Þriðjudagur 09.10.2012 - 10:04 - 16 ummæli

Dagur B. Eggertsson og OR-skýrslan

Í gær fékk ég fréttir af því, eftir krókaleiðum, að ef til vill væri ekki allt eins og það ætti að vera varðandi úttektina á Orkuveitu Reykjavíkur, en skýrslan um úttektina var afhent borgarstjóra í síðustu viku.  Það á svo að kynna hana á miðvikudag fyrir „eigendum“, þ.e.a.s. þeim sem fara með eigendavaldið í þessu fyrirtæki fyrir hönd almennings.  Almenningur, hinn raunverulegi eigandi, má hins vegar éta það sem úti frýs enn um sinn.  Um þá afstöðu til upplýsingamála fjallaði ég í síðustu tveim pistlum.
Ég hringdi því í upplýsingafulltrúa OR, Eirík Hjálmarsson, og svo í formann borgarráðs, Dag B. Eggertsson.
Eiríkur sagði mér að hann og fleiri starfsmenn OR hefðu séð skýrsluna, a.m.k. hluta hennar, fyrir nokkrum mánuðum, til að „fact-tékka“ hana.  Þessir starfsmenn hefðu gert athugasemdir við eitt og annað sem ekki væri rétt, og ég skildi það sem svo að það hefði verið „leiðrétt“ í kjölfarið, þótt ekki viti ég hvað þar um ræðir.
Mér hefur reyndar ekki tekist að útvega mér nægar upplýsingar um hvernig úttektarnefndin átti að starfa, en það hljómar sérkennilega, sem mér skilst að sé raunin, að starfsmaður umræddrar nefndar, sem sjái um ritun skýrslunnar, hafi aðsetur í húsnæði OR.  Að starfsmenn fyrirtækisins séu líka að skoða skýrsluna og gera athugasemdir við hana virðist ekki vænlegt til þess að hún verði eins traust og óskandi væri.  Þetta eru samt ekki nýjar fréttir, eins og fram kemur hér, en þar er líka sagt frá því að Eiríkur var aðstoðarmaður tveggja borgarstjóra, auk þess sem hann átti að fá kauprétt í REI sáluga.  Fleira um vafasama blöndu pólitíkur við gerð þessarar skýrslu er að finna hér,
Hitt var athyglisverðara, sem Dagur sagði mér.  Eða öllu heldur, það sem hann vildi ekki segja.  Hann byrjaði reyndar á því að segja mér að honum liði „undarlega“ yfir að vera í einhvers konar „fjölmiðlaviðtali“ við mig.  Þegar ég spurði hvað væri svona undarlegt við að óbreyttur borgari vildi grennslast fyrir um  svo mikilvæg mál varð fátt um svör, nema hvað hann endurtók að þetta væri „kjánalegt“, að ég væri að spyrja hann út í þessi mál, mikilvægara væri hvað yrði gert við þessa skýrslu.  Auk þess fannst Degi skrítið hvernig ég „hefði farið í þetta mál“.  Þegar ég spurði hvað hann ætti við með því sagði hann að ég hefði strax byrjað með einhverja tortryggni, og átti þar við að ég hafði kallað það valdníðslu, í bloggpistli,  að almenningur skyldi ekki fá skýrsluna í hendur um leið og hún var tilbúin.  Mér hafði reyndar ekki dottið í hug að tortryggja neitt í þessu sambandi, en er nú farinn að velta fyrir mér hvort ástæða sé til þess, eftir þessi ummæli Dags.
Ég spurði Dag svo þeirrar spurningar sem mér finnst mikilvægust í þessu,  hvort hann hefði séð skýrsluna eða drög að henni á meðan hún var í vinnslu, í hluta eða heild.  Hann vildi ekki svara því. Ég spurði aftur, en hann fór undan í flæmingi, og sagðist myndu svara mér í tölvupósti seinna um kvöldið (í gær) .  Það svar hef ég ekki fengið enn.
Auðvitað get ég ekki verið viss, en mér finnst liggja í augum uppi að Dagur hefði svarað spurningu minni neitandi ef hann hefði ekkert séð af skýrslunni.  Ég vona að eitthvert öflugt fjölmiðlafólk togi allan sannleikann um það upp úr Degi.  Og spyrji svo hinnar augljósu framhaldsspurningar um hvort hann hafi haft einhver áhrif á ritun skýrslunnar.  Vonandi finnst honum erfiðara að neita að svara alvöru fjölmiðlafólki en að vera í „kjánalegu fjölmiðlaviðtali“ hjá óbreyttum borgara.  Þótt það hafi greinilega verið nógu sárt fyrir hann,  sem segir sorglega sögu um afstöðu valdamanns til þess almennings sem hann á að vinna fyrir.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (16)

 • Hörður S

  Hjartahreinustu og bláeygustu menn verða daunillir póitíkusar áður en hægt er að segja orðið leyndarhyggja þrisvar sinnum hratt. Dagur virðist ekki sjá að hann er að breytast í þá skepnu sem hann gerði sér far um að benda á sem holdgerving gömlu stjórnmálanna þegar hann tók sín fyrstu skref í pólitík.
  Menn hafa barið sér á brjóst undanfarin ár vegna aukins gagnsæis í opinberri stjórnsýslu en það er mikil blekking að við séum komin þar langt á veg. .
  Meginreglan á að vera sú að öll opinber gögn séu almenningi aðgengileg frá þeirri stundu sem þau verða til nema sérstakar ástæður séu fyrir öðru og þá aðeins með vísan í skýr lög eða reglugerðir þar að lútandi.

 • Jónas Bjarnason

  Sæll vertu Einar. Stutt spurning. Minnist Dagur nokkurs staðar á rafmagnssölu OR frá Hellisheiðarstöðvum? Og þá hvert þeir selji raforkuna eða ætli að selja raforkuna og á hvaða verði. Það skiptir meginmáli varðandi spurninguna hvort það verði hægt að reka þær virkjanir. Annars þakka ég grein þína.

 • Ég var að fá tölvupóst frá Degi, sem ég birti hér. Ég geri athugasemdir við hann í næsta innleggi hér á eftir.

  ——————————————————————————-

  Sæll,

  skil núna betur af hverju þú gast ekki svarað þeirri einfaldri spurningu hvort ég væri í beinni útsendingu á blogginu þínu í stuttu samtali okkar í gær. Það var greinilega ætlunin.

  Einsog fram kom í máli mínu var aðkoma mín að gerð skýrslunnar sú að ég kom til viðtals við nefndina, skv. beiði hennar.

  Vegna þess að þú dylgjar í bloggi þínu um að ég hafi séð skýrsluna á vinnslustigi og haft áhrif á hana er rétt að taka fram að svo var (að sjálfsögðu) ekki. Nefndin var algerlega sjálfstæð í störfum sínum. Tengiliður borgarinnar við nefndina var innri endurskoðandi.

  Einsog ég hélt að ég hefði nefnt í gær þá lá fyrir í upphafi hvernig yrði fari með skil á skýrslunni og er verið að fara eftir þeim ferli. Hún verður kynnt á morgun – fyrst lögð fyrir eigendafund, síðan opinn kynningarfund með sveitarstjórnarfólki og síðan kynnt fjölmiðlum.

  Með kveðju/Kind regards

  Dagur B. Eggertsson
  Borgarfulltrúi/city councillor
  Reykjavík, Ísland

 • Það er rétt að geta þess að Dagur spurði mig aldrei hvort hann væri „í beinni útsendingu á blogginu“ mínu, þótt hann hafi e.t.v. gefið það í skyn. Hefði hann spurt mig beinlínis hvort ég hygðist birta það sem hann segði hefði ég svarað því svo að ég líti alltaf þannig á að það sem fólk í opinberum stöðum segir, aðspurt í krafti embættis síns, sé að sjálfsögðu eðlilegt að birta opinberlega ef manni þykir ástæða til. Ég skil heldur ekki af hverju annað ætti að gilda um óbreytta borgara í þessu efni en um spurningar fjölmiðlafólks.

  „Dylgjur“ mínar í blogginu um að Dagur hafi séð skýrsluna á vinnslustigi stafa af því að, öfugt við það sem Dagur heldur hér fram, neitaði hann staðfastlega að svara spurningum mínum þar að lútandi, þrátt fyrir ítrekun.

  Ég held áfram að vona að fjölmiðlar spyrji Dag þessara sömu spurninga, svo að hann fái tækifæri til að svara þeim í alvöru „fjölmiðlaviðtali“.

 • Doktor Samúel Jónsson

  Getur einhver svarað mér … er dagur eða nótt núna?

 • Doktor Samúel Jónsson

  Lýst er eftir Jóni Gnarr, hann hvarf sporlaust að heiman.

  En eins og Guð gaf okkur eyra og fleira, þá grunar mig að dr. med. DBE,
  hafi gert hátækni operasjón út í Vatnsmýri
  og vírað saman útfrymi Samfýósanna.

  Sem hentugan efnivið notaði hann líkast til pússíkisuna Goggu Bjarnfreðar og transformeraði henni með Frankensteinískum tilburðum, með þrumum, geðveikum hlátri og eldingum og útkoman varð bleika gleðigöngu brussan, sem nýlega hreykti sér af skrautvagni sínum, meðan börn fátækra fá ekki vist í tómstundastarfi á vegum borgarinnar.

  Lýst er eftir gamla góða Jóni Gnarr. Hann er horfinn. Samfýósarnir kunna að láta menn hverfa, sporlaust.

  Dr. med. DBE … hvar er Jón Gnarr, orginalinn?

 • Kristján Elís Jónasson

  Er Dokrot Samúel Jónsson nafn á raunverulegri persónu, ?

 • Grétar Thor Ólafsson

  Sæll Einar.
  Það vill svo til að ég þekki ágætlega til svona innri endurskoðunnar, og þá alþjóðlegu staðla og verklagsreglur sem slík starfssemi tekur yfirleitt mikið mið af.
  Í þeim starfsháttum, sem af þessu leiðir, er einmitt tekið skýrt fram að allar skýrslur, áður en þær eru birtar, skuli ALLTAF fara í rýni hjá þeim sem skýrslan fjallar um. Og ástæðan er ekki einhver „að fela spillinguna“ samsæriskenning sem þú ýjar hér að oftar en einu sinni, heldur aðeins til þess að skýrslan sé rétt og til að hindra misskilning.

  Svona skoðun felur í sér að endurskoðandi, eða annar sérfræðingur í innri endurskoðun, fer og talar við það starfsfólk sem úttektin snýr að. Það kemur líka oft fyrir, sérstaklega í svona viðamikillin skoðun eins og heildar skoðun á rekstri OR fyrir/eftir hrun er, að sérfræðingurinn er ekki endilega með djúpa þekkingu á þeirri starfssemi sem um er fjallað.
  Farið er yfir mikið af gögnum, spurt fullt af spurningum, og endurskoðandinn, eða sérfræðingurinn, hefur oft á tíðum gífurlega miklar upplýsngar til að koma í skýrsluna, bæði skrifleg gögn sem og spjall við aðila.

  Þetta býður upp á misskilning, auðveldlega. Og þar af leiðandi fara drögin ALLTAF í rýni hjá subjectinu fyrir birtingu til umsagnar. Og nota bene, ef gerðar eru athugasemdir þarf að rökstyðja þær.

  Heimildir:
  International Professional Practices Framework (IPPF)
  http://www.theiia.org

  PS. Ég hef akkúrat engin tengsl við OR, nokkuð annað orkufyrirtæki eða stjórnsýsluna, hvorki hjá ríki né borg.

 • Takk fyrir ábendinguna, Grétar. Það er hins vegar vert að hafa í huga að þótt rétt sé að bera efni í svona skýrslum undir þá sem fjallað er um, svo þeir geti gert athugasemdir við það sem rangt gæti verið, þá er um að ræða breitt grátt svæði þar sem eðlilegt er að vera á varðbergi. Það er til dæmis ekki gott að starfsmaður þessarar nefndar skuli hafa mjög sterkt tengsl við flokk sem tengist málinu sterklega, og að sá starfsmaður skuli (hafi ég skilið þetta rétt) hafa aðsetur í fyrirtækinu sem um er fjallað.

  Auk þess tel ég afar misráðið, auk þess að vera ólýðræðislegt, að skýrslan skyldi ekki birt almenningi um leið og hún var afhent borgarstjóra. Framferði af því tagi, sem og hversu tregur Dagur var að svara spurningum mínum umyrðalaust (sjá næsta innlegg hér á eftir), er einmitt til þess fallið að vekja upp grunsemdir um óeðlileg vinnubrögð.

  Það síðastnefnda hér að ofan er einmitt eitt af því jákvæða við hindrunarlausan aðgang almennings að upplýsingum í fórum opinberra aðila: Sé allt uppi á borði eiga þeir miklu síður á hættu órökstuddar grunsemdir sem eru með allt sitt á þurru. Og hinir eiga auðvitað ekki að njóta neinnar verndar sem felst í upplýsingaleynd.

 • Ég skrifaði Degi aftur, og ítrekaði spurninguna sem hann hafði ekki svarað afdráttarlaust. Hér fer á eftir pósturinn frá mér og svar hans. Ég verð að játa að ég klóra mér í hausnum yfir því að hann skuli ekki hafa svarað tafar- og afdráttarlaust.

  ———————————————————————

  Sæll aftur Dagur,

  Takk fyrir svarið. Þú svaraðir reyndar ekki afdráttarlaust spurningu minni, svo ég ber hana upp aftur, örlítið aukna:

  Hefurðu séð skýrsluna, að hluta eða í heild, eða drög að henni eða drög að hluta hennar einhvern tíma áður en hún var afhent borgarstjóra? Ef svo er, hvenær hefurðu séð eða haft undir höndum slík gögn?

  Bestu kveðjur,

  Einar

  ———-
  From: Dagur B Eggertsson
  Date: 2012/10/9
  To: Einar Steingrimsson

  Svarið er nei, nei og aftur nei. Þau ummæli sem höfð eru beint eftir mér voru borin undir mig, annað ekki.

  Bestu kveðjur!
  Kind regards!

  Dagur B. Eggertsson
  Borgarfulltrúi/City councillor

 • Mér finnst ömurlegt hvernig borgarfulltrúinn Dagur B svarar almennum borgara sem leggur fyrir hann fyrirspurn. Það liggur í orðum hans að það sé kjánalegt að almennir borgarar séu að voga sér upp á dekk til tignarfólksins. Er Dagur B jafnaðarmaður eða yfirstéttarsnobb af verstu sort?

 • Dagur er bara nákvæmlega eins og aðrir pólitíkusar = finnst okkur almenningi ekki koma rassgat við hvað hann aðhefst!

 • Doktor Samúel Jónsson

  Herra Kristján Elís Jónsson. Já ég er raunverulegri en Dr. med. DBE.

  Dragirðu tilvist hans í efa þá máttu mín vegna draga tilvist mína í efa.

 • nóboddíinn

  Vandi Dags er að hann lítur of stórt á sig. Ég vorkenni þannig greyum. Dramb er falli næst.

 • Grétar Thor Ólafsson

  Sæll aftur Einar.
  Ég er búinn að lesa mér til gagns núna aðeins um þessa úttekt og mér sýnist af þessu að það sé ekki ástæða til að óttast mikið aðkomu Eiríks að nefndinni. Ég hef sjálfur haft sama hlutverk og hann gegndi í samstarfi við endurskoðunarnefndir og þetta snýst aðallega um að safna gögnum og stilla upp fundum með starfsmönnum fyrirtækisins. N.k. hlaupastrákur. Aðkoma slíkra aðila er aldrei að túlka gögnin né neitt slíkt.

  Og það er líka eitt við þetta sem mér fannst vera nokkurs konar Chuck Norris gætavottun, þ.e. ég þarf ekki að efast um að þessi skýrsla sé vönduð og metnaðarfull: Sú sem fer fyrir þessari nefnd er Margrét Pétursdóttir. Hún gegnheil og frábær fagmaður í endurskoðun. Held að fáir á landinu séu hæfari einmitt í svona vinnu en hún.

 • Grétar: Ég hef enga sérstaka ástæðu til að draga í efa heilindi skýrsluhöfunda, né heldur Eiríks eða Dags. En, allt sem lýtur að spillingu í opinberum störfum þarf helst að vera hafið yfir allan grun. Að starfsmaður nefndarinnar, sem virðist hafa séð um ritun hennar (sem var ansi illa skrifuð, þótt það sé e.t.v. annað mál) sé innan úr Samfylkingunni, og að hann hafi haft starfsaðstöðu í höfuðstöðvum OR, býður heim slíkum grunsemdum.

  Það sem ég var þó fyrst og fremst að fjalla um hér, og fetta fingur út í, var óvilji Dags að svara hreint og beint spurningum sem hann virtist hafa getað svarað með mjög einföldum, afdráttarlausum hætti, í stað þess að skammast yfir að ég, óbreyttur borgari, skyldi leyfa mér að spyrja hann jafn sjálfsagðra spurninga.

  Ef Dagur hefði svarað spurningum mínum eins og hann gerði síðar, strax þegar hann var spurður, þá hefði ég aldrei skrifað þetta blogg.

  Þessi afstaða er útbreidd meinsemd á Íslandi meðal allt of margra stjórnmála- og embættismanna, að það sé frekja í almenningi að fara fram á upplýsingar sem hann ætti að hafa greiðan aðgang að.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fjórum? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur