Mánudagur 27.05.2013 - 14:32 - 19 ummæli

Eyjan og Róbert Wessman

Í dag var frétt á Eyjunni með yfirkriftinni „Önnur kreppa vofir yfir verði ekkert að gert„.  Þar er fjallað um erindi Róberts Wessmans á „morgunverðarfundi Eyjunnar um snjóhengjuvandann“.  Þessi frétt er, eins og svo oft í íslenskum fjölmiðlum, lítið umskrifuð yfirlýsing frá hópi sem Róbert tilheyrir, hópi sem hefur ákveðnar skoðanir á því hvernig eigi að leysa vandann sem felst í gríðarlegum krónueignum erlendra (?) aðila.
Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að segja frá skoðunum ýmissa aðila á þessu máli, og ekki heldur að Eyjan gangist fyrir sérstökum fundi um slíkt, þótt manni geti fundist val framsögumanna ansi einsleitt.  Hitt er verra, að Eyjan, sem hefur valið að hampa Róbert og skoðunum hans með þessum hætti, virðist ekki telja neina ástæðu til að grafast fyrir um hvaða hagsmuna Róbert eigi hugsanlega að gæta í þessu máli.  Það er vond fréttamennska.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

  • Magnús Björgvinsson

    Einmitt á Róbert Wessman huganlega erlendar eignir í þessum búum sem eru fastar? Sér hann möguleika á að eignast einhver fyrirtæki hér t.d. banka? Nú eða í öðrum fyrirtækjum sem bankarnir eiga? Maður fer að velta svona hlutum fyrir sér? Og á Róbert Wessmann kannski í eyjan.is?
    En kannski er þetta bara allt eðlilegt en menn koma til með að fylgjast með því hvort og hvernig hann eignast eitthvað af þessum eignum eftir að samið hefur verið við kröfuhafa. Það gengur t.d. ekki að eignir verið seldar á hrakvirði út úr krönueigna safninu sem m.a. eru Arion og Íslandsbanki.

  • Í ljósi þess að Róbert leggur til að afskrifa allar innlendar eignir þrotabúanna ásamt því að skattleggja allar eignir þeirra ef til þarf þá hljómar ekki líklegt að hann eigi eitthvað í þeim.

    Persónulega fagna ég framtaki hans. Það var komin tími til að einhver drægi þetta stærsta hagsmunamál íslands inn í umræðuna.

  • Einar Steingrimsson

    Það var verið að benda mér á að Salt Investments, félag í eigu Róberts Wessmans, á hlut í Vefpressunni, sem rekur Eyjuna (og Pressuna), sjá t.d. hér: http://www.visir.is/vefpressan-tapadi-taeplega-30-milljonum-2011/article/2013130119960

    Það virðist því ekki þurfa að leita mikið lengra að skýringum á þessum mikla og gagnrýnislausa áhuga Eyjunnar á málflutningi Róberts; beinast liggur við að álykta að Eyjan sé, eins og nánast allir fjölmiðlar á Íslandi, í eigu auðmanna sem nota þá til að reka áróður fyrir eigin hagsmunum, sem sjaldan eiga samleið með hagsmunum almennings.

    Velkomm tú Æsland …

    • Björn Ingi Hrafnsson

      Sæll Einar,

      Upplýsingar um eignarhald Vefpressunnar eru opinberar upplýsingar og gagnsæjar, enda koma þær fyrir á heimasíðu Fjölmiðlanefndar. Þar kemur fram að Salt á lítinn hlut í Vefpressunni, sem var keyptur árið 2009 og er innan við 13%.

      Þetta er því ekkert leyndarmál.

      Frásögnin er af framsögu Róberts á fundinum, en hann hefur stofnað hóp ásamt t.d. forstjóra Landspítalans og forstjóra Össurar, sem heitir snjohengjan.is um þessi mál. Hann hefur sjálfur gert grein fyrir því að hann eigi engra persónulegra hagsmuna að gæta af lausn snjóhengjunnar, en telji að framtíð íslensks efnahagslífs velti á því að vel takist til.

      Róbert var á fundinum vegna hópsins snjohengjan.is og hann hefur rætt þessi mál við flesta ef ekki alla fjölmiðla hér á landi undanfarnar vikur.

    • Einar Steingrimsson

      Björn Ingi: Það er ekki nóg að Róbert Wessman lýsi því sjálfur yfir að hann eigi engra hagsmuna að gæta í þessu máli:

      „Hann hefur sjálfur gert grein fyrir því að hann eigi engra persónulegra hagsmuna að gæta af lausn snjóhengjunnar, en telji að framtíð íslensks efnahagslífs velti á því að vel takist til.“

      Til þess eru góðir fréttamiðlar að grafast fyrir um slíkt á eigin spýtur. Ég hef enga úttekt séð nýlega á Eyjunni (eða í öðrum miðlum) um eignir og viðskipti Róberts síðustu árin.

      Ef þú veist allt um viðskipti og hagsmuni Róberts, þá vona ég að þú upplýsir okkur um það allt, svo við getum sjálf komist að niðurstöðu um hverjir séu hagsmunir hans.

  • Og hverjir eru hagsmunir almennings í þessu máli Einar?

  • Grétar Thor Ólafsson

    Skjóta sendiboðann með Ad Hominem boganum og Strámanns örvunum. Bravó. Sendiboðar „Nýja Íslands“ eru greinilega vel vopnum búnir.

    Mér finnst satt best að segja ógeðsleg sú hvöt og árátta að fólk sem er hefur efnast vel og gengur vel fjárhagslega sé sjálfvirkt álitið annað en einlægt og heiðarlegt ef það er að fjalla um velferð þjóðar sinnar. Róbert Weissman er ekki einn á ferð, það eru fjöldi trúverðugra aðila sem eru með honum á þessum „málfundi“ og orð hans eru í samræmi við það sem helstu sérfræðingar í skuldamálum eru að segja.

    Er þá kannski Lilja Mósesdóttir líka með einkennilegar kenndir, illmenni í sauðargæru? Fyrst þau Róbert eru að reyna að benda á lausnir í að leysa gjaldeyrisvandamál þjóðarinnar?

    • Einar Steingrimsson

      Grétar: Mér finnst ansi sérkennilegt að kalla það ómálefnalegt þegar bent er á að eðlilegt sé að skoða hagsmuni fólks sem tjáir sig um mál sem full ástæða er til að ætla að tengist þeim hagsmunum.

      Og, það er beinlínis rangt hjá þér að þessi pistill sé árás á manninn en ekki málefnið (ad hominem) eða á tilbúinn andstæðing (strámann). Það sem er verið að gagnrýna í þessum pistli er hvorki Róbert ná málflutningur hans, heldur fréttaflutningur Eyjunnar.

  • Björn Ingi Hrafnsson

    Sæll Einar,

    Ég tek orð hans um þetta trúanleg og er enginn sérfræðingur í viðskiptum hans.

    Það hafa allir fjölmiðlar hér á landi fjallað um þessar hugmyndir í dag, enda stendur 40 manna hópur á bak við snjohengjan.is — fólk úr öllum geirum. Finnst þér þá líka að t.d. forstjóri Landspítalans eigi að gera grein fyrir hagsmunum sínum úr því hann skrifar undir þessar tillögur?

    Ég geri mér grein fyrir því að nánast vonlaust er fyrir okkur að gera þér til geðs í þessum efnum, þar sem þín nálgun virðist sú að fólk eigi almenn að afsanna fyrirfram að það eigi ekki (annarlegra) hagsmuna að gæta. Þú virðist hreinlega ekki gera ráð fyrir þeim möguleika, að fólk hafi það í sér að koma fram með hugmyndir í góðri trú af því að það geti orðið samfélaginu til heilla.

    Þér er algjörlega frjálst að hafa þá skoðun og mér finnst mikilvægt að þú fáir tækifæri hér á Eyjunni til að viðra þín sjónarmið. En ég má líka stundum vera ósammála þeim.

    • Einar Steingrimsson

      Björn Ingi: Það sem ég setti út á í þessum pistli er hvernig Eyjan hampar Róbert Wessman og þeirri afstöðu sem hann setur fram, án þess að minnast á að hann eigi e.t.v. mikilla hagsmuna að gæta, verandi umsvifamikill „athafnamaður“ bæði innanlands og erlendis, hvað þá að Eyjan reyni að grafast fyrir um hverjir þessir hagsmunir gætu hugsanlega verið, sem ég hefði talið eðlilegt í umfjöllun af þessu tagi.

      Ég er sem sagt ekki að fara fram á hér að „fólk eigi almenn að afsanna fyrirfram að það eigi ekki (annarlegra) hagsmuna að gæta“ eins og þú segir. Heldur að Eyjan vinni þá vinnu sem ég tel sjálfsagða þegar birtar eru fréttir af þessu tagi, sérstaklega þegar þetta er eitthvað sem Eyjan gengst fyrir og gerir mikið úr, án þess að segja frá öðrum hliðum málsins. Það á auðvitað alveg sérstaklega við þegar eigendur fjölmiðilsins eiga í hlut.

      Að lokum er þér að sjálfsögðu frjálst að vera stundum (jafnvel alltaf) ósammála mér, og mér finnst mjög gott að þú skulir lýsa skoðunum þínum á því sem ég hef um þetta að segja. 🙂

    • Pétur Örn Björnsson

      Það að bæði Ólafur Ísleifsson og Lilja Mósesdóttir tóku jákvætt í hugmyndir Róberts Wessman á sínum tíma (fyrir um ári síðan) finnst mér auka á að honum gangi gott eitt til.:

      http://www.pressan.is/Vidskipti/Lesavidskiptafrettir/olafur-og-lilja-fjalla-um-islensku-leidina-erlend-kronueign-veldur-stodugum-thrystingi-a-gengid?Pressandate=200904251aposor13D4040version%2Fleggjumst-oll-a-eitt

      Hins vegar langar mig til að spyrja Björn Inga Hrafnsson sérstaklega að því hvers vegna Lilju Móssedóttur var ekki boðið að halda fyrirlestur á þessari ráðstefnu sem eyjan.is efndi til?

  • Ómar Kristjánsson

    Hann lærði af Ólafi Ólafssyni hjá Samskip. Tengslin við gamalkunnug andlit eru himinhrópandi.

    ,,Stjórnendur Samskipa voru ungir menn á uppleið undir forystu Ólafs Ólafssonar. Félagar Baldurs sem fengu eldskírn sína þar voru meðal annarra Róbert Wessman, forstjóri Pharmaco“

    http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=264360&pageId=3721393&lang=is&q=R%F3bert%20Wessman

    Já, og hva? Hvenær kemur svo finnur ingólfs og s-hópurinn og býður fram sína hjálp við að bjarga okkur hérna? Maður spyr sig.

  • Björn Ingi Hrafnsson

    Sæll Pétur,

    Það voru fjórir frummælendur. Nýr forsætisráðherra og seðlabankastjóri. Fjármálaráðherrann sem hefur unnið að málum undanfarin ár og svo forsvarsmaður hóps um þessi efni.

    Fjölmargir aðrir hefðu gjarnan getað verið þarna gestir, en þetta var einfaldlega niðurstaðan að þessu sinni, en Friðrik Jónsson kom þó með hugleiðingu á myndbandi.

    Lilja hefur margoft verið viðmælandi Eyjunnar í gegnum tíðina, ekki síst um þessi mál. Ég hef hins vegar skilið hana sem svo, að hún hafi kosið að draga sig út úr opinberri umræðu, amk tímabundið.

    Kannski við reynum að fá hana til að halda erindi á næsta fundi okkar.

    • Pétur Örn Björnsson

      Takk fyrir svarið Björn Ingi og þá jafnframt með von um að þið hafið samband við Lilju (og ekkert kannski með það) og fáið hana til að halda erindi á næsta fundi sem hefur með viðlíka mál að gera.

      Tek svo undir það sem fleiri hafa víða sagt, að framtak ykkar sem stóðuð að þessum fundi og vonandi fleiri fundum í kjölfarið er lofsvert í ljósi þeirrar knýjandi þarfar, að við sem þjóð gerum okkur öll grein fyrir þeim mikla vanda sem að okkur steðjar og það hvað farsæl lausn getur öllu máli skipt til framtíðar lands okkar og þjóðar.

  • Ásmundur

    Það er engum vafa undirorpið að snjóhengjan er mjög alvarlegur efnahagsvandi. Það þarf ekki Róbert Wessman til að segja okkur það.

    Að sjálfsögðu getur verið að tillögur hans um lausn vandans litist af hans eigin stöðu. Það á þó ekki að hafa nein áhrif ef tillögurnar eru góðar.

    Við höfnum ekki bestu lausninni bara vegna þess að sá sem lagði hana til hagnast á henni persónulega.

    Ég er þó alls ekki að segja að tillögur Róberts séu besta lausnin. Mér líst td afleitlega á að að greiða erlendar eigur þrotabúanna út í krónum og hækka þannig snjóhengjuna úr 1000 milljörðum í 3000 milljarða.

    Hvað skyldi það taka Íslendinga mörg ár að átta sig á að eina leiðin út úr ógöngunum er með ESB-aðild og upptöku evru?

  • Haukur Kristinsson

    Actavis varð til úr Lyfjaverslun Íslands, Pharmaco, Delta og Omega Pharma. Þetta voru íslensk fyrirtæki, afrek áræðinna og dugmikilla einstaklinga. Hér var um fyrirtæki að ræða sem hafði algjöra sérstöðu á Íslandi vegna þeirra krafna sem gerðar eru við framleiðslu á lyfjum. Þarna urðu til krefjandi störf fyrir efna- lyfja- og eðlisfræðinga, sem og tæknimenn. En í engri framleiðslu eru gerðar eins strangar kröfur um „quality control“ eins og í framleiðslu lyfja. Ekki síst ef framleiðslan er fyrir US markað, en FDA lætur ekki að sér hæða.
    En hvað gerist svo. Wessman verður forstjóri samsteypunnar, sem fær nafnið Actavis, Björgólfur Thor nær yfirtökum á fyrirtækinu og allt fer á hausinn hjá þeim vinunum. Deutsche Bank eignast Actavis. Þeir skipa nýjan forstjóra, austurríkismann, og yfirstjórn fyrirtækisins flyst til Sviss, Zug. Þangað flytur stór hópur Íslendinga, meira en 100 manns, ef ég man rétt. Þar búa þeir og borga sína skatta. En Deutsche Bank vill losna við Actavis og selur það til US. Nú er það því undir útlendingum komið hvort reksturinn í Hafnarfirði heldur áfram. Um það hafa Íslendingar lítið að segja. Og vinirnir Wessman og Björgólfur Thor eru núna presenteraðir sem miklir gurus íslensks efnahagslífs.

  • Það er greinilegt að Eyjan er að birta úrdrátt úr öllum framsögum sem voru á fundinum. Það er engin ástæða til að fara með umfjöllun um framsögu Róberts Wessman á annan hátt en hinna.

  • Hreint skil ekki þessar vangaveltur, en þær geta verið skemmmtilegar samt.

    Það þarf í raun ekkert “ Velkomm tú Æsland “

    Þetta er löngu þekkt verklag í alþjóðavæðingu eða fyrirtækjavæðingu þjóða að auðmenn noti eign sína (fjölmiðla) til að ota sínum tota.

    Auðvitað skemmtilegt að sjá opinbera skýrslu OECD um ástæður efnahagshruns Íslands hafi verið of hröð alþjóðavæðing og m.a. upptaka EES samnings.

    Fólk öskrar á inngöngu í ESB. Stofnun sem CIA hvatti til að yrði stofnuð og fjármagnaði verkefnið.

    Stofnun sem hneykslast yfir njósnunum CIA á evrópskum borgurum, en vissi fullvel af.

    Svei mér þá, hvar er samhengið í þessu öllu saman?

    Meid in Æsland?

  • Ef Róbert Wessman hefur „persónulega hagsmuni“ af því að ná fram góðri niðurstöðu fyrir íslenskt samfélag og almenning, er það þá ekki frábært að öflugir menn eins og hann séu að beita sér fyrir því?

    Eða er nóg að hann sé „efnaður“ til að það sé ástæða til tortryggni og að úthrópa hann fyrir að vera með „eitthvað annarlegt“ í pokahorninu?

    Svei mér þá hvað þetta samfélag er orðið illa sjúkt ef svo er.

    Það eina sem ég gæti gagnrýnt Róbert fyrir er að hann er að halda á lofti hugmyndum annara. Ýmsir aðilar hafa um árabil verið að halda fram því nákvæmlega sama auk þess að leggja fram heilsteyptar og skynsamlegar útfærslur á því, sem er miklu meira en Róbert hefur gert. Það væri óskandi að samfélag okkar væri nógu þroskað til að veita góðum hugmyndum brautargengi, líka þegar þær koma frá aðilum sem bera íslenskt föðurnafn og ganga ekki í jakkafötum né eiga 13% í fjölmiðli. Þetta var nefninlega alveg jafn fréttnæmt áður en Róbert Wessman byrjaði að tala um þetta, og það væri Vefpressunni til mikils framdráttar ef fréttamat hennar stjórnaðist ekki af stærð eignarhlutar í fyrirtækinu eins og það virðist þó gera.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og einum? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur