Þriðjudagur 26.03.2013 - 14:22 - 13 ummæli

Fullt gjald eða „eðlilegt“ fyrir auðlindir?

Eitt af því sem of lítið virðist spurt um í fjölmiðlum í því fjaðrafoki sem stendur yfir á Alþingi vegna stjórnarskrárfrumvarpsins er breytingatillaga fjögurra stjórnarliða, þeirra Oddnýjar G. Harðardóttur, Álfheiðar Ingadóttur, Árna Þórs Sigurðssonar og Skúla Helgasonar.  Þetta er breytingatillaga við þá tillögu formanna Samfylkingar, VG og Bjartrar Framtíðar  að samþykkja á þessu þingi bara þá breytingu á stjórnarskrá að henni megi breyta með því að Alþingi samþykki það og síðan séu breytingarnar samþykktar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Markmiðið með breytingartillögu fjórmenninganna er væntanlega að sjá til þess að eitthvað bitastætt sé samþykkt af öllum þeim breytingum sem felast í heildarfrumvarpinu, og sem mikill meirihluti almennings styður, miðað við úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október, og það sem vitað er  um málið úr skoðanakönnunum.  Þetta er því væntanlega hugsað sem málamiðlun, til þess að afla frekari stuðnings við það sem virðist vera fyrirætlan forystu stjórnarflokkanna, að drepa stjórnarskrármálið.

Í breytingatillögunni er lagt til að auðlindaákvæðið úr heildarfrumvarpinu sé samþykkt, í viðbót við breytingarnar á því hvernig breyta megi stjórnarskránni án þess að rjúfa þing.  Þessu ákvæði hefur hins vegar verið breytt á sérkennilegan hátt.  Þar stendur nefnilega þetta  (skáletrun mín):

Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda, sem og annarra takmarkaðra almannagæða, gegn eðlilegu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn.

Í upphaflegu tillögunni er þetta hins vegar orðað svona (skáletrun mín):

Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda, sem og annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn.

Það hlýtur að vera ástæða fyrir því að þingmennirnir vilja ekki að greitt sé fullt gjald fyrir afnot af auðlindum, heldur bara „eðlilegt“ gjald.  Það síðarnefnda er ekki afdráttarlaust, heldur háð mati þeirra sem með völdin fara hverju sinni, sem þannig fá mikið svigrúm til að ákveða hvað sé „eðlilegt“.

Hvaða hagsmunir eru hér að baki?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (13)

  • Það er mikilvægt að lesa greinargerðina með tillögunni. Hún útskýrir þetta orðalag mjög vel og hvernig menn sjá fyrir sér gjaldtökuna.

    Almennt má orðalagið ekki vera þannig að það sé óframkvæmanlegt skv. bókstafnum. Það er ekki hagstætt fyrir þjóðina, eiganda auðlindarinnar, að taka alla auðlindarentuna í sinn hlut, ef það skerðir hvata til fjárfestingar og nýsköpunar í auðlindanýtingu, eða útilokar hluta nýtingarinnar. Sem dæmi þá er veiðigjald, skv. nýsettum lögum, 70% af reiknaðri auðlindarentu í sjávarútvegi. Það væri afar varhugavert að fara með þá tölu í 100% enda myndi það krefjast svo mikillar hagræðingar í sjávarútvegi að eftir sætu örfá stór fyrirtæki sem stunduðu aðeins allra hagkvæmustu veiðarnar. Besti punkturinn, „optimal“ gjaldtakan í þjóðhagslegum skilningi, er ekki við 100% heldur eitthvað neðar. Þess vegna er betra að nota orðið „eðlilegt“ heldur en „fullt“ – eins og greinargerðin rökstyður.

  • Olafur Jonsson

    Það er því miður búið að setja alltof mikla áherslu á þetta auðlindagjalds kjaftæði og taka með því fokusinn af meininu í fiskveiðistjórninni sem er kvótakerfið sjálft og einokunin. Eyðileggingin af notkun kvótastýringar er miku meiri en auðlinda gjald getur nokkurn tíma skilað.

    Fyrir utan óréttlætið sem menn í greininni eru beittir

    Fyrst á að afnema kvótakerifð með öllu og setja hér fiskveiðistjórnun sem hámarkar afraksturinn og gerir öllum jafn hátt undir höfði við veiðarnar og síðan tryggja að allur fiskur fari á markað eða sé seldur á markaði.

    Þegar þessu er náð er hægt að tryggja einhverskonar auðlinda gjald sem tekur mið af veiðum og árferði á mörkuðum (svipað og verðjöfnunarsjóður gerði) sem rynni í auðlinda sjóð sem yrði nýttur af þjóðinni fyrir þjóðina má alls ekki renna í ríkiskassann fyrir politíkusa að valsast með í atkvæðaveiðum.

  • Einar Steingrimsson

    Takk fyrir ábendinguna, Vilhjálmur. Ég sá enga greinargerð með þessu frumvarpi, og finn hana ekki í fljótu bragði. Ef þú lest þetta máttu gjarnan benda á hvar hún er.

    Ég er ósammála því að „fullt gjald“ hljóti að þýða að taka „alla auðlindarentuna“. Það vill svo til að það er til markaðsverð á kvóta, og það teldi ég fullt gjald.

    Telji menn nauðsynlegt að skýra þetta, svo ljóst sé að ekki sé verið heimta allan afrakstur, þannig að útgerðin væri rekin án hagnaðar, þá er orðalagið „eðlilegt gjald“ ekki bara villandi, heldur býður það hættunni heim, því hvað er „eðlilegt“ getur verið háð duttlungum.

    Þetta opnar líka fyrir þann möguleika að stjórnmálamenn handstýri kvótagjaldinu til að hygla t.d. sveitarfélögum sem talin eru standa illa. Það þýðir nánast óhjákvæmilega að rík útgerðarfyrirtæki hirða aukagróða vegna of lágs gjalds. Það fer algerlega í bága við hugmyndirnar um gagnsæja stjórnsýslu að stjórnmálamenn stundi pólitík með þeim hætti. Þurfi að styðja tiltekin byggðarlög á að gera það með beinum styrkjum, en ekki með því að lækka gjaldið sem almennt er greitt fyrir afnot af kvóta.

    Þess vegna er þetta ótæk breyting. Miðað við það sem á undan er gengið í þessu máli, ekki síst endalausar tilraunir margra stjórnarliða til að koma í veg fyrir að frumvarpið verði í aðalatriðum samþykkt í heild sinni, vaknar óhjákvæmilega sá grunur að hér búi að baki verri ásetningur en kæruleysi, sem það sannarlega væri að afhenda stjórnvöldum framtíðarinnar ákvörðunarrétt yfir hvað eigi að greiða fyrir auðlindaafnot.

    Svik er stórt orð. En stundum eru gerðir svo stórkostlega vondir hlutir, eins og forysta stjórnarflokkanna hefur gert sig seka um í þessu máli, að það væri óskynsamlegt að nota ekki það orð.

    • Kári Jónsson

      Þú hittir naglan á hausinn,einsog svo oft áður Einar. Ríkisstyrkta-einokunar-útgerðar-vinnslan hefur aldrei þolað hefðbundin markaðs-viðskipti og þeir herramenn og konur sem stjórna þessum fyrirtækjum munu EKKI gefa sig í þeim efnum, FORRÉTTINDIN ERU ALGJÖR, allt annað en FULLT-GJALD (markaðsverð) er orðhengilsháttur og vondur málstaður að verja. Hvernig má það vera að fiskveiðiþjóðin Ísland hefur EKKI frjáls-óháð-viðskipti með helstu auðlind þjóðarinnar ? Heldur mega sjómenn þessara einokunar-útgerða búa við einhliða verðmyndun stjórnenda sinna, ef þeir vilja yfirhöfuð halda vinnunni, slík er kúgunin ! 80% úthlutaðs nýtingarréttar fer fram í ofangreindri KÚGUN 20% nýtingarréttarins er seldur á fiskmarkaði fyrir 40% hærra verð allir sem vilja sjá hvaða hagsmunir eru hér í húfi fyrir ríkisstyrktu-einokunar-útgerðar-vinnsluna, sjómenn og fiskvinnslufólk borgar meinta hagræðingu af launum sínum 100%, ríkisstyrkta-einokunar-útgerðar-vinnslan hirðir hinsvegar allann hagnaðinn á hann jafnvel á Kýpur.

    • Hér er sá hluti greinargerðarinnar sem fjallar um gjaldtöku fyrir auðlindirnar og „eðlilegt gjald“ (þetta er úr framhaldsnefndaráliti meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem kom fram við 2. umræðu stjórnarskrárfrumvarpsins):

      Með orðinu „almannahag“ er vísað til þess að þjóðin eigi auðlindirnar og geri sem eigandi þeirra tilkall til arðsins af þeim. Í fyrirmælum um eðlilegt gjald felst því að stjórnvöldum sé skylt að krefjast fyrir hönd almennings hlutdeildar í umframhagnaði (auðlindarentu), þ.e. þeim hagnaði sem nýting viðkomandi auðlindar skapar umfram eðlilega ávöxtun þeirra fjármuna sem bundnir eru við nýtinguna að teknu tillit til áhættu. Hlutdeildina getur löggjafinn ákveðið að heimta í formi magntengdra afnotagjalda, skatta af auðlindarentu og/eða hagnaði, upphafs- og leigugjalda sem ákveðin eru með útboði, uppboði eða á virkum markaði, eða með öðrum aðferðum sem henta eðli hverrar auðlindar eða þeirra almannagæða sem um ræðir. Jafnan verði þó gætt almannahags og jafnræðis eins og greinin áskilur. Er gert ráð fyrir að löggjafinn leitist við að ákvarða hlutdeild þjóðarinnar hvorki svo lága að hún verði af tekjum sem henni tilheyra með réttu sem eiganda auðlindanna, né svo háa að það hamli nýtingunni og eðlilegri arðsemi af henni sem slíkri að teknu tilliti til fjárbindingar og áhættu. Er þetta í samræmi við almenna stefnu sem liggur fyrir í skýrslu auðlindastefnunefndar frá september 2011 og á sér samsvörun í nýlegri löggjöf á sviði auðlindanýtingar, þ.e. lögum um veiðigjöld, nr. 74/2012, og lögum um skattlagningu á kolvetnisvinnslu, nr. 109/2011. Gera verður ráð fyrir að löggjafinn setji nánari fyrirmæli um gjaldtöku með löggjöf fyrir hverja tegund auðlindar eða takmarkaðra almannagæða sem veita á leyfi til nýtingar á.

  • kristin geir st briem

    skil hvorki fult gjald eða æfilegt gjald er samálla einari um það þessi orð eru villandi úttdeilíng hvóta hefur verið pólutískt fyrirbæri mér fynst varla ægt ar rukka meira enn fyrir þeim stofnunum sem til heirir sjávarútveiginum mætti taka landhelgigæsluna með sem er nokkur stór pakki að reka

  • Þorvaldur Gylfason

    Alþingi spurði Stjórnlagaráð í fyrra, hvort til greina kæmi að breyta orðunum „gegn fullu gjaldi“ í „gegn sanngjörnu gjaldi“. Í svari fv. ráðsfulltrúa til Alþingis 11. marz 2012 segir svo: „Ráðið ræddi orðasamböndin „gegn fullu gjaldi“ og „gegn sanngjörnu gjaldi“ í þaula og ákvað, að „gegn fullu gjaldi“ skyldi standa í auðlindaákvæðinu í 34. gr. með rökum, sem er ítarlega lýst í greinargerð (bls. 88). Þar segir: „Með „fullu“ gjaldi er átt við markaðsverð, þ.e. hæsta gjald sem nokkur er fús að greiða t.d. á markaði eða uppboði eða í samningum við ríkið sem umboðsmann rétts eiganda, þjóðarinnar. Til álita kom að segja heldur „gegn sanngjörnu gjaldi“, en það orðalag þótti ekki eiga við þar eð í því getur þótt felast fyrirheit um frávik eða afslátt frá fullu gjaldi.“ Væri fullu verði breytt í sanngjarnt verð gæti það skilist sem tillaga um stjórnarskrárvarinn afslátt handa þeim sem nýta auðlindirnar.“ Vilji Alþingi veita t.d. útvegsmönnum afslátt með gamla laginu, þarf hann að vera uppi á borðum og öllum sýnilegur. Ennfremur segir í svari fv. ráðsfulltrúa til Alþingis: „Í greininni er gætt innbyrðis samræmis við aðrar greinar. Með breytingu þar á væri eignarrétti gert mishátt undir höfði eftir því hver í hlut á. Eignarréttarákvæðið í 13. gr. kveður á um, að „fullt verð“ komi fyrir eignarnám. Því hlýtur skv. 34. gr. frumvarpsins að gera sama tilkall til að „leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða [séu veitt] gegn fullu gjaldi“ til ríkisins í umboði þjóðarinnar, eiganda auðlindanna sem um ræðir.“

    • Sammála Þorvaldi um að orðalagið „sanngjarnt gjald“ hefði ekki gengið. Það er bæði og veikt og of matskennt. En orðalagið „eðlilegt gjald“ („normal“) nær að mínu mati að fanga það sem þarna er í raun og sann átt við. Hafa verður í huga að ekki er til markaðsákvarðað verð fyrir allar auðlindir, til dæmis er erfitt að mynda virkan markað í tilviki stórra orkunýtingarkosta.

    • kristin geir st briem

      þorvaldur hvar gjét eg séð þessar skýringar skyl þetta ekki en, er fullt gjald þá kvótaverð á markaði hverju sinni á það að fara til ríkisins. mig minnir að bankarnir hafi metið það í veðbókum sinum fyrir hrun á stjarfræðilegum uppæðum hvað með bankana sem afa tekið veð í hvóta munu þau lifa þettað af

  • Einar Steingrimsson

    Takk, Þorvaldur. Mér finnst rökin í svari Stjórnlagaráðs ansi sannfærandi, og sé ekki að það séu nein rök gegn þessu, sérstaklega þegar tekið er fram í rökstuðningnum, sem væntanlega hefði orðið lögsḱýringargagn, að átt sé við „markaðsverð“, sem er annað og skýrara, t.d. í tilfelli kvótans, en „eðlilegt gjald“ sem ekki er nánar útskýrt, og því lagt í hendur valdhafa hverju sinni.

    Því miður virðist svo sem stjórnarflokkarnir ætli að svíkja algerlega í stjórnarskrármálinu, svo stríðið mun ekki standa um þessa útvötnun …

  • Ég hef gert skjáskotarafrit af öllum greinum stjórnarskrásinna og dreift þeim víða þannig að ekki verður fólk sakað um sögufölsun.

    Held að hroki íslensks menntafólks verði talinn einn mest áberandi hjá fólk í framtíðinni, samt hélt ég að menntað fólk taldist áberandi menntað og það menntað að það taldist berjast fyrir jafnrétti allra en tilheyrði ekki skipulögðum rankisma stjórnvalda.

  • “ Auðlindir í náttúru Íslands sem ekki eru háðar einkaeignarrétti eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið þær eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða VEÐSETJA.“

    Nei, ekki til varanlegra afnota?

    En veðsetning verður fylgifiskur afnota auðlinda Íslands, rétt eins og auðlindir hafsins.

    Og rétt eins og veðsetning á auðlindum hafsins verður restin á auðlindum landsins veðsett upp í rjáfur til þess eins að afnotarétti verði ekki breytt.

    Déjà vu?

    Nei, íslendingar elska að láta taka sig í rassgatið!

  • “ Alþingi samþykki það og síðan séu breytingarnar samþykktar í þjóðaratkvæðagreiðslu. “

    113. gr. Hafi 5/6 hlutar þingmanna samþykkt frumvarpið getur Alþingi þó ákveðið að fella þjóðaratkvæðagreiðsluna niður og öðlast þá frumvarpið gildi engu að síður.

    Lýðræði?

    Hvað ef alþing tekur fyrst fyrir 113. gr.?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og tveimur? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur