Miðvikudagur 05.02.2014 - 12:12 - 1 ummæli

Samsæri til verndar Hönnu Birnu?

Ég er sjaldan hrifinn af samsæriskenningum, og þótt mér leiðist endalausar „tilvitnanir“ sem eru daglegt brauð á samfélagsmiðlunum þá á ég mér þó eina sem ég held upp á.  Á íslensku gæti hún hljóðað svo: „Ekki líta á það sem samsæri sem auðvelt er að útskýra með heimsku“.  (Á frummálinu(?) ensku: „Never attribute to conspiracy that which can be adequately explained by stupidity“.)
Þetta á sérstaklega vel við á Íslandi, því það er oft ógerningur að skera úr um hvort það er fúsk eða spilling (heimska eða samsæri) sem er að baki ýmsum ákvörðunum og aðgerðaleysi í stjórnsýslunni sem eru í himinhrópandi andstöðu við heilbrigða skynsemi og hagsmuni almennings.  Því ætla ég ekki að halda fram fullum fetum að það sé raunverulegt samsæri, þar sem valdafólk hafi beinlínis talað sig saman, sem veldur því sem virðast vera meðvitaðar aðgerðir til að koma í veg fyrir að réttlætið nái fram að ganga í lekamáli innanríkisráðuneytisins.  En framganga lögreglu og ríkissaksóknara í málinu vekur óneitanlega slíkar grunsemdir.
Fyrstu ábendingar og/eða kærur um lekamálið (sem fyrst var fjallað um Morgunblaðinu og Fréttablaðinu 20. nóvember) voru sendar lögreglu í lok nóvember (og hugsanlega fyrr).  Meðal þeirra sem kærðu var lögmaður eins þeirra sem níddir voru niður í minnisblaðinu sem virðist hafa verið samið í ráðuneytinu og lekið þaðan.  Sjálfur sendi ég lögreglu slíka ábendingu, á netfangið abending@lrh.is.  Ég fékk svar fáum dögum síðar, frá Herði Jóhannessyni aðstoðarlögreglustjóra.  Hann ráðlagði mér af einhverjum ástæðum að senda skriflega kæru, á pappír, en benti líka á 52. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, þar sem kemur fram að lögreglu beri að „hefja rannsókn út af vitneskju eða grun um að refsivert brot hafi verið framið hvort sem henni hefur borist kæra eða ekki“.  Grunurinn var augljóslega sterkur í þessu máli, þar sem Morgunblaðið hélt fram að það væri með minnisblað frá ráðuneytinu, og því mótmælti ráðuneytið aldrei.
Þegar ég spurði Hörð svo, fyrir nokkrum dögum, hvort það væri rétt að lögregla hefði ekki hafið rannsókn á málinu svaraði hann og sagði „Ég sé ekki að nein kæra eða erindi frá þér sé skráð hér.“  Þegar ég benti honum á fyrri skrif hans svaraði hann:
„Hins vegar er ríkissaksóknari að skoða þetta mál þannig að það fær meðferð, hvort sem þín ábending komst til skila eða ekki.
Málið er til athugunar hjá ríkissaksóknara og þar af leiðandi er lögreglan ekki með rannsókn í gangi á sama tíma.“
Ég spurði Hörð þá aftur, fyrir tveim dögum, af hverju hann segði að „þar af leiðandi“ væri lögregla ekki að rannsaka málið.  Enn fremur spurði ég hvort það væri ekki rétt skilið hjá mér að saksóknari hefði hafið rannsókn eftir að málið var kært til lögreglu, og hver hefði tekið þá ákvörðun hjá lögreglunni að rannsaka ekki málið.  Hörður hefur ekki svarað því enn.
Þegar lögreglu er tilkynnt um grun um alvarleg afbrot væntir maður þess að þeir sem grunur beinist að séu yfirheyrðir í skyndi, sem og aðrir sem líklegt er að haft geti vitneskju um málavexti.  Þess vegna hefði verið eðlilegt að yfirheyra ráðuneytisstjóra, ráðherra og aðstoðarmenn hennar tvo, ekki síst þar sem annar þeirra sagði í blaðaviðtali, aðspurður um minnisblaðið, að einhverjir starfsmenn ráðuneytisins „gætu verið að búa til einhverja punkta hjá sér“.  Auk þess hefði, þegar „venjulegt“ fólk á í hlut, líklega verið gerð húsleit til að reyna að finna sönnunargögn.  Ekkert af þessu var gert, og enn, meira en tveim mánuðum síðar, hefur lögregla ekkert aðhafst.
Þetta er samsæriskenningin:  Lögregla og ríkissaksóknari (sem bæði heyra undir þá sem grunaðir eru) hafa komið sér saman um að láta ríkissaksóknara „rannsaka“ málið.  Þannig sleppa hinir grunuðu við óþægilegar spurningar í yfirheyrslum lögreglu.  Í staðinn fá þeir nokkra mánuði til að svara skriflegum spurningum ríkissaksóknara, og komast upp með að veita svo ófullnægjandi svör, þegar þeir loks svara eftir dúk og disk, að saksóknari þarf að biðja þá, náðarsamlegast, að segja sér meira um meint afbrot sín svo hægt sé að ákæra þá og refsa þeim.
Þegar nógu langur tími er liðinn til að útilokað sé að rannsaka málið með fullnægjandi hǽtti, af því að hinir grunuðu hafa fengið ráðrúm til að eyða öllum hættulegum gögnum og tala sig saman um hverju þeir eigi að ljúga, lýsir ríkissaksóknari því yfir að ekki sé tilefni til lögreglurannsóknar.
Ég vona að ég hafi rangt fyrir mér, og að Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari sé ekki að draga „rannsókn“ málsins á langinn til að eyðileggja alla möguleika á að réttlætið nái fram að ganga.  En, ég hef áhyggjur af að það verði niðurstaðan af þessum vinnubrögðum, sem engum geta gagnast nema hinum grunuðu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Haukur Kristinsson

    Þetta mun vera rétt greining hjá Einari. Sjallaklíkan hefur tekið höndum saman um að vernda Hönnu Birni, að koma í veg fyrir að hún verði að segja af sér. Og líklega mun þeim takast það.

    „Ógeðslega klíkusamféllagið“ hans Styrmis lifir ekki aðeins góðu, heldur hefur versnað með tilkomu banal þjóðrembu.
    Þröstur Ólafsson skrifaði excellent grein um þetta þema sem birtist í Eyjunni í gær; „Þjóðremban einangrar og veikir.“

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sex? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur