Mánudagur 16.07.2012 - 22:43 - 8 ummæli

Greiningardeildir og aðrir spámenn

Árið 1997 fengu Robert C. Merton og Myron Scholes Nóbelsverðlaunin í hagfræði. (Það er reyndar ekki alveg rétt, því umrædd verðlaun veitir sænski seðlabankinn og kallar „verðlaun til minningar um Alfred Nobel“, og þeir eru til sem telja að þessi verðlaun séu álíka mikill virðingarvottur við Alfred og þegar friðarverðlaunin voru veitt Henry Kissinger, eða Barack Obama um það leyti sem hann var að herða á hernaðaraðgerðum í Afganistan, sem kostað hafa hundruð eða þúsund saklausra borgara lífið.)

Verðlaunin fengu þeir Robert og Myron fyrir kenningar sem snerust um að meta verðgildi fjármálagerninga sem kallaðir eru „options“ á ensku.  Þeir geta til dæmis falist í því að ég semji við þig um að eftir tíu ár sért þú skuldbundin til að selja mér tíu þúsund hlutabréf í tilteknu fyrirtæki, á hundrað krónur stykkið.  Sé markaðsverð bréfanna 200 krónur græði ég stórlega (og þú tapar), en sé gangverð þeirra lægra en 100 krónur læt ég vera að kaupa af þér, og hef þá aðeins tapað því sem ég borgaði þér upphaflega fyrir að tryggja mér kaupréttinn.

Robert og Myron voru lykilmenn í vogunarsjóði sem hét Long Term Capital Management, eða LTCM.  Þetta var gríðarlega stór sjóður, sem upphaflega gekk vel, og var rekinn í samræmi við kenningar þeirra félaga. Árið 1998, ári eftir að Robert og Myron fengu „Nóbelsverðlaunin“, urðu hins vegar ýmsir atburðir sem leiddu til þess að LTCM fór á hausinn með miklum hvelli, og með talsverðum eftirskjálftum á fjármálamörkuðum.

Einhverjum þætti líklega eðlilegt að svipta Robert og Merton verðlaunum sænska seðlabankans, en svoleiðis er víst aldrei gert (og reyndar eru Nóbelsverðlaunin á flestum sviðum ekki veitt fyrr en löngu er orðið ljóst að slík „hneyksli“ geti bara ekki átt sér stað, af því að viðkomandi fræðikenningar geti alls ekki verið tóm þvæla).

Þvert á móti voru kenningar þessara manna leiðarljós í starfi margra fjármálaverkfræðinga eftir hrun LTCM, og að minnsta kosti næstu tíu árin. Þá, árið 2008, varð allsherjarhrun á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, eins og allir vita.

Samt er uppi rökstuddur grunur um að umræddar kenningar, sem og önnur „fræði“ sem stunduð hafa verið óbreytt gegnum endurtekin hrun stórra fjármálastofnana, séu ennþá grundvöllur fjármálastarfsemi sem enn gerir þá ríku ríkari og þá fátæku fátækari, í skjóli ríkisvaldsins, sem tryggir viðkomandi fjármálastofnunum rekstrargrundvöll, og jafnvel reiðufé, á kostnað almennings.

Til að bæta gráu ofan á svart eru íslenskir fjölmiðlar svo daglega uppfullir af spám svokallaðra „greiningardeilda“ bankanna, og annara fjármálaspekinga. Fjölmiðlafólkið, að ekki sé nú minnst á hið virðulega viðskiptafréttafólk, virðist hafa gleymt því að hér, og víðar, varð svokallað hrun. Og að fólkið sem olli því, og „sérfræðingarnir“ sem sáu bara rósrauða framtíð þar til veröld þeirra hrundi (að mestu ofan á saklaust fólk), er sama liðið og þetta fjölmiðlafólk slefar nú yfir í taumlausri aðdáun.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

 • Gunnar Tómasson

  Seðlabanki Svíþjóðar er stærri útgáfa af Seðlabanka Íslands.

  Ef Seðlabanki Íslands hefði orðið fyrri til og stofnsett Nobel Memorial Prize in Economic Science, þá hefði það verið talið til marks um kímnigáfu þeirra sem þar ráða ríkjum.

  Núna, þegar þau hagvísindi sem Seðlabanki Svíþjóðar kaus að heiðra með þessum hætti hafa rústað alþjóðapeningakerfinu m..m., þá er nánast eins og þar hafi verið um aulafyndni að ræða.

 • nóboddíinn

  Hin sænska hirð og elíta hennar hafa í árhundruðir verið samansúrruð með Habsborgurum, sem ráða mestu í mið-Evrópu, en springa alltaf á limminu á Balkan-skaganum. Það mun brátt gerast enn eina ferðina.

  Þar hefur sænska hirðin og elíta hennar leikið hinn skinhelga hræsnara, með slétt yfirborð, en stríðstól undir borðið.

  Skil alltaf andúð Egils Skalla-Grímssonar á undirferli þeirra betur og betur.

 • Hagfræði er ekki vísindi.

  Hefur ekkert forspárgildi.

 • Hefur stærðfræðingurinn Einar velt því fyrir sér með hvaða aðferðum fræðigreininni er misbeitt til að „búa til gróða“. Það eru verkfræðingar á launaskrá banka í því göfuga starfi að „búa til fjármálagerninga!“ Hvað formúlum er beitt og skifta þær í raun nokkru öðru máli í samhenginu en að færa „vísindalega“ slykju yfir skipulagða glæpastarfsemi. Þar sem áður átti að halda fólki í þokunni með trúartilvitnunum og siðaboðskap ráðvendninnar er nú verið að beita „raungreinum“ á lýðinn og mata hann með oblátum hinna æðri lögmála sem í dag eru tali hvað óskeikulust?

 • Það er ekki það sama að hanna verðmódel og að nota þau svo á óábyrgan hátt. Þetta er eins og að hanna góða skó og hlaupa svo fram af bjargi í þeim. Lendingin hefur ekkert með gæði skónna að gera.

 • Jón Jón Jónsson

  Vel orðað hjá Gillmann, enda öllum orðið ljóst að það á aldrei að hleypa verkfræðingum í afleiðu-reikninga. Aldrei.
  Slíkt endar í stökkbreyttu helvíti vaxtaveldisvísanna,
  stigvaxandi ris, climax og svo með skallann niður, aftur á bak. Bang.

  Það á heldur ekki að hleypa verkfræðingum í hönnun gatna og umferðarvafninga. Það endar alltaf í afleiðu-bransa þeirra, með slaufum og vafningum út um allar koppagrundir. Það á að senda verkfræðinga í heimspekilegt forspjall. Fleiri er heimurinn en heimur tommustokksins.

 • Þegar LTCM féll, þá var sjóðurinn talinn of stór til að falla. Þess vegna hljóp Timothy Geitner undir bagga með þeim og greiddi kröfuhöfum 4 ma. USD svo hægt væri að leysa upp LTCM.

  Ástæðan fyrir falli LTCM var hrunið í Rússlandi. Hjá sjóðnum hafði þess verið gætt að hafa ekki öll eggin í sömu körfunni. Allt sem þeir félagar snertu varð að gulli og eltu flestir vogunarsjóðir þá í blindni. Svo varð hrunið í Rússlandi. Eftir hádegi á föstudegi í Evrópu. Einn eigendanna (þeir voru fjórir) hafði flogið til vesturstrandarinnar í laxveiði um helgina. Þegar hann kom til baka var LTCM farið á hausinn. Í ljós kom að vissulega voru eggin ekki öll í sömu körfunni, þeim var ágætlega dreift, en körfunum hafði síðan verið haganlega komið fyrir einni stórri körfu, þ.e. í nær umhverfinu virtust eggin vera í mismunandi körfum, en þegar skoðað var úr meiri fjarlægð voru þau öll í þeirri sömu.

  Fáránleikinn við fall LTCM er að menn hafi ekki dregið lærdóm af því sem þar gerðist. En eins og með svo margt annað í fjármálaheiminum, þá skipti meira máli að fela staðreyndir svo menn héldu trúverðugleikanum. Það sem ég hef kynnt mér um þetta mál bendir til þess að betra hefði verið fyrir fjármálaheiminn að láta LTCM falla með látum, því þá hefðu menn líklegast vandað sig betur eftir það. En eins og oft áður, þá skipti orðspor fárra meira máli en að vara fjöldann við röngum aðferðum. Aðferð þeirra félaga var nefnilega ekki bara notuð áfram, heldur var hún kennd áfram við virta háskóla um öll Bandaríkin.

 • Það er sífellt að koma betur í ljós, að það viðskiptalíkan sem byggir á stöðugt auknum hagvexti, hefur engan „raunverulegan“ grunn.

  Það þarf ekki merkilega stærðfræðinga, (né verkfræðinga) til að reikna út hvaða kröfur, segjum 3% ávöxtunarkrafa, hefur á hagkerfið í nokkra áratugi.

  Sú hugmynd ein og sér er augljóslega gölluð. Það sér hver heilvita maður.

  Nú verður áhugavert hvernig jarðarbúar munu bregðast við þeirri staðreynd.

  Kannski vilja allir bara græða á daginn og grilla á kvöldin.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og þremur? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur