Sunnudagur 9.2.2014 - 14:04 - 11 ummæli

Bull Sigurðar Líndal, tímavél Stefaníu

Frammistaða fréttastofu RÚV í lekamáli innanríkisráðuneytisins hefur vakið áleitnar spurningar um hvað fréttastjóranum, Óðni Jónssyni, gangi til.  Í fréttum RÚV hefur verið talað við fjórar manneskjur vegna þessa máls, Hönnu Birnu sjálfa, Bjarna Ben, Sigurð Líndal og Stefaníu Óskarsdóttur.
Sigurður var kynntur sem lagaprófessor.  Hann hélt því fram að „Ekki sé ástæða til að ráðherra víki úr embætti á meðan rannsók fer fram“ samkvæmt frásögn RÚV.  Merkilegt nokk virðist hér bara vera um einkaskoðanir Sigurðar að ræða, eða kannski bara lauslegar hugleiðingar hans, sem ekki voru ætlaðar til birtingar, og vandséð að þessar skoðanir hans eigi eitthvert erindi við landsmenn fremur en skoðanir annarra óbreyttra borgara.  Það kemur að minnsta kosti verulega á óvart að Sigurður nefndi engin lagaleg rök máli sínu til stuðnings.  Og hann minntist ekki einu orði á þau vanhæfisákvæði stjórnsýslulaga sem maður skyldi ætla að lögfræðingur liti fyrst til þegar mál af þessu tagi ber á góma.
Stefanía lýsti lika þeirri skoðun sinni að Hanna Birna þurfi ekki að víkja á meðan lögreglurannsókn á kærunni gegn henni fer fram.  Þessi afstaða byggir augljóslega á engu öðru en einkaáliti Stefaníu sjálfrar, enda dettur engri heilvita manneskju í hug að til sé einhvers konar stjórnamálafræði sem útskýri af hverju það sé í lagi að yfirmaður sitji sem fastast þegar undirmenn hans eiga að rannsaka mögulegt glæpsamlegt athæfi yfirmannsins.
Í viðbót við þessar skoðanir Stefaníu um mál (fyrrverandi?) flokkssystur sinnar hrutu af vörum hennar tvenn ódauðleg ummæli, sem vafalítið verða skráð á gullspjöld í sögu íslenskrar stjórnmálafræði.  Annars vegar sagði Stefanía, samkvæmt frétt RÚV:
Á meðan rannsókn málsins stendur yfir sé spurningum ósvarað.
Þetta eru mikil tíðindi, því hingað til hefur flest hugsandi fólk gengið út frá því að rannsóknir væru bara gerðar í málum eftir að búið væri að svara öllum spurningum.
Auk þess sagðist Stefanía, samkvæmt fréttinni,
ekki sjá ástæðu til að ráðherra víki á meðan á rannsókninni stendur, ekki síst ef hún dregst á langinn.
Stefanía telur sem sagt að ef rannsóknin taki langan tíma þurfi ráðherra ekki að víkja, en svo virðist sem hún telji þá að ef rannsóknin gangi hratt fyrir sig væri eðlilegt að Hanna Birna viki á meðan.  Hér er því um einhvers konar tímavél að ræða (og gott hefði verið að Stefanía útskýrði þessi djúpu stjórnmálafræði):  Til að ákveða hvort ráðherra ætti að víkja núna þurfum við bara að vita hvort rannsóknin muni taka langan tíma.
Hitt er svo aftur áleitin spurning hvort Óðinn Jónsson, fréttastjóri RÚV, er að draga stuðningsmenn Hönnu Birnu (og hana sjálfa) sundur og saman í háði, með því að láta þetta fólk segja botnlausa þvælu í útvarpi og sjónvarpi, eða hvort hann fattar ekki djókinn og er að leggja sig allan fram um að vernda Hönnu Birnu með því að leiða fram hvern stuðningsmann hennar á fætur öðrum, en halda burtu öllum sem gætu hugsanlega haft einhver rök eða lögfræðilega þekkingu fram að færa.

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 8.2.2014 - 10:30 - 3 ummæli

Jay Leno grætur í kvöldfréttum RÚV

Í útvarpsfréttum RÚV í gærkvöldi var sagt frá því að ríkissaksóknari hefði lagt fyrir lögreglu að rannsaka lekamál innanríkisráðuneytisins, vegna kæru á hendur ráðherra og öðrum starfsmönnum ráðuneytisins.
Í fréttatímanum var viðtal við ráðherrann, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þar sem hún sagðist ekki myndu víkja meðan á lögreglurannsókn stæði, af því að kæran beindist ekki gegn henni persónulega, heldur gegn ráðuneytinu.  Það er reyndar rangt, því það voru starfsmenn ráðuneytisins sem voru kærðir, en ekki ráðuneytið, og ef kært verður í framhaldi af þessari rannsókn verða það persónur sem verða kærðar.  Hitt er ekki síður fáránlegt, að halda fram að ráðherra þurfi ekki að víkja þegar hann sætir rannsókn vegna gruns um alvarlegt lögbrot í starfi, af því að persóna ráðherrans hafi ekki verið kærð.  Afleiðing af þeirri röksemdafærslu er að ráðherra gæti framið hvers konar lögbrot í starfi, og þyrfti ekki að víkja af því að það væri ráðherrann sem hefði brotið af sér en ekki persónan í stólnum.
Það var líka haft eftir Hönnu Birnu í fréttum RÚV um málið að  „hér sé  aðskilnaður dómsvalds og framkvæmdavalds“ og að „Almenningur getur treyst því að lögreglan muni rannsaka þetta faglega og með vönduðum hætti þrátt fyrir að það kunni með einhverjum hætti að snúast um ráðuneytið eða undirstofnanir þess.“  Hanna Birna var samt ekki spurð hvað þetta kæmi við aðskilnaði dóms- og framkvæmdavalds, þótt bæði ráðherrann og lögreglan sem á að rannsaka hann séu hluti af framkvæmdavaldinu.
Fréttafólk RÚV bað ekki um neinn rökstuðning við þessa botnlausu þvælu, né heldur velti það upp spurningunni, eða spurði lögfrótt fólk, um hugsanlegt vanhæfi ráðherrans, sem er jú æðsti yfirmaður þeirrar lögreglu sem á að rannsaka hann og nánustu samstarfsmenn.
Með þessu var þó ekki öll sagan sögð í fréttatíma RÚV.  Þar var í framhaldinu talað við Bjarna Benediktsson (án þess útskýrt væri af hverju skoðun fjármálaráðherra á málinu væri áhugaverðari en skoðun mannsins á götunni).  Bjarni taldi eðlilegt að Hanna Birna sæti áfram og sagði að „ef það færi svo að í hvert skipti sem ráðherra dómsmála þyrfti að víkja vegna kæru myndi það kalla á mikla upplausn yfir starfsemi ráðuneytisins.“  Hér er reyndar ekki um að ræða kæru einhvers kverúlants úti í bæ sem er ítrekað að gera sér leik að því að trufla störf ráðuneytisins.  Auk þess er hér ekki bara um kæru að ræða.  Það er nefnilega ríkissaksóknari sem hefur rannsakað málið í tvo mánuði, vegna kæru, og komist að þeirri niðurstöðu að tilefni sé til að láta fara fram lögreglurannsókn.
Ekki heldur bað fréttafólk RÚV um neinn rökstuðning Bjarna fyrir fullyrðingum hans, hvað þá að það hafi fett fingur út í þessa sérkennilegu staðhæfingu, né heldur leitaði það álits þeirra sem eitthvað kunna um þau lög sem þó eiga að gilda í landinu.
Í þessa frétt var ekki sóað nema rúmri mínútu af hálftíma kvöldfréttum.  Það var vel, því annars hefði ekki verið hægt að gera nægileg skil kjökri Jays Leno, sem mun hafa stýrt þættinum The Tonight Show í síðasta sinn í fyrradag, og er alþjóð mikil eftirsjá að honum.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 7.2.2014 - 13:26 - 1 ummæli

Hanna Birna verður að víkja

Ríkissaksóknari tók í dag þá ákvörðun að lögreglurannsókn ætti að fara fram á lekamáli innanríkisráðuneytisins.   Það er seint í rassinn gripið, því hinir grunuðu hafa nú haft tvo og hálfan mánuð til að eyða gögnum og tala sig saman um hvað þeir eigi að segja í yfirheyrslum, sem hefðu auðvitað átt að fara fram um leið og lekinn varð ljós, þann 20. nóvember, eða a.m.k. ekki síðar en þegar grunurinn var tilkynntur lögreglu, í lok nóvember.

En nú hlýtur að vera ljóst að innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, verði að víkja á meðan rannsóknin stendur yfir.  Hún er nefnilega æðsti yfirmaður lögreglunnar sem á að rannsaka grun um lögbrot í ráðuneytinu sem hún ber ábyrgð á.

Auðvitað ætti Hanna Birna að segja af sér fyrir fullt og allt, vegna þess hvernig hún hefur hagað sér í þessu máli, þar sem hún hefur ítrekað neitað að svara augljósum spurningum um það, hellt sér yfir þingmenn sem hafa leyft sér að spyrja slíkra spurninga, og haldið því fram að rannsókn hafi verið gerð á málinu, af stofnun sem ekki  vill staðfesta  að hafa gert það, auk þess að hafa enga þekkingu af því tagi sem til þarf.

En, það er vonandi útilokað annað en að ráðherra víki að minnsta kosti tímabundið.  Nema endanlega eigi að lýsa frati á allt sem heitir eðlilegt réttarfar.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 5.2.2014 - 12:12 - 1 ummæli

Samsæri til verndar Hönnu Birnu?

Ég er sjaldan hrifinn af samsæriskenningum, og þótt mér leiðist endalausar „tilvitnanir“ sem eru daglegt brauð á samfélagsmiðlunum þá á ég mér þó eina sem ég held upp á.  Á íslensku gæti hún hljóðað svo: „Ekki líta á það sem samsæri sem auðvelt er að útskýra með heimsku“.  (Á frummálinu(?) ensku: „Never attribute to conspiracy that which can be adequately explained by stupidity“.)
Þetta á sérstaklega vel við á Íslandi, því það er oft ógerningur að skera úr um hvort það er fúsk eða spilling (heimska eða samsæri) sem er að baki ýmsum ákvörðunum og aðgerðaleysi í stjórnsýslunni sem eru í himinhrópandi andstöðu við heilbrigða skynsemi og hagsmuni almennings.  Því ætla ég ekki að halda fram fullum fetum að það sé raunverulegt samsæri, þar sem valdafólk hafi beinlínis talað sig saman, sem veldur því sem virðast vera meðvitaðar aðgerðir til að koma í veg fyrir að réttlætið nái fram að ganga í lekamáli innanríkisráðuneytisins.  En framganga lögreglu og ríkissaksóknara í málinu vekur óneitanlega slíkar grunsemdir.
Fyrstu ábendingar og/eða kærur um lekamálið (sem fyrst var fjallað um Morgunblaðinu og Fréttablaðinu 20. nóvember) voru sendar lögreglu í lok nóvember (og hugsanlega fyrr).  Meðal þeirra sem kærðu var lögmaður eins þeirra sem níddir voru niður í minnisblaðinu sem virðist hafa verið samið í ráðuneytinu og lekið þaðan.  Sjálfur sendi ég lögreglu slíka ábendingu, á netfangið abending@lrh.is.  Ég fékk svar fáum dögum síðar, frá Herði Jóhannessyni aðstoðarlögreglustjóra.  Hann ráðlagði mér af einhverjum ástæðum að senda skriflega kæru, á pappír, en benti líka á 52. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, þar sem kemur fram að lögreglu beri að „hefja rannsókn út af vitneskju eða grun um að refsivert brot hafi verið framið hvort sem henni hefur borist kæra eða ekki“.  Grunurinn var augljóslega sterkur í þessu máli, þar sem Morgunblaðið hélt fram að það væri með minnisblað frá ráðuneytinu, og því mótmælti ráðuneytið aldrei.
Þegar ég spurði Hörð svo, fyrir nokkrum dögum, hvort það væri rétt að lögregla hefði ekki hafið rannsókn á málinu svaraði hann og sagði „Ég sé ekki að nein kæra eða erindi frá þér sé skráð hér.“  Þegar ég benti honum á fyrri skrif hans svaraði hann:
„Hins vegar er ríkissaksóknari að skoða þetta mál þannig að það fær meðferð, hvort sem þín ábending komst til skila eða ekki.
Málið er til athugunar hjá ríkissaksóknara og þar af leiðandi er lögreglan ekki með rannsókn í gangi á sama tíma.“
Ég spurði Hörð þá aftur, fyrir tveim dögum, af hverju hann segði að „þar af leiðandi“ væri lögregla ekki að rannsaka málið.  Enn fremur spurði ég hvort það væri ekki rétt skilið hjá mér að saksóknari hefði hafið rannsókn eftir að málið var kært til lögreglu, og hver hefði tekið þá ákvörðun hjá lögreglunni að rannsaka ekki málið.  Hörður hefur ekki svarað því enn.
Þegar lögreglu er tilkynnt um grun um alvarleg afbrot væntir maður þess að þeir sem grunur beinist að séu yfirheyrðir í skyndi, sem og aðrir sem líklegt er að haft geti vitneskju um málavexti.  Þess vegna hefði verið eðlilegt að yfirheyra ráðuneytisstjóra, ráðherra og aðstoðarmenn hennar tvo, ekki síst þar sem annar þeirra sagði í blaðaviðtali, aðspurður um minnisblaðið, að einhverjir starfsmenn ráðuneytisins „gætu verið að búa til einhverja punkta hjá sér“.  Auk þess hefði, þegar „venjulegt“ fólk á í hlut, líklega verið gerð húsleit til að reyna að finna sönnunargögn.  Ekkert af þessu var gert, og enn, meira en tveim mánuðum síðar, hefur lögregla ekkert aðhafst.
Þetta er samsæriskenningin:  Lögregla og ríkissaksóknari (sem bæði heyra undir þá sem grunaðir eru) hafa komið sér saman um að láta ríkissaksóknara „rannsaka“ málið.  Þannig sleppa hinir grunuðu við óþægilegar spurningar í yfirheyrslum lögreglu.  Í staðinn fá þeir nokkra mánuði til að svara skriflegum spurningum ríkissaksóknara, og komast upp með að veita svo ófullnægjandi svör, þegar þeir loks svara eftir dúk og disk, að saksóknari þarf að biðja þá, náðarsamlegast, að segja sér meira um meint afbrot sín svo hægt sé að ákæra þá og refsa þeim.
Þegar nógu langur tími er liðinn til að útilokað sé að rannsaka málið með fullnægjandi hǽtti, af því að hinir grunuðu hafa fengið ráðrúm til að eyða öllum hættulegum gögnum og tala sig saman um hverju þeir eigi að ljúga, lýsir ríkissaksóknari því yfir að ekki sé tilefni til lögreglurannsóknar.
Ég vona að ég hafi rangt fyrir mér, og að Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari sé ekki að draga „rannsókn“ málsins á langinn til að eyðileggja alla möguleika á að réttlætið nái fram að ganga.  En, ég hef áhyggjur af að það verði niðurstaðan af þessum vinnubrögðum, sem engum geta gagnast nema hinum grunuðu.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 31.1.2014 - 14:30 - 4 ummæli

Saksóknari, Hanna Birna og Vítisenglar

Eftirfarandi bréf var ég að senda ríkissaksóknara (Sigríði Friðjónsdóttur), með spurningum vegna „rannsóknar“ hennar á lekamálinu í innanríkisráðuneytinu.
Auk þess sem þar er spurt má velta fyrir sér hvort það skipti máli hér að ríkissaksóknari (og lögreglan, sem hefur ekki aðhafst þrátt fyrir kærur) sé undirmaður ráðherrans, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.  Vissulega á ráðherra ekki að geta skipt sér beint af meðferð saksóknara á sakamálum, en allir vita hvers konar hefndaraðgerða er auðvelt að grípa til, og hversu algengt slíkt er í íslenskri stjórnsýslu gegn þeim sem leyfa sér að gera valdafólki lífið leitt.
Sérkennilegt í framgöngu lögreglu og ríkissaksóknara í þessu máli er að þeir sem grunaðir eru um alvarleg lögbrot séu bara beðnir kurteislega um að afhenda gögn sem gætu varpað ljósi á málið.  Má búast við að næst þegar einhverjir Vítisenglar eru grunaðir um ofbeldisverk verði þeim sent bréf og þeir beðnir um að afhenda vopn sem þeir gætu hugsanlega hafa notað?
Eða eru kannski ekki allir jafnir fyrir lögunum á Íslandi?
——————————————————————————————————————————————
From: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>
Date: 2014-01-31
Subject: „Rannsókn“ á lekamálinu
To: Sigríður Friðjónsdóttir <sigridur.fr@tmd.is>
Til ríkissaksóknara
Sæl SIgríður
Hér, http://www.rikissaksoknari.is/um-embaettid/frettir/nr/67, stendur að þú hafir farið fram á að „fá frekari gögn og upplýsingar frá innanríkisráðuneytinu, áður en endanleg ákvörðun verður tekin um það hvort málinu verði vísað til lögreglurannsóknar“.  Umrætt mál er svokallað lekamál innanríkisráðuneytisins, þar sem grunur leikur á að háttsettir starfsmenn þess hafi framið alvarleg brot.
Það eru meira en tveir mánuðir síðan þetta mál komst í hámæli, og síðan það var kært til lögreglu.
Af hverju er þetta mál „rannsakað“ með því að biðja ráðuneytið, þ.e.a.s. það fólk sem hlýtur að liggja undir grun um alvarleg lögbrot, um gögn, sem þú gefur því mánuði til að setja saman og afhenda?
Af hverju voru æðstu starfsmenn ráðuneytisins, þar á meðal ráðherra og aðstoðarmenn hennar, ekki yfirheyrðir strax í upphafi málsins?  Er algengt að fólk sem grunað er um alvarlega glæpi sé beðið um að afhenda gögn um málið, og að ríkissaksóknari bíði svo vikum eða mánuðum saman eftir að fá fullnægjandi gögn?
Að síðustu:  Er eðlilegt að lögregla, sem þetta mál var kært til fyrir meira en tveim mánuðum, hafi ekkert aðhafst?  Hver ber ábyrgð á því?
Bestu kveðjur,
Einar

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 28.1.2014 - 11:49 - 11 ummæli

Jóhanna Vigdís og systir hennar

Í sjónvarpsfréttum RÚV í gærkvöldi var fjallað um lekamálið í innanríkisráðuneytinu.  Fréttin var kynnt með þessum orðum í upphafi fréttatímans, nokkurn veginn eins og ætla mætti að ráðherrann Hanna Birna hefði sjálf samið innganginn:
„Innanríkisráðherrann grunar að umræða um meintan leka á persónuupplýsingum snúist ekki um hælisleitandann heldur um eitthvað allt annað, eins og að koma höggi á hana sjálfa.  Hart var sótt að ráðherra á Alþingi í dag.“
Kynningin fjallar sem sagt ekki um það sem málið snýst um, meintan alvarlegan leka úr ráðuneytinu, heldur bara um skoðun ráðherra á hvötum þeirra sem vilja fá svör við þeim áleitnu spurningum sem ráðherrann hefur komið sér hjá að svara hreinskilnislega.
Það er þó annað sem er ekki síður athyglisvert við þessa frétt.  Ráðuneytisstjórinn í innanríkisráðuneytinu ber, ásamt ráðherra, höfuðábyrgð á starfi ráðuneytisins, og hefur að sjálfsögðu haft mikil afskipti af þessu máli.  Ráðuneytisstjórinn er Ragnhildur Hjaltadóttir.  Hún er systir Jóhönnu Vigdísar Hjaltadóttur, fréttamanns á RÚV, sem skrifaði fréttina.

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur