Sunnudagur 06.05.2012 - 11:59 - 15 ummæli

Hvað má forsetinn gera?

Því var lengi haldið fram að 26. grein stjórnarskrárinnar (sem fjallar um hvað gerist ef forseti synjar lögum staðfestingar) væri ekki „virk“, þ.e.a.s. að forseti gæti ekki neitað að skrifa undir lög. Annað er komið á daginn, og enginn reynir lengur að halda fram að forseti hafi ekki þennan rétt.

Í 25. grein stjórnarskrárinnar stendur þetta:

Forseti lýðveldisins getur látið leggja fyrir Alþingi frumvörp til laga og annarra samþykkta.

Þetta gæti varla verið skýrara: Forseti getur lagt fram frumvörp sem Alþingi verður þá að fjalla um. Auðvitað dagar fullt af frumvörpum uppi á Alþingi, svo þingheimur gæti þannig sniðgengið frumvörp frá forseta. En ef forsetinn beitti þessu ákvæði eins og núverandi forseti hefur beitt synjunum, þ.e.a.s. í samræmi við augljósan meirihlutavilja þjóðarinnar, þá yrði erfitt fyrir Alþingi að hunsa slík frumvörp.

Hér er dæmi um frumvarp (í grófum dráttum) sem forseti gæti lagt fram: Allur fiskveiðikvóti verður innkallaður, í jöfnum skrefum á næstu tíu árum.

Áhugavert væri að heyra hvort forsetaframbjóðendur hyggjast nýta þennan möguleika sem stjórnarskráin færir forsetanum.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (15)

 • En þó að forseti léti leggja fyrir Alþingi þingmál, til dæmis þingsályktunartillögu um að ríkisstjórn verði falið að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um leiðréttingu lána og afnám verðtryggingar, er ekki þar með sagt að Alþingi myndi afgreiða málið, hvað þá á tiltekinn veg, án þess að til frekari þrýstings af hálfu forseta kæmi. Í því sambandi gæti forseti neitað að staðfesta öll lög frá Alþingi þangað til Alþingi hefði afgreitt mál forseta.

  Ef eitthvað í líkingu við þessa atburðarrás færi af stað yrðu sjálfsagt einhverjir til að benda á 11. gr. stjórnarskrárinnar. Því skv. henni þarf samþykki ¾ þingmanna til að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um lausn forseta frá embætti. Yrði niðurstaðan úr þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu aftur á móti gegn niðurstöðu Alþingis bæri að rjúfa þing og boða til kosninga.
  http://blog.eyjan.is/tbs/2012/01/15/forseti-islands-og-heimilin/

 • Skoðaðu 38. greinina. Hún kveður á um hverjir mega leggja fram frumvörp.

 • Takk fyrir ábendinguna, Teitur. Ég sé hins vegar ekki að þetta takmarki þann rétt forseta sem kveðið er á um í 25. grein.

 • Björn Kristinsson

  38. greinin: „Rétt til að flytja frumvörp til laga og tillögur til ályktana hafa alþingismenn og ráðherrar.“

  25. greinin: „Forseti lýðveldisins getur látið leggja fyrir Alþingi frumvörp til laga og annarra samþykkta.“

  Sé engar mótsagnir í þessum tveim greinum og þannig er ég sammála þér Einar.

 • Vigfús Magnússon

  Er meiningarmunur á orðalaginu getur látið leggja annars vegar og getur lagt hins vegar?

 • Þorsteinn Úlfar Björnsson

  Getur lagt sýnist mér að eigi við að viðkomandi geri e.h. sjálfur.

  Getur látið leggja sýnist mér að þýði að vikomandi verð að fá einhvern til að gera e.h. fyrir sig.

 • Ómar Kristjánsson

  Jú það er víst einhver sem bendir á það augljósa að forseti hefur ekkert vald til að neita lögum staðfestingar. það er ég. Ég bendi enn á hið augljósa. Forseti er abyrgðar og valdalaus ef Skráin er túlkuð heildstætt og lagagreinar hennar samhliða – sem verður að gera.

  25 grein þýðir ekki að forseti geti lagt sjálfur fram frumvörp. Grein þýðir að réttur ríkisstjórnarinnar til að leggja fram frumvörp er byggð á þessari heimild forseta. þetta er formið. 13. grein er algjör lykilgrein í Skránni. þessi frumkvæðisréttur forseta sem kemur fram í 25. grein er í raun í höndum Ráðherra og í hverjum málaflokki fyrir sig samkvæmt 13.grein.

  Fyrst eru frumvörp eða þingsályktunartillögur unnin og samykkt stjórnarflokka etc. og síðan eru fundir í Ríkisráði sem er mystískt ráð og þar fær efnið formlega fullkomnun með náveru forseta. Fundir í Ríkisráði eru þá sjaldan og oft er þetta afgreitt utan hefbundins fundar, að mér skilst.

  Ef það á að fara túlka 25.grein eitthvað nýmóðins – þá eru menn að segja að forseti geti í raun komið í veg fyrir að lög verði samþykkt á alþingi. þ.e. hann getur komið í veg fyrir að frumvörp séu lögð fram.

  Og þetta er rétt hjá mér – rangt hjá öllum öðrum. Allir aðrir eru bara útá túni með þetta.

 • Ómar – hvað er það sem gerir þig að yfirtúlkanda stjórnarskrárinnar? Og taka kjósendur, þigmenn, ráðherrar og forset mark á túlkunum þínum?

 • Björn Kristinsson

  „Og þetta er rétt hjá mér – rangt hjá öllum öðrum. Allir aðrir eru bara útá túni með þetta.“

  Á Íslandi er staðan þannig að þegar kemur að einhverju málefni eru aðeins til tvo sjónarmið:

  Með eða á móti. Ekkert annað rúmast í menginu. Alveg sama hvort það kemur að stjórnmálum, samningum, áætlunum o.s.frv. Lífið er sem sagt aðeins svart og hvítt.

  Þetta litar svo inn í umræðuhefðina:

  „Ég … og …þið“

  Og varðandi stjórnarskrána þá vill það svo til að það eru deildar meiningar um túlkun hennar. Var það ekki einmitt þess vegna sem menn vildu skerpa á ákveðnum atriðum í henni ?

 • Ómar Kristjánsson

  það má segja það að staðan sé orðið þannig kringum þessa blessuðu 26. grein vegna lýðskrums – að það sé ég á móti rest. þó get ég vísað til ekki ómerkari mans en Þórs Vilhjálmssonar sem var eitt sinn dómari við EFTA Dómsstólinn sem er líka inná þvi að 26.greinin er í raun valdheimild Ráðherra. þ.e.a.s. ef Skráin er samtúlkuð.

  Nú, hinsvegar fagna ég umræðu um aðrar greinar sem virðast við fyrstu sín gefa Forseta persónulega heimild og vald. Fagna því. Vegna þess einfaldlega, að þá kemur svo vel í ljós hve menn eru á miklum villigötum með þetta.

  þessi grein, 25.grein, hún hefur verið svona óbreitt frá 1874. þ.e. aðeins eitt orð tekið breitingum. Konungur breitist í Forseti.

  þetta var haft svona til að gefa efninu eitthvert form. Konungur var áður allsráðandi. Svo kom þingræði o.s.frv. Einhversstaðar þurfti valdheimild að koma frá formlega séð. það verður ekkert til úr engu. Menn höfðu ekki meira hugmyndaflug í þá daga en að hafa það með þessum hætti. Auk þess sem þetta er í sjálfu sér ágæt lausn. Vísar til hefðar og tengir saman söguna etx.

  Eins og menn eru farnir að tala núna og mikil tíska er – þá er eins og menn vilji snúa aftur til einveldis konungs! Verði þeim að góðu segi ég nú bara. Við skulum bara vona að það verði þá upplýstur einvaldur.

 • Ég veit að þetta er smá „cherry-picking“ hjá mér, en að mínu mati þá má alveg skilja forsetaembættið á annan (og mun virkari en hingað til) máta. Hér eru nokkrar úrklippur úr nokkrum greinum sem í sínu innbyrðis samhengi lýsa mun virkara Forsetaembætti en hingað til:

  1. gr.: Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið.
  11. gr: Forseti lýðveldisins er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum. Svo er og um þá, er störfum hans gegna
  13. gr: Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt.
  15. gr: Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim.
  16. gr: Forseti lýðveldisins og ráðherrar skipa ríkisráð, og hefur forseti þar forsæti. Lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir skal bera upp fyrir forseta í ríkisráði.
  20. gr: Forseti getur vikið þeim frá embætti, er hann hefur veitt það. Forseti getur flutt embættismenn úr einu embætti í annað, enda missi þeir einskis í af embættistekjum sínum, og sé þeim veittur kostur á að kjósa um embættaskiptin eða lausn frá embætti með lögmæltum eftirlaunum eða lögmæltum ellistyrk.
  21. gr: Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki.
  24. gr: Forseti lýðveldisins getur rofið Alþingi, og skal þá stofnað til nýrra kosninga

  Sum sé: Forseti Íslands skipar í Hæstarétt og getur því vikið öllum Hæstarétti frá (15/1998 gr. 4), hann getur sent þingið heim, hann getur sagt Ráðherrum fyrir verkum og verið ábyrgðalaus sjálfur, og sá ráðherra gagnvart því sem hann fyrirskipaði.

  Það væri mjög athyglisvert að sjá einstakling í embættinu með sama skilning á Stjórnarskránni og ég og ég tel að FLokkurinn myndi nú hasta á sína menn að samþykkja HVAÐ SEM ER í stað þessa gatasigtis sem stjórnarfar okkar er núna þar sem þeirra menn hafa í gegn um tíðina ekki riðið feitum hesti frá Forsetakjöri.

 • 11., 13. og 14. gr. stjórnarskrárinnar þýða að forseti hefur í reynd ekki það vald sem víða er sagt í henni að hann hafi. Þar á meðal er vald skv. 25. gr. til að leggja fram stjórnarfrumvörp, en það er í reynd í höndum forsætisráðherra (þótt forseti samþykki framlagningu slíkra frumvarpa formlega hefur hann ekki frumkvæði að henni). En allt er þetta til vitnis um hversu gamla stjórnarskráin er torræð og torskilin öllum almenningi. Úr þeim stóra galla, og miklu fleirum, er bætt í nýju stjórnarskrárfrumvarpi Stjórnlagaráðs.

 • Í fyrsta lagi, þá erum við að tala um túlkanir ekki heilagan sannleika í þessum málum. Sumir hér virðast ekki meðtaka þá staðreynd sýnist mér.

  Og reyndar er alveg eins hægt að túlka stjórnarskránna á þann veg með 11., 13. og 14. gr. í huga að Hér sé forseti sem að enga ábyrgð ber á því valdi sem hann fer með, skipar ráðherrum hvað þeir eiga að gera og ráðherrar taka fallið ef að illa fer og svo að lokum þá getur hann rekið þá að vild Pútín style skv. 15.gr.

  Það er hægt að túlka þessa stjórnarskrá á marga vegu, og það er engin ein túlkun réttust nema sú sem að flestir aðhyllast á hverjum gefnum tíma. Og þegar það breytist er þetta dæmi um hlut sem að kallast lifandi stjórnarskrá.

  Ef að forseti kæmist til valda með þá túlkun sem að ég nefndi að ofan og Alþingi kæmi sér ekki saman um að leysa hann frá störfum og ráðherrar neituðu að fylgja tilskipunum hans og forsetinn neitaði að staðfesta lög frá Alþingi þá værum við nú komin með meiriháttar uppskrift að stjórnarskrárkrísu ekki satt? Og sumir forsetaframbjóðendur í dag hafa þessar hugmyndir um forsetaembættið að einhverju leyti…

  Þess vegna er mikilvægt að fá örlítið skýrari stjórnarskrá hvað varðar valdskiptingu og hlutverk hinna ýmsu stoða íslenska stjórnkerfisins.

 • Ég er sammála því að það þarf að skýra valdsvið forseta, og ég er mjög fylgjandi því að tillaga Stjórnlagaráðs verði samþykkt (þótt ég sé ekki sammála öllu í henni).

  Mér finnst hins vegar ljóst að samkvæmt núverandi stjórnarskrá GETI forseti lagt frumvörp fyrir Alþingi. Það sem stendur í 11,, 13. og 14. grein sé ég ekki að komi í veg fyrir það, enda eru það ekki endilega stjórnarathafnir eða valdframkvæmd að leggja fram lagafrumvörp. Rétt er líka að hafa í huga að því var af mörgum haldið fram að það gilti um 26. greinina að hún færði forseta ekki það vald sem hann nú hefur augljóslega, eins og kom í ljós þegar því var beitt.

  Mér finnst miklu eðlilegra að tiltekinn hluti kjósenda, t.d. 10%, geti krafist þjóðaratkvæðis um ýmis mál, og einnig að slíkur fjöldi gæti lagt fram frumvarp til meðferðar Alþingis. Það hefur sýnt sig, td. í kvótamálinu, að Alþingi er um megn að gera það sem yfirgnæfandi meirihluti almennings vill gera, og það þrátt fyrir að stjórnarflokkarnir hafi haft yfirlýsta stefnu í þá veru. Fengju almennir kjósendur slíkt vald væri óþarfi að hafa forsetaembætti, og skynsamlegast að leggja það niður.

 • Gísli I

  Það eina sem við þurfum að gera er að kjósa Sjálfstæðisflokkinn og Ólaf Ragnar yfir okkur. Þá munu þessi mál skýrast af sjálfu sér. Hvorugur þessara aðila telur þörf á breytingum á stjórnarskrá eða frekari skýringum á valdsviði forseta. Það er athyglisvert að loksins hefur Sjálfstæðisflokkurinn fengið SINN forseta.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sjö? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur