Fimmtudagur 14.6.2012 - 20:23 - 35 ummæli

Hið ógeðslega Ísland

Margir hafa talað um það síðustu mánuði og ár að nauðsynlegt sé að „sameina“ landsmenn í stað þess að „ala á sundrungu“. Það gleymist hins vegar yfirleitt að útskýra um hvað á að sameina fólk, en erfitt er að skilja sameiningar- og samstöðutalið öðru vísi en að við eigum að sameinast um að vera nokkurn veginn sátt við núverandi ástand. Enda er ljóst að hinar ýmsu valdaklíkur í landinu, sem hafa ráðið lögum og lofum áratugum saman, munu berjast mjög harkalega gegn sameiningu um hvaðeina sem hróflar við völdum þeirra eða skerðir gróða þeirra sem ráða yfir efnahagslífinu. Á hinn bóginn er líka ljóst að ríkjandi ástand í íslenskri stjórnsýslu og efnahagslífi er ekki beinlínis í lagi, ef það eru hagsmunir almennings sem lagðir eru til grundvallar.

Í kvöldfréttum RÚV voru tvær fréttir sem sýna með dapurlegum hætti hversu ógeðslegt hið þaulsætna Gamla Ísland er.

Annars vegar var fjallað um brennisteinsvetnismengun frá Hellisheiðarvirkjun, sem er yfir leyfilegum mörkum í Hveragerði. Þau mörk miðast, skiljanlega, við að mengunin sé ekki skaðleg heilsu fólks. Þegar fréttamaður sjónvarps benti á að ekki sé hægt að fullyrða að heilsa fólks bíði ekki tjón af þessari mengun var svar umhverfisstjóra Orkuveitunnar, Hólmfríðar Sigurðardóttur, þetta: „Það er heldur ekki hægt að fullyrða að fólk beri tjón af.“ Ekki veit ég hvert hlutverk umhverfisstjóra OR er. Hún virðist hins vegar ekki líta svo á að henni komi neitt við heilsa þeirra sem OR eys menguninni yfir. Enda voru viðbrögð forstjóra OR, Bjarna Bjarnasonar, þau að sækja um undanþágur frá þessum hamlandi reglum, svo (forysta) OR fái að njóta vafans, frekar en heilsa fólks í Hveragerði.

Í hinni fréttinni, og í löngu Spegilsviðtali, er Ingólfur nokkur Bender látinn tala í löngu máli um skoðanir sínar, og „spár“ Greiningardeildar Íslandsbanka um hagvöxt. Jafnvel þótt við látum liggja á milli hluta þá augljósu staðreynd að afar erfitt er að spá af nokkru viti um hagvöxt á Íslandi (og víðar) næstu árin, þá hefðu fréttamenn RÚV átt að muna eftir því að Ingólfur er sami forstöðumaður sömu „greiningardeildar“ og tilheyrði Glitni, áður en hann fór á hliðina, og var síðan dubbaður upp í Íslandsbanka.

Ingólfur var sem sagt forstöðumaður einnar af þeim „greiningardeildum“ bankanna sem sögðu tóma þvælu árin fyrir hrun, og sem eðlilegt er að spyrja hvort ekki hafi hreinlega verið að ljúga, enda orðið ljóst að forysta þeirra banka sem um ræðir byggði starfsemi þeirra bæði á lygum og svikum.

Orkuveita Reykjavíkur er í eigu borgarinnar og tveggja annarra sveitarfélaga, þ.e.a.s. í eigu almennings. Eðlilegt ætti að vera að hún hefði hagsmuni þessa sama almennings að leiðarljósi. Samt fara forsvarsmenn fyrirtækisins sjálfkrafa í varnarstöðu gegn þeim hagsmunum þegar í ljós kemur að fyrirtækið hefur brotið gegn þeim reglum sem eiga að koma í veg fyrir heilsutjón meðal almennings.

RÚV á líka að þjóna hagsmunum almennings. Samt sýnir það lotningarblandna og gagnrýnislausa virðingu manni sem er í þjónustu banka sem hefur allt aðra hagsmuni en almenningur, og sem hefur sýnt sig segja tóma þvælu árum saman, án þess að nokkur ástæða sé til að ætla að maðurinn hafi vitkast síðan, hvað þá að hann hafi tekið upp siðlega starfshætti.

Ísland er stórkostlegt land. Íslendingar eru upp og ofan eins og fólk í öðrum löndum. Íslensku valdakerfin eru hins vegar gegnrotin af spillingu og fúski. Og þeir sem einhverju ráða eru ekki að reyna að breyta því til hins betra, heldur berjast þeir allir með kjafti og klóm við að viðhalda völdum þeirra sem leiddu hrunið yfir landsmenn, ollu stórum fjölda þeirra miklum búsifjum, en græddu margir gríðarlega sjálfir, bæði fyrir og eftir hrun.

Ég ætla ekki í bráð að taka þátt í söngnum um „sameiningu“. Þetta Ísland, valdakerfið sem drottnað hefur yfir landinu áratugum saman, er einfaldlega ógeðslegt. Og þeir sem helst tala um að þetta sé of mikil svartsýni eru ekki að gera neitt til að breyta því til betri vegar. Þvert á móti eru þeir að reyna að lægja öldur réttmætrar reiði, og það mun auðvelda kúgunaröflunum að halda áfram iðju sinni hindrunarlítið.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 6.6.2012 - 12:35 - 46 ummæli

Tryggir Þóra sigur Ólafs Ragnars?

Margir stuðningsmenn Þóru Arnórsdóttur lögðu ofuráherslu á það í upphafi að finna þyrfti frambjóðanda sem gæti fellt Ólaf Ragnar og að hún væri sá eini sem það gæti. Þetta fólk er annað hvort sammála afstöðu Þóru um hlutverk embættisins, eða telur hana aukaatriði, því mikilvægast sé að koma Ólafi frá og fá „frambærilega“ manneskju í hans stað á Bessastaði.

Það er óhætt að segja að þetta hafi gengið eftir, enn sem komið er, því aðrir frambjóðendur en þau tvö mælast varla með nokkurt fylgi. Vandamálið er hins vegar að þegar Ólafur Ragnar hefur nú hafið kosningabaráttu sína, af alkunnri hörku og kunnáttu, þá fara að renna tvær grímur á ýmsa áður óákveðna kjósendur. Það finnst ekki öllum lengur jafn aðlaðandi að heyra Þóru tala um að „það eigi að vera aukinn samhljómur milli forseta og þeirrar ríkisstjórnar sem situr við völd hverju sinni“ og að hlutverki forseta sé lýst með þeim loðna hætti að „Hann á að leiða saman ólík sjónarmið, hann á að geta miðlað upplýsingum á milli …“

Stuðningsmönnum Þóru tókst sú ætlun sín að gera aðra frambjóðendur lítt sýnilega, og Þóru að eina valkostinum við ÓRG. Gerðu þeir þannig út af við möguleikann á að finna frambjóðanda sem meirihluti kjósenda gæti sameinast um og sem gæti fellt Ólaf?

Mun árangurinn af „hernaðarlist“ stuðningsmanna Þóru verða fullkominn ósigur, þar sem þeir tryggja á endanum sigur Ólafs Ragnars, eftir að hafa rutt burt öllum þeim sem hefðu getað lagt hann að velli?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 1.6.2012 - 19:29 - 39 ummæli

Þvælan um 25. grein stjórnarskrárinnar

Svolítil umræða hefur spunnist öðru hverju síðustu mánuði um 25. grein stjórnarskrárinnar, sem hljóðar svo:

Forseti lýðveldisins getur látið leggja fyrir Alþingi frumvörp til laga og annarra samþykkta.

Þessi grein hefur aldrei verið notuð af forseta, og ýmsir hafa haldið fram að hún þýði alls ekki að forseti geti lagt fram frumvörp á Alþingi. „Röksemdirnar“ sem ég hef hingað til heyrt fyrir þessari túlkun eru ansi aumar. Bent er á 13. grein (Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt) og 19. greinina (Undirskrift forseta lýðveldisins undir löggjafarmál eða stjórnarerindi veitir þeim gildi, er ráðherra ritar undir þau með honum). Rökleysan í þessu er að það er ekki framkvæmd valds að leggja fram lagafrumvarp, né heldur er það stjórnarathöfn.

Það sem er þó meira sláandi, og ætti að taka af allan vafa um rétt forseta til að leggja fram lagafrumvörp er að í 38. grein stendur:

Rétt til að flytja frumvörp til laga og tillögur til ályktana hafa alþingismenn og ráðherrar.

Ef í þessari grein stæði að aðeins alþingismenn og ráðherrar hefðu þennan rétt væri ljóst að forseti hefði hann ekki. En, það stendur ekki í 38. greininni. Þvert á móti er sérstök grein, sú 25., sem segir að forseti hafi þennan rétt.  Dettur einhverjum í hug að ákveðið hafi verið að setja inn sérstaka grein um að forseti  geti lagt fram lagafrumvörp, til þess að það væri tvítryggt í stjórnarskrá að ráðherra gæti lagt fram slík frumvörp?

Það er auðvitað tilgangslaust fyrir forseta að leggja fram lagafrumvörp sem Alþingi kærir sig ekki um, ef það treystir sér til að hunsa þau, sem það getur auðvitað gert ef þau njóta ekki mikils stuðnings meðal kjósenda. Það væri hins vegar sterkur leikur fyrir forseta nú að leggja fram frumvarp um kvótamálin, t.d. á þessa leið (í grófum dráttum):

Allur kvóti verður innkallaður frá og með þarnæsta fiskveiðiári. Afnot af honum verða síðan seld á opnu uppboði, til fárra ára í senn.

Ástæðan er að yfirgnæfandi meirihluti kjósenda hefur lengi viljað að kvótinn yrði innkallaður. Framlagning frumvarps á þessum nótum myndi gera Alþingi erfitt að hunsa þann almenningsvilja.

Það er ansi athyglisvert hversu illa sumum virðist vera við hina augljósu, bókstaflegu, túlkun á 25. greininni.  Forseti getur nefnilega bara gert sig að athlægi með því  að leggja fram frumvörp sem ekki hafa sterkan stuðning almennings.  Og, af hverju skyldi nokkur manneskja vera mótfallin því að forseti leggi fram frumvörp sem hafa mikinn stuðning meðal kjósenda?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 28.5.2012 - 20:18 - 42 ummæli

Þóra Arnórsdóttir — Gamla Ísland

Þóra Arnórsdóttir hefur nú sagt nokkuð skýrt frá afstöðu sinni til forsetaembættisins. Í því kemur fátt á óvart, því hér er ekki um neitt nýtt að ræða, heldur staðfestir hún vandlega þá afturhaldssömu mynd sem hún hefur af embættinu. Hér eru nokkrar úrklippur úr ræðu hennar frá í dag, og athugasemdir við hana.

Þóra segir um sýn sína á embættið:

Það er alveg ljóst að hún er íhaldssamari en margra annarra frambjóðenda, sem hafa að mínu mati rangtúlkað nokkuð eða misskilið hlutverk forseta.

Ef Þóra væri karlmaður væri þetta kallað hrútskýring, og það með réttu. Hér er talað af hroka þess sem telur að ríkjandi valdaklíkur hljóti alltaf að hafa rétt fyrir sér. Túlkanir sem fara í bága við túlkanir Þóru eru ekki bara annars konar skoðanir, þær eru rangar, eða í besta falli misskilningur, eins og karlrembur útskýra gjarnan fyrir konum sem þeir telja að standi þeim skör lægra í skilningi á flóknum málum.

Ef stórum deilumálum er þröngvað í gegnum þingið, með minnsta mögulega meirihluta og í hávaðarifrildi, aukast líkurnar mjög á því að kjósendur taki sig saman og biðji forsetann um að skrifa ekki undir lög sem þannig eru samþykkt.

Þóra segir hins vegar ekkert um hvernig hún myndi bregðast við slíkum bónum, þ.e.a.s. hvers konar mál séu nógu veigamikil til að hún myndi beita synjunarvaldinu, auk þess sem hún sniðgengur þá staðreynd að nánast öll stór deilumál fara í gegnum Alþingi með atkvæðum stjórnarsinna gegn atkvæðum stjórnarandstæðinga, og þar skiptir varla máli hvort um er að ræða minnsta mögulega meirihluta eða aðeins stærri meirihluta en svo, þegar ríkisstjórnin hefur meira en lágmarksmeirihluta.

Ef ætlun Þóru væri að gefa skýra mynd af því hvernig hún ætlaði að haga sér sem forseti væri hægur leikur fyrir hana að telja upp þau stóru deilumál sem núverandi ríkisstjórn hefur fengið í gegn með minnsta mögulega meirihluta og sem hún teldi rétt að forseti hefði stöðvað með synjun. Ljóst virðist að það er ekki slík skýr stefna sem vakir fyrir henni að lýsa, og trúlegast virðist að hún hafi alls ekki áttað sig á afleiðingum þess sem hún sagði um „stór deilumál“ og „minnsta mögulega meirihluta“, því hún hefur ótvírætt gefið til kynna að hún myndi sem forseti nánast engin afskipti hafa af ákvörðunum þingsins.

Forseti […] á að standa vörð um hið lýðræðislega ferli, en ekki taka virkan þátt í baráttunni.

Þetta er ágætis líking, en hún varpar einmitt skæru ljósi á yfirborðsmennsku Þóru: Hvernig getur sá sem stendur vörð komist hjá því að taka þátt í baráttunni þegar í odda skerst?

Þannig forseti er ekki puntudúkka – það var Vigdís Finnbogadóttir ekki og það var Kristján Eldjárn ekki heldur.

Jú, Vigdís og Kristján voru einmitt puntudúkkur, forsetar sem forðuðust í lengstu lög að hafa nokkur afskipti af valdinu. Það er ágætt að Þóra skuli segja hreint út að hún vilji feta í fótspor þeirra. Það er ekki bara íhaldssemi, eins og hún segir að einkenni framboð sitt, það er afturhaldssemi, því hvað sem manni finnst um Ólaf Ragnar verður því ekki neitað að hann virkjaði vald forseta með hætti sem aldrei hafði verið gert áður, og ljóst er að þegar hann gerði það talaði hann fyrir munn yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar. Þóra virðist á hinn bóginn ekki ætla að láta slíkan meirihlutavilja ráða gerðum sínum.

Við ákváðum að samfélagið skuli meðal annars byggt á þessum grunngildum: Lýðræði, jafnrétti, frelsi og mannúð. Og – við höfum komið okkur saman um þetta í áranna rás án þess að beita rýtingum og skammbyssum – með stöðugri umræðu og rökræðu – sem hefur oft verið snörp – en við höfum sameinast um þetta. Þess vegna er gott að búa hér og þannig á það að vera áfram. Við eigum sameiginlega sögu, sameiginlegan menningararf og sameiginlega hagsmuni, sem forsetinn á að vinna að af heilum hug. – Því sem gerir okkur að þjóð.

Það hefur kannski farið fram hjá Þóru, en það er meira sem sundrar Íslendingum í dag en sameinar þá. Á Íslandi varð nefnilega svokallað hrun, margir eiga enn um sárt að binda vegna þess, og ekki er í sjónmáli nein sátt sem geti sameinað landsmenn. Það er góðra gjalda vert að vilja sameina, en það er í besta falli hræsni að tala um sameiningu ef ekki á að leysa þau djúpstæðu vandamál sem valda sundrungunni. Sú sameining mun ekki verða til með því að forseti eigi sunnudagsviðræður við forystumenn stjórnmálaflokkanna eins og Þóra talaði um; þeir eru ekki fulltrúar fólksins í landinu.

Ég skynja mjög sterka undirliggjandi þörf um nýja stefnu fyrir þjóðina þar sem við vinnum saman að hagsmunum lands og þjóðar. Höfnum gamalsdags, sundrandi átakapólitík og skotgröfum stríðandi fylkinga.

Þetta er rétt, en staðreyndin er sú að völdin eru enn í höndum þess flokkakerfis sem lengi hefur drottnað með spillinguna að leiðarljósi. Það má vel vera að Þóru takist að bera einhver klæði á vopn þeirra fylkinga, og það virðist vera markmið hennar. En, sátt meðal valdaklíknanna er ekki það sem íslenskur almenningur þarf. Þvert á móti er eina von okkar að þeim takist ekki að semja um frið sín á milli til að geta óáreittar haldið áfram þeirri samtryggðu spillingu sem gegnsýrir valdakerfi landsins.

Þóra Arnórsdóttir hefur sannarlega ekki sýnt á sér þær ógeðfelldu hliðar sem Ólafur Ragnar hefur gert, og það er vel. En, þótt hún sé ekki fulltrúi hinna ógeðslegri afla meðal valdaklíknanna þá er hún engu að síður málsvari Gamla Íslands.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 22.5.2012 - 11:07 - 55 ummæli

Forseti Íslands lýgur og svívirðir

Í yfirlýsingu sem Ólafur Ragnar Grímsson sendi frá sér 4. mars segir eftirfarandi:

Það er þó einlæg ósk mín að þjóðin muni sýna því skilning þegar stöðugleiki hefur skapast í stjórnskipan landsins og stjórnarfari og staða okkar í samfélagi þjóðanna hefur skýrst ákveði ég að hverfa til annarra verkefna áður en kjörtímabilið er á enda og forsetakjör fari þá fram fyrr en ella.

Á beinni línu DV í gær sagði hann þetta:

Ég hef aldrei sagt að ég ætlaði bara að vera í tvö ár. Þetta er áróður sem reynt var að læða að fólki, m.a með fréttunum sem Svavar bjó til á RÚV þegar verið var að kanna framboð Þóru. Það hefur alltaf verið skýrt að ég býð mig fram til fjögurra ára.

Hér er ekki til að dreifa neinum túlkunarmöguleikum. Það er ekki bæði hægt að segjast ef til vill hætta áður en fjögurra ára kjörtímabili lýkur og að halda fram að skýrt sé að maður hafi boðið sig fram til fjögurra ára.

Það er slæmt að forseti skuli ljúga svona blákalt á opinberum vettvangi, um málefni sem snýst um embættið. Manneskja sem gerir slíkt á ekki að vera í valdastöðu. Hitt er ennþá svívirðilegra, hvernig forsetinn leyfir sér að veitast að nafngreindum manni, og starfsheiðri hans, þegar ávirðingarnar byggja á lygaspuna forsetans sjálfs. Að forseti landsins beri manneskju röngum og alvarlegum sökum með þessum hætti ætti að leiða til þess að forsetinn yrði að segja af sér.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 10.5.2012 - 20:27 - 24 ummæli

Gullgerðarmenn Íslands

Í sumar birtist skýrsla þar sem Íslendingum var lofað gulli og grænum skógum, á við olíuauð Norðmanna, ef Landsvirkjun fengi bara að virkja nóg. Í gær og í dag birtust í fleiri fjölmiðlum fréttir um að tilteknir „sérfræðingar“ segi að tillögur um breytingar á Rammaáætlun gætu kostað íslenskt samfélag allt að 270 milljarða króna á næstu fjórum árum (og staðhæfingar „sérfræðinganna“ eru kynntar á Alþingi sem staðreyndir).

Það er reyndar sama fólkið sem kemst að þessum niðurstöðum í báðum tilfellum. Hér er um að ræða sannkallaða gullgerðarmenn, sem gerðu svipaðar skýrslur og komust að niðurstöðum í sama stíl fyrir fáum árum. Þá var viðfangsefnið reyndar íslenski verðbréfamarkaðurinn, sællar minningar, ekki síst bréf í bankanum sem þessir snillingar unnu hjá, og sem þeir töluðu upp daginn út og inn. Það er svolítið sérkennilegt að Landsvirkjun skyldi ráða fólk með þennan feril til að gera skýrslu um framtíðarsýn fyrirtækisins. Og sorglegur vitnisburður um íslenska fjölmiðla að þeir skuli athugasemdalaust birta guðspjöll þeirra.

Til skemmtunar er hér útdráttur úr kynningum á helstu starfsmönnum GAMMA, sem finna má í heild sinni á heimasíðu fyrirtæksins:

 
Agnar Tómas Möller hefur starfað á íslenskum fjármálamarkaði í 10 ár, fyrst hjá Búnaðarbanka Íslands og síðan Kaupþingi. Agnar byrjaði í greiningardeild með áherslu á íslensk skuldabréf. Árin 2004–2006 var hann í áhættustýringu Kaupþings og sá m.a. um þróun og forritun hugbúnaðar til stýringar á markaðsáhættu Kaupþings og eftirlit með markaðsáhættu bankans. Frá árinu 2006 til byrjunar árs 2008 vann Agnar í skuldabréfamiðlun Kaupþings. Árið 2008 var Agnar sjóðsstjóri GPS Invest, fjárfestingarfélags sem sérhæfði sig í fjárfestingum í íslenskum skuldabréfum. Einnig hefur Agnar sinnt kennslu við Háskóla Íslands og kennir m.a. nú námskeiðið Skuldabréf í meistaranámi í hagfræði.

Ásgeir [Jónsson] hóf starfsferillinn sem hagfræðingur hjá Verkamannafélaginu Dagsbrún árið 1994 og ritstjóri Vísbendingar árið 1995. Árið 2000 hóf hann störf á Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og varð lektor hjá Hagfræðideild HÍ árið 2004. Ásgeir tók við starfi sem aðalhagfræðingur Kaupþings árið 2004 og forstöðumaður Greiningardeildar Kaupþings 2006 (síðar Arion Banki). Árið 2011 fór hann aftur í fulla stöðu sem lektor við HÍ samhliða því að vera efnahagsráðgjafi hjá GAMMA.

Gísli Hauksson er framkvæmdastjóri GAMMA. Gísli er með 12 ára reynslu af störfum á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum. Gísli starfaði áður sem Director Fixed Income Sales (skuldabréfaviðskipti og afleiður) hjá Kaupþingi á Íslandi frá 2006 til febrúar 2008, frá 2004-2006 var hann Director Fixed Income and FX hjá Kaupþingi í London og þar áður í skuldastýringu Kaupþings (Búnaðarbanka Íslands áður). Árið 2008 var Gísli sjóðsstjóri GPS Invest, fjárfestingarfélags sem sérhæfði sig í fjárfestingum í íslenskum skuldabréfum.

Guðmundur Björnsson var forstöðumaður Afleiðuviðskipta Kaupþings frá 2005 fram í september 2008. Þar hafði hann yfirumsjón með verðlagningu og áhættuvörn vegna afleiðuviðskipta í tengslum við gjaldeyri, vexti og skuldabréf ásamt þróun á afleiðuvörum og afleiðutengdum skuldabréfum. Guðmundur er með 11 ára reynslu af afleiðuviðskiptum og hóf störf í afleiðuviðskiptum hjá Búnaðarbanka Íslands þar sem hann vann að þróun og hönnun afleiða.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur