚV:

Ég þarf að biðja þig um að setja undirskrift undir auglýsinguna, það verður alltaf að vera ljóst hver er að auglýsa. „Borgari“ er of allmennt.

Mér var líka sagt að það yrði að vera einstaklingur eða samtök eða fyrirtæki sem undirrituðu, en eitthvað var þetta samt óljóst, því ekki var á hreinu hvort slík samtök þyrftu að vera formlega skráð einhvers staðar.

Mér var líka sagt að þetta væri „almenn vinnuregla sem á sér stoð í lögum um auglýsingar.“  Þegar ég benti á að „íslenskir útvegsmenn“ væru alls engin opinber samtök var mér sagt að það hefðu verið mistök að leyfa það og það yrði leiðrétt.  Þetta var í gær.  Í morgun, rétt fyrir klukkan 11 kom svo auglýsing af sama toga og þær fyrri, undirrituð „íslenskir útvegsmenn punktur is“.  Það er til vefsíða á slóðinni http://islenskirutvegsmenn.is.  Þar kemur hins vegar ekki fram, eða gerði a.m.k. ekki á hádegi í dag, hver ætti hana.

Auglýsingadeild RÚV virðist því hafa ákveðið að það sé í lagi að reka harðorðan áróður gegn stjórnvöldum þar sem haldið er fram að þau séu að „lama“ sjávarútveginn með aðgerðum sínum, og að undir slíkar auglýsingar þurfi ekki að skrifa nein samtök eða einstaklingar. Almennir borgarar mega hins vegar ekki svara í sömu mynt.  RÚV virðist sem sagt telja að það eigi að þjóna hagsmunum voldugra hagsmunasamtaka, en alls ekki almennra borgara.

Hitt er svo annað mál, en ekki síður athyglisvert að hvorki í reglum RÚV um auglýsingar, né heldur lögum sem þær vísa í, er að finna stafkrók um að yfirleitt þurfi að koma nokkuð fram um hver stendur fyrir tiltekinni auglýsingu.  Hins vegar stendur þetta í 3. grein auglýsingareglna RÚV:

3.  Þess skal gætt að auglýsingar séu látlaust orðaðar, lausar við skrum og hæpnar fullyrðingar, en segi það eitt sem er satt og rétt.

4. Auglýsing skal ekki fela í sér ádeilu eða hlutdræga umsögn um einstaka menn, stofnanir, félög, félagasamtök, stefnur í almennum málum eða stjórnmálaflokk.

Það er augljóst að auglýsingar „íslenskra útvegsmanna“ segja ekki „það eitt sem er satt og rétt“, að minnsta kosti virðist ótrúlegt að RÚV hafi komist að þeirri niðurstöðu að pólitískur áróður LÍÚ sé hinn eini sannleikur í þessum málum.  Augljóst er líka að þessar auglýsingar „fela í sér ádeilu eða hlutdræga umsögn um […] stefnur í almennum málum“.

Auglýsingadeild RÚV hefur sem sagt ákveðið að sniðganga eigin reglur til að leyfa LÍÚ að halda uppi hatrömmum áróðri án þess að samtökin þurfi einu sinni að gangast við að liggja að baki honum.  Og að banna almennum borgurum að tjá sig um sama mál, með sams konar hætti.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (33)

  • Jón Óskarsson

    Ekkert sem kemur á óvart frá þessari stofnun lengur

    Er ekki bara að stofan samtök og leggja í auglýsingapúkk ?

  • Johnny B. Good

    islenskirborgarar.is

  • Já, þetta endar sjálfsagt með því að við borgararnir tökum höndum saman og hefjum gagnsókn. Ég spái því hins vegar að þá muni RÚV allt í einu muna eftir að reglurnar séu eitthvað öðru vísi …

  • Frábært framtak hjá þér að auglýsa og takk fyrir góða grein.

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Fara í mál eins og skot og heimta skaðabætur. Það er afar vinsælt um þessar mundir.
    Auk þess verða aumingja lögfræðingarnir að fá eitthvað að gera þegar þeir detta út úr skilanefndunum um áramótin.

  • Pétur Örn Björnsson

    Fátt kemur manni lengur á óvart varðandi leyniþræði RÚV ohf.
    Hallelúja skal það vera og engin réttmæt gagnrýni leyfð.

  • Gott framtak Einar.

    LÍÚ munar lítið um að nota hluta af þeim 30-40 miljarða verðmætum sem þeir fá í formi gjafakvóta á hverju ári til að kaupa útvarpsauglýsingar með rangfærslum. Til viðbótar eyða þeir hundruðum miljóna ef ekki miljörðum í fjölmiðlarekstur sem augljóslega er notaður sem áróðursmaskína fyrir hagsmuni þeirra.

  • Hjörtur Árnason

    Takk fyrir gott framtak.

    Ég brá mér á vef Isnic, sem skráir öll íslensk lén.
    Þar kemur eftirfarandi fram:

    Lén: islenskirutvegsmenn.is
    Nafn rétthafa: Landssamband ísl útvegsmanna
    Heimilisfang: Borgartúni 35
    Borg/Sveitarfélag: Reykjavík
    Póstnúmer: 105
    Land: IS

    Hins vegar kemur það hvergi fram á vefnum sjálfum, og maður veltir fyrir sér hvers vegna.

  • Leifur A. Benediktsson

    Þarft og gott framtak Einar Steingrímsson,

    Það er við ofurefli að etja, en ekkert stríð vinnst nema allar litlu orusturnar vinnist líka.

    Þú átt heiður skilinn og ég hvet alla sanna Íslendinga til að fara að þínu frumkvæði og auglýsi í útvarpi allra útvegsmanna. Og sýni þessum arðræningjum, eins og þú kallar þessa auðróna,að orustan er alls ekki töpuð.

    Viva La Revolución!

  • Bergsteinn Sigurðssom

    Í fjölmiðlalögum kemur fram að kaupandi auglýsingar beri ábyrgð á efni hennar.

    Um ljósvakamiðla:
    Kaupandi hljóð- og myndsendingar í viðskiptaskyni, hvort heldur sem um einstakling eða lögaðila er að ræða, ber ábyrgð á efni hennar sé hann heimilisfastur hér á landi eða lúti íslenskri lögsögu á öðrum grundvelli.

    Um ritmiðla:
    Kaupandi viðskiptaboða, hvort heldur sem um einstakling eða lögaðila er að ræða, ber ábyrgð á efni þeirra sé hann heimilisfastur hér á landi eða lúti íslenskri lögsögu á öðrum grundvelli.

  • . . er að hugsa um að prófa eftirfarandi;
    „Íslenskur almenningur þarf að vera á varðbergi gagnvart rangfærslum og áróðri svokallaðra „útvegsmanna“ . . . sem virðast freista þess að kaupa almenningsálitið“ , , , Benedikt borgari

  • Bergsteinn: Þetta með ábyrgðina er einfalt, því maður þarf að gefa upp hver maður er, þ.á.m. kennitölu þegar maður biður um að fá lesna auglýsingu. Til þess þarf ekki að vera „undirskrift“ í auglýsingunni sjálfri.

    Bensi: Mér líst vel á þetta! Og, spái því að það hefjist bráðum hreyfing almennra borgara, fólks með ólíkar stjórnmálaskoðanir sem á það sameiginlegt að vera búið að fá upp í kok af spillingunni og valdaklíkusamfélaginu til að sammælast um að berjast fyrir gamaldags lýðræði og nokkurn veginn óspilltri stjórnsýslu.

  • Pétur Örn Björnsson

    Mikið vona ég að þú reynist sannspár Einar:

    „… að það hefjist bráðum hreyfing almennra borgara, fólks með ólíkar stjórnmálaskoðanir sem á það sameiginlegt að vera búið að fá upp í kok af spillingunni og valdaklíkusamfélaginu til að sammælast um að berjast fyrir gamaldags lýðræði og nokkurn veginn óspilltri stjórnsýslu.“

    Ekkert þráum við meira hinir óbreyttu borgarar.

  • Leifur A. Benediktsson

    Einar Steingrímsson, Bensi og Pétur Örn,,

    Er ekki málið að fara að ræða saman félagar? Við sem eru að rembast hér og þar á bloggsíðum og kommentakerfum fjölmiðla og tölum fyrir breytingum á ógeðssamfélaginu og ranglætinu eigum að þjappa okkur saman.

    Komið með hugmyndir kæru félagar og kýlum á þetta. Mjór er mikils vísir.

  • Elín Erna Steinarsdóttir

    Takk Einar.
    Það er sannarlega þarft að stofna borgarasamtök gegn spillingu. Væri ekki frábært að byrja árið 2012 á því. Mikið vildi ég taka þátt í slíkum samtökum með þér og fleiri sem hafa skrifað athugasemdir hér að ofan. Við meigum ekki gefast upp gegn spillingaröflunum.

  • Leifur A. Benediktsson

    Elín Erna Steinarsdóttir,

    Það er engin ástæða að gefast upp,og allra síst núna. Máttur okkar almennings er mikill,það þarf einungis að virkja hann til að koma hlutunum í gang.

    Velkomin í hópinn Elín, okkur mun takast þetta. Ekki örvænta.

  • Hákon Hrafn

    Frábært hjá þér Einar. Þessar auglýsingar frá LÍÚ eru ógeðslegar og ég var mjög glaður þegar ég heyrði auglýsingu frá borgara, var einmitt að hugsa um hvaða snillingur ætti hana.

  • Helgi G Magnússon

    Lítið hefur verið fjárfest í sjávarútvegi sl 10-12 ár, en mikið hefur verið flutt út af peningum sem menn hafa fengið fyrir að selja kvóta. Þorsteinn Már ætlaði að kaupa MP banka en hætti við af því að sonur hans fékk ekki að vera stjórnarformaður. Þetta segir okkur að útgerðamenn eiga mikið fé. Á sínum tíma keyptu þeir hlut í Glitni til að ræna hann, þeir hafa engan áhuga á að fjárfesta í sjáfarútvegi. T.d. kom ekkert tilboð í Iceland frá íslendingum.

  • Getuu verið að það sé líka búið að kaupa sjómannasamtökin? Þeir þylja allavega sömu möntruna.

  • Þetta hljómar eins og dæmigert efni fyrir umboðsmann Alþingis.

  • Johnny B. Good

    Borgarar Fyrir Bættri Stjórnsýslu.

  • Já, hvernig væri að fólk , sem er að skrifa á netinu fleiri kílómetra , fari að gera eitthvað meira en að skrifa bara !
    Ef hér á eitthvað að breytast þarf fólk að gera eitthvað, eins og þeir sem börðust við atvinnurekendur og yfirvöld í byrjyn síðustu aldra fyrir bættum kjörum !

    Það er eins og fólk haldi að nóg sé að ýta á ENTER og þá gerist hlutirnir !

    Á meðan fólk er að þræta um stefnur og prinsip, þá gerist ekkert og reynir í sífellu að ýta á ENTER !!!

    Fólk þarf að koma sér að VINNU !!!

  • Hrafn Arnarson

    Takk fyrir þetta Einar.

  • Fá einhvern orðheppin(n) til að skrifa 10-15 línur til höfuðs og menn geta pikkað upp sínar uppáhalds og farið með þær í útvarp eða jafnvel skjáauglýsingar. Alveg fáranlegt að útvarp allra landsmanna sé komið í baráttuna um að halda auðlindum landsins áfram meðal útvaldra.

    Sannar að jarðbundnir Íslendingar verða að fara að skipuleggja sig og mynda öflugan þrýstihóp og stunda hagmunagæslu fyrir almenning í landinu. Það er engin annar að fara að gera það fyrir okkur.

    Sjáið Occupy Wall St.

  • kristbjörn árnason

    Ekki er langt síðan, að jafnvel stéttarfélög máttu ekki með auglýsingu hvetja sína eigin félagsmenn til að mæta í kröfugöngu 1. maí á hvert.

  • lydur arnason

    Svarið við þessu gegndarlausa misrétti verður að koma frá okkur sjálfum í formi breiðvirks hóps sem hefurþað eitt að markmiði að moka spillingunni af borðum. Slíkar bollaleggingar eru þegar í gangi.

