Sunnudagur 19.04.2015 - 10:15 - Rita ummæli

Áfellisdómar yfir forystu Háskóla Íslands

[Þessi pistill birtist fyrst í Kvennablaðinu í gær]

Í gær birti ég á Facebooksíðunni sem ég notaði fyrir rektorsframboð mitt póst sem sendur var á hi-starf, en það er póstlisti við Háskóla Íslands, þar sem rædd eru málefni skólans. Þar sagði einn af öflugustu vísindamönnum landsins frá því hvernig HÍ hafði dregið hann og sex aðra umsækjendur um svar við umsóknum um stöðu í rafmagnsverkfræði í meira en fjórtán mánuði, áður en tilkynnt var að staðan hefði verið lögð niður. Ég veit ekki hver ástæðan var í því tilfelli, en þetta, að leggja niður stöður sem farið hafa gegnum umsóknarferli, er „trix“ sem oftar en einu sinni hefur verið beitt við HÍ til að komast hjá því að ráða fólk sem ekki var þóknanlegt þeim sem með völdin fóru.

Þetta er einn af mörgum áfellisdómum yfir núverandi forystu HÍ, sem ber ábyrgð á fjölda tilfella þar sem skólinn hefur hrakið frá sér öflugt vísindafólk. En það er fleira misjafnt sem forysta skólans ber ábyrgð á, hlutir sem hafa beinlínis skaðað starf skólans og orðstír hans. Það sem verra er, afar lítið er talað opinskátt um mál af þessu tagi innan skólans, þótt víða kraumi mikil óánægja undir niðri. Síðustu daga hafa þó nokkrir núverandi og fyrrverandi starfsmenn látið í sér heyra á ofangreindum póstlista. Ég segi hér frá tveimur póstum á listann, og birti viðbrögð mín við þeim (sem ég sendi líka á þennan lista).


Í öðrum póstinum var talað um „heiðarlegt vísindastarf“ og sagt frá fundi þar sem fram kom að Íslendingar einir Norðurlandaþjóða væru ekki með „kerfisbundnar leiðir til þess að hafa eftirlit með og taka á óheiðarleika í vísindastarfi“. Það kemur mér ekki á óvart, eins og kemur fram í svari sem ég sendi við þessu:

„Þessar vikur sem ég tók þátt í kosningabaráttunni við HÍ sem frambjóðandi var mér bent á nokkur dæmi um óyggjandi ritstuld við skólann. Hér er bæði um að ræða ritstuld akademískra starfsmanna og ritstuld nemenda (í lokaritgerðum) sem leiðbeinendur áttu augljóslega, vegna aðstæðna, að koma auga á. Ekkert hefur verið gert í þessum málum, og það þrátt fyrir þann stórfellda ritstuld prófessors við skólann sem framinn var fyrir tíu árum eða svo, og sem skólinn beitti engum viðurlögum við.

Þetta er augljóslega áfellisdómur yfir núverandi forystu skólans, enda vandséð að afbrot af þessu tagi væru nokkurs staðar liðin í háskóla með lágmarks siðferði.“


Hinn pósturinn var frá fyrrverandi akademískum starfsmanni skólans, sem sagði frá hörmulegum viðtökum varðandi aðbúnað og aðstoð þegar hún réði sig til HÍ 2010, fáum árum eftir doktorspróf við bandarískan háskóla. Þetta virðist ekki vera einsdæmi heldur nánast hafa verið regla við HÍ áratugum saman, þar sem ungt vísindafólk er sett í langa þrælkun, í stað þessa að búa því slík kjör að það geti blómstrað, skólanum til hagsbóta. Hér fer á eftir svar mitt við þessum pósti:

Sæl NN (og þið öll)

Þótt ég sé ekki lengur frambjóðandi ætla ég að svara þessu í stuttu máli, þótt ég svari ekki hverri spurningu fyrir sig, enda held ég flest vandamálin sem þú nefnir séu af sömu rót runnin, nefnilega skilnings- eða hirðuleysi um það hvernig gott háskólastarf er byggt.

Lausnin sem ég sé á þeim augljósa og langvarandi vanda sem þú talar um er að Háskóli Íslands fari einfaldlega að haga sér eins og þeir skólar gera sem hann vill líkjast. Það þýðir meðal annars eftirfarandi

— Að afleggja vinnumatskerfið og nota í staðinn það jafningjamat sem alls staðar er lagt til grundvallar í fræðasamfélaginu, og sem byggt er á alþjóðlegum viðmiðum. Ef forysta skólans treystir sér ekki til að taka raunverulega forystu og ábyrgð eins og forysta sæmilegra háskóla gerir, þá er vonlaust að hún muni bæta starf skólans. Sá sem skýlir sér á bak við baunatalningu af því tagi sem birtist í vinnumatskerfinu er ekki hæfur til að leiða háskóla.

— Hætta að sóa rannsóknafé skólans í rannsóknir á sviðum sem eru alþjóðleg í eðli sínu en þar sem aðallega er birt á íslensku í dag, og nota féð í staðinn til að efla allar þær góðu rannsóknir sem er að finna innan skólans.

— Vernda sérstaklega ungt vísindafólk sem er að hefja feril sinn. Svo virðist sem HÍ hafi mjög lengi, kannski alltaf, farið þveröfugt með ungt fólk en þeir skólar sem hann segist vilja bera sig saman við, þ.e.a.s. kaffært það í allt of mikilli annarri vinnu en rannsóknum, auk þess sem launin hafa verið svo lág að fólk reynir að bæta þau upp með vinnu sem tekur tíma frá rannsóknum. Það er vísasta leiðin til að skaða vísindaferil á því viðkvæma stigi varanlega.

Með því að hætta þeirri sóun sem nefnd er hér að ofan losnar tími sem hægt er að nota í kennslu, og létta þannig kennsluálagið á þeim sem ástæða er til að veita meira svigrúm fyrir rannsóknir. Þetta gerist auðvitað ekki á einni nóttu, en sé rétt haldið á málunum mun þetta fé/tími losna nokkuð hratt á næstu árum þannig að hægt sé að efla gott rannsóknastarf.

Ég segi eins og þú, NN, þótt ég hafi það mjög gott erlendis, og þótt ég hafi aldrei starfað við HÍ, að ég læt mig alltaf öðru hverju dreyma um að vinna við skólann, að því tilskildu að þessi mál séu komin í nokkurn veginn skikkanlegt horf. Enda er margt sem mig myndi langa að gera á Íslandi, t.d. varðandi menntun stærðfræðinga og stærðfræðikennara og uppbyggingu rannsókna, þar sem ég tel mig hafa eitthvað fram að færa. Væri forysta skólans að vinna vinnuna sína, og hefði í raun þann metnað sem yfirlýsingar hennar snúast um, þá myndi ég miklu frekar vilja vera óbreyttur akademískur starfsmaður við skólann en rektor.

Því má svo bæta við að þegar ég var rekinn frá Háskólanum í Reykjavík árið 2010, sem leiddi til þess að tíu manna rannsóknahópur, fjármagnaður af Öndvegisstyrk, leystist upp, og allir fjórir föstu starfsmennirnir (þar af einn við HÍ) fluttu til Skotlands, gerði forysta HÍ ekki minnstu tilraun til að fá okkur yfir til sín, þrátt fyrir fyrirspurnir mínar. Það hefði þó ekki átt að vera óyfirstíganlegt á þeim tíma, eins og ég benti á, að fá menntamálaráðuneytið til að gera það kleift fjárhagslega, enda hafði forysta HR skömmu áður einmitt nefnt það sem möguleika að við færum yfir, og samningar HR voru lausir þegar þetta var.

Bestu kveðjur, með von um bjartari framtíð,

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fimm? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur