Föstudagur 19.10.2012 - 10:41 - 2 ummæli

Capcent, ríkiskirkjan og RÚV

Hér að neðan eru póstskipti mín víð Fréttastofu RÚV um tvennt:  Annars vegar að RÚV hefur ekki kynnt neinar skoðanakannanir vegna atkvæðagreiðslunnar um stjórnarskrármálið.  Svo virðist sem það sé fyrirtæki úti í bæ sem ákveður um hvaða mál slíkar kannanir birtast í RÚV.  Hins vegar furðaði ég mig á að Spegillinn skyldi, í síðustu viku, láta prest úr ríkiskirkjunni reka áróður fyrir hagsmunum hennar, án þess að fá nokkurn á andstæðri skoðun í þáttinn.  Þetta eru allir póstar sem á milli fóru um hvort mál; ég fékk aldrei nein svör við síðari spurningum mínum.

————————————————————-
From: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>

Date: 2012/10/18
To: Óðinn Jónsson <odinnj@ruv.is>

Sæll Óðinn

 Ég hef ekki tekið eftir neinum fréttum hjá ykkur um skoðanakannanir vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar á laugardag.  Hef ég misst af einhverju í þessum efnum?  Ef ekki, af hverju hafið þið ekki látið gera neinar slikar kannanir?
Bestu kveðjur,
Einar

———-
From: Óðinn Jónsson <odinnj@ruv.is>
Date: 2012/10/18
To: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>

Sæll

RÚV stendur ekki fyrir skoðanakönnunum. Hinsvegar höfum við tryggt okkur frumbirtingu kannana sem Capacent Gallup hefur gert fyrir kosningar til Alþingis og sveitarstjórna. Sama frumbirtingarrétt höfum við að Þjóðarpúlsi. Ég hef ekki frétt af neinni könnun vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Kveðja

ÓÐINN JÓNSSON

———-
From: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>
Date: 2012/10/18
To: Óðinn Jónsson <odinnj@ruv.is>

Takk fyrir svarið

 Borgar RÚV Capacent fyrir þennan rétt?
Þýðir þetta að Capacent sem stjórni því um hvað eru birtar kannanir á RÚV?
Datt ykkur ekki í hug að það væri áhugavert að láta gera slíkar kannanir?
Bestu kveðjur,
Einar
————————————————————-
From: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>
Date: 2012/10/8
To: spegill@ruv.is

Sælt veri fólkið

Vonandi kemur í ljós strax á morgun að þetta séu óþarfa áhyggjur hjá mér.  En, í kvöld töluðuð þið við prest í ríkiskirkjunni (sem, eins og allir hinir sem hafa tjáð sig, sá eintóma annmarka á að kirkjan þyrfti að standa á eigin fótum).  Ætlið þið að tala við einhvern þeirra sem eru á öndverðri skoðun?  Mér skilst að það gildi um yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar (þótt það sé auðvitað aukaatriði).
Vænt þætti mér um ef þið nenntuð að svara þessu.
Bestu kveðjur,
Einar

———-
From: Arnar Páll Hauksson <arnarph@ruv.is>
Date: 2012/10/8
To: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>

Sæll

Að sjálfsögðu verður rætt við einhvern á öndverðu meiði. Umfjöllunin um kosningarnar heldur áfram. Það er langt í frá að við séum að hampa kirkjunni . Það var að minnsta kosti ekki meiningin.

Kv

Arnar Páll Hauksson

———-
From: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>
Date: 2012/10/8
To: Arnar Páll Hauksson <arnarph@ruv.is>

Takk fyrir svarið!

Gott að heyra að þetta skyldu vera óþarfa áhyggjur hjá mér.  🙂
Mér fannst ekkert athugavert í sjálfu sér við umfjöllunina í dag, úr því að þið munið kynna öndverðar skoðanir líka (þótt ég myndi gjarnan alltaf vilja harðari spurningar til viðmælenda).
Bestu kveðjur,
Einar
———-

From: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>
Date: 2012/10/10
To: Arnar Páll Hauksson <arnarph@ruv.is>

Sæll aftur Arnar

Hvenær verður talað við einhvern andstæðing þjóðkirkjuákvæðis í Speglinum?  Ég hélt að það myndi verða í gær, úr því þið töluðuð við talsmann kirkjunnar í fyrradag.  En, þetta var ekki í gær, og ekki í kvöld …
Bestu,
Einar
———-

From: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>
Date: 2012/10/17
To: Arnar Páll Hauksson <arnarph@ruv.is>

Sæll Arnar

Hef ég misst af einhverju síðustu vikuna, eða hafið þið ekki, í Speglinum, fengið neinn sem er mótfallinn ríkiskirkjuákvæði í stjórnarskrá í þáttinn, sem mótvægi við prestinn sem þið töluðuð við um daginn?
Ég er ekki að mæla með að þið talið við einhvern sérstakan andstæðing kirkjunnar (sem væri þó „eðlilegt“ miðað við þau smekklegheit ykkar að vera beinlínis með áróðursþátt fyrir kirkjuna eins og þetta var hjá prestinum).  En, mér finnst augljóst að það fari a.m.k. gegn anda þeirra laga sem gilda um RÚV ef þið ætlið að láta nægja áróðurspistils prestsins umrædda.
Hafi ég einfaldlega misst af þessu, þá biðst ég afsökunar á að hafa haft ykkur fyrir rangri sök, og yrði þakklátur ef þú nenntir að segja mér hvaða dag það var.
Bestu kveðjur,
Einar

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 18.10.2012 - 12:27 - 47 ummæli

Klámstjarnan Gail, Guðbjartur og Skúli

Það er unnið að því hörðum höndum þessa dagana að auka til muna stríðsreksturinn í „stríðinu við klámið“.  Helstu fréttir síðustu daga hafa verið af klámráðstefnu  sem haldin var af  velferðar- , innanríkis- og menntamálaráðuneytinu.  Aðalstjarnan á ráðstefnunni var Gail Dines, sem kynnt er sem fræðimaður (sem virðast miklar ýkur, ef ekki hreinn þvættingur, sjá hér að neðan), en sem hikar ekki við að ausa úr sér staðhæfingum um klám og skaðsemi þess, án þess að benda á áreiðanleg gögn máli sínu til stuðnings.  Í þessari frétt er til dæmis haft eftir henni að fullorðinsklám leiði karlmenn út í barnaklám.  Í þessu myndskeiði (ca. 18:20) gefur hún í skyn að rökuð kynfæri kvenna í klámi í dag muni leiða karla sem eignast dætur nú á dögum til að níðast kynferðislega á þeim.  Ekkert af þessu er stutt minnstu gögnum, né heldur neinum rökum (eru konur á kafi í kynferðislegri misnotkun á sonum sínum af því að karlar raka sig og líta því út eins og börn í framan?).
Gail rekur líka  fyrirtæki sem fæst við baráttu gegn klámi, sem aðallega virðist snúast um að koma henni sjálfri á framfæri.  Fletti maður hins vegar upp fræðistörfum hennar í kemur  ljós að   hún hefur nánast aldrei stundað nein slík störf.  Á Web of Science, sem er gagnagrunnur yfir nánast allar ritrýndar fræðilegar greinar í heiminum, fann ég bara þrjár greinar eftir Gail (efstu þrjár á þessari síðu), þar af er ein (sem ég hef ekki aðgang að) bara örstutt svar við annarri grein.  Önnur hinna er svar við gagnrýni á  tiltekna bók eftir Gail.  Í þeirri grein segir hún strax í upphafi að afstaða hennar byggi á „sögum þúsunda kvenna“ en ekki er sem sagt minnst á nein áreiðanleg gögn eða fræðimennsku („a set of theoretical positions that grew out of listening to the stories of thousands of women who are not credentialed, who do not publish in academic journals, and whose experiences are all too often dismissed as anecdotal.“)
Tveir  stjórnmálamenn hafa haft sig í frammi nýlega um klám  og meintar hræðilegar afleiðingar þess, þeir Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Skúli Helgason þingmaður.  Þar er því miður sama uppi á teningnum; þeir styðjast, í afar dramatískum yfirlýsingum sínum, við ekkert annað en staðhæfingar ýmissa hagsmunaaðila, engar rannsóknir, engin áreiðanleg gögn.   Ef til vill finnst einhverjum þessi hystería bara hlægileg.  En, þótt það verði ekki rakið hér virðist eðlilegt að setja þetta í samhengi þess heiftúðuga áróðurs sem gerir karla sem hóp að ógeðslegum kúgurum sem beiti konur og börn kynferðislegu ofbeldi til að viðhalda „völdum“ sínum.  Sá áróður hefur skapað viðurstyggilegt andrúmsloft lyga og haturs.  Kannski eru þeir Guðbjartur og Skúli bara „nytsamir sakleysingjar“ í þessu ógeðfellda stríði, en slíkt er varla hægt að afsaka þegar fólk í valdastöðum á í hlut.
Guðbjartur sagði þetta í frétt í DV:
„Á að láta klámvæðinguna, sem verður sífellt áleitnari í daglegu lífi okkar, afskiptalausa eða á að skera upp herör gegn henni ekki síst til að verja börn fyrir óæskilegum ranghugmyndum um samskipti kynjanna og kynlíf?“
Og svo eftirfarandi í frétt í Mogga:
„Hjá ungum piltum hefur skapast óraunverulegur heimur og það er áhyggjuefni,“
Ég sendi honum í pósti eftirfarandi spurningar (lauslega umskrifað):
  • Hvað áttu við með klámvæðingu?
  • Hvað hefurðu fyrir þér í því að „klámvæðingin“ verði „sífellt áleitnari í daglegu lífi okkar“.
  • Hver er þessi „óraunverulegi heimur“ og af hverju telur þú að hann „hafi skapast“, þar sem ég geri ráð fyrir að þú eigir við eitthvað sem gerst hafi tiltölulega nýlega?
Svarið sem ég fékk frá honum var þetta:
„Sæll Einar
Ábengingar mínar um að unglingar, geti fengið ranghugmyndir um kynlíf af klámsíðum netsins, eru byggðar á samtölum mínum við ungt fólk, en eins og þú veist eflaust vann ég til margra ára með ungu fólki.
Bkv“
Ég skrifaði um hæl:
„Takk fyrir svarið. Hefurðu einhvers staðar gert grein fyrir niðurstöðum þínum, svo hægt sé að meta áreiðanleika þeirra?“
Hann svaraði því svo:
Sæll
Nei…
Bkv
Skúli sagði þetta í Speglinum, í viðtali um um feril kæra um kynferðisbrot:
„Það er mjög margt sem ég held að við þurfum að fara í gegnum; við þurfum að skoða auðvitað allt frá forvörnum í grunnskólum og upp í að takast á við klámvæðinguna sem allir eru sammála um að er örugglega áhrifaþáttur í því hve mörg kynferðisbrotamál eru á Íslandi, og síðan þurfum við að takast á við það að þolendur í kynferðisbrotamálum að þeir fái betri þjónustu í kerfinu hjá okkur, bæði á rannsóknarstigi og í dómskerfinu, til þess að tryggja það að þessi erfiða reynsla hún verði ekki enn erfiðari en þörf er á.“
Ég spurði hann þessa:
  • Hvers konar „forvarnir“ í grunnskólum telurðu að geti haft áhrif til bóta hér?
  • Hvað er þessi klámvæðing sem þú talar um?
  • Af hverju heldurðu fram að „allir“ séu sammála um að þessi meinta klámvæðing sé „örugglega áhrifaþáttur í því hve mörg kynferðisbrotamál eru á Íslandi“?
  • Á hverju byggirðu það sem virðist vera skoðun þín að þessi meinta klámvæðing komi kynferðisbrotum við?
Skúli svaraði ítarlega og hér eru svör hans og framhaldsspurningar mínar:
———————————————————————————–

Sæll Einar,

Hér koma mín svör við þínum ágætu spurningum.

1.  Við þurfum að tryggja að börnin okkar og ungmenni fái kynfræðslu sem gerir þeim kleift að þróa sína eigin kynvitund og sjálfsmynd í kynferðismálum í stað þess að sú mynd sem þau fá að kynlífi sé fyrst og fremst í gegnum klámefni sem byggir á grófu ofbeldi og misþyrmingum.

Hefurðu eitthvað fyrir þér í því að sú mynd sem börn og ungmenni fái „sé fyrst og fremst í gegnum klámefni sem byggir á grófu ofbeldi og misþyrmingum“?  Ef svo er, hvað?

2.  Klámvæðingin vísar í þá þróun að ungt fólk í dag hefur greiðari aðgang að klámefni fyrir tilstilli netsins en nokkur dæmi eru um í sögunni.

Veistu eitthvað áreiðanlegt um neyslu ungs fólks á slíku efni?  Hvað?

 Þetta framboð á klámefni er orðið svo mikið og aðgengið svo auðvelt að vel má halda því fram að klámið sé orðinn helsti vettvangur „kynfræðslu“ fyrir ungmenni í samtímanum.

Nei, það má ekki halda því fram nema maður búi yfir áreiðanlegri þekkingu um það.  Býrð þú yfir henni?

 Annað sérkenni klámvæðingarinnar er að efnið er miklu grófara en það var, að því er virðist til að svara eftirspurn markaðarins  eftir stöðugt ágengara efni.  Sú mynd sem þetta grófa klámefni dregur upp af veruleikanum er hins vegar kolbrengluð því hún miðlar fyrst og fremst upphafningu á pyndingum og grófum misþyrmingum.

Hversu algengt er efni af þessu tagi (upphafning …)? Veistu eitthvað um algengi þess að ungt fólk sæki í slíkt efni?  Veistu um einhver áreiðanleg gögn sem benda til að þetta hafi neikvæð áhrif á kynhegðun?

3.  Það vakti athygli okkar á fundunum að það var samdóma álit fulltrúa lögreglu, Neyðarmóttöku, Stígamóta, Drekaslóðar og réttargæslumanna að klámneysla ungmenna væri beinn og vaxandi áhrifavaldur í kynferðisbrotamálum á Íslandi, ekki síst þar sem gerendur eru ungir (á aldrinum 12-17 ára).

   Í mörgum tilvikum væru gerendurnir að líkja eftir aðstæðum sem þeir hefðu séð í klámmyndum á vefnum.

Áttu við að þessir hagsmunaaðilar séu annars vegar hlutlausir í afstöðu sinni, og hafi hins vegar eitthvað áreiðanlegt til að byggja á (annað en „álit“ sitt)?

4.  Þessir sérfræðingar og erlendir fræðimenn á borð við Gail Danes hafa að auki vísað í erlendar rannsóknir til staðfestingar á þessum tengslum klámneyslu og kynferðisbrota, en þær eru reyndar að stórum hluta 10-15 ára gamlar og ná því ekki að fanga til fulls þann veruleika sem við okkur blasir í dag, þar sem klámefnið er orðið miklu grófara og ofbeldisfyllra.  Það má því leiða getum að því að sambandið á milli kláms og kynferðisbrota kunni að vera enn sterkara í dag en áður.

Hvaða sérfræðinga áttu við hér?  Á hverju byggirðu það að Dines sé áreiðanlegur fræðimaður?
Nei, það má ekki leiða getum að einhverju ef Gail Dines þóknast að segja það, ef ekki er vísað í áreiðanlegar og umfangsmiklar rannsóknir.
Veistu um einhver áreiðanleg gögn sem benda til að það sé samband á milli kláms og kynferðisbrota (þ.e.a.s. að klámneysla stuðli að kynferðisbrotum)?    Ef svo er, veistu þá um gögn sem benda til þess að þessi áhrif „kunni að vera sterkari í dag“.
Bestu kveðjur,
Einar
Skúli svaraði þá þessu:
Ég hef bent þér á að allir þeir aðilar sem við fengum til fundar við okkur eru sammála um þessi vaxandi tengsl milli kláms og kynferðisbrota.   Ég hef reyndar eins og þú óskað eftir því að fá aðgang að erlendum rannsóknum sem styðja þeirra fullyrðingar og er tilbúinn að senda þér þær þegar þær hafa borist nefndinni.
Þá sagði ég eftirfarandi, en hef ekki fengið fleiri svör:
Ég vil hins vegar benda þér á að aðilarnir sem þið fenguð til fundar eru langt frá því að vera hlutlausir, og Stígamót eru reyndar með yfirlýsta stefnu sem fer þvert á þá afstöðu að styðjast eigi við áreiðanlegar rannsóknir en ekki pólitíska stefnu, auk þess sem samtökin gera sig sek um afar ógeðfellda hluti þegar þau tala opinberlega um drengi allt niður í tíu ára aldur sem kynferðisofbeldismenn, og byggja það eingöngu á frásögnum meintra þolenda.
Auk þessa vil ég spyrja þig:  Fenguð þið til fundar við ykkur einhverja kynfræðinga?  (Ekki kynjafræðinga, heldur kynfræðinga.)

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 16.10.2012 - 10:38 - 4 ummæli

Heift Gunnars Helga gegn persónukjöri

Á þriðjudaginn í síðustu viku var Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við HÍ, í viðtali í Speglinum um tillögu Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá.  Þar var hann meðal annars spurður um ákvæði um persónukjör í tillögunni, og svaraði svo:
„Niðurstaða allra þroskaðra lýðræðiskerfa er að flokkar gegni hlutverki í lýðræðislegum stjórnmálum sem ekki sé hægt að komast fram hjá.  Þannig að ef við ætlum að byggja upp persónukjör þá á það að vera í stuðningshlutverki við hlutverk stjórnmálaflokka, en það á ekki að beinast að því að tæta í sundur starfsemi þeirra.“
Gunnar útskýrði ekkert hvernig þessi „niðurstaða“ hefði fengist (og ekki datt fréttamanninum í hug að spyrja), svo ég skrifaði honum og spurði.  Póstskipti okkar set ég í athugasemd strax á eftir pistlinum.  Rétt er að geta þess að seinni póst minn sendi ég tvisvar, fyrst sama dag og ég fékk svar hans við þeim fyrri, og svo aftur fjórum dögum síðar, í gær.  Ég fékk ekkert svar við þessum síðari póstum.
Eins og sjá má í svari Gunnars við upphaflega póstinum bendir hann mér á það sem hann kallar „ágæta grein … sem lýsir … hvaða augum flokkar eru almennt litnir í þroskuðum lýðræðiskerfum“.  Það hljómar auðvitað ekki sannfærandi, hvað þá „fræðilega“ að tala um að eitthvað sé „almennt álitið“, en ég las samt alla greinina.  Hún fjallar aðallega um fjármögnun flokka og fjárhagsleg tengsl þeirra við ríkið, en lítið um það sem ég spurði um.  Þó eru víða í henni staðhæfingar í eftirfarandi stíl:
„… það er afleiðing breyttrar afstöðu til flokka og lýðræðis að stjórnmálaflokkar eru í auknum mæli álitnir nauðsynlegar og æskilegar stofnanir fyrir nútímalýðræði.“

(„… it is as a result of changing conceptions of parties and democracy that political parties have come to
be perceived increasingly as necessary and desirable institutions for modern democracy.“)

Ekki eru færð nokkur rök fyrir þessum staðhæfingum neins staðar í greininni, né heldur útskýrt hvaða fólk þetta er sem hefur þessa afstöðu til flokka, og varla nokkurs staðar er einu sinni vitnað í nein önnur rit þessum staðhæfingum til stuðnings.  Þetta er sem sagt sett fram með þeim hætti að ógerlegt er að líta á það sem niðurstöður af nokkrum rannsóknum og því liggur ekkert beinna við en að álykta að þetta séu einkaskoðanir höfundar.  Greinin sem Gunnar sendi mér svaraði sem sagt alls ekki því sem ég spurði um, né heldur sýnir hún það sem hann heldur fram.  Það er ekki góð fræðimennska.
Það virðist ljóst að Gunnar Helgi fór með tómt fleipur í þessari heiftúðugu árás sinni á tillögu Stjórnlagaráðs.  Heiftúðugu segi ég, því hann talar um persónukjör eins og það muni „tæta í sundur starfsemi“ stjórnmálaflokka, án þess hann færi nokkur rök fyrir því, auk þess sem hann heldur fram að þessi persónulega afstaða hans sé hvorki meira né minna en „niðurstaða allra þroskaðra lýðræðiskerfa“.  Hann predikar einnig, í beinu framhaldi af því sem hann segir um þessa „niðurstöðu allra þroskaðra lýðræðiskerfa“, að ef við ætlum að byggja upp persónukjör þá eigi það að vera í stuðningshlutverki við hlutverk stjórnmálaflokkanna, eins og hann sé eitthvert yfirvald í þeim efnum.
Það er sérlega óheiðarlegt af háskólamanneskju að koma fram með þessum hætti, kynnt sem sérfræðingur á umræddu sviði.  Hvað Gunnari gengur til með þessari árás sinni er mér hins vegar ráðgáta.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 14.10.2012 - 11:56 - 3 ummæli

Jafnréttisstyrkir til landsbyggðarkarla

Jónína Rós Guðmundsdóttir þingmaður bendir í dag á þann kynjahalla sem er viðvarandi á landsbyggðinni, þar sem konur, sérstaklega ungar konur, flytja í miklu meiri mæli í þéttbýlið en karlar.  Ekki er ótrúlegt að þetta stafi meðal annars af því að konur fara miklu frekar í háskólanám en karlar; fjöldi kvenna í háskólanámi mun vera um tvöfaldur á við karla.
Ef hlutföllin á landsbyggðinni væru öfug, og karlar væru miklu fjölmennari í háskólanámi en konur, er ég nokkuð viss um hver viðbrögð margra stjórnmálamanna yrðu. Í samræmi við það legg ég til að landsbyggðarkörlum verði boðnir sérstakir jafnréttisstyrkir til að flytja í þéttbýli.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 9.10.2012 - 10:04 - 16 ummæli

Dagur B. Eggertsson og OR-skýrslan

Í gær fékk ég fréttir af því, eftir krókaleiðum, að ef til vill væri ekki allt eins og það ætti að vera varðandi úttektina á Orkuveitu Reykjavíkur, en skýrslan um úttektina var afhent borgarstjóra í síðustu viku.  Það á svo að kynna hana á miðvikudag fyrir „eigendum“, þ.e.a.s. þeim sem fara með eigendavaldið í þessu fyrirtæki fyrir hönd almennings.  Almenningur, hinn raunverulegi eigandi, má hins vegar éta það sem úti frýs enn um sinn.  Um þá afstöðu til upplýsingamála fjallaði ég í síðustu tveim pistlum.
Ég hringdi því í upplýsingafulltrúa OR, Eirík Hjálmarsson, og svo í formann borgarráðs, Dag B. Eggertsson.
Eiríkur sagði mér að hann og fleiri starfsmenn OR hefðu séð skýrsluna, a.m.k. hluta hennar, fyrir nokkrum mánuðum, til að „fact-tékka“ hana.  Þessir starfsmenn hefðu gert athugasemdir við eitt og annað sem ekki væri rétt, og ég skildi það sem svo að það hefði verið „leiðrétt“ í kjölfarið, þótt ekki viti ég hvað þar um ræðir.
Mér hefur reyndar ekki tekist að útvega mér nægar upplýsingar um hvernig úttektarnefndin átti að starfa, en það hljómar sérkennilega, sem mér skilst að sé raunin, að starfsmaður umræddrar nefndar, sem sjái um ritun skýrslunnar, hafi aðsetur í húsnæði OR.  Að starfsmenn fyrirtækisins séu líka að skoða skýrsluna og gera athugasemdir við hana virðist ekki vænlegt til þess að hún verði eins traust og óskandi væri.  Þetta eru samt ekki nýjar fréttir, eins og fram kemur hér, en þar er líka sagt frá því að Eiríkur var aðstoðarmaður tveggja borgarstjóra, auk þess sem hann átti að fá kauprétt í REI sáluga.  Fleira um vafasama blöndu pólitíkur við gerð þessarar skýrslu er að finna hér,
Hitt var athyglisverðara, sem Dagur sagði mér.  Eða öllu heldur, það sem hann vildi ekki segja.  Hann byrjaði reyndar á því að segja mér að honum liði „undarlega“ yfir að vera í einhvers konar „fjölmiðlaviðtali“ við mig.  Þegar ég spurði hvað væri svona undarlegt við að óbreyttur borgari vildi grennslast fyrir um  svo mikilvæg mál varð fátt um svör, nema hvað hann endurtók að þetta væri „kjánalegt“, að ég væri að spyrja hann út í þessi mál, mikilvægara væri hvað yrði gert við þessa skýrslu.  Auk þess fannst Degi skrítið hvernig ég „hefði farið í þetta mál“.  Þegar ég spurði hvað hann ætti við með því sagði hann að ég hefði strax byrjað með einhverja tortryggni, og átti þar við að ég hafði kallað það valdníðslu, í bloggpistli,  að almenningur skyldi ekki fá skýrsluna í hendur um leið og hún var tilbúin.  Mér hafði reyndar ekki dottið í hug að tortryggja neitt í þessu sambandi, en er nú farinn að velta fyrir mér hvort ástæða sé til þess, eftir þessi ummæli Dags.
Ég spurði Dag svo þeirrar spurningar sem mér finnst mikilvægust í þessu,  hvort hann hefði séð skýrsluna eða drög að henni á meðan hún var í vinnslu, í hluta eða heild.  Hann vildi ekki svara því. Ég spurði aftur, en hann fór undan í flæmingi, og sagðist myndu svara mér í tölvupósti seinna um kvöldið (í gær) .  Það svar hef ég ekki fengið enn.
Auðvitað get ég ekki verið viss, en mér finnst liggja í augum uppi að Dagur hefði svarað spurningu minni neitandi ef hann hefði ekkert séð af skýrslunni.  Ég vona að eitthvert öflugt fjölmiðlafólk togi allan sannleikann um það upp úr Degi.  Og spyrji svo hinnar augljósu framhaldsspurningar um hvort hann hafi haft einhver áhrif á ritun skýrslunnar.  Vonandi finnst honum erfiðara að neita að svara alvöru fjölmiðlafólki en að vera í „kjánalegu fjölmiðlaviðtali“ hjá óbreyttum borgara.  Þótt það hafi greinilega verið nógu sárt fyrir hann,  sem segir sorglega sögu um afstöðu valdamanns til þess almennings sem hann á að vinna fyrir.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 6.10.2012 - 16:05 - 8 ummæli

Jón, Séra Jón, Gnarr-Jón og valdið sem spillir

Fáum virðist finnast það tiltökumál sem ég gerði að umræðuefni í pistli í gær, hvernig fólk í valdastöðum á Íslandi heldur leyndum upplýsingum sem almenningur ætti að fá aðgang að um leið og valdafólkið.  Mér finnst þetta satt að segja ein versta blindan þegar kemur að þeim kröfum sem fólk leyfir sér að hafa í frammi gagnvart yfirvöldum.  Samtímis held ég að þótt vika til eða frá í umræddu máli skipti ekki sköpum, þá sé valdbeitingin hér einmitt valdníðsla af því tagi sem gegnsýrir hugsunarhátt valdafólks á Íslandi, og sem almenningur sættir sig við í allt of ríkum mæli.  Því ákvað ég að birta hér, sem sérstakan pistil, svar mitt til heiðursmannsins Jóns Daníelssonar, við athugasemd hans um ofangreindan pistil minn.  Athugasemd Jóns má sjá í tjásukerfinu við þann pistil.
———————————————————————
Jón:  Ég held ekki fram að nákvæmlega hvenær skýrslan verður birt almenningi sé stórmál.  Hins vegar finnst mér þetta lýsandi dæmi um það hryllilega viðhorf sem gegnsýrir íslenska stjórnsýslu:  Fólkið sem hefur völdin innan hennar lítur alltaf á eigin hagsmuni sem æðri hagsmunum almennings.  Þetta ætti auðvitað að vera þveröfugt.  Engum dettur í hug að halda öðru fram opinberlega en að hið æðsta vald komi frá almenningi.  Þannig ætti það einnig að vera í praxís, og því ætti enginn nokkurn tíma að fá skýrslu af þessu tagi í hendur á undan almenningi, þegar henni er lokið, og hún er ekki lengur í vinnslu.
Það gerir ekkert til þótt kjörnir fulltrúar þurfi að segja við fréttamenn að þeir hafi ekki kynnt sér efni skýrslunnar mínútu eftir að þeir fengu hana í hendurnar.  Það er heldur ekki eðlilegt að valdafólkið fái langan tíma til að undirbúa sig sem hugsanlegir gagnrýnendur þess fá ekki.  Valdafólkið á EKKI að verja eigin hagsmuni í þessu máli, eða nokkru öðru sem stjórnsýslan fæst við.
Þetta viðhorf sem ég er að berjast fyrir hér hefur reyndar verið stjórnarskrárbundið í Svíþjóð í áratugi, og engan stjórnmálamann þar í landi hef ég nokkurn tíma heyrt halda því fram að það væri óeðlilegt, hvað þá skaðlegt.  Í Svíþjóð hefði hver sem er, jafnvel þú, nafnlaust, getað fengið afrit af þessari skýrslu um leið og hún hafði verið afhent borgarstjóra.
Þótt Svíþjóð sé ekki að öllu leyti draumaland, þá ĺiggur einföld hugmynd að baki hinum ítarlegu og öflugu upplýsingaákvæðum sænsku stjórnarskrárinnar: Að stjórnvöld eigi að vinna fyrir hagsmuni almennings, og að engir aðrir hagsmunir megi hafa áhrif á það starf.
Ég veit að það er nánast enginn skilningur á þessu sjálfsagða viðhorfi á Íslandi.  Og mér finnst sláandi að maður eins og þú skulir taka undir þá afstöðu sem ég tel í þessu máli vera örgustu valdníðslu.  Sláandi, einmitt af því að fáa menn þekki ég sem eru eins víðsýnir og réttsýnir og þú ert (þótt ég sé stundum ósammála þér).

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur