Laugardagur 03.12.2011 - 13:31 - 10 ummæli

Áfram spilling í Bankasýslunni?

Samkvæmt þessari frétt hefur stjórn Bankasýslunnar neitað að birta upplýsingar um umsækjendur um stöðu forstjóra, þótt umsóknarfrestur sé löngu liðinn.  Erfitt er að sjá annað en að það fari í bága við 4. tölulið 4. greinar Upplýsingalaga, þar sem stendur:

… þó er skylt að veita upplýsingar um nöfn, heimilisföng og starfsheiti umsækjenda þegar umsóknarfrestur er liðinn.

Ég fæ ekki betur séð en að stjórn Bankasýslunnar sé að taka sér vald sem hún hefur ekki, með því að draga að birta þessar upplýsingar.  Þetta er reyndar lenska í íslenskri stjórnsýslu, og sýnir glöggt hvað er að varðandi upplýsingamál á Íslandi, og hversu ósiðlegt viðhorf ríkir til hlutverks þeirra sem sitja í opinberum embættum:

Íslenskt valdafólk virðist ganga út frá því að valdið sé þess til að ráðskast með, en ekki að það eigi að þjóna almenningi í störfum sínum.  Meðan það viðhorf er ríkjandi er því miður lítil von til að upprætt verði sú spilling og það fúsk sem hefur gegnsýrt stjórnsýsluna.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

 • Einar Guðjónsson

  Var strax fyrirsjáanlegt þegar skipaður formaður reyndist vera “ undrabarnið“ úr LÍN. Guðrún þessi var ein sú síðasta sem stóra-hrunstjórnin réði sem kunningja í starf framkvæmdastjóra LÍN.

 • Gapandiundrandi

  Að hætti góðra bænda, hef ég að undanförnu mælt mjög með hrútaþukli
  þannig að vandað sé vel til vals hrúta til gimbra.

  En lítt hafa menn hlustað eftir ráðum mínum. Hafa mér virst vera álög mikil á íslenskum ráðunautum og þeir lítt gagnast nokkrum.

  Má þar að nokkru um kenna, að vel er þekkt þykkja fjármálaráðunautsins, Þistilfjarðar-Gríms sem stýrir fjársýslustofnun ríkisins, að sjái maður skalla hans stefna í eina átt (sem hann hefur í kveri sínu útlistað), þá virðist nú mega ganga út frá því sem vísu, að hann muni á einu augabragði snarsnúast og ganga í þveröfuga átt og rugla þar með sauði sína.

  Það segir í þvísa riti, Prédikaranum, að þannig menn séu aular og ekki séu þeir góðir hirðar, þó fjárhirðar séu, og muni þeir aldrei fegurð lilja vallarins öðlast, sama hvað þeir snarsnúast og er ég því sammála.

  Kann þessi árátta fjármálaráðunautsins reyndar að stafa af síðari tíma sambúð hans með forusturollunni Jóhönnu hinni þveröfugu og verða þau þá þá bæði þveröfug og til lítillar gleði fyrir kynvíst sauðfé og hvatlegt til framgöngu.

  Ljóst er að pung skal kreista og þá sést hvort sauður gagnist og sé á vetur setjandi. Vilji menn hafa að einhverju mín orð, þá sýnist mér að fullreynt sé með þau bæði, hin þveröfugu og að fellir verði mikill sé ekkert að gert. Mæli ég með vetrarslátrun og að kynvísu sauðfé og hvatlegu til framgöngu sé nú hleypt mjög á fengitíma og mun það þá verða til lífsbjörgunar þjóð vorri og vor koma fyrr en flesta gruna og grös verða grænni og býli blómlegri en menn hafa áður sé.

 • Það kemur skýrt og greinilega fram í fréttinni að það eigi að birta nöfnin. Vika til eða frá skiptir engu máli.
  Það virðist henta Fréttastofu Ríkisútvarpsins í anda Hádegismóra að búa til tortryggni í kringum þetta.

 • Þvaðrandi gapuxi

  Ég ætla að þegja.

  Megi sumir aðrir gjöra slíkt hið sama.

 • Gapandiundrandi

  Ítreka vil ég að forðast skal þá vönuðu sauði er selja sjálfa sig og aðra skylda með pappírsvafningum mikilum og geypa mjög af og þykjast vel kýldir, en ég mæli eindregið og afdráttarlaust og af þrótti miklum með að líta beri eingöngu til þess sem af skrokkum dinglar nöktum.

  Verður þetta aldrei nógu oft ítrekað og er það ástæða þess að vitrir bændur ástunda mjög hrútaþukl, samkvæmt góðum hefðum og gildum, svo þeir þekki hvað af búpeningi þeirra verður, er til framtíðar og lífsbjargar verði.

 • Gapandiundrandi

  Þvaðrandi gapuxa er best að þegja, það segir sig sjálft.
  Má undrum sæta að maður sem kannast þannig við nafn sitt,
  skuli yfirhöfuð þvaðra í uxahætti sínum. Vart dráttarfær.

 • Pétur: Það kemur skýrt fram í lögum að það eigi að birta nöfnin „þegar umsóknarfrestur er liðinn.“ Það er ekkert í lögunum sem gefur til kynna að viðkomandi yfirvald megi ákveða að geyma það eftir að umsóknarfrestur er liðinn,

  Afstaðan sem birtist í þessu finnst mér afar ámælisverð: Stjórnin fer með þessar upplýsingar eins og sjálfsagt sé að hún ráði einhverju um þær. Það er fullkomlega óeðlilegt, því það er ekki hennar að ákveða hvenær almenningur fær aðgang að þessum upplýsingum sem við eigum rétt á samkvæmt þessum lögum.

 • Gapandiundrandi

  Velkist einhverjir í vafa, þá eru hollráð mín í anda þess er Einar mælir
  og er það kjarni málsins, sjálfs vandamálsins sem þjóðin þarf að þola:

  „Íslenskt valdafólk virðist ganga út frá því að valdið sé þess til að ráðskast með, en ekki að það eigi að þjóna almenningi í störfum sínum. Meðan það viðhorf er ríkjandi er því miður lítil von til að upprætt verði sú spilling og það fúsk sem hefur gegnsýrt stjórnsýsluna.“

  Gegnsæi var lofað. Velferð var lofað. Nýjum vinnubrögðum var lofað.

  En hvað sjáum við annað en hið gamla, úlfana fela sig í sauðagærum?
  Undrist því eigi hvöss orð mín um geldfé og gærur er nú kýla vömb sína og hafa um áratugi gert og gasprað mjög um göfuglyndi sitt, en öfugsnúið er það og það vita hér flestir.

 • Ingimar S. Friðríks

  Þetta bankasýslumál stjórnvalda er eitt allsherjar klúður frá upphafi til enda.

  Það ætti að leggja bankasýsluna niður, því það eru ekki svo margir bankar eftir á hendi ríkissins, kannski 1 eða 2.

 • Halldór Björn.

  Er Íbúðalánasjóður að oftaka stórar upphæðir af almenningi?
  Verðtryggt lán eins og Íbúðalánasjóður reiknar það, og hins vegar eins og Guðbjörn vill meina að það sé samkvæmt lögum.
  Þetta er dæmi fyrir stærðfræðing, hvað er rétt?
  gudbjornj.blog.is

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og tveimur? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur