Miðvikudagur 17.12.2014 - 10:15 - 9 ummæli

Bænafólk og mannréttindi

Sumt fólk telur að Tony Omos eigi ekki að fá landvistarleyfi á Íslandi, af því að sé hann ekki örugglega sekur, þá sé að minnsta kosti líklegt að hann sé sekur um glæpi (og það fólk virðist engu máli skipta að engar áreiðanlegar vísbendingar séu um það). Þetta fólk telur að mannréttindin sem flóttafólk á almennt að njóta eigi ekki að gilda um Tony, af því að hann sé sennilega ekki nógu góð manneskja til þess.

Margir telja að bænafólkið sem vill mótmæla fóstureyðingum (friðsamlega) við Landspítalann eigi ekki að fá að njóta þess tjáningarfrelsis að mótmæla á almannafæri, af því að skoðanir þess geti sært annað fólk.

Í báðum tilfellum er talað fyrir því að gera undantekningar frá þeirri meginreglu að mannréttindi eigi að gilda fyrir alla, og að það megi ekki takmarka þau nema ríkir almannahagsmunir séu í veði. Í báðum tilfellum er verið að krefjast þess að mannréttindi gildi ekki fyrir tiltekið fólk sem vill njóta þeirra.

Ég sé engan afgerandi mun á þessum tveim málum frá sjónarhorni mannréttinda, bara hliðstæðu. Og vísasta leiðin til að mola úr mannréttindum er að verja þau ekki skilyrðislaust.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

 • Andrés Valgarðsson

  Mikið svakalega er ég sammála þér.

  Auðvitað á fólk að mega mótmæla svo lengi sem það er ekki beinlínis að trufla starfsemi spítalans eða veitast að þeim sem sækja þjónustu hans.

  Við getum ekki haft grunnreglur sem gilda bara um þá sem okkur líkar við og erum sammála.

 • Árni St. Sigurðsson

  Þarna get ég ekki verið sammála þér. Mótmælin eru stjórnarskrárvarin, á það er ekki deilt. Staðsetningin er til þess fallin að vera árás á þá sem þurfa aðstoð heilbrigðiskerfisins. Mótmælin mættu mín vegna vera fyrir dyrum Alþingis, Heilbrigðisráðuneytisins, hvar sem er nema þar sem konur á leið í fóstureyðingu sækja þá þjónustu. Mannréttindi eins enda þar sem mannréttindi annars hefjast.

  • Einar Steingrimsson

   Tjáningarfrelsi annarra á ekki að vera háð því sem er í lagi „þín vegna“, Árni.

   Og það eru EKKI mannréttindi að vera verndaður gagnvart skoðunum annarra, þótt manni finnist óþægilegt að heyra þær. Þess vegna er þetta í þessu tilfelli innantóm klisja að mannréttindi eins endi þar sem mannréttindi annars hefjast.

  • Sammála Árna St.

   Þú er algjörlega úti á túni varðandi tjáningarfrelsi og mannréttindi, Einar. En þessi sjónarmið heyrir maður svo sem oft frá áttavilltum vinstrimönnum. En þar sem mér finnst þú á mörgum sviðum þokkalega upplýstur, þá kemur mér þetta á óvart.

  • Árni St. Sigurðsson

   Þetta *mín* vísar til: vegna skoðana þeirra sem ég held fram. Lestu þér til um andrúmsloft kring um mótmæli kristinna hjá læknastofum sem þjónusta um fóstureyðingar í BNA. Mér finnst það nægjanlega stráð vondum andþjóðfélagslegum atburðum til að réttlæta takmörkun á andmælum. Mótmæli beinast alltaf að einhverjum. Hverjum beinast þeim að ef þau fara fram við spítalann? Umönnunarstarfsfólki og skjólstæðingum þeirra. Hver hefur vald til að breyta einhverju? Þing og embættismenn. Staðsetningin er því að breyta aðgerðinni úr pólitísku sjónarspili í ofbeldi gegn fólki sem fer eftir landslögum. Skjólstæðingar spítalans eru líka á viðkvæmum tímapunkti: í mörgum tilfellum að enda þungun sem vilji var til að bera til fulls. Mér finnst að við hin eigum að standa vörð um þá sem eiga um sárt að binda. Ég geri það hér með því að láta þeirra sjónarmið heyrast.

  • Einar Steingrimsson

   Það er ekki ofbeldi gegn neinum að tjá skoðanir sínar með friðsamlegum hætti, Árni. Og það að mótmæli beinist gegn einhverjum getur aldrei réttlætt að tjáningarfrelsið sé skert. Um leið og farið er að takmarka tjáningarfrelsið á grundvelli þess hvaða skoðanir verið er að tjá eða gegn hverjum mótmæli beinist er verið að skerða mannréttindi, og að setja úrskurðarvaldið um slíkt í hendur einhverra yfirvalda er stórhættulegt fordæmi.

 • Spartacus

  Sífellt fleiri kellingar af öllum kynjum vilja í alvöru láta banna með lögum það sem gæti hrætt þær eða móðgað.

  Segir sitt um réttarvitund þessarar ,,vel menntuðu“ þjóðar.

 • Það er eins og sumum þyki í fínu lagi að fórna grundvallarmannréttindum á grundvelli þess að mannréttindi annarra gæti mögulega sært tilfinningar einhverra. Mannréttindi eru svo miklu mikilvægari en svo að þeim megi víkja til hliðar með vellulegum tilfinningarökum. Tilfinningaklámið verður að víkja fyrir grundvallarmannréttindum.

 • Ég held að þú hljótir að vera vansælasti maður í heimi Einar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og einum? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur