[Þessi pistill birtist fyrst í Kvennablaðinu í gær]
Ég er stundum skammaður fyrir að skamma Háskóla Íslands of mikið, og sumir velta því fyrir sér af hverju ég sé að sækja um starf við skóla sem ég finni allt til foráttu. Nú er það reyndar svo að ég er alltaf að benda á að í skólanum sé margt gott, bæði talsvert af góðu vísindafólki sem sumt er framúrskarandi á alþjóðavettvangi og mikil þekking á því hvað séu góðir kennsluhættir. En skólinn eyðir rannsóknafé sínu í of litlum mæli í það sem gott er innan hans, og víða eru góðir kennsluhættir algerlega hunsaðir. Með því að breyta þessu hvoru tveggja væri hægt að gera Háskóla Íslands miklu betri en hann er í dag, og það er það sem mig langar að gera. En til að bæta starf skólans þurfum við fyrst að horfast í augu við vandamálin og viðurkenna þau. Fyrr munum við ekki laga þau.
Hér ætla ég að rekja nokkur atriði í málflutningi forystu skólans sem fara í bága við starf hennar, og sem í sumum tilvikum eru bókstaflega slík fegrun á sannleikanum að við myndum hundskamma nemendur okkar fyrir að leyfa sér slíkt.
Er Háskóli Íslands einn af 300 bestu í heiminum?
Forystu skólans, ekki síst Kristínu Ingólfsdóttur rektor og aðstoðarrektornum Jóni Atla Benediktssyni sem býður sig fram til rektors, hefur orðið tíðrætt um að HÍ hafi komist inn á lista Times Higher Education yfir 300 bestu háskóla heims, þar sem hann situr nú í 250.-275. sæti. Það sem forystan nefnir aldrei er að þetta er bara einn af a.m.k. fimm vel þekktum listum yfir bestu háskóla heims. Hér eru hinir fjórir listarnir, og staða HÍ á þeim:
US News & World Report: 500 bestu, HÍ ekki með
Shanghai: 500 bestu, HÍ ekki með
CWUR: HÍ í sæti 516
QS: 800 bestu, HÍ ekki með
Ef við skoðum gögnin með þeim hætti sem háskólafólk með lágmarks virðingu fyrir góðum vinnubrögðum gerir, í stað þess að velja bara úr þeim það sem hentar okkar „málstað“, þá er staðreyndin þessi: Á helstu listum yfir bestu háskóla í heimi er HÍ að meðaltali einhvers staðar fyrir neðan 500. sæti.
Fræðsluhlutverk HÍ gagnvart samfélaginu
Mikið er talað, sérstaklega í „hátíðarræðum“, um mikilvægt fræðsluhlutverk HÍ í samfélaginu. Merkilegt nokk er HÍ þó ekki í hópi þeirra skóla heims sem leggja kapp á að birta sem mest af efni námskeiða almenningi á netinu, heldur er það efni sem birt er á Uglunni, innri vef skólans, nánast alltaf lokað almenningi. Ekki nóg með það; efni margra, ef ekki flestra, námskeiða er lokað öllum nema þeim sem hafa tekið viðkomandi námskeið. Þannig geta nemendur ekki einu sinni kynnt sér efni námskeiða sem þeir eiga eftir að taka, hvað þá að þeir geti fræðst um aðrar greinar.
Er HÍ í fararbroddi í nýsköpun og tækniþróun?
Forystuhlutverk HÍ í nýsköpun og tækniþróun er oft dásamað af forystu skólans. Samt er ennþá algengt að námsmat, jafnvel í umfangsmiklum undirstöðunámskeiðum, einskorðist við skriflegt lokapróf, í mikilli tímaþröng, þar sem nemendur eru einangraðir frá öllum tólum og gögnum sem venjan er að nota við lausn verkefna á viðkomandi sviði. Burtséð frá því að kennsluhættir af þessu tagi eru ekki til þess fallnir að þjálfa nemendur í góðum vinnubrögðum, hvað þá að frammistaða þeirra í slíku sé metin til einkunnar, þá er þetta sérkennilegur tvískinnungur í háskólastarfi á 21. öld.
Er ritstuldur alvarlegt brot?
Gríðarleg áhersla er lögð á það í öllu háskólastarfi að kynna aldrei hugverk annarra sem sín eigin. Þar sem háskólastarf snýst fyrst og fremst um hugverk er brot gegn þessu ekki síður alvarlegt en fjárdráttur í banka. Nemendum HÍ er, eins og í öðrum háskólum, refsað fyrir brot á þessu. Hins vegar eru engar sérstakar reglur um viðurlög ef akademískir starfsmenn brjóta af sér með þessum hætti. Miðað við upplýsingar frá forystu skólans hefur kennara aldrei verið refsað fyrir slíkt brot. Samt vita allir að það er ekki vegna þess að ekki hafi verið framin gríðarlega alvarleg brot af því tagi. Hvernig er hægt að búast við að nemendur taki brýningar um alvarleika ritstuldar þegar þeir vita að kennarar komast upp með slíkt án viðurlaga?
Er HÍ alþjóðlegur háskóli?
Stefna Háskóla Íslands hefur í níu ár verið að skólinn eigi að verða öflugur rannsóknaháskóli á alþjóðavettvangi. Samt er ansi margt „séríslenskt“ í starfi skólans, sem aldrei fást sannfærandi skýringar á af hverju ætti að vera nauðsynlegt. Að þessu leyti minnir málflutningur forystunnar óþægilega oft á gorgeirinn í klappliði útrásarinnar fyrir hrun.
HÍ er með 18 blaðsíðna vinnumatskerfi sem liggur til grundvallar launagreiðslum og framgangi, þar sem eingöngu er metið magn, t.d. fjöldi birtinga, jafnvel í íslenskum tímaritum á svo alþjóðlegum sviðum sem sálfræði, en ekkert hirt um gæði framlags starfsmanna. Þetta er óþekkt í þeim skólum sem HÍ segist vilja líkjast. Það er líka afar algengt í góðum háskólum erlendis að leita út fyrir skólann þegar ráðið er í forystustörf. Ástæðan er augljós; bæði eiga utanaðkomandi oft auðveldara með að sjá hvað er gott og hvað slæmt í starfi skólans (og viðurkenna það), og eins er erfitt fyrir okkur flest að taka á erfiðum vandamálum í hópi fólks sem við höfum lengi tilheyrt, og þar sem við eigum vini og jafnvel óvini.
En það eru auðvitað engar „séríslenskar“ aðstæður sem afsaka heimóttarskapinn og afdalamennskuna í forystu HÍ, sem bitnar helst á því sem best er í starfi skólans. Og sú innræktun sem þar hefur átt sér stað í hundrað ár er ekki af hinu góða.
Til að HÍ geti eflst til muna, sem allar forsendur eru fyrir, þarf hann forystu sem leggur áherslu á að segja satt, viðurkenna mistök og vandamál, og einbeita sér að því að laga þau, í stað þess að flagga innistæðulausu skrumi.
Tölurnar að baki stigum HÍ á THE listanum eru heldur ekkert til að stæra sig sérstaklega af. Kennsla fær 14.9 stig af 100 mögulegum.
Teaching : 14.9
International outlook: 59.1
Industry income : 64.0
Research : 24.7
Citations : 74.8
http://www.timeshighereducation.co.uk/world-university-rankings/2014-15/world-ranking/institution/university-of-iceland
Samanborið við aðra stóra skóla á norðurlöndunum sem skora yfirleitt í kringum 30 stig í flokknum kennsla. Sæti á listanum er innan sviga
Karolinska institute: 57.1 (44)
Háskólinn í Stokkhólmi: 30.1 (98)
Háskólinn í Helsinki: 37.5 (103)
Háskólinn í Lundi: 32.6 (119)
Tækniháskóli Danmerkur: 39.9 (121)
KTH Svíþjóð: 45.7 (126)
Háskólinn í Árósum: 30.9 (153)
Háskólinn í Kaupmannahöfn: 34 (160)
Háskólinn í Osló : 36.1 (186)
Háskólinn í Björgvin: 29.5 (201-225)
Háskólinn í Gautaborg: 24.1 (226-250)
Háskólinn í Aalto: 31.8 (251-275)
Sænski Landbúnaðarháskólinn: 27.9 (251-275)
Chalmers: 35.7 (276-300)
NTNU-Þrándheimi: 33.5 (276-300)
Tækniháskólinn í Lappenranta: 25.2 (276-300)
http://www.timeshighereducation.co.uk/world-university-rankings/2014-15/world-ranking/range/001-200
Lægsta skorið í kennslu ,sem skóli á norðurlöndunum á þessum lista fær, er 19.5 og það er SDU í Danmörku (301-350)
Athyglisvert. Svo veltir maður líka fyrir sér hvers vegna skólinn er með svona hátt skor í tilvitnunum. Gæti það verið vegna þess að flestallar vísindagreinar Íslenskar erfðagreiningar teljast HÍ til tekna, þótt skólinn hafi afar lítið lagt af mörkum þar?
Það er ákaflega „óþjóðlegt“ að draga meinta „yfirburði“ okkar í efa.
Klárlega eru það ekki sérstaklega vinsælt af þeim sem fyrir á fleti liggja að benda á þessar augljósu staðreyndir.
Næsta spurning sem augljóslega liggur í loftinu á að verðlauna þær deildir sem skila mestum vísindalegum árangri (td. mælt ut frá impact factor) svo sem Læknadeild eða Jarðvísindadeild eða eiga þeir skilið jafn lítið og „skussarnir“ sem litlu hafa og munu áorka annað en að rífast hver við aðra í fjölmiðlum og draga orðstýr fræðasamfélagsins ofan í ræsið?
Raunar furðar maður sig á raunar á hversu lítið stendur á bak við titilinn prófessor í mörgum deildum.
Háskóli Íslands komst fyrst á listann 2011-2012. Klárlega ekki vegna stigafjölda í flokkunum kennsla og rannsóknir heldur fyrst og fremst fyrir tilvitnanir. Stigafjöldi í fyrri tveimur flokkunum var lægri þá en hann er í dag.
Án þess að hafa neitt fyrir mér þá dettur mér í hug að það sé um tvennt að ræða.
a) Fjöldi vísindagreina jókst
– það þarf lágmarksfjölda útgefinna greina til að geta komist á listann (án þessa var HÍ ekki gjaldgengt á listann)
– fleiri greinar, fleiri tilvitnanir
b) Fjöldi tilvitnana jókst skyndilega
– Vísindagreinar sem ekki voru unnar við háskólann voru færðar undir regnhlíf háskólans til að skora tilvitnanir.
Líklegast er þetta blanda af a og b.
THE gefur út að til þess að skóli sé gjaldgengur þurfi hann að hafa birt að lágmarki 200 greinar á ári (að meðaltali líklegast, 1000 á 5 árum). Þetta eru allt upplýsingar sem ættu að vera aðgengilegar hjá háskólanum.
Já, það er a.m.k. ljóst að greinar Íslenskrar erfðagreiningar, sem vitnað hefur verið í tuga þúsunda sinnum, hljóta að telja talsvert fyrir HÍ. Hversu afgerandi það hefur verið veit ég hins vegar ekki.
Ég er nemandi í meistaranámi í HÍ og óskaði eftir því að fá að taka lokapróf í tölvu í einum áfanga en því var hafnað. Ég þarf að framvísa læknisvottorði um fötlun af einhverju tagi og/eða lesblindu til að fá að taka próf í tölvu.
Allt lesefni og verkefnaskil í þessum áfanga eru á rafrænu formi og er því handskrifað próf ekki réttmætt skv. námsmatsfræðunum.
Háskóli sem notar 20. aldar námsmatsaðferðir getur aldrei komist á neina topplista.
Ef þetta verður eitt af þínu baráttumálum að bæta námsmatsaðferðirnar færðu mitt atkvæði.
Það er sannarlega eitt af helstu stefnumálum mínum að bæta kennsluna og námsmatið, og sérstaklega að netið verði notið eins og mögulegt er, á ýmsan hátt. Ég hef lýst skoðunum mínum á kennslumálunum á nokkrum stöðum, m.a. hér:
Ræða á fundi Stúdentaráðs 8. apríl
Góð háskólakennsla og slæm
Myndband um það sama