  • Olafur Jonsson

    Flott framlag og góð grein. Ykkur skal ekki undra þótt kippur hafi komið í fólk á auglýsingadeild RÚV því það er ekkert nýtt að síminn er rifinn upp á skrifstofu LÍÚ og hringt inná blöð sem birta greinar sem lauma sannleikanum um spillinguna inná landsmenn. Hótunum er látið rigna yfir viðkomandi og er þá sérstaklega talað um að menn muni reknir og fá síðan hvergi vinnu annars staðar. Þetta geta fleirri manns borið vitni um.
    Varðandi þessar ómerkilegu auglýsingar sem verið er að birta þá ber ég það hér og nú og hvenær og hvar sem er að þær eru helber lygi og ósannindi og ættu í raun alls ekki að fást birtar samkvæmt þeim vinnureglum sem hér hafa verið nefndar.
    Ég er sérstaklega glaður að sjá hversu fólk er vakandi gagnvart því sem á sér stað því að hér er sannanlega verið að fremja ljótan glæp þar sem fámennis klíka ætlar sér að koma eignaréttinum á auðlindinni í gegn um hæstarétt hvað sem það kostar.

  • Jónas Bjarnason

    Bestu þakkir, Einar. Þetta er frábært framtak, sem kostar greinilega púður og peninga. Það verður eiginlega að stofna samtök til að mæta launuðum starfsmönnum LÍÚ, sem skrifa auglýsingar í vinnunni og síðan bara borgar gjaldkerinn. Þetta er eins og allt annað. Þeir bara borga og hafa alla í vasanum – nema menn eins og þig og suma fleiri. Bestu þakkir.

  • Pétur Örn Björnsson

    Það liggur eitthvað heilmikið í loftinu. Sanniði til.

    Einar hefur skrifað hvern pistilinn á fætur öðrum gegn spillingunni,
    allt frá bankasýslumálum til sendiherra að bjóða kínverjum klofið
    í kurt og pí með glit í botn sína ofið.
    Auk þess að hafa afhjúpað hræsni skrifstofustjóra og forseta Alþingis.
    Einar á hrós skilið, að halda okkur vakandi og með augun opin.

    Allur hinn óbreytti almenningur er búinn að fá upp í kok af spillingu stjórnsýslunnar og vanhæfni og rakkahætti gagnvart sérhagsmunaöflum
    á borð við LÍÚ. Samtryggður hráskinnungsleikur á kostnað okkar hinna óbreyttu. Nei, þetta helvíti gengur ekki lengur og alls ekki til lengdar.

  • Stefán Þór Sigfinnsson

    Þú mátt alls ekki láta Ríkisútvarpið(RÚV er ekki til það er bara í höfðinu á Páli útvarpsstjóra) komast upp með þetta!!!!!!!!!!!!

  • „Það veltur á landkostum hvers lands, hve lífvænlegt er um afkomu þeirra, er landið byggja, jafnvel hvort það yfirleitt er byggilegt eða ekki. Landkostir Íslands eru ekki fjölskrúðari en svo, samanborið við önnur lönd sem menn byggja, að ef það væri ekki umkringt af auðugum fiskimiðum, myndi byggð ekki hafa haldizt í landinu. Til landkostanna verður því, auk landhelginnar, sem allar þjóðir áskilja sér umráðarétt yfir, – þ.á.m einkarétt borgara sinna til veiða þar, – að telja legu landsins við þessi fiskimið. Af henni leiðir, að landsbúar hafa sérstaka aðstöðu, betri en aðrir, ekki eingöngu til til veiða á fiskimiðum, heldur einnig til að hagnýta sér aflann í landi, höfnum eða landhelgi.“

    — Sveinn Björnsson, árið 1922 og síðar fyrsti forseti lýðveldisins

    Stöðvum fiskiféfléttu íslenskra útvegsmanna og færum auðlindir hafsins í hendur þjóðarinnar. LÍÚ hefur ekkert um það að segja frekar en vopnaframleiðendur um friðarsamninga fyrir botni miðjarðarhafsins.

  • Pétur Örn Björnsson

    Spillingarvaktin … flott framtak … bara að smella á undirstrikað nafnið.

  • Mikið sammála öllum hér. Þessar auglýsingar eru með ólíkindum og svo kolrangar að það hálfa væri nóg. Ég væri alveg til í að taka þátt í svona sameiginlegri auglýsingu borgara. Ríkisútvarpið er svo langt í frá hlutlaus miðill að þar er himin og haf á milli. Og megi þar til bær yfirvöld skammast sín.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fimm? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur