Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði í útvarpi í kvöld, varðandi endursendingu írasks hælisleitanda til Noregs: „Ég hygg að norskir aðilar sendi ekki menn í opinn dauðan eða bráða lífshættu. Við verðum að treysta því alla vega að svo sé og þá væri það hreinlegra fyrir okkur að ganga út úr þessu Dyflinnarsamkomulagi.“
Hér fer Ögmundur með rangt mál, og sýnir fullkomna fyrirlitningu þeim mannréttindasáttmálum sem Ísland er að aðili að. Eins og vandlega hefur verið útskýrt mega íslensk stjórnvöld alls ekki taka svona á málum af þessu tagi, samkvæmt úrskurði Mannréttindadómstóls Evrópu:
Ljóst er að dómur Mannréttindadómstólsins leggur þær skyldur á íslensk stjórnvöld eins og stjórnvöld annarra Evrópuríkja að ganga ekki út frá því sem vísu að annað aðildarríki í samstarfinu, jafnvel þótt bæði séu skuldbundin af Mannréttindasáttmála Evrópu, geti tryggt hælisleitendum viðunandi aðbúnað sem samrýmist kröfum 3. gr. sáttmálans. Sú sjálfvirkni sem almennt er ráðgerð í Dyflinnarreglugerðinni um endursendingu hælisleitanda til annars aðildarríkis, þar sem ríki ákveður aðeins í undantekningartilvikum að taka umsókn til efnislegrar meðferðar, er því ekki ásættanleg.
Ögmundur Jónasson hefur verið mannréttindaráðherra í nokkur ár, og honum er vel kunnugt um þetta allt, auk þess sem aðstoðarmaður hans, Halla Gunnarsdóttir, hefur farið fyrir sérstökum starfshópi sem fjallað hefur um málefni flóttamanna í heilt ár (en virðist reyndar ekki hafa eytt miklum tíma í að tala við flóttamennina sem um er vélað).
Þetta er heldur ekki eina tilfellið af þessu tagi; í fyrra felldi Ögmundur úrskurð sem hefði leitt til, ef viðkomandi hefði ekki farið í felur, að flóttamaður sem alið hafði allan sinn aldur sem þræll í Máritaníu hefði verið sendur tilbaka til Noregs. Samt hafði Útlendingastofnun undir höndum yfirlýsingu um að hann yrði sendur þaðan tilbaka til Máritaníu, sem hefði verið skýlaust brot á Flóttamannasamningi Sameinuðu Þjóðanna og íslenskum lögum.
Tal Ögmundar um Dyflinarreglugerðina er líka siðlaust. Dyflinarreglugerðin leggur engar skyldur á herðar íslenskum stjórnvöldum um að senda flóttamenn tilbaka til annars lands. Að gefa í skyn að Ísland verði að segja sig frá henni til að geta staðið við úrskurði Mannréttindadómstóls Evrópu eru hrein og klár ósannindi.
Ögmundur Jónasson er ekki merkilegur pappír. Það væri svo sem í lagi ef ekki vildi svo til að ákvarðanir hans geta ráðið úrslitum um velferð, eða jafnvel líf, fólks sem hann tekur ákvarðanir um. Það er þjóðarskömm að þessi maður skuli bera ábyrgð á mannréttindamálum landsins.
Bara ein spurning.. Eigum við ekki nóg með okkur sjálf??
Þurfum við í ofanálag að halda uppi fólki sem við þekkjum ekki, né vitum haus né sporð á, hvað þá hvort það segi satt eður ei. Por favor..
Hinn fullkomni uppskafningur.
Maður sem breytir algjörlega um ham eftir að í valdastólinn er komið.
Ekki normalt að fólk geti verið svona ómerkilegt.
Svo velta menn því fyrir sér hvers vegna fólkið fyrirlítur stjórnmálamennina.
Ógeðslegt.
Ef þér finnst rétt, Kalla, að brjóta þá mannréttindasáttmála sem Ísland er aðili að, og jafnvel að senda flóttamenn tilbaka til landa þar sem þeir eiga yfir höfði sér pyntingar, þrældóm eða líflát, þá veit ég bara ekki hvað ég á að segja við þig. Nema hvað ég vona að það séu ekki margir Íslendingar svo grimmlyndir.
Ef ég skil þetta rétt, þá „flýr“ hingað flóttamaður sem flúið hefur til Noregs frá mögulega skelfilegum örlögum í sínu heimalandi. Flóttamanninum er snúið við til Noregs þar sem það verður á ábyrgð Norðmanna að taka á hans málum. Eigum við Íslendingar að bera ábyrgð á því hvernig Norðmenn afgreiða mál flóttamanna í sínu landi?
Hver er þá sök Ögmundar?
Já, Bjarni, við berum ábyrgð á því að senda ekki flóttamenn til Noregs nema geta verið viss um að þaðan séu þeir ekki sendir áfram í óviss örlög, samkvæmt þeim alþjóðasáttmálum sem Ísland er aðilar að.
Auðvitað ætti ekki að þurfa opinberar skuldbindingar til að við hegðuðum okkur eins og sæmilegt fólk í þeim efnum, en við höfum sem sagt skuldbundið okkur til þess formlega líka.
Að síðustu má svo nefna mannúðarsjónarmið, ef mannúðin er þá ekki alveg dottin úr tísku …
Við tökum sem sagt ekkert mark á dómgreind Norðmanna, teljum við þá standa okkur svona langt að baki í réttarfarslegum efnum?
Þú hefur margt til þíns máls. En samt treysti ég nú Norðmönnum best, þeir m.a.s. leyfðu Breivik að njóta fullra mannréttinda. Það hefur ekki verið auðvelt.
Bjarni og Guðný:
Það hefur reyndar talsvert verið fjallað um það í RÚV síðustu daga, að miklar efasemdir séu uppi í Noregi um að þar sé farið með flóttamenn eins og á að gera. Og, hér er rakin saga manns sem norsk yfirvöld lýstu yfir að þau myndu senda aftur til Máritaníu, sem hefði verið skýrt brot á mannréttindasáttmálum (og reyndar íslenskum lögum líka): http://www.pistillinn.is/?p=478
Í þessum pistli er svo greint frá þeim upplýsingum sem Útlendingastofnun hafði undir höndum þegar hún ákvað, og Ögmundur staðfesti (og synjaði um frest á brottvísun þótt málið væri enn í vinnslu í ráðuneytinu): http://blog.pressan.is/einar/2012/02/01/daemisaga-um-grimmd/
Ofan á allt þetta bætist sem sagt sú staðreynd að Ísland er aðili að Mannréttindasáttmála Evrópu, og samkvæmt honum, og úrskurði Mannréttindadómstóls Evrópu sem nefndur er hér að ofan, má Ísland EKKI senda hælisleitendur tilbaka til annarra landa, bara af því að maður „telji“ að það sé í lagi.
Það er líka nauðsynlegt að hafa í huga að rangar ákvarðanir í málum af þessu tagi geta snúist um líf og dauða, pyntingar, ofsóknir og ævilangan þrældóm. Vonandi nægir það flestum Íslendingum til að vilja fara varlega, og sýna mannúð, auk hinnar lögskipuðu varkárni sem á að beita.
Þú hefur uppi stór orð byggð því miður á þekkingarleysi ef til vill frekar á skilningsleysi. Hroki er þín lyndiseinkunn.
Takk fyrir þessar frábæru ábendingar, og ítarlegu skýringar, guðmundur.
Eru það einu skiptin sem íslenskir valdamenn fylgja öllum reglum og lögum þegar þeir eiga í höggi í 19 ára flóttamenn? Hvernig væri að taka á málefnum flóttamanna af mannúð?
Kæri bloggseigandi!
Afhverju skreppur þú bara ekki yfir til norsaranna og fylgist með þessarri meðferð á 19 ára skeggbarninu. Ögmundur hefur öðrum hnöppum að hneppa en að fylgjast með svona liði. Svo er það nú með þessa blessaða mannréttindasáttmála. Það er eins og einn sáttmáli grafi undan öðrum. Ef þú fylgist með öllum þessum sáttmálum sem fæðast á einni ráðstefnunni eftir annarri, þá er þetta nú orðið eins og frumskógur. Nei, það er komið nóg af svokölluðum flóttamönnum sem ætlast til að við brauðfæðum þá. Ég styð Ögmund í þessu þó er ég ekki alltaf ánægð með hann.