Laugardagur 15.03.2014 - 10:30 - 7 ummæli

Um hvað spyr Mikael Hönnu Birnu?

Á morgun, sunnudag, ætlar Mikael Torfason að tala við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í þætti sínum Mín skoðun á Stöð 2.  Það gæti orðið áhugavert, enda er Mikael í þeirri lykilstöðu að vera aðalritstjóri frétta á 365 miðlum, öðrum þeirra tveggja fjölmiðla sem minnisblaði úr innanríkisráðuneytinu var lekið til í nóvember.  Sá leki hefur verið viðfangsefni lögreglurannsóknar síðastliðinn mánuð, eftir að ríkissaksóknari hafði rannsakað málið í tvo mánuði og kveðið upp úr um að gera þyrfti sakamálarannsókn. 
Fréttastofa Mikaels hefur að vísu ekki staðið fyrir mikilli fréttamennsku um þetta stórmál, og það þótt hún hafi fengið minnisblaðið fyrst fjölmiðla (ásamt Mogganum), og viti þannig væntanlega hvaða leið það barst úr ráðuneytinu.
En, ég ætla að leyfa mér að vera vongóður, og trúa því að á morgun geri Mikael bragarbót á þessu og spyrji þeirra sjálfsögðu, og óþægilegu, spurninga sem sérhver metnaðarfull fréttamanneskja myndi spyrja ráðherra sem sætti sakamálarannsókn vegna gruns um alvarlegt hegningarlagabrot.  Til að hjálpa Mikael svolítið í þessu (af því að undirmenn hans virðast hafa verið svo tregir til þess hingað til) ætla ég telja upp nokkrar af þessum spurningum sem það væri nánast glæpsamlegt að krefja Hönnu Birnu ekki svara um á morgun:
 • Það er komið í ljós að í ráðuneytinu er til skjal sem er nánast samhljóða minnisblaðinu sem var lekið.  Hvað áttirðu við þegar þú sagðir að í ráðuneytinu væri ekki til neitt sambærilegt skjal við minnisblaðið?
 • (Ef Hanna Birna neitar þessari staðhæfingu):  Ertu að halda því fram að minnisblaðið sem lekið var í fjölmiðla (og sem þér hefur verið sent afrit af), sé ekki nokkurn veginn samhljóða neinu skjali sem til er í ráðuneytinu, þótt  haft hafi verið eftir heimildarmönnum innan ráðuneytisins að slíkt skjal sé þar til, og sé á málaskrá?
 • Af hverju vékst þú ekki tímabundið þegar ríkissaksóknari ákvað, eftir eigin rannsókn, að láta fara fram lögreglurannsókn á hendur þér og undirmönnum þínum?
 • Hvernig á almenningur að geta treyst því að rannsóknin fari fram með eðlilegum hætti þegar þeir sem bera ábyrgð á henni eiga starf sitt undir þér, eins og t.d. lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, sem þú getur rekið hvenær sem er, auk þess sem skipunartími hans rennur út á kjörtímabilinu og þá á hann framhaldsráðningu undir þér?
 • Af hverju hélstu því fram að ekki væri um að ræða sakamálarannsókn þegar ríkissaksóknari lagði fyrir lögreglu að gera slíka rannsókn?
 • Af hverju hélstu því fram að rannsókn ríkissaksóknara væri meðal annars að undirlagi ráðuneytisins?
 • Af hverju komst þú ekki í veg fyrir að Tony Omos, sem var rægður við fjölmiðla í þessu minnisblaði, sem allt bendir til að hafi verið viljandi lekið úr ráðuneytinu, væri vísað úr landi, í skjóli myrkurs, án þess að haft væri samband við lögmann hans, og án þess þú værir búin að úrskurða í máli hans sem var enn til meðferðar hjá ráðuneytinu?

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

 • Málfríður

  Hún sagði reyndar að ekki væri um að ræða sakamálarannsókn.

  En það er rangt hjá henni.

  Rannsókn á mögulegu hegningarlagabroti er sakamálarannsókn.

  • Einar Steingrímsson

   Takk fyrir ábendinguna, Málfríður, ég breyti þessi í pistlinum. En, burtséð frá því að þetta er rétt hjá þér, þ,e.a.s. að Hanna Birna notaði orðið „sakamálarannsókn“, er lögreglurannsókn ekki það sama og sakamálarannsókn?

 • Málfríður

  Jú, líklegast er lögreglurannsókn það sama og sakamálarannsókn.

  Lög-reglu-rannsókn.

 • Mikael mætti nú sýna Hönnu Birnu ákveðið myndband, tekur stutta stund.

  Hvað segir hún þar?

  ,,Í rauninni er þetta allt svo ofureinfalt. Snýst um að fjölskyldur geti treyst því að hér taki við breytingar og betri tímar…Við þurfum að eyða óvissunni og komast á betri stað.‘‘

  Telur Hanna Birna að Sjálfstæðisflokkurinn hafi eytt þessari óvissu eða sé á góðri leið að eyða óvissunni sem hún talar um?

  ,,Fólkið heima og fjölskyldurnar heima geti horft í augun á börnunum sínum og sagt, það er hvergi betra að búa en nákvæmlega hér…Ég finn það að fólk er reiðubúið í breytingar.‘‘

  Hvaða breytingar á Hanna Birna hér við? Er flokkurinn reiðubúinn í þær breytingar sem þjóðin vill?

  ,,Fólk er einungis að biðja um það við sem erum í stjórnmálum gefum því von og þá fer þjóðin öll með okkur í þetta verkefni.‘‘

  Hvaða von er Hanna Birna að tala um? Telur hún að draga ESB umsókn til baka vekji þjóðinni von? Telur hún að þjóðin sé tilbúin í það verkefni?

 • Mikael ætti kannski líka að spyrja Hönnu Birnu hvort hún ætli að láta ólöglegar nauðungarsölur á heimilum neytenda hefjast að nýju eftir að frestun á þeim rennur út þann 1. september næstkomandi? Hann ætti kannski líka að spyrja hana hvenær hún ætli að virða ákvörðun Neytendastofu nr. 8/2014 og láta stöðva óheimila innheimtu verðbóta af neytendalánum landsmanna? Hann ætti kannski líka að spyrja hana hvenær hún ætli að láta loka fyrirtækjum sem stunda slíka skipulagða glæpastarfsemi og fangelsa þjófana sem þar starfa? Já það er margt og mikið sem innanríkisráðherra þyrfti að svara fyrir, ef þetta væri réttarríki.

  • Einar Steingrímsson

   Það er ansi margt sem góð fréttamanneskja myndi spyrja Hönnu Birnu út í, við svona tækifæri. Kemur í ljós á morgun hversu góður Mikael er.

 • Hann Mikael mætti nú einnig spyrja hana HB um undarlega starfshætti Stefáns og félaga, og þá sérstaklega pedó-hneykslið á Hverfisgötunni, sbr eftirfarandi ummæli „..en ríkissaksóknari segist hafa falið lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu (þessum sem nýlega fékk fálkaorðuna fyrir afrek sín á sviði löggæslumála) að meta hvort ætti að víkja manninum frá störfum.“
  http://kvennabladid.is/2014/01/23/var-meint-kynferdisbrot-logreglumanns-ekkert-rannsakad/

  Vert væri einnig að minnast á athugasemdir Pyntingarnefndar Evrópuráðsins, m.a. varðandi skort á óháðu eftirliti með lögreglunni, og svo á misvísandi svör ráðuneytisins.

  http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/28773

  Furðulegt að HB geri ekkert í þessu. Við skulum vona að Stefán og félagar sjái sig ekki knúna til að launa hvítþvottinn.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og tveimur? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur