Sunnudagur 29.9.2013 - 11:04 - 17 ummæli

Háskóli selur sig

Eiginlega ætti ekki að þurfa að segja meira til þess að fólki sortni fyrir augum en það sem sagt er frá í þessari frétt:
Samtök atvinnulífsins og Háskólinn á Bifröst stofnuðu í dag Rannsóknastofnun atvinnulífsins – Bifröst, en á vegum hennar verður unnið að margvíslegum rannsóknaverkefnum í þágu atvinnulífsins. Samtök atvinnulífsins hafa ákveðið að leggja Rannsóknastofnuninni lið næstu tvö árin og skapa með því sterkan grunn fyrir stóraukið rannsóknastarf í þágu atvinnulífsins.
Rannsóknastofnun atvinnulífsins mun starfa sem sjálfstæð stofnun innan Háskólans á Bifröst og vera undir forystu rektors skólans.
 Háskólinn á Bifröst fær með þessu samstarfi afar mikilvægan stuðning frá Samtökum atvinnulífsins, sem auðveldar skólanum mjög að laða góða kennara og nemendur að skólanum og bæta gæði skólastarfsins sem hefur fyrst og fremst þann tilgang að mennta fólk til leiðandi hlutverka í íslensku atvinnulífi og samfélagi.
En kannski þarf, þrátt fyrir allt, að rifja upp hugmyndirnar um hlutverk háskóla (sem vilja standa undir nafni sem sjálfstæðar rannsóknastofnanir, en ekki áróðursstofur fyrir ríka hagsmunaðila):  Háskólar eiga að stunda rannsóknir, sem þýðir að leita nýrrar þekkingar, og í þeirri þekkingarleit mega engir utanaðkomandi hagsmunir leiða menn á villigötur.  Þess vegna taka háskólar með lágmarks sjálfsvirðingu ekki í mál að láta hagsmunaaðila fjármagna starf sem snýst um rannsóknir á fyrirbærum þar sem viðkomandi aðilar hafa hagsmuna að gæta, af því að hættan er augljós að þessir hagsmunir ráði för í starfinu og eyðileggi hlutlægni rannsakendanna.
Forysta Háskólans á Bifröst er með nýstárlegri hugmyndir um þekkingarleit, sem ef til vill mætti kalla þjónustulund, og þess vegna hefur hún nú undirritað þjónustusamning við Samtök atvinnulifsins.
Og hverjir undirrituðu svo samninginn?  Jú, Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og Vilhjálmur Egilsson, sem var framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins þar til Víglundur tók við, fyrir þrem mánuðum.  Vilhjálmur er nú rektor Bifrastar, þar sem hann ætlar að stjórna „rannsóknunum“ á íslensku atvinnulífi, ekki síst á fyrirkomulagi kjarasamninga.  Fyrir peninga frá Samtökum atvinnulífsins …
Háskólar sem ekki vilja láta hafa sig að háði og spotti gera sér far um að tryggja að akademískir starfsmenn þeirra njóti þess sem kallað er akademískt frelsi, og reyndar hafa allir háskólar landsins skrifað undir yfirlýsingu þess efnis.  Háskólinn á Bifröst virðist hins vegar hafa aðrar hugmyndir um hvert sé hlutverk háskólans og akademískra starfsmanna skólans.  Nefnilega að þjóna voldugum hagsmunaaðilum, sem borga pening fyrir.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 11.7.2013 - 21:13 - 5 ummæli

Misskilningur um norsku aðferðina

Þess misskilnings hefur orðið vart í fjöl- og samfélagsmiðlum að bekkurinn sem lögreglumaður nokkur barði máttlausri konu svolítið utan í, við skyldustörf, hafi ekki átt að vera þarna, eða að það hafi a.m.k. verið óheppilegt að hann skyldi vera að þvælast þarna fyrir.
Þetta er kolrangt. Samkvæmt norsku aðferðinni á einmitt fyrst að slengja svona bjargarlausu fólki á bakið á nærliggjandi stálhandrið, til að mýkja það áður en það er handjárnað.  Þetta liggur reyndar í augum uppi ef maður hugsar málið, því aldrei sést nokkur manneskja sitja á þessum bekkjum, af skiljanlegum ástæðum.  Bekkjunum var komið þarna fyrir eftir að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ákvað að taka upp hina margreyndu og þaulprófuðu norsku aðferð.  Litlum sögum fer þó af heilsufari þeirra óbreyttu borgara sem notaðir voru í tilraunaskyni áður en þessi frábæra aðferð fékk endanlega gæðavottun.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 9.7.2013 - 15:32 - 5 ummæli

Ólafur Ragnar, veiðigjöld, valdaklíkur

Ég vona að ég hafi rangt fyrir mér, en ég óttast að Ólafur Ragnar muni skrifa undir lögin um lækkun veiðigjaldsins, sem þýðir margra milljarða gjöf til forríkra útgerðareigenda, á kostnað almennings í landinu.
Vafalaust mun Ólafur reyna að rökstyðja ákvörðun sína, þótt augljóst sé að hann brjóti gegn þeim grundvallarreglum sem hann hefur sjálfur notað til að útskýra fyrri synjannir.  Ég velkist hins vegar ekki í vafa um hver sé hin raunverulega ástæða þess að hann ansi ekki kalli almennings í þetta skiptið, verði sú raunin:
Í þau þrjú skipti sem Ólafur hefur synjað lögum staðfestingar hefur yfirgnæfandi meirihluti almennings verið andvígur þeim, alveg eins og gildir nú.  Í fyrri skiptin hafa átökin hins vegar líka verið á milli ólíkra voldugra valdaklíkna í landinu.  Því er ekki að heilsa núna; þótt þeir fjórflokkar sem nú eru í stjórnarandstöðu séu andvígir nýju lögunum hafa þeir lítið haft sig í frammi í þessu máli.
Það er augljós „gjá milli þings og þjóðar“ í veiðigjaldamálinu nú.  En, það eru engar valdaklíkur fyrir Ólaf til að spila á, og honum er skítsama um þennan almenning sem flestir héldu kannski að væri þjóðin í hans huga.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 19.6.2013 - 10:47 - 15 ummæli

Forsetinn vill þjóðaratkvæði um kvóta?

Nýja ríkisstjórnin vill láta það verða sitt fyrsta verk að lækka stórlega veiðigjaldið sem samþykkt var á síðasta þingi, þrátt fyrir að útgerðin í landinu hafi rakað saman ofsagróða undanfarin ár  og ekkert bendi til að lát verði á því.  Ríkisstjórnin vill þannig minnka tekjur ríkisins fyrir afnot af þessari sameiginlegu auðlind landsmanna um marga milljarða á ári, þrátt fyrir að forystumenn stjórnarinnar séu síkvartandi yfir að staða ríkissjóðs sé slæm.
Viðbúið er að stjórnin reyni að koma þessu frumvarpi gegnum þingið á næstu dögum, og hætt er við að nógu margir stjórnarþingmenn muni styðja það til að það verði samþykkt.  Sem betur fer er hægt að stöðva lög sem þingið samþykkir ef meirihluti kjósenda er þeim mótfallinn.  Allt bendir til að svo sé, enda studdu meira en 80%  kjósenda ákvæði um þjóðareign á auðlindum í þjóðaratkvæðagreiðslunni um stjórnarskrármálið 20. október í fyrra.  Til að kjósendur fái að segja skoðun sína á málinu þarf forsetinn bara að synja lögunum staðfestingar.  Það hefur sitjandi forseti nokkrum sinnum gert, og svo vel vill til að hann hefur tjáð mjög afdráttarlausa skoðun varðandi kvótamálin og þjóðaratkvæðagreiðslur, í útvarpsviðtali í fyrra (byrjið að hlusta á 12:27).  Þar segir Ólafur Ragnar þetta:
„Það er erfitt að hugsa sér stærra mál en það, sem myndi vera eðlilegt að setja í þjóðaratkvæðagreiðslu ef að einhver hluti þjóðarinnar telur það mikilvægt.  Þannig að ég tel að eðli málsins sé þannig að það séu fá mál jafn vel fallin  til þess að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og kvótamálin.  Því þar er þjóðin þá, sjálf, að taka afstöðu til þess hvernig hún vill ráðstafa sameign sinni …“
 Til að tjá skoðun sína á þessu máli, svo forseti þurfi ekki að velkjast í vafa um vilja stórs hluta kjósenda ef þingið samþykkir frumvarpið, er hægt að skrifa undir þessa áskorun.  Athugið að þegar það er gert er sendur póstur á netfangið sem maður gefur upp og þá þarf að smella á slóð í póstinum til að staðfesta undirskriftina, svo hún verði skráð.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 31.5.2013 - 10:53 - 7 ummæli

Mjólkurpeningunum eytt í brennivín

Margir flóttamenn sem sótt hafa um hæli á Íslandi hafa þurft að bíða, jafnvel árum saman, eftir að mál þeirra væru afgreidd.  Í mörgum tilvikum hefur Útlendingastofnun tafið málsmeðferð með vinnubrögðum sem eru fyrir neðan allar hellur, og einkennast af fúski og algeru virðingarleysi fyrir réttindum hælisleitendanna.  Stofnunin hefur einnig brotið gegn mannréttindasáttmála Evrópu, og þá sök bera líka a.m.k. tveir fyrrum ráðherrar, Ögmundur Jónasson og Ragna Árnadóttir.  Í sumum tilvikum hafa þessi mannréttindabrot orðið til þess að fólk hefur verið sent úr landi, t.d. til Grikklands (og þaðan trúlega til annarra landa), í trássi við mannréttindasáttmála, og til flestra hefur síðan ekkert spurst.  Það er því útilokað að vita hvort þessar ólögmætu brottvísanir hafa leitt ofsóknir, pyntingar eða jafnvel morð yfir fólkið sem vísað var á brott, en það hafa Útlendingastofnun og umræddir ráðherrar látið sér í léttu rúmi liggja.
Ráðherra hefur líka ítrekað synjað „frestun réttaráhrifa“ vegna ákvarðana Útlendingastofnunar þegar slíkar ákvarðanir hafa verið kærðar til ráðuneytisins.  Það er að segja, ráðuneytið hefur úrskurðað að hælisleitendur skyldu sendir úr landi, í algera óvissu, þótt ráðuneytið ætti sjálft, lögum samkvæmt, eftir að úrskurða hvort brottvísunin væri réttmæt.  Því miður hefur þetta framferði ráðherra aldrei orðið mikið umfjöllunarefni fjölmiðla, þótt það sé bæði svívirðilegt og fáránlegt: Ef ráðuneytið úrskurðar að ákvörðun Útlendingastofnunar hafi verið röng er of seint að koma í veg fyrir skaðann, því ráðuneytið ákvað að eyðileggja þann möguleika fyrirfram, áður en það felldi úrskurðinn.
Fyrir skömmu var samþykkt tillaga sem flestir hefðu líklega búist við að ætlað væri að bæta hag hælisleitenda og stytta málsmeðferðina hjá þeim sem lengst hafa þurft að bíða, miðað við það sem segir í þessari frétt:
„13. mars síðastliðinn samþykkti ríkisstjórnin tillögu innanríkisráðherra um að efna tafarlaust til tímabundins átaks til að stytta málsmeðferðartíma hælisumsókna og tryggja búsetu og aðbúnað hælisleitenda. Þetta var gert vegna þess bráðavanda sem glímt er við málaflokknum.
 Margir hælisleitendur hafa þurft að bíða mánuðum jafnvel árum saman eftir að mál þeirra séu afgreidd og kvartað sáran undan vistinni á meðan.  Innanríkisráðuneytið fékk 25 milljónir króna til að ráðstafa í átaksverkefnið.“
En vonin um skynsamlega notkun á þessu fé reyndist falsvon.  Útlendingastofnun og ráðuneytið notuðu í staðinn stóran hluta sjóðsins til að leigja flugvél til að senda burt með hraði fjölda Króata, sem synjað var um frestun á brottvísun þótt ráðuneytið eigi enn eftir að úrskurða í máli þeirra.  Þeir höfðu dvalið skamma hríð í landinu og ættu að geta fengið landvistarleyfi á Íslandi eftir mánuð, ef allt væri eðlilegt:
„Innanríkisráðuneytið fékk 25 milljónir króna til að ráðstafa í átaksverkefnið. Úr þeim sjóði komu þær átta milljónir sem Útlendingastofnun notaði til að greiða fyrir leiguflugvél undir króatísku fjölskyldurnar og flytja þær úr landi að sögn Kristínar Völundardóttur, forstjóra Útlendingastofnunar.“
En flóttamenn sem beðið hafa í óratíma eftir niðurstöðu í málum sínum, þeir fá að bíða áfram.  Í stað þess að nota umrædda peninga til þess sem allar sæmilegar manneskjur hefðu talið mikilvægt ákvað þetta valdafólk að sóa þeim í brjálæðislegt valdafyllerí, með fólk í leit að bærilegra lífi sem leiksoppa. Það þarf ekki nema eina eða tvær svona aðgerðir í viðbót til að tæma þennan sjóð.  Sjóðinn sem átti að stytta afgreiðslutímann fyrir þá hælisleitendur sem margir hafa beðið árum saman, verið meinað að vinna fyrir sér og útilokaðir frá því mannlega samfélagi sem hefði átt að sjá sóma sinn í að opna faðminn fyrir þeim.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 29.5.2013 - 10:49 - 15 ummæli

Vill Róbert Wessman eignast banka?

Róbert Wessman vill að „kröfuhafar framselji bankana til Bankasýslunnar“, samkvæmt frétt á Eyjunni í fyrradag, um sérstakan „morgunverðarfund Eyjunnar“ um hina svokölluðu snjóhengju.  Eyjan birti líka langa frétt um skoðanir hóps sem Róbert er í forsvari fyrir, snjohengjan.is.  Einnig fékk Róbert gott pláss í Silfri Egils í síðasta mánuði til að útskýra þessar hugmyndir sínar, og reyndar virðast flestir fjölmiðlar landsins hafa útvarpað boðskap hans síðustu daga.
Umfjöllun Eyjunnar og annarra fjölmiðla um tillögur Róberts hefur verið algerlega gagnrýnislaus.  Það sem verra er, hvergi er vikið að því einu orði hvort Róbert eigi, eða gæti átt, einhverra hagsmuna að gæta í þessu máli.  Róbert hefur verið umsvifamikill í ýmsu braski frá því löngu fyrir hrun.  Eins og sjá má hér á Róbert, í gegnum félag sitt Salt Investments, tæplega 13% hlut í Vefpressunni, sem á Eyjuna.  Það er langt frá því að vera einsdæmi; bæði Morgunblaðið og 365 miðlar eru í eigu auðmanna sem ekki standa í fjölmiðlun af sannleiksást.
Er hugsanlegt að Róbert langi að eignast banka á Íslandi og vilji þess vegna að þeir lendi í höndunum á Bankasýslunni, sem hefur það hlutverk með höndum að einkavæða þá?  Reynslan sýnir nefnilega að ríkið selur auðmönnum gjarnan banka fyrir slikk og er ekkert að ganga hart eftir að þeir borgi með raunverulegum peningum, né heldur að eftirlitsaðilar séu að anda mikið ofan í hálsmálið á þeim.
Við þessu fást engin svör í íslenskum fjölmiðlum, því þeir virðast flestir engan áhuga hafa á öðru en að útvarpa guðspjöllum helstu fjármálamanna landsins.
Margt bendir til þess að Ísland sé aftur komið á svipaðan stað og fáum árum fyrir hrun …

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur