Mánudagur 13.04.2015 - 09:15 - 1 ummæli

Er Einar Steingrímsson á móti menntun leikskólakennara?

[Þessi pistill birtist fyrst í Kvennablaðinu í gær]

Í aðdraganda rektorskjörs í HÍ hefur eitt og annað sem ég hef sagt á Facebook verið dregið fram og rætt á netinu og víðar. Mér finnst bæði sjálfsagt og nauðsynlegt að fólk sem situr í valdastöðum eða sækist eftir því þurfi að standa fyrir máli sínu, jafnvel varðandi hluti sem það sagði fyrir löngu. Hins vegar hefur verið snúið svolítið út úr sumu af því sem ég hef sagt, meðal annars Facebook-status sem ég skrifaði fyrir tveim og hálfu ári um menntun leikskólakennara.

Það sem ég sagði í þessum status var að ég teldi ekki að það ætti að krefjast þess að leikskólakennarar þyrftu margra ára bóklegt háskólanám. Ég sagði hins vegar ekki það sem margir hafa haldið fram, að leikskólakennarar þyrftu enga menntun, hvað þá að ég teldi eitthvað rangt við að þeir hefðu slíka menntun.

Þessi status var ekki skrifaður sem stefnuyfirlýsing, enda hefur rektor engin völd til að skipta sér af menntunarkröfum leikskólakennara. Ef ég hefði slík völd myndi ég að sjálfsögðu ekki taka neinar ákvarðanir út frá eigin hugmyndum sem kastað hefði verið fram á Facebook, hvað þá fyrir nokkrum árum, heldur leita fyrst álits sérfræðinga og foreldra og engar ákvarðanir taka fyrr en eftir ítarlegar úttektir og greiningar (öfugt við það slugs sem mér finnst allt of algengt í íslenskri stjórnsýslu).

Ég hef margoft lýst því yfir að ég muni sem rektor ekki skipta mér beinlínis af akademísku starfi deilda háskólans; ég legg áherslu á að allar ákvarðanir um slíkt séu teknar á jafningjavettvangi, þ.e.a.s. innan viðkomandi deildar eða sviðs. Ég hef t.d. svarað spurningum um þetta varðandi kynjafræði og guðfræði á framboðssíðunni minni, og sagt einmitt þetta: Ég mun sem rektor ekki skipta mér af því hvernig akademíska starfið fer fram innan einstakra deilda; slíkt á að vera á ábyrgð viðkomandi deilda og sviða.

Ég vil líka endurtaka það sem ég hef sagt oft á ýmsum vettvangi, að mér finnst vond sú afstaða sem er ansi algeng að háskólanám sé alltaf „merkilegra“ en annað nám. Ég fór sjálfur gegnum iðnnám (í stálskipasmíði í Slippstöðinni á Akureyri, áður en ég lauk svo stúdentsprófi úr öldungadeild). Í því námi, sem mér fannst afar gefandi og skemmtilegt, áttaði ég mig á því að gott starfsnám er ekkert síður krefjandi, bæði hvað varðar hæfileika og ástundun, en háskólanám, þótt af ólíkum toga sé. Þess vegna hef ég efasemdir um þá hugmynd að fyrir öll störf þurfi nám af því tagi sem á að fara fram í háskólum, þar sem höfuðáherslan er á fræðilegt bóklegt nám.

Umfram allt finnst mér mikilvægt að almenningur leyfi sér að ræða á opinberum vettvangi, eins og Facebook, alls kyns málefni sem koma okkur við, ekki síst allt menntakerfið. Og þótt mikilvægt sé að færa rök fyrir máli sínu held ég að það sé betra fyrir umræðuna að við séum óhrædd við að tjá skoðanir sem fara í bága við „viðtekin sannindi“, jafnvel þótt þær séu ekki afrakstur af löngum pælingum. Án slíkra skoðanaskipta verður umræðan aldrei sérlega frjó.

Þeim sem vilja spyrja spurninga eða leggja orð í belg um rektorsframboð mitt, og annað sem viðkemur Háskóla Íslands, bendi ég á Facebook-síðuna sem er helguð framboði mínu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Guðrún Geirsdóttir

    Ég er svo hjartanlega sammála þessu. Mér finnst alltof mikið um þann hugsunarhátt að starf hljóti að verða meira metið og betur launað, ef við setjum undirbúning fyrir það undir háskólahatt.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og tveimur? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur