Föstudagur 23.01.2015 - 10:15 - 4 ummæli

Hvenær fengu karlar kosningarétt?

[Þessi grein birtist fyrst í Kvennablaðinu 22. janúar]

Flestir vita núorðið að konur fengu kosningarétt til þings, án annarra takmarkana en við aldur, árið 1915. Svo mikið hefur verið talað um þetta síðustu mánuðina (og reyndar í langan tíma áður) að það hefur varla farið fram hjá nokkurri manneskju sem fylgist með. Allir „vita“ núorðið að konur fengu ekki almennan kosningarétt fyrr en 19. júní 1915, löngu á eftir körlum.

En veist þú, lesandi góður, hvenær karlar á Íslandi fengu kosningarétt til þings, óháð öðru en aldri, þ.e.a.s. þann rétt sem konur fengu árið 1915?

Staðreyndin er að það sem flestir halda sig vita um þetta er rangt. Karlar fengu  almennan kosningarétt, óháðan öðru en aldri, um leið og konur, 19. júní 1915. Um það má til dæmis lesa hjá Kvennasögusafni Íslands.  Af einhverjum ástæðum þykir engin ástæða til að halda á lofti þeirri staðreynd, í öllu talinu um hundrað ára afmæli kosningaréttar kvenna, að eignalausir karlar , t.d. verkamenn og vinnumenn í sveit, voru kúgaðir með sama hætti og konur hvað þetta varðar.

Enginn getur efast um að konur hafi sætt ýmiss konar misrétti gegnum aldirnar (þótt alltaf virðist gleymast að hlutskipti stórs hluta karla var ekki endilega neitt betra). Og það er ekkert að því að halda upp á merka áfanga í þeirri sögu. Það er hins vegar ljótt að stunda, ef ekki sögufölsun þá a.m.k. „söguförðun“ af því tagi sem hér á sér stað.  Það er gömul saga og ný að þeir sem lakast eru settir í samfélaginu eru ekki síður karlar en konur. Það virðist hins vegar ekki skipta neinu máli þegar rætt er um meint slæmt hlutskipti kvenna, eins og konur hafi það almennt mjög skítt en karlar mjög gott, á kostnað kvenna. Þau ósannindi eru endurtekin svo títt að það er vonlítið að leiðrétta þau.

Jafnrétti og spilling

En, það er ekki nóg með að hluta sannleikans sé sópað snyrtilega út í horn í áróðrinum, konur eru orðnar svo gjaldgengar í æðstu valdastöðum þess þings sem þær fengu kosningarétt til 1915 að þær fá nú að taka virkan þátt í spillingunni þar á bæ. Alþingi samþykkti nefnilega ályktun um að halda skyldi hátíð í ár vegna þessa afmælis. Fyrsti flutningsmaður var Ásta R. Jóhannesdóttir, þáverandi þingforseti. Meðal annars var samþykkt að ráða framkvæmdastjóra verkefnisins. Um það starf sóttu 75 manns. Svo skemmtilega vildi til að það var einmitt Ásta R. sem hreppti hnossið í þessari hörðu samkeppni. Hún sótti sem sagt um starfið sem hún beitti sér sjálf fyrir að yrði búið til, og fékk það. Það var forsætisnefnd þingsins, sem hún hafði skömmu áður veitt forstöðu, sem réði í starfið …

Það vill líka svo skemmtilega til að í framkvæmdanefndinni sem á að  hjálpa Ástu að skipuleggja hátíðahöldin vegna þessa merka jafnréttisáfanga eru fimm manns, allt konur.

Jöfn forréttindi hjá Reykjavíkurborg

En það er ekki bara Alþingi sem ætlar að halda upp á afmælið; það ætlar Reykjavíkurborg að gera líka. Á hennar vegum verður dagskrá með 100 viðburðum. Í tilkynningu um það er ekki minnst orði á kosningarétt karla. En hver er raunveruleg stefna borgaryfirvalda í jafnréttismálum? Í aðgerðaáætlun borgarinnar í jafnréttismálum 2011-2015 segir þetta:

„Reykjavíkurborg vann launaúttekt árið 2010. Í þeirri úttekt kom í ljós að launamunur milli kynja liggur fyrst og fremst í yfirvinnu- og akstursgreiðslum.“

Aðgerðin sem fara á í af þessu tilefni er að

„Vinna greiningu á yfirvinnu- og akstursgreiðslum hjá Reykjavíkurborg og hvort stjórnendur fara að settum leikreglum.“

Þetta er eina athugasemdin, og eina aðgerðin, sem varðar launajafnrétti í þessari aðgerðaáætlun. Ljóst er að hér er fyrst og fremst verið að fjalla um meintan launamun milli kynja í æðstu stöðum (því gera má ráð fyrir að fáir aðrir fái greiddan aksturskostnað og yfirvinnu nema nákvæmlega fyrir það sem ekið er og unnið). Eins og svo oft snýst jafnréttisbarátta þessa valdafólks sem sagt bara um þá sem sitja efst í valdapíramídanum.

Engu af forystufólkinu í borginni virðist detta í hug að gera raunverulegt átak til að hækka laun lágtlaunaðra kvenna. Eitt af því sem borgin gæti gert, þar sem hún ræður því alveg sjálf, er að hækka laun leikskólakennara, sem nánast allir eru konur, til dæmis til jafns við laun grunnskólakennara. Slík aðgerð myndi hafa gríðarlega launajafnandi áhrif, auk þess sem erfitt er að sjá réttlætið í lágum launum leikskólakennara. En riddarar „jafnréttisbaráttunnar“ hafa öðrum og mikilvægari hnöppum að hneppa.

Afmælisfagnaðurinn vegna kosningaréttar kvenna fyrir hundrað árum verður sem sagt á sömu nótum og mestöll „jafnréttisbarátta“ síðustu ára; skrautsýning þeirra sem vilja láta líta á sig sem merkilegt forystufólk, en sem geta ekki hugsað sér að óhreinka á sér hendurnar á því sem hægt væri að gera til gagns.  Jafnréttisbarátta þess snýst um jöfn forréttindi fárra.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

 • Kærar þakkir Einar fyrir þessi skrif og önnur.

  Þetta er nákvæmlega málið – þetta er skrautsýning einhvers liðs sem telur sig „forustufólk“ í samfélaginu.

  Þessu drasli er skítsama um launafólk í landinu og „jafnréttisbaráttan“ er bara yfirvarp til þess að þetta folk geti fengið útrás fyrir valdafíkn sína, sjálfhverfu og yfirráðaþörf.

  Til skammar.

 • Spartacus

  Eins og talað úr hjörtum okkar hér í þrælabúðunum.

 • Takk fyrir að minna á þá staðreynd að margir og kannski flestir karlar kosningarétt á sama tíma og konurnar. Og líka fyrir vekja athygli á kynjahallanum í þessari hátíðarnefnd. Merkilegt líka hvað oft finnast peningar í ríkiskassanum fyrir svona skemmtinefndir. Aðhald í ríkisrekstrinum á bara við suma geira, svo sem mennta- og heilbrigðismál.
  Varðandi kosningarétt karla; Ísland var sárfátækt samfélag árið 1915 og ég geri ráð fyrir að stétt eignalausra verkamanna hafi verið stór. Hvað skyldi hátt hlutfall karla hafa fengið kosingaréttinn 19. júní 1915? Það væri mjög fróðlegt að vita í tilefni 100 ára afmælis almenns kosningaréttar Íslendinga.

 • Villta vinstrið ákvað meðvitað fyrir ca. tveimur áratugum að ýta stéttarbaráttunni til hliðar og taka upp nýtt baráttumál, byggt á tískustraumum núsins. Eftir að hafa áratugum saman barist fyrir jafnræði milli stétta í þjóðfélaginu, og gert það bara nokkuð vel, þá er helsta baráttumálið orðið feminismi, og afleiðingin er botnlaus þvæla.

  Þar með hófst grófasta sögufölsun í aldir þegar reynt var að koma því inn hjá illa upplýstum almenningi að hefðarkonur fyrri alda hafi í raun deilt kjörum með alþýðukonum og að kúgun frá upphafi hafi verið kynbundin og ekkert haft með stétt eða stöðu að gera. Eftir stendur vinstri-pólitík sem lætur stjórnast af miðaldra frústreruðum háskólakonum sem hafa of mikinn frítíma og of fá áhugamál.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sex? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur