Þriðjudagur 22.11.2011 - 12:20 - 32 ummæli

Meira um þjónkun RÚV við LÍÚ

Í framhaldi af þeim viðskiptum mínum við Auglýsingadeild RÚV sem lýst er í síðustu bloggfærslu minni, sendi ég Auglýsingadeild RÚV í gær póst þar sem ég fór fram á að fá lesna í útvarp auglýsingu um framferði LÍÚ og RÚV (sjá tölvupóst hér neðst á síðunni).  Þeirri beiðni var hafnað, og mér var jafnframt tjáð að RÚV hefði ákveðið að hætta að birta auglýsingar LÍÚ, sem dunið hafa á landsmönnum síðustu vikurnar.  Þar sem þessi skilaboð voru frekar óljós, sendi ég áðan eftirfarandi póst til útvarpsstjóra RÚV.

Það er góðra gjalda vert ef RÚV er hætt að birta þann ósmekklega áróður sem LÍÚ hefur ausið yfir landsmenn, en það er umhugsunarefni að það skuli ekki gerast fyrr en óbreyttir borgarar vilja fá að svara í sömu mynt, og þá af því að RÚV telur að auglýsingar þessara borgara séu ekki í lagi, en ekki af því að RÚV virðist hafa haft neitt að athuga við auglýsingar LÍÚ.

Reyndar hringdi Markaðsstjóri RÚV, sem er yfir Auglýsingadeildinni, í mig í gærkvöldi og sagði meðal annars að það væri ófært að auglýsingatímar RÚV yrðu að vettvangi fyrir svona átök.  Erfitt er að skilja viðbrögðin öðru vísi en svo að í fínu lagi sé að LÍÚ herji á landsmenn með áróðri sínum í auglýsingatímum RÚV, en að ekki sé ætlast til að almenningur blandi sér í þann slag.

—————————————————————————–

Til útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins

Í gær sendi ég beiðni til Auglýsingadeildar RÚV um að tiltekin auglýsing yrði lesin í útvarpi þá um kvöldið.  Póstur minn um þetta fylgir með hér í lokin.  Beiðni minni var hafnað.  Áður, s.l. föstudag, var beiðni minni hafnað um að eftirfarandi auglýsing yrði lesin:

„Er herferð útgerðaraðals gegn almenningi siðleg?  Borgari“

Uppgefin ástæða var að „Borgari“ væri of „almenn“ undirskrift.  Eins og ég hef bent á í  bloggfærslu (http://blog.eyjan.is/einar/2011/11/19/politisk-ritskodun-a-ruv-fyrir-liu/) er hér um mismunun að ræða þar sem Landssamband Íslenskra Útvegsmanna hefur fengið birtan fjölda auglýsinga með undirskriftinni „íslenskir útvegsmenn“.  Engin samtök með því nafni eru til, auk þess sem LÍÚ hefur ekki alla íslenska útvegsmenn innan sinna vébanda.

Ég benti líka á að auglýsingar LÍÚ fara greinilega í bága við reglur RÚV um auglýsingar eins og þær birtast hér, nánar tiltekið við 3. og 4. mgr. 3. greinar:   www.auglysendur.is/Forsida/Gjaldskra/Reglurumauglysingar/.  Augljóslega er ekki hægt að halda fram að auglýsingar LÍÚ innihaldi „það eitt sem er satt og rétt“, auk þess sem þær fólu margar í sér „ádeilu eða hlutdræga umsögn um […] stefnur í almennum málum.“

Ég fer hér með fram á eftirfarandi:

1.  Að neðangreind auglýsing mín verði birt einhvern virkan dag í þessari viku, annað hvort milli kvöldfrétta og Spegils eða milli fréttayfirlits á hádegi og hádegisfrétta.  Sé því hafnað vil ég fá skýringar á því hverjar forsendur höfnunarinnar séu.

2.  Sé það rétt skilið að RÚV hafi ákveðið að stöðva frekari birtingar á auglýsingum LÍÚ í sama anda og þeim sem einkennir auglýsingar sambandsins síðustu vikurnar, þá gefi útvarpsstjóri ótvíræða yfirlýsingu um það.

3.  Skilji ég rétt að RÚV telji að auglýsingar LÍÚ hafi brotið gegn auglýsingareglum RÚV fer ég fram á að útvarpsstjóri gefi út yfirlýsingu þess efnis, tiltaki hvaða greinar reglnanna hafi verið brotnar, og biðji afsökunar á að RÚV hafi gert þessi mistök, og því að hafa mismunað þeim einstaklingum sem vildu auglýsa í sama stíl og LÍÚ.

4. Ég fer fram á að fá formlegt svar frá útvarpsstjóra við þessu erindi mínu.

Kveðjur,

Einar Steingrímsson

———- Forwarded message ———-
From: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>
Date: 2011/11/21
Subject: Lesin auglýsing milli kvöldfrétta og Spegils
To: auglysingar@ruv.is

Sælt veri fólkið

Ég vil láta lesa eftirfarandi auglýsingu mill kvöldfrétta og Spegils í kvöld:

„LÍÚ auglýsti undir fölsku flaggi og braut auglýsingareglur Ríkisútvarpsins. Borgari“

Ég vek athygli á að þetta eru sannar og réttar staðhæfingar, eins og sjá má af eftirfarandi úr reglum RÚV um auglýsingar:

3.  Þess skal gætt að auglýsingar séu látlaust orðaðar, lausar við skrum og hæpnar fullyrðingar, en segi það eitt sem er satt og rétt.
4.. Auglýsing skal ekki fela í sér ádeilu eða hlutdræga umsögn um einstaka menn, stofnanir, félög, félagasamtök, stefnur í almennum málum eða stjórnmálaflokk.

Ýmsar staðhæfingar í auglýsingum LÍU hafa ekki innihaldið „það eitt sem er satt og rétt“, þvi augljóst er að um þær má deila.  Auk þess fólu margar þeirra í sér „ádeilu eða hlutdræga umsögn um […] stefnur í almennum málum.“

Þessar auglýsingar brutu því í bága við reglur RÚV.  LÍÚ sigldi líka undir fölsku flaggi í þessum auglýsingum, því LÍÚ er ekki opinber fulltrúi „íslenskra útvegsmanna“, enda eru þeir alls ekki allir í samtökunum.

Auglýsingin hér að ofan sem ég fer fram á að fá lesna er því augljóslega sönn og rétt.

Ég fer fram á að auglýsingin verði birt með undirskriftinni „Borgari“, enda er ekkert að finna í reglum RÚV eða lögum um auglýsingar sem þær vísa í sem kemur í veg fyrir það.  Ef þið hyggist gera það að frágangssök er ég til í að fallast á að hún verði undirrituð „Einar Steingrímsson“, en þá mun ég hugsanlega leita réttar míns gagnvart ykkur fyrir að gera kröfur sem ykkur er ekki heimilt að gera, auk augljósrar og grófrar mismununar.

Ég geri svo ráð fyrir að þið sendið mér reikning í tölvupósti og að ég leggi inn á bankareikning ykkar eins og ég gerði í síðustu viku.

Bestu kveðjur,

Einar Steingrímsson

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (32)

  • Er ekki einboðið að Ríkisútvarpið verði við þessu? Ef ekki, þá er lágmark að frá þeim komi viðhlítandi skýringar og afsakanir.
    Það á að vera ljóst í hugum stjórnenda þessarar umdeildu og kostnaðarsömu stofnunar að hún er að fullu í eigu ríkisins og þar með þjóðarinnar ogekki ætlað að vera áróðurstæki hagsmunasamtaka í pólitískri baráttu.

  • Pétur Örn Björnsson

    Takk fyrir áframhald þessa máls Einar. Það gildir um RÚV, sem aðrar hugmyndafræðilegar stofnanir ríkisvaldsins, að þær hafa í engu breytt hegðun sinni eftir hrun og eru samansúrraðar til varnar óbreyttu kerfi og því ástandi sem leiddi til hruns, kerfishruns. Enn veður kerfið áfram í blindum hroka skinhelginnar.
    Tek svo undir góða athugasemd Árna Gunnarssonar.

  • Það kom ein auglýsing á samlesnum rásum RÚV sem hljóðaði ca. svona: Þjóðnýtum fiskiauðlindina. Aðgerðarsinni.
    Hún slapp í gegn en ekki „borgarinn“ þinn. Eitthvað er rotið í ríki RÚV.

  • Hannes I. Hallgrímsson

    Einar minn, þú virkar voðalega reiður og ósáttur maður.

    Amk. les maður það út úr blogginu hjá þér af þeim færslum sem þú setur þar.

    Hvað er að angra þig og af hverju?

  • Ásdís Jónsdóttir

    Innilegar þakkir til þín, Einar, fyrir að losa okkur við þennan ófögnuð sem búið er að hella yfir okkur að ósekju í öllum auglýsingatímum í margar vikur. Það er algerlega óásættanlegt að bjóða fólki upp á þennan ósvífna áróður í útvarpi allra landsmann og til háborinnar skammar fyrir stofnunina!

  • Pétur Örn Björnsson

    Hugmyndafræðilegar stofnanir ríkisisvaldsins þjóna greinilega tilgangi yfirbyggðarinnar að verja vald sitt, bæði fyrir
    og einnig nú eftir hrun:

    – Valdakerfi flokkanna
    – Valdakerfi laganna
    – Valdakerfi fjármála
    – Valdakerfi framkvæmda
    – Valdakerfi dómsmála
    – Valdakerfi trúmála
    – Valdakerfi menntunarmála
    – Valdakerfi menningarmála
    – Valdakerfi fjölmiðlunar

    Og síðast en ekki síst og er þá allt komið í eina sápu-froðu-sátt yfirbyggðar
    til varnar kerfi sínu
    – Valdakerfi atvinnulífsins
    í samtökum fursta og greifa í heilagri sambúð með forustu ASÍ.

  • Pétur Örn Björnsson

    Hvað með okkur vesæla borgarana?

  • Jónas Bjarnason

    Ég þakka aftur Einar, þú stendur þig vel. Ég er sammála flestum hér að ofan nema honum Hannesi. Hann áttar sig ekki á því, sem hér er um að tefla. Og hvað er í húfi. – Mér sýnist að þú, Einar, sért um það bil að hafa sigur í þessu máli. Það verður þá saga til næsta bæjar. – En ekki er bara um að ræða sjávarútvegsmálin. Eins og fram kemur hér að ofan hjá Pétri þá er um að ræða þátt opinberrar stofnunar undir handarjaðri ríkisins, stjórnvaldsstofnun, og þátt hennar í áframhaldandi hrunþróun, samansúrrun valds og hroka.
    Gangi þér vel áfram.

  • Hafsteinn Asgeirsson

    Hann Hannes her a undan hefur greinilega misst af einhverju i thessu mali og nennir greinilega ekki ad lesa ser til. Hefur sennilega verid bundinn a landsfundi, vid ad klappa fyrir odrattunum. En thad er ekkert unarlegt tho menn seu argir yfir skepnuskapnum tharna.
    En hjartans thakkir til thin Einar fyrir ad hreyfa malum og lofa okkur ad fylgjast med.

  • Hreggviður

    Þetta er frábært hjá þér Einar og þú ert kominn með RÚV út í horn.

  • Frábært framtak, takk fyrir þetta. Þetta er alveg svona ‘Just do it’ dæmi.

    Við þurfum fólk eins og þig …. á þing !

  • Gunnar Gunnarsson

    Ég þakka þér Einar kærlega fyrir frumkvæðið sem þú tókst og fylgdir eftir. Megi borgarar þessa lands taka þig til fyrirmyndar.

  • Valur Bjarnason

    Ríkisútvarpið er í bullandi blárri pólitík bæði ríkissjónvarpið og ríkisútvarpið!!! Þeir voru að lesa auglýsingu frá íslenskum útvegsmönnum núna rétt í þessu á rás tvö. Klukkan 16:59.

  • Sigfinnur Þór

    Ég trúi því varla að RÚV ætli að hætta LÍÚ áróðrinum, þar er nú svolítið sjalla dekur í gangi, þú átt svo sannarlega þakkir skildar, Einar þakka þér fyrir…..

  • Jón Óskarsson

    Auglýsingar frá Samtökum atvinnulífsins í sama tóni og útvegsmanna dynja á okkur í staðinn.

    „Rjúfum kyrrstöðu“ segja þeir í sífellu í útvarpi allra landsmanna, Ríkisútvarpinu.

  • Unnur G. Kristjánsdóttir

    Þú átt heiður og þakkir skilið. Ætla að biða um að þú verðir skipaður í útvarpsráð!

  • Frábært framtak Einar hafðu hjartans þökk fyrir.

  • Leifur A. Benediktsson

    Einar Steingrímsson,

    Þú ert samnefnari flestra okkar sem ,,kommenta“ hér. Þetta er með betri frumkvæðum sem ,,borgari“ þessa lands. Eyjapeyinn Páll Magnússon útvarpsstjóri LÍÚ Mafíunnar og FLokksins er ekki hlutlaus aðili í þessu auglýsingamáli,það er dagljóst.

    Ég skora á þig og alla þá sem vilja sjá nýtt og betra Ísland til framtíðar, að sameinast um að stofna einhvers konar samtök sem taka vilja á hreðjatökum sérhagsmunaaðaðalsins á sameign þjóðarinnar.

    Hjartans þakkir fyrir eljuna Einar Steingrímsson,,borgari“

  • Þórhildur Lilja Þorkelsdóttir

    Takk fyrir. En eins og Jón Óskarsson sagði, það er í fleiri horn að líta. Áfram með smjörið. Burt með þennan DÓLGAÁRÓÐUR.

  • Sigurður Hr. Sigurðsson

    Takk kærlega, Einar. Almenningur á Íslandi er skattlagður sérstaklega til að standa straum af kostnaði við rekstur þessa fjölmiðils og það gengur gjörsamlega fram af venjulegu fólki að hlusta á linnulausar auglýsingar frá LÍÚ milli þess sem einhverri fáránleikasamkomu stjórnmálaflokks er gerð meiri og ítarlegri skil en öðrum sambærilegum.

  • sumarliði

    Glæsilegt hjá þér Einar, þakka þér fyrir

  • Elín Erna Steinarsdóttir

    Takk aftur fyrir dugnað þinn Einar.
    Baráttan er rétt að byrja. Hefur þú reynt að senda auglýsingar inn á Bylgjuna, sem mikið er hlustað á. Þar glymja þessar ósmekklegu auglýsingar frá LÍÚ á landsmönnum. Væri til í að taka þátt í auglýsingakostnaði.

  • lydur arnason

    Mikill slagkraftur í þessu máli og mun það eflaust opna augu margra.
    Áfram, Einar, áfram.

  • Jón Halldór Gunnarsson

    Takk fyrir þarft mál!

  • Leifur A. Benediktsson

    Ég vil taka undir með Elínu Ernu ,að það er vilji hjá mér og eflaust fjöldamörgum öðrum borgurum þessa lands að styðja þetta framtak þitt.

    Ég bíð fram mína krafta og vil styrkja þig og þetta brýna mál, almennings og barnanna okkar.

    Enn og aftur hvet ég ykkur til að koma saman og ræða málin. Það er aldrei brýnna en nú. Ríkisstjórnaræfillinn er að gefast upp fyrir LÍÚ Mafíunni.

    Það MÁ EKKI gerast. ÞAÐ MÁ ALLS EKKI GERAST kæru félagar. Stöndum saman og berjumst með kjafti og nöglum gegn óréttlætinu.

  • Steingrímur, það væri gaman ef þú gætir næst skrifað pistil um efni auglýsingarinnar frá LÍÚ og fært rök fyrir fullyrðingu þinni um að hér sé „ósmekklegur áróður“ á ferð, en ekki t.d. ábending til fólks um alvarleg mistök sem ríkisstjórnin er að vinna að.

    Hvernig verða þessir tveir pistlar þínir skoðaðir ef hinn meinti „ósmekklegi áróður“ reynist réttur og á rökum reistur. Ég leyfi mér að fullyrða að þú sért hér að reyna að skjóta sendiboðann frekar en að meta skilaboðin sem hann flytur.

    Í samantekt ertu bara að þræta um hvort rétt „signature“ sé á auglýsingunni, eða að signature-ið sé ekki nógu nákvæm og það hrós sem þú færð hér fyrir framgöngu þína sé einfaldlega fólk nýtur þess að hatast út í „útgerðaraðalinn“ eins og þú kallar fólk sem starfar í sjávarútvegi.

  • Stekkur þá ekki Sigurður Gunnarsson fram – vel merktur LÍÚ – því ef klikkað
    er á undirstrikað nafn hans hér að ofan dúkkar heimasíða LÍÚ upp.

    En undarlegra er, hvaða erindi á hann við Steingrím, og hvaða Steingrím?

  • Jakob Jónsson

    Einar! Hafðu þökk fyrir framtakið og eljuna!

  • Manni hálfsvelgist á, yfir að það skuli þrátt fyrir alt,
    vera til á Íslandi, fólk einsog þú Einar Steingrímsson.
    Kærar þakkir.

  • Diogenes, það þarf ekki djúpa rökhugsun til að finna út að athugasemdinni er beint til til Einars, þess sem á þessa blogg síðu og er jafnframt Steingrímsson.

    Það er einfaldlega fróðlegt fyrir fólk að lesa það efni sem sett er fram á http://www.liu.is, af þeirri einföldu ástæðu setti ég linkinn þarna inn.

    En þeir sem gefa lítið fyrir röksemdafærslu og láta stjórnast af eintómum tilfinningum geta í það minnsta skoðað þar skemmtilegar myndir.

  • Sigurður Gunnarsson, ertu algjörlega á valdi tilfinninga LÍÚ?
    Af hverju komstu ekki bara með krækjuna á linkinn,
    í stað þess að afhjúpa nafn þitt, sem beintengdan LÍÚ?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og átta? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur