Sunnudagur 26.01.2014 - 12:14 - 12 ummæli

Björn Ingi að ritskoða Eyjuna?

Í gærkvöldi lenti ég í athyglisverðu atviki í athugasemdakerfinu við þennan pistil Egils Helgasonar á Eyjunni.  Það byrjaði með því að ég skrifaði ummæli þar sem ég talaði um heimsku og hroka sem þætti í persónuleika Einars K. Guðfinnssonar, forseta Alþingis.  Skömmu síðar gerði Facebook-notandi sem kallar sig „Eyjan“ eftirfarandi athugasemd við það sem ég hafði sagt (hér er skjáskot af þræðinum):
„Athugasemdum þar sem nafngreindir aðilar eru sagðir heimskir verður eytt út og ef viðkomandi aðilar gerast ítrekað sekir um slíkan munnsöfnuð verða þeir útilokaður úr athugasemdakerfinu.“
Ég skrifaði strax til ritstjórnar Eyjunnar (ritstjorn@eyjan.is) og fékk svar um hæl, frá Birni Inga Hrafnssyni, en hann er einn helsti eigandi Eyjunnar, Pressunnar og fleiri vefmiðla, og titlar sig „útgefanda“ þeirra.  Hann vildi ekki svara því hvaða manneskja það væri sem talaði hér í nafni Eyjunnar, né heldur spurningum mínum um það sem ég segi frá síðar í þessum pistli.
Öfugt við „Eyjuna“/Björn Inga tel ég að það sé í lagi að tala í miklu hvassara orðalagi um framgöngu fólks í opinberum valdastöðum en um „óbreytta“.  Það sem mér finnst þó verst við þessa afstöðu Björns Inga er að ég tel mjög varasamt að ætla að ritskoða umræðu um framkomu valdafólks með þeim hætti sem hér var hótað.  Það er allt of auðvelt fyrir þá sem ráða fjölmiðlum að stunda ritskoðun til að bægja burt skoðunum sem viðkomandi er ósáttur við, undir því yfirvarpi að verið sé að halda uppi kurteisi í umræðunni.  Það er enda mikill munur á raunverulegu persónulegu skítkasti annars vegar og hins vegar því að tala um heimsku í fólki í valdastöðum vegna þess sem það segir og gerir í krafti þess valds.  Alveg sérstaklega er það vont þegar eigendur fjölmiðla, sem hafa mikilla viðskiptahagsmuna að gæta, eru sjálfir með fingurna beinlínis í ritskoðun þegar rætt er um pólitískt valdafólk.
Ef ofangreind athugasemd „Eyjunnar“ hefði verið það eina sem gerðist í umræðum við þennan pistil hefði ég kannski ekki elt ólar við það hér.  En, með þessu er sagan ekki öll sögð.  Örskömmu síðar gerði „Eyjan“ eftirfarandi athugasemd við ummæli mín á öðrum þræði við sama pistil:
„Einar Steingrimsson. Þetta er önnur viðvörun í kvöld. Þeir sem uppnefna aðra druslur geta átt á hættu að vera útilokaðir frá athugasemdakerfinu.“
Þessari athugasemd og hótun „Eyjunnar“ var eytt skömmu eftir að ég spurði hvort hér væri alvara á ferð.  Eins og sjá má á þessu skjáskoti er þetta afar sérkennileg athugasemd, og ég fór þegar hér var komið sögu (áður en ég skrifaði ritstjórninni) að velta fyrir mér hvort „Eyjan“ væri bara nettröll sem væri að skemmta sér, eða hreinlega ein af þessum manneskjum sem ráða illa við að tjá sig sómasamlega á netinu seint á laugardagskvöldum.  Hér er það nefnilega fréttamaðurinn Heimir Már Pétursson sem byrjar þráðinn og segir meðal annars:
„Hins vegar finnst mér að kröfurnar í þessum efnum séu mun strangari á karlpeninginn en konurnar, sem verður að segjast eins og er, að margar hverjar hafa klætt sig eins og druslur á Alþingi í gegnum tíðina.“
Mér finnst þetta sannarlega ekkert til að gera veður út af, enda er engin þingkona nefnd hér.  Mín athugasemd, sem var bara spurning um það hvort druslur mættu ekki vera á Alþingi eins og aðrir, er augljóslega ekki ummæli um nokkra manneskju.  „Eyjunni“ fannst sem sagt engin ástæða til að atyrða Heimi Má fyrir að segja að margar þingkonur hefðu klætt sig eins og druslur, en hins vegar ástæða til að skamma mig fyrir að spyrja hvort druslur mættu ekki sitja á þingi eins og aðrir.  
Ég bað „Eyjuna“/Björn Inga, bæði á öðrum þessara þráða, og í þeim póstskiptum sem ég átti við hann, að svara nokkrum spurningum, m.a. hvaða reglur giltu um þessi mál á Eyjunni, og eins spurði ég hann út í þessa sérkennilegu athugasemd hans um druslurnar.  Hann vildi ekki svara þeim spurningum.
Það læðist að mér sá grunur að það hafi verið annað en umhyggjusemi um kurteisi á Eyjunni sem dreif „Eyjuna“/Björn Inga áfram í þessari „kurteisiherferð“.  Nefnilega að hann sé, sem eigandi miðilsins, að reyna að hafa óeðlileg áhrif á umræðuna, með því að ógna þeim sem eru honum ekki þóknanlegir.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Ég held að drusla sé kraftlaust og bilanagjarnt farartæki.

    Eða hvaða líkingamál var Steingrímur J annars að tala á alþingi þegar hann kvartaði yfir druslunni sem dreif ekki upp í ræðustól til að eiga orðastað við hann?

  • Haukur Kristinsson

    Einar K. Guðfinnsson var nú aldrei beittasti hnífurinn í skúffu Íhaldsins. Því er frami mannsins eftirtektarverður; alþingismaður, ráðherra, forseti Alþingis.
    Sá þanki hvarflar að manni að „reciprocal“ sé mjög svo ráðandi í íslenskri pólitík í dag.

    Og ekki er von á góðu þegar saman fer heimska og hroki.

  • Ómar Kristjánsson

    Eg hef lent í svipuðu. Í annað skiptið fór eg ekki nægilega mjúkum höndum um forsætisráðherra núverandi. (Og í hitt skiptið svaraði ég Jóhannesi Birni.)

    Það sem er mest stingandi að orð mín um forsætisráðherra voru bara jólaguðspjall í sambanburði við ummæli sem viðhöfð voru um fv. forsætisráðherra á sama miðli fyrir nokkrum misserum.

  • Gunnlaugur Ingvarsson

    Sæll Einar. Takk fyrir að benda á þetta ég hef fylgst með þér lengi á netmiðlunum og þó við séum sjaldnast sammála þá hefur mér ávallt fundist þú vera málefnalegur með vandaða framsetningu.
    Sjálfur hef ég mér til ánægju tekið virkan þátt í athugasemdakerfi Eyjunnar frá upphafi, en 20 desember s.l. voru öll ummæli mín afmáð af Eyjunni og síðan hef ég verið útilokaður, blokkeraður frá því að taka þátt í umræðum á kommentakerfiu. En það sem kom mér enn meir á óvart var að frá sama tíma var ég án nokkurs tilefnis einnig blokkeraður frá því að taka þátt í umræðum á kommentakerfum visir.is og dv.is – alls óskyldra netmiðla. Hér er sem sagt um samhæfða ritskoðun og þöggun að ræða af hálfu þessara netmiðla.
    Tilefni þess að ég var beittur þessari refsingu var sú að ég hafði tekið þátt í umræðum þar sem að Margét Tryggvadóttir f.v. þingmaður hafði farið mikinn í fjölmiðlum og vænt Framsóknarflokkinn um fasisma og útlendingahatur. Aðstoðarmaður forsætisráðherra hafði farið fram á að MT bæði Framsóknarflokkinn afsökunar á þessum niðrandi ummælum. En þá birtist frétt á Eyjunni þar sem MT þverneitaði að biðjast afsökunar á þessu og þess í stað bætti hún um betur og sagðist rökstyðja ásakanir sínar um meintan fasisma og útlendingahatur Framsóknarflokksins. Rök hennar voru m.a. þessi. – Að tveir af formönnum Heimssýnar hefðu komið úr Framsóknarflokknum, en sá félagsskapur æli á útlendingahatri og fasisma. Að Framsóknarmenn væru á móti IPA styrkjunum frá ESB. Að Framsóknarflokkurinn vildi verja íslenskan landbúnað. Að Framsóknarflokkurinn hefði sýnt íslenska fánanum virðingu sína á flokksþingum. Að íslensk glíma hefði verið sýnd á flokksþingum. –
    Ég vogaði mér að mótmæla þessari fáránlegu röksemdarfærslu MT og varaði jafnframt við að með þessum fáránlegu ásökunum væri MT að draga nýjar en slæmar víglínur í umræðu íslenskra stjórnmála.

    Eftir þetta urðu umræður harðar og margir tóku undir með MT. En svo komu líka fólk sem vandaði MT ekki kveðjurnar og eftir eina slíka þá sagði ég á þessa leið. -Ég er ekki hissa á þessum ummælum því að þetta hefur hún kallað yfir sig með þessum algerlega órökstuddu dylgjum. Ég get þess vegna alveg eins kallað MT sem lygamörð og landráðakvenndi-
    Yfir þessu varð allt vitlaust og 10 mínútum seinna höfðu þessi og öll önnur ummæli mín á Eyjunni verið afmáð og síðan hef ég verið útilokaður og blokkeraður frá því að kommenta á Eyjunni og á DV og visir. Ég hef skrifað ritstjórn þessara miðla harðort mótmæla bréf þar sem að ég skoraði á þá að birta bréfið og opna fyrir að ég geti fengið að tjá skoðanir mínar. En ég er svo forsmáður af þessu rétttrúnaðarlið að mér hefur ekki einu sinni verið svarað.
    Sjálfur hef ég marg oft lent í því að vera kallaður öllum illum nöfnum í kommentakerfum þessara netmiðla. Svo sem; „vitleysingur, fáviti, fábjáni og fasisti og nasisti. Ekki hef ég séð að hróflað hafi verið við þeim sem hafa ráðist að mér með þessum hætti.
    Semsagt MT er hossað á þessum fjölmiðlum fyrir að kalla heilan stjórnmálaflokk, stór félagasamtök og nafngreinda einstaklinga sem fasista og útlendinghatara, en þegar henni er mótmælt þá er viðkomandi blokkeraður og afmáður.
    Ég mun aldrei sætta mig við að búa í samfélagi sem mismunar fólki svona gróflega og beitir svo sömu aðferðum og fasistar allra landa hafa beitt til að þagga niður í pólitískum andstæðingum sínum.

  • Sæll Einar.

    Ég hef fengið sömu meðferð hjá Eyjunni !

    Kveðja

    Jón Ragnarsson

  • Elías Svavar Kristinsson

    Ég hef verið lokaður út af kommentakerfi Eyjunar aðalega fyrir að hjálpa vissum manni með útreikning á láninu sínu.Í préfaskiptum okkar Björn Inga gat hann ekki nefnd neitt dæmi um dónaskap og sagðist ekki ræða þetta freka.Ér þetta ekki bara í anda forsætis semsé ritskoðun og þeir sem eru ekki í halelúja liðinu eru þurkaðir út.Mér er nú eiginlega alveg sama því þetta sýnti mér bara sem ég vissi áður að þesdi miðil er með þeim ómerkilegustu

  • Er mikEr mikið mál að stofna svipaða síðu sem ekki er stýrt af stjórnmálaflokki?ið mál að stofna svipaða síðu sem ekki er stýrt af stjórnmálaflokki?

  • Ómar Kristjánsson

    Haa? Eru framsóknarmenn farnir að ritskoða svona hart? Í mínu tilfelli fékk eg aðvörun álíka og Einar lýsir. Sárasaklaus ummæli um núv. forsætisráðherra sérstaklega ef haft er í huga hverskonar ummæli voru viðhöfð um fv. forsætisráðherra og Eyjan virtist þá beinlínis kynda undir og stíla fréttir uppá að fá sem svæsnust ummæli.

    Eg tók þessa ,,aðvörun“ eða ,,tiltal“ ekki beinlínis sem hótun um útilokun. Ekki beinlínis.

    (Í seinna tilfellinu um varðandi Jóhannes Björn, þá tók ég þau ummæli út sjálfur fyrst það var svona viðkvæmt. Skipti engu svo sem.)

    Augljóslega verður maður að fara varlega hérna.

  • Hreggviður

    Ég fer inn á eyjuna af tvennum ástæðum. Önnur ert þú Einar og hin er Stefán Ólafsson.
    Eyjan er ónýt orðin.

    • er ekki hægt að stofna frjálsan og óháðan bloggmiðil?

  • Ingimundur Kjarval

    Ég hef verið lokaður af athugasemdum Eyjunnar í áraraðir, hef ekki hugmynd hvers vegna, grunar þó að það sé vegna Kjarvalsmálsins, ég einn þessara „kværúlanta“ sem ekki á að heyrast í.

    Ég veit ekki til þess að nota stór orð, þó ég sé stundum neikvæður. Hefði tildæmis aldrei notað orðið „drusla“ eða „heimskur“, þó ég hefði kannski sagt það sama með öðrum orðum. Ég er harður á því að það hafi verið lokað á mig vegna þess sem ég sagði en ekki hvernig ég sagði það. Má vel vera að ég fyrir slysni hafi notað sterkt orð einhvern tímann, ekki veit ég, fékk aldrei aðvörun svo ég viti.

  • Tumblr var að uppfæra notendaskilmála sína. Þar kemur þetta fram „We encourage you to dismantle negative speech through argument rather than censorship.“

    Þetta skilja ritstjórar íslenskra netmiðla ekki. Þeir beita allir censorship frekar en argument, því miður.

    Svo er það ansi dapurt að fésbók er nánast leiðin að athugasemdakerfum netmiðlanna.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sjö? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur