Margir flóttamenn sem sótt hafa um hæli á Íslandi hafa þurft að bíða, jafnvel árum saman, eftir að mál þeirra væru afgreidd. Í mörgum tilvikum hefur Útlendingastofnun tafið málsmeðferð með vinnubrögðum sem eru fyrir neðan allar hellur, og einkennast af fúski og algeru virðingarleysi fyrir réttindum hælisleitendanna. Stofnunin hefur einnig brotið gegn mannréttindasáttmála Evrópu, og þá sök bera líka a.m.k. tveir fyrrum ráðherrar, Ögmundur Jónasson og Ragna Árnadóttir. Í sumum tilvikum hafa þessi mannréttindabrot orðið til þess að fólk hefur verið sent úr landi, t.d. til Grikklands (og þaðan trúlega til annarra landa), í trássi við mannréttindasáttmála, og til flestra hefur síðan ekkert spurst. Það er því útilokað að vita hvort þessar ólögmætu brottvísanir hafa leitt ofsóknir, pyntingar eða jafnvel morð yfir fólkið sem vísað var á brott, en það hafa Útlendingastofnun og umræddir ráðherrar látið sér í léttu rúmi liggja.
Ráðherra hefur líka ítrekað synjað „frestun réttaráhrifa“ vegna ákvarðana Útlendingastofnunar þegar slíkar ákvarðanir hafa verið kærðar til ráðuneytisins. Það er að segja, ráðuneytið hefur úrskurðað að hælisleitendur skyldu sendir úr landi, í algera óvissu, þótt ráðuneytið ætti sjálft, lögum samkvæmt, eftir að úrskurða hvort brottvísunin væri réttmæt. Því miður hefur þetta framferði ráðherra aldrei orðið mikið umfjöllunarefni fjölmiðla, þótt það sé bæði svívirðilegt og fáránlegt: Ef ráðuneytið úrskurðar að ákvörðun Útlendingastofnunar hafi verið röng er of seint að koma í veg fyrir skaðann, því ráðuneytið ákvað að eyðileggja þann möguleika fyrirfram, áður en það felldi úrskurðinn.
Fyrir skömmu var samþykkt tillaga sem flestir hefðu líklega búist við að ætlað væri að bæta hag hælisleitenda og stytta málsmeðferðina hjá þeim sem lengst hafa þurft að bíða, miðað við það sem segir í
þessari frétt:
„13. mars síðastliðinn samþykkti ríkisstjórnin tillögu innanríkisráðherra um að efna tafarlaust til tímabundins átaks til að stytta málsmeðferðartíma hælisumsókna og tryggja búsetu og aðbúnað hælisleitenda. Þetta var gert vegna þess bráðavanda sem glímt er við málaflokknum.
Margir hælisleitendur hafa þurft að bíða mánuðum jafnvel árum saman eftir að mál þeirra séu afgreidd og kvartað sáran undan vistinni á meðan. Innanríkisráðuneytið fékk 25 milljónir króna til að ráðstafa í átaksverkefnið.“
En vonin um skynsamlega notkun á þessu fé reyndist falsvon. Útlendingastofnun og ráðuneytið notuðu í staðinn stóran hluta sjóðsins til að leigja flugvél til að senda burt með hraði fjölda Króata, sem synjað var um frestun á brottvísun þótt ráðuneytið eigi enn eftir að úrskurða í máli þeirra. Þeir höfðu dvalið skamma hríð í landinu og ættu að geta fengið landvistarleyfi á Íslandi eftir mánuð, ef allt væri eðlilegt:
„Innanríkisráðuneytið fékk 25 milljónir króna til að ráðstafa í átaksverkefnið. Úr þeim sjóði komu þær átta milljónir sem Útlendingastofnun notaði til að greiða fyrir leiguflugvél undir króatísku fjölskyldurnar og flytja þær úr landi að sögn Kristínar Völundardóttur, forstjóra Útlendingastofnunar.“
En flóttamenn sem beðið hafa í óratíma eftir niðurstöðu í málum sínum, þeir fá að bíða áfram. Í stað þess að nota umrædda peninga til þess sem allar sæmilegar manneskjur hefðu talið mikilvægt ákvað þetta valdafólk að sóa þeim í brjálæðislegt valdafyllerí, með fólk í leit að bærilegra lífi sem leiksoppa. Það þarf ekki nema eina eða tvær svona aðgerðir í viðbót til að tæma þennan sjóð. Sjóðinn sem átti að stytta afgreiðslutímann fyrir þá hælisleitendur sem margir hafa beðið árum saman, verið meinað að vinna fyrir sér og útilokaðir frá því mannlega samfélagi sem hefði átt að sjá sóma sinn í að opna faðminn fyrir þeim.