Fimmtudagur 16.04.2015 - 10:15 - 1 ummæli

Hvort myndi ég kjósa Guðrúnu eða Jón Atla?

[Þessi pistill birtist fyrst í Kvennablaðinu í gær]

Í rektorskjörinu í Háskóla Íslands s.l. mánudag fékk Jón Atli Benediktsson 48,9% greiddra atkvæða, Guðrún Nordal 39,4% og ég 9,7%. Því þarf að kjósa aftur milli Jóns og Guðrúnar, úr því að enginn fékk yfir 50%. Ég hef ekki kosningarétt (og það hafa eigendur skólans, sá almenningur sem borgar rekstur hans, ekki heldur), svo ég þarf ekki að gera upp við mig hvort þeirra ég myndi heldur kjósa. Ég ætla samt að útskýra á hvaða forsendum ég myndi taka slíka ákvörðun, ef ég þyrfti þess.

Flest af þeim atriðum sem ég tel hér upp talaði ég auðvitað um í kosningabaráttunni, en sum hef ég lítið rætt áður, þótt ég telji þau skipta miklu máli. Ég set þessi „nýju“ atriði fyrst hér að neðan, þótt hin sem ég hef áður talað um séu kannski mikilvægari.

Fyrir þá sem nenna ekki að lesa þetta allt hef ég skáletrað, í lok hvers kafla, þær spurningar sem ég myndi spyrja Guðrún og Jón Atla til að gera upp hug minn.

Stjórnsýsla, akademískt frelsi og umræða innan skólans

Háskóli Íslands hefur lengi notið mikillar velvildar fjölmiðla, sem birst hefur í að þeir hafa gjarnan endurvarpað hátíðlegu tali forystu skólans um hann, en sjaldan athugað veruleikann að baki. Þátttaka mín í rektorskjörinu varð til þess að margt fólk innan skólans sagði mér frá hlutum sem ekki eru í eins góðu lagi og þeir hafa e.t.v. virst utan frá séð, vegna þessarar einlitu umfjöllunar. Ég fæ ekki betur séð en að forysta skólans hafi skotið sér hjá því að taka á ýmiss konar málum sem upp hafa komið, sem hefur valdið því að óánægjan kraumar víða undir niðri. Eitt mál sem ratað hefur í fjölmiðla og sem margir innan skólans virðast enn óánægðir með er stórfellt ritstuldarmál prófessors, sem leiddi ekki til neinna viðurlaga af hálfu skólans. Það er nánast óhugsandi í háskóla með sjálfsvirðingu og óbærilegur tvískinnungur af hálfu skóla sem eðlilega refsar nemendum sínum fyrir slíkt. Ekki er að sjá að forysta skólans sé líkleg til að haga sér með öðrum hætti framvegis.

Mér sýnist líka ljóst að opinská umræða eigi sér ekki stað innan skólans um hin ýmsu vandamál hans, bæði hvað varðar akademískt starf og stjórnsýslu, og að það sé talsverð sjálfsþöggun í gangi, af því að margir óttist að verða refsað með einum eða öðrum hætti fyrir að tjá óþægilegar skoðanir og gagnrýni á yfirvöld skólans. Ég hef sett fram þá hugmynd að komið verði á fót „umboðsmanni“ akademískra starfsmanna, sem þeir gætu snúið sér til með kvartanir vegna meintra brota á akademísku frelsi. Þeir sem hafa aðgang að Facebook geta séð hana hér.

Því myndi ég spyrja Guðrúnu og Jón Atla hvort og þá hvernig þau hyggist taka á erfiðum málum, bæði varðandi misferli starfsmanna og þá kúgun sem sumir þeirra upplifa. Ég vil fá skýr svör, ekki undanbrögð og innantóman fagurgala af því tagi sem ég hef heyrt hingað til frá forystu skólans.

Hvernig á að velja rektor?

Aðferð HÍ við að velja rektor er vægast sagt óeðlileg. Þótt nauðsynlegt sé að rektor hafi sæmilegan stuðning við stefnu sína meðal starfsfólks er óeðlilegt að starfsmenn ráði því alfarið (ásamt stúdentum) hver sé æðsti yfirmaður stofnunarinnar, alveg eins og það væri ótækt að starfsmenn Vegagerðarinnar réðu hver væri forstjóri. Eigendur skólans, sá almenningur sem einnig borgar allan rekstur hans, hafa að sönnu nokkra fulltrúa, skipaða af menntamálaráðherra, í háskólaráði, sem er æðsta stjórn skólans. En háskólaráð hefur ákveðið að afsala sér öllu valdi sínu í hendur starfsfólki og stúdentum, og stimplar sjálft bara útkomuna úr rektorskjöri. Ráðið hefur heldur ekki lyft litlafingri til að kynna umsækjendur fyrir þeim sem kjósa, ekkert gert til að jafna aðstöðumun umsækjenda innan úr og utan skólans, og þar að auki beinlínis brotið reglur skólans með því að auglýsa rektorsstarfið ekki utan landsteinanna, sem bendir til andúðar á því að utanaðkomandi sæki um. Þessi fruntalega afdalamennska er einmitt ein ástæða þess að skólinn þarf sárlega á því að halda að fá utanaðkomandi rektor, og það er ein af ástæðum þess að ég vona að sá sem nú verður kosinn rektor muni ekki sitja lengur en fimm ár.

Annað sem augljóslega býður heim spillingu er að rektor er forseti háskólaráðs, og fólk innan skólans virðist sammála um að rektor hafi sem slíkur, og með öðrum hætti, mikil áhrif innan þess. Sitjandi rektor sem vill sitja áfram getur því haft afgerandi áhrif á möguleika sína, og einnig á það hver verði eftirmaður. Þetta er spilling sem er bókstaflega innbyggð í reglur skólans.

Það er líka sérkennilegt að hlusta á mærðina um það „lýðræði“, sem á að felast í því að starfsmenn kjósi rektor. Annars vegar nær það lýðræði ekki lengra en til þess „aðals“ sem starfar í skólanum og hefur persónulegra hagsmuna að gæta, en „almúginn“ sem borgar brúsann hefur engin áhrif. Hins vegar hafa stundakennarar, sem hafa á sinni könnu 30% kennslu við skólann, og búa við afar léleg kjör, ekki atkvæðisrétt, á meðan nemendur, jafnvel þeir sem bara eru skráðir í eitt námskeið, hafa slíkan rétt.

Ég tel að háskólaráð eigi að beita sér fyrir því að rektorsefni yrðu kynnt vandlega fyrir starfsfólki og stúdentum, sem fengju góð tækifæri til að spyrja spurninga og koma skoðunum sínum á framfæri. Ráðningin ætti hins vegar að vera í höndum nefndar sem hefði það hlutverk að ráða þá manneskju sem líklegust væri talin til að efla skólann, ekki til að vinna dýra og froðukennda vinsældakosningu sem þar að auki skipar starfsfólki í tvær stríðandi fylkingar eins og raunin virðist nú orðin. Starfsfólk og stúdentar ættu að hafa fulltrúa í slíkri nefnd, en aðrir í henni þyrftu að vera utanaðkomandi fólk sem nyti sæmilegs trausts, og auðvitað ætti að hafa þar óháð erlent háskólafólk.

Myndi Guðrún eða Jón Atli beita sér fyrir að betur yrði staðið að ráðningu rektors, og uppræta eigin áhrif á það ferli, alveg sérstaklega ef þau hefðu áhuga á að sitja lengur en fimm ár?

Kennslumálin

Ég fékk talsverðar skammir fyrir gagnrýni mína á slaka kennsluhætti og vont námsmat sums staðar í skólanum, og það þótt ég tæki alltaf fram að kennslan væri örugglega góð sums staðar og að augljóslega væri til ágætis þekking á góðum og slæmum kennsluháttum innan skólans. Samt vita allir sem vilja vita að kennsluhættirnir eru sums staðar óboðlegir í skólanum, og augljóst að forysta skólans hefur leitt þau vandamál hjá sér. Það er áfellisdómur yfir forystu háskóla að láta sig litlu varða hvernig kennsla fer fram, því forystan ber að sjálfsögðu ábyrgð á gæðum kennslunnar, sem er annað höfuðhlutverk háskóla, og hún verður ekki bætt alls staðar nema forystan taki raunverulega forystu í því.

Myndi Guðrún eða Jón Atli taka þá forystu í kennslumálunum sem þarf, og láta þau boð út ganga að kennsluna verði að bæta þar sem henni er ábótavant? Myndu þau beita sér fyrir því að umbunað verði fyrir góða kennslu? Og hvernig myndu þau fara að þessu?

Rannsóknir

Forysta HÍ talar og lætur eins og Íslendingar séu einhvers konar ofurmenni, og því geti skólinn, sem spannar mestallt íslenska háskólakerfið, verið með alla akademíska starfsmenn í rannsóknastöðum, sem er óþekkt í löndum með jafn stórt háskólakerfi, og það þótt rannsóknaháskólar í viðkomandi löndum hafi mun meira fé en HÍ. Þetta eru blekkingar af sama tagi og beitt var í fjármálastofnunum fyrir hrun. Afleiðingarnar fyrir HÍ verða ekki sams konar hamfarir fyrir almenning, en þeir sem einbeita sér að því að fela vandamálin munu ekki leysa þau, frekar gera þau ennþá verri, eins og sjá má af því flókna og fáránlega vinnumatskerfi sem notað hefur verið í stað þess að umbuna fyrir góðar rannsóknir og kennslu.

Hvað eru Guðrún eða Jón Atli líkleg til að gera sem leiddi af sér að rannsóknafé skólans yrði notað í rannsóknir af þeim gæðum sem miðað er við í sæmilegum skólum á alþjóðavettvangi?

Í lokin get ég svo ekki stillt mig um að birta gula spjaldið sem ég tel að eigi að sýna núverandi forystu skólans:

gula-spjaldid

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , , ,

«
»

Ummæli (1)

  • Kristinn Jakob

    Fyrst þú minnist á þetta með stundakennsluna þá eru eftirfarandi reglur um atkvæðarétt.

    „6. Atkvæðisréttur og vægi atkvæða
    Við rektorskjör eiga atkvæðisrétt prófessorar, dósentar, lektorar, vísindamenn, fræðimenn og sérfræðingar, skipaðir eða ráðnir í fullt starf, og aðrir þeir sem skipaðir eru eða ráðnir í fullt starf við háskólann og stofnanir hans. Starfshlutfallið 75% og hærra telst fullt starf í reglum þessum. Nú gegnir maður starfi í hlutfallinu 37 – 74% og fer hann þá með hálft atkvæði. Starfshlutfall sem er lægra en 37% veitir ekki atkvæðisrétt. Nú gegnir starfsmaður starfshlutfallinu 50% og hærra samhliða starfi á stofnun sem háskólinn hefur gert samning við um samstarf á fræðasviði og telst hann þá gegna fullu starfi.“

    Ég veit ekki hvernig það getur gerst að manneskja sem er stundakennari í 6 námskeiðum uppfylli ekki að minnsta kosti það að vera í hálfu starfi við háskólann. Nema háskólinn líti svo á að stundakennarar séu ekki ráðnir.

    Annars finnst mér þetta mál bera þess meira merki að þarna hafi uppgötvast ákveðið gat í regluverkinu um atkvæðisrétt þar sem flestallir stundakennarar sem mér er kunnugt um eru annaðhvort nemendur við HÍ, starfsmenn á stofnunum eða hvoru tveggja.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fimm? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur