Miðvikudagur 26.03.2014 - 17:00 - 11 ummæli

Opið bréf til Mikaels Torfasonar

Sæll Mikael
Gaukur Úlfarsson var að bjóða mér að spyrja Katrínu Jakobsdóttur spurningar í þætti þínum Mín skoðun.  Ég afþakkaði.  Ég vildi að vísu gjarnan fá að spyrja margt stjórnmálafólk ýmissa spurninga sem ég tel að fjölmiðlar hafi annað hvort ekki gert eða klúðrað.  En það er vonlaust að gera það með þessum hætti, þannig að nokkuð vitrænt sé líklegt til að koma út úr því.  Færi það eins og ég tel líklegast, miðað við frammistöðu þína hingað til, yrði það þvert á móti til þess eins að gefa viðkomandi stjórnmálamanneskju tækifæri til að fegra eigin ímynd.
Stjórnmálafólk á nefnilega yfirleitt auðvelt með, og tíðkar margt, að víkja sér undan því að svara erfiðum spurningum beint, auk þess sem oftast þarf að spyrja framhaldsspurninga til að fá eitthvað út úr því.  Í útlöndum er þetta oft erfiðara af því að þeir sem spyrja eru stundum fólk sem annars vegar hefur raunverulegan áhuga á að fá fram eitthvað bitastætt og hins vegar hefur til að bera þá lágmarks þekkingu, hæfileika og metnað sem til þarf.
Vel má vera að ég vanmeti hæfileika þína sem fréttmanns.  En það er þá eingöngu vegna þess að þú hefur farið með þá eins og mannsmorð.
Mér var boðið að spyrja spurningar kynntur sem „Virkur í athugasemdum“.  Mér væri að vísu nákvæmlega sama um það sjálfum, og hefði ekki látið það stoppa mig hér.  Mér finnst hins vegar bókstaflega subbulegt af þér að kynna fólk með þessum hætti í þættinum.  Þótt mér finnist þessi titill alls ekki niðrandi þá veist þú vel að það er algengt viðhorf að virkir í athugasemdum séu leiðinda kverúlantar.  Það sem verra er, þú kynnir með þessum hætti fólk sem hefur gjarnan áhugaverða hluti að segja og gerir þannig lítið úr því.
Til að bíta höfuðið af skömminni notar þú þetta svo til að gefa valdamanneskjum, sem spurningu eða gagnrýni er beint að, kost á að „svara“ eins og þeim finnst henta sjálfum, án þess að þú hafir gert minnstu tilraun til að fá fram eitthvað sem skiptir máli.
Í stuttu máli:  Þú notar þáttinn þinn til að niðra venjulegt fólk, samtímis því sem þú bugtar þig og beygir fyrir valdinu.  Fjær er varla hægt að komast  því sem einkennir góða og metnaðarfulla fréttamennsku.
Bestu kveðjur,
Einar

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

 • Málfríður

  Sammála. Þetta heitir réttilega að nota þáttinn til að niðra venjulegu fólki.

 • Rétt hjá þér Einar, að afþakka boðið, þáttur Mikaels er hvorki fugl né fiskur, og hann sjálfur er eitt skólabókadæmi hvernig fréttamaður á ekki að vera.

 • Gott hjá þér. Þátturinn er enginn „hardtalk“ nema síður sé. Svo er þetta einstaklega lélegt hjá honum að hæðast að „virkum“. Menn sem eru beittir í skrifum eru oftar en ekki feimnari við public speaking. Það þarf ekki annað en lesa Þorstein Pálsson og svo aftur að sjá hann í viðtali.

 • Rétt ákvörðun Einar.

  Gagnrýninn og hugsandi maður sem þú getur ekki lagst svo lágt að koma fram í þessum ótrúlega vonda þætti.

  Hann er jafnvel verri en þáttur Gísla Marteins og er þá mikið sagt.

  Afleitir sjónvarpsmenn báðir tveir.

  • Einar Steingrímsson

   Ég væri reyndar alveg til í að koma fram í þessum þætti, ef það væri undir kringumstæðum sem eitthvað áhugavert gæti komið út úr. Betra væri þó ef eitthvert öflugt fréttafólk væri fengið til að spyrja gesti þáttarins um það sem skptir máli.

 • Bergljót Davíðsdóttir

  Svona eiga mennn að vera, standa með sjálfum sér og láta ekki glepjast. En Mikki, svo ég verji hann aðeins, þá er þáttatjórnun ekki hans tebolli og ef hann væri ekki foxreiður mér, þá myndi ég segja honum það sjálf. En ég þekki hann og veit að hann hefur mikið til brunns að bera, og ætti að halda sig við það sem hann er bestur í. Hann er ótrúlega frjór og humyndaríkur, hann á afar auðvðelt með virkja fólk til fylgilags við sig inn á ristjórn, ná fram metnaði og krafti sem í manni býr og afar glöggur á að sjá hvar styrkur hvers blaðamanns liggur og virkja menn til góðra verka. Oft höfðu reyndir blaðamenn ekki hugmynd um eigin verðleika eða hvað þeir gerðu best og hvað þeir áttu að láta í hendur annarra, fyrr en í vinnu með Mikka. Þannig náðu margir góðir blaðamenn að blómstra undir hans stjórn.
  En ég tek undir af heilum hug, að Mikki á ekki að láta sjá sig á skjánum, heldur ætti hann að kasta fram hugmyndum og hlusta eftir þeim hjá hinum og útfæra þær. En ekki sitja í sæti spyrjanda.

 • Guðný Ármannsdóttir

  Sko, virkir í athugasemdum geta verið óþægilegir, sérstaklega þeim sem fara með valdið eða vilja stýra umræðunni. Eiga það stundum til að benda á óþægilega hluti, eins og að keisarinn sé ekki í fötum og svona. Það verður einhvernveginn að reyna að stoppa það af, ef ekki með ritskoðun, þá með niðrun.

  Svo vona ég bara að Vigdís H. fari ekki að ritskoða Eyjuna og henda burt andframsóknískum ummælum,

 • Björgvin Mýrdal

  Mikki Torfa stimplaði sig út úr umræðunni með viðtalinu við Hönnu Birnu…

 • Jón Kristjánsson

  Þessi ummæli koma úr hörðustu átt. Það hefur ekki farið fram hjá mörgum sem lesa netmiðlana að þú ert einn af aðaldrulludreifurum kommentakerfisins.

  Drengur líttu þér nær.

  • Jón Kristjánsson: hvaða „margir“ eru þetta sem þú ert talsmaður fyrir? Ekki hef ég tekið eftir því að Einar hafi verið að spreða einhverri drullu. Hann er bara gagnrýnin og fylgin sér. Ekki veitir af.

  • Málfríður

   Kórrétt, Hannes.

   Aftur á móti dreifir Jón þessi Kristjánsson drullunni, sem sjá má.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sjö? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur