Laugardagur 21.4.2012 - 12:22 - 6 ummæli

Vinir fasismans á Íslandi

Ég er ekki andkapítalisti, í þeim skilningi að ég er fylgjandi sem mestu frelsi fyrir einkaframtak og óheft viðskipti, að því tilskildu að komið sé í veg fyrir óeðlileg forréttindi og fákeppni. Ég er líka fylgjandi sem mestri alþjóðavæðingu, í þeim skilningi að ég vil sem minnst höft á samskiptum fólks og fyrirtækja yfir landamæri. En, ofar öllu þessu stendur krafan um mannréttindi öllum til handa, alltaf og alls staðar.

Þess vegna býður mér við móttökunum sem fulltrúi kínversku fasistastjórnarinnar fær hjá íslenskum stjórnvöldum. Og það hryggir mig að sjá hversu margir, sérstaklega meðal stuðningsmanna „vinstri“ flokkanna, líta á þetta sem sjálfsagðan hlut.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 20.4.2012 - 10:45 - 8 ummæli

Vilja saksóknarar pólitískar ofsóknir?

Í Ákærendafélagi Íslands eru, samkvæmt formanni þess Jóni H. B. Snorrasyni, allir handhafar ákæruvalds í landinu, þ.á.m. saksóknarar, og fulltrúar þeirra. Félagið sendi Allsherjarnefnd Alþingis nýlega umsögn um frumvarp til breytinga á lögum um meðferð sakamála, þar sem lagt er til að rannsóknarheimildir lögreglu verði auknar. Rökin fyrir auknum heimildum eru staðhæfingar greiningardeildar ríkislögreglustjóra um að „alvarleg skipulögð glæpastarfsemi væri að færast í vöxt hérlendis og að alþjóðlegir glæpahringir væru að skjóta hér rótum.“ Ennfremur heldur innanríkisráðherra, sem er upphafsmaður frumvarpsins, því fram að skipulögð glæpastarfsemi „grafi undan grundvallarmannréttindum“, þótt sú furðulega staðhæfing sé ekki skýrð nánar.

Ákærendafélagið segir að margt í frumvarpinu sé óþarfi; heimildirnar séu þegar til staðar. Hins vegar telur félagið brýnt að ganga lengra en lagt er til í þessu frumvarpi, og segir meðal annars:

Forvirkar rannsóknarheimildir þurfa að ná til hvers kyns atferlis sem talið er ógna almenningi, öryggi ríkisins og sjálfstæði þess.

Allir sem hafa kynnt sér njósnastarfsemi lögreglu, jafnvel í „huggulegum“ löndum eins og Svíþjóð og Noregi, vita hvernig fólk í valdastöðum hneigist til að túlka hugtök eins og „ógn gegn öryggi ríkisins og sjálfstæði þess“. Reyndar þarf ekki að fara út fyrir landsteinana, því þekkt er að símhlerunum hefur verið beitt á Íslandi gegn pólitískum andstæðingum stjórnvalda á fáránlegum forsendum.  Skemmst er og að minnast þess að níu manns voru ákærðir fyrir tilraun til að „svipta Alþingi sjálfræði þess“, af því að þeir reyndu að neyta stjórnarskrárvarins réttar síns til að fara á þingpalla. Það er dapurlegt að félag saksóknara skuli vilja auka heimildir lögreglu sem yfirvofandi hætta er á að verði notaðar til að brjóta mannréttindi.

Hitt er verra að félagið virðist beinlínis vera með pólitískar ofsóknir í huga, því í framhaldi af ofangreindri tilvitnun í umsögn þess stendur þetta:

Slíkar heimildir þurfa að taka til einstaklings eða hóps manna sem talinn er eða taldir eru ógna öryggi ríkisins eða einstaklinga, svo sem öfgahópa eða einstaklinga sem telja má hættulega vegna sérstaks hugarástands.

Öfgar eru skoðanir sem falla utan þess sem algengast er í samfélaginu hverju sinni. Hugmyndirnar um afnám þrælahalds og kosningarétt kvenna voru öfgahugmyndir á sínum tíma, og einnig langt fram á síðustu öld hugmyndirnar um jafnan rétt kvenna og karla almennt, svo og um mannréttindi samkynhneigðra. Ákvæði um skoðana- og tjáningarfrelsi eru einmitt ætluð til þess að vernda rétt fólks til að hafa og tjá öfgaskoðanir.

Að yfirvöld eigi svo að úrskurða hverjir séu hættulegir „vegna sérstaks hugarástands“ fær mann til að velta fyrir sér hvort höfundar umsagnarinnar hafi lesið bókina 1984, og séu beinlínis að vísa í hana sem lýsingu á fyrirmyndarríki.

Ef hér væru á ferðinni kunnir froðufellandi ofstækismenn kæmi þetta fáum á óvart. En þetta er sem sagt félag saksóknara í landinu, þeirra sem fara með valdið til að ákæra borgarana, og þvæla þeim gegnum réttarkerfið, á forsendum sem þetta fólk ákveður sjálft.

Til varnar þessu fólki má þó segja að í lok umsagnarinnar er fjallað um mikilvægi þess að virkt eftirlit sé með beitingu umræddra heimilda:

Þá þarf að gæta vel að grundvallarreglum um mannréttindi og að lögreglu verði ekki veitt óhóflegt svigrúm í þessum efnum. Þá er lögð rík áhersla á að hugað verði að virku eftirliti með ákvörðunum lögreglu um beitingu slíkra heimilda og þær verði að jafnaði háðar samþykki dómstóla fyrir fram. Þá kemur vel til greina að slíkar rannsóknarheimildir verði háðar sérstöku eftirliti ráðherra og eða Alþingis eða stofnana á vegum Alþingis.

Væri komið á raunverulegu eftirliti, í þágu almennings, með starfsemi lögreglu gæti það bætt starfsemina verulega, og komið í veg fyrir þau mannréttindabrot sem eru allt of algeng, þótt fæst þeirra fari hátt. Slíkt eftirlit þyrfti að stofna með réttu hugarfari, þ.e.a.s. að hlutverk þess þyrfti að vera að vernda rétt almennings. Það þyrfti að vera algerlega óháð lögreglu og ákæruvaldi, og hafa jafn víðtækar heimildir og t.d. Samkeppniseftirlit og Fjármálaeftirlit á sínum sviðum. Það þyrfti að geta yfirheyrt, fyrirvaralaust, alla starfsmenn lögreglu og ákæruvalds, og þeim ætti að vera skylt að svara satt og undanbragðalaust, að viðlögðum hörðum refsingum eða starfsmissi. Eftirlitið ætti bæði að taka fyrir kvartanir almennra borgara og rannsaka mál að eigin frumkvæði, og það ætti að birta niðurstöður sínar reglulega og opinberlega.

Öflugt eftirlit með öllu starfi lögreglu myndi annars vegar hreinsa burt þá sem ekki kunna að fara með vald hennar, og hins vegar efla traust borgaranna á þeim yfirgnæfandi meirihluta lögreglufólks sem er heiðarlegt og raunverulegir þjónar almennings. Vandamálið við núverandi viðhorf yfirvalda er gegnumgangandi vandamál í íslenskri stjórnsýslu: Hún lítur á sig sem guðlegt yfirvald, en ekki þjón almennings.

Það er sorglegt að innanríkisráðherra, sem talar fyrir auknum heimildum lögreglu til að njósna um borgarana, skuli enga viðleitni hafa sýnt til að tryggja að valdstjórnin brjóti ekki á mannréttindum þessara sömu borgara. Næg eru dæmin, og ráðherrann veit um mörg þeirra.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 12.4.2012 - 18:12 - 11 ummæli

Landsvirkjun aftur í pólitíkina

Forstjóri Landsvirkjunar er aftur farinn að lofa gulli og grænum skógum, ef hann fær bara að virkja nóg. Síðast var það í sumar sem hann fékk Ásgeir Jónsson (þann sem var forstöðumaður „greiningardeildar“ Kaupþings og taldi allt á blússandi uppleið alveg þangað til spilaborgin hrundi yfir hann) til að skrifa skýrslu um hvernig Landsvirkjun gæti gert Íslendinga jafnríka og Norðmenn urðu af olíunni. Núna er lausnarorðið að flytja út orkuna um sæstreng.

Þetta undirstrikar enn þörfina á því að leggja Landsvirkjun niður í núverandi mynd og koma á fót nýrri stofnun í hennar stað. Það er hrikalegur hagsmunaárekstur þegar Landsvirkjun er komin í áróður fyrir frekari virkjunum. Slíkar ákvarðanir eiga stjórnmálamenn að taka, og bera ábyrgð á gagnvart kjósendum. Landsvirkjun ætti einungis að framkvæma það sem ákveðið er pólitískt að gera, ekki að nota peninga almennings til að reka áróður fyrir því að hún fái að þenjast út á eigin forsendum.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 2.4.2012 - 13:01 - 32 ummæli

Reykjavíkurborg með klám á heilanum?

Nýlega gaf Reykjavíkurborg út bækling með titlinum „Klámvæðing er kynferðisleg áreitni“. (Reyndar stóð „ofbeldi“ í stað „áreitni“ á tenglinum þegar bæklingurinn var fyrst settur á netið, og þannig er tengillinn enn í dag neðst á þessari síðu.) Sú „rannsókn“ sem bæklingurinn grundvallast á leiðir alls ekki ljós að klám og kynferðisleg áreitni séu algeng á vinnustöðum borgarinnar, en höfundurinn veifar þrátt fyrir það ákaft stimpli klámvæðingar- og kynferðisáreitni, þótt einu „gögn“ hans séu viðtöl við fimm handvalda starfsmenn.

Höfundur bæklingsins er Thomas Brorsen Smidt, (fyrrverandi?) ráðskona í Femínistafélaginu, en í ritnefnd sátu tveir kynjafræðingar úr Háskóla Íslands ásamt starfsmanni á Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar, sem er útgefandi. Á ofangreindri vefsíðu er m.a. sagt:

Bæklingurinn varpar ljósi á það hvernig konur upplifa klám á vinnustöðum og umræðu um útlit sitt í stað frammistöðu.

Í bæklingnum er sýnt hvernig umræða um útlit ásamt niðurlægjandi myndbirtingum er beitt til þess að grafa undan trúverðugleika kvenna og styrk.

Bæklingurinn er byggður á „rannsókn“ sem höfundur hans gerði síðasta sumar, og sem hann fjallar um í þessari grein. Skemmst er frá því að segja að hér er tæplega um rannsókn að ræða, heldur túlkanir höfundar á viðtölum við fimm handvalda starfsmenn borgarinnar, en hjá borginni skilst mér að starfi um tíu þúsund manns, þar af fjögur þúsund í fullu starfi. Þetta er rétt að hafa í huga, þótt í bæklingnum séu nefnd örfá dæmi um ósæmilega hegðun (sem við heyrum þó aðeins aðra hliðina á). Þegar ég spurði þann starfsmann Mannréttindaskrifstofunnar sem sat í ritnefnd bæklingsins um hvað vitað væri um algengi kláms á vinnustöðum borgarinnar fékk ég þetta svar:

Eftir að bæklingurinn kom út hafa fjölmargar konur starfandi hjá Reykjavíkurborg rætt atvik sem þær hafa orðið fyrir og tengjast klámvæddri orðræðu. Vonandi svarar það spurningu þinni um algengi.

Sumar af þeim túlkunum sem gerðar eru í umræddum bæklingi eru greinilegar rangfærslur, og aðrar snúast upp í langar „fræðilegar“ útskýringar á því sem viðmælendurnir hafi orðið fyrir. Á bls. 7 er til dæmis viðtal við konu sem talar um yfirmann sem greinilega ætti að fá tiltal fyrir ósæmilega framkomu (ef við gefum okkur að rétt sé frá sagt; við fáum hér bara aðra hliðina á málinu). Höfundur heldur svo fram í næstu setningu að þessi yfirmaður komist upp með „kynferðislega mismunun“ (sexually discriminatory), þótt viðmælandinn hafi ekki sagt orð um það varðandi yfirmanninn í viðtalinu.

Karlkyns viðmælandi segir frá því á bls. 6 að hann passi sig að segja ekki hluti sem hann telur að gætu sært (offended) tiltekna konu, af því að hann beri svo gríðarlega virðingu fyrir henni sem samstarfsmanni og fagmanneskju, en að hann tali stundum um slíkt við karlkyns vinnufélaga sína. Í þessu viðtali er ekki minnst einu orði á klám eða neitt kynferðislegt, bara talað um grófa brandara (offensive jokes). Samt leggur höfundur svo út af þessu að með því sé verið að kynjaaðgreina vinnustaðinn, og að slikt geti haft hrikalegar afleiðingar. Ekki er samt vikið orði að því hvort kvenkyns starfsmenn á „trúnó“ gætu skapað slíka hættu.

Þegar höfundur ræðir við kvenkyns starfsmann slökkviliðsins og segir henni að hann sé að rannsaka klámvæðingu á vinnustöðum borgarinnar (bls. 16) sækir hún strax dagatal með myndum af hálfberum slökkviliðskörlum. Næstu fjórar blaðsíðurnar fara í að útskýra af hverju þetta sé allt annað en nektarmyndir af konum, af því að karlmenn séu alltaf sýndir sem sterkir og drottnandi, en konur sem undirsettar.

Bæklingurinn er fullur af staðhæfingum um að klámtal „geti“ haft alvarlegar afleiðingar, en í næstu setningu er svo fullyrt að afleiðingarnar séu slæmar. Hann er líka fullur af tali um vinnuumhverfi sem sé „gegnsýrt af klámfenginni orðræðu“ (permeated by pornographic discourse), og gefið í skyn að svo sé um vinnustaði borgarinnar.

Þótt bæklingurinn hafi verið kynntur m.a. þannig að í honum sé sýnt hvernig „niðurlægjandi myndbirtingum er beitt til þess að grafa undan trúverðugleika kvenna og styrk“ eru þó einungis tvö dæmi um slíkar myndbirtingar, bæði úr Háskóla Íslands. Fyrra dæmið er af auglýsingu, með nektarmynd, um líkamsrækt, sem óþekktur aðili hefur hengt upp í skólanum. Hitt dæmið eru tvær auglýsingar, frá nemendafélagi, um sloppasölu, þar sem karl og kona eru sýnd, konan á ansi kynferðislegan hátt. Út frá þessum þrem dæmum (þar sem ómögulegt er að vita hvernig það fyrsta tengist nokkrum starfsmanni eða nemanda skólans) er síðan gerð ítarleg „greining“ á þeim hugsunarhætti sem liggi að baki slíkum myndum, án þess að séð verði að þetta komi nokkuð við vinnustaðamenningu Reykjavíkurborgar (né heldur segir þetta mikið um ástandið meðal þeirra fimmtán þúsund nemenda og starfsmanna sem HÍ hýsir).

Það er sem sagt ekki sagt frá einni einustu mynd af klámi sem höfundur hafi séð á vinnustöðum Reykjavíkurborgar, en einu sinni segir viðmælandi frá því að hún hafi komið inn á skrifstofu þar sem var nakin kona á tölvuskjá og dagatöl með nöktum konum á veggnum.

Þrátt fyrir að í þessari grein séu ekki lögð fram nein gögn eða rök sem sýni að klám og klámvæðing sé algengt fyrirbæri hjá borginni leyfir höfundur sér að draga þá ályktun í lokin (bls. 31) að hann hafi sýnt fram á að „rætur feðraveldisins hafi enn sterk tök og haldi áfram að næra klámvæðingu menningarinnar sem vex upp úr því“ (the roots of patriarchy still have a very firm hold and continue to nurture the pornification of the culture that grows above it.)

Eins og fyrr sagði er það Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar sem gaf út umræddan klámvæðingarbækling. Á henni starfa fimm manns. Sé útgáfuefni skrifstofunnar einhver vísbending um áherslurnar í starfi hennar kemur í ljós sérkennileg afstaða. Nánast allt útgáfuefni síðasta árið fjallar um klám eða „jafnréttis“mál, en í síðarnefnda flokknum er t.d. samsafn af tölum um kynjaskiptingu, þ.á.m. í styrkjaveitingum til rithöfunda og myndlistarmanna á Íslandi, án þess nokkuð sé fjallað um kynjahlutföll þeirra sem virkir eru í slíku starfi, eða styrkjahlutföll miðað við fjölda umsókna.  Ekki er að sjá af þessu að önnur mannréttindamál fái mikla umfjöllun.

Engar tölur virðast sem sagt vera til um algengi kláms eða kynferðislegrar áreitni hjá borginni, samkvæmt þeim starfsmanni Mannréttindaskrifstofu sem sat í ritnefnd bæklingsins. Á Landspítalanum var hins vegar nýlega gerð starfsmannakönnun. Ég veit ekki hvernig staðið var að henni (nema hvað hér er sagt að 70% starfsmanna hafi tekið þátt), og get því ekki metið áreiðanleika hennar, en það vekur athygli að sjö prósent starfsmanna segjast hafa orðið fyrir einelti, en einungis eitt prósent segjast hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni yfir- eða samstarfsmanna. Sláandi er að engin slík könnun skuli hafa verið gerð hjá borginni, þrátt fyrir fullyrðingar í bæklingnum um alvarleika þeirra mála.

Eins og sagt var frá hér að ofan verður ekki séð að staðhæfingarnar um að vinnustaðamenningin í Reykjavíkurborg sé gegnsýrð af klámvæðingu eigi við nein rök eða gögn að styðjast; bæklingurinn byggist eingöngu á túlkunum höfundar á viðtölum við örfáa handvalda starfsmenn, túlkunum sem sums staðar eru hreinar rangfærslur, auk þess sem höfundur gengur augljóslega til leiks með fyrirfram gefnar skoðanir á eðli og afleiðingum þess sem hann kallar klám, og treður með valdi lýsingum viðmælenda inn í þær kenningar.

Það virðist sem sagt engin ástæða til að ætla að starfsmenn borgarinnar séu með hausinn fullan af ljótum klámhugsunum. Getur verið að það sé fyrst og fremst starfslið Mannréttindaskrifstofunnar sem er með klám á heilanum?

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 31.3.2012 - 19:34 - 15 ummæli

Tilkynning til fjölmiðla um LÍÚ

Vegna síendurtekinna „frétta“ í fjölmiðlum síðustu daga og vikur hefur Umboðsmaður Almennings beðið mig að koma eftirfarandi á framfæri:

„Við vitum öll að LÍÚ telja að minnsta röskun á núverandi kvótakerfi muni grafa undan kaupmætti, veikja gengi krónunnar, setja sjómenn á vonarvöl, leggja sjávarþorp í eyði, auka atvinnuleysi, grafa undan siðgæði, auka alkóhólisma, fjölga sjálfsvígum, eyðileggja rekstrargrundvöll Morgunblaðsins og valda því að börnin okkar fari grátandi og svöng í háttinn um alla framtíð. Plíííííís, ekki segja okkur frá þessu einu sinni enn.“

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 23.3.2012 - 21:18 - 16 ummæli

Maltflöskuaxlir: Hrunverji hannar Nýja Ísland

Í dag kynnti efnahags- og viðskiptaráðherra ríksstjórninni skýrslu sína til Alþingis um „framtíðarskipan íslenska fjármálakerfisins og opinbert eftirlit með því.“ Það er athyglisvert, og fremur sorglegt, að með í kynningunni, væntanlega vegna hlutverks hans í þessu starfi á næstunni, var Jón nokkur Sigurðsson. Jón er meðlimur í þriggja manna hópi sem, samkvæmt  tilkynningu frá Efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, á að fjalla um þessa skýrslu og „gera tillögur um hvernig best fari á því að setja samræmda heildarumgjörð laga og reglna um alla starfsemi á fjármálamarkaði.“

Jón er í frétt ráðuneytisins einungis kynntur sem „fv. forstjóri Norræna fjárfestingarbankans“. Það hefur kannski þótt of óþægilegt að segja frá því að Jón var stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins allt árið 2008, og rúmlega það. Um mitt ár 2008 birtist viðtal við Jón í áróðursbæklingi Landsbankans þar sem lýst var útrás bankans með Icesave-reikninga í Hollandi. Það er auðvitað nógu slæmt, og ætti að vera brottrekstrarsök, að stjórnarformaður FME láti nota sig í áróðursskyni fyrir eitt af fyrirtækjunum sem FME átti að hafa eftirlit með. Hitt er verra að Jón segir í viðtalinu að fjárhagur íslensku bankanna sé í aðalatriðum traustur („Finances of the Icelandic banks are basically sound“). Hafi hann vitað sannleikann var hann að ljúga. Hafi hann ekki vitað hvað var að gerast var hann greinilega óhæfur til að gegna starfi sínu.

Ég efast ekki um að Jón sé (í einhverjum skilningi) vandaður og fróður maður. Og sjálfsagt hefði verið að hópurinn sem hann á nú að sitja í ræddi við hann um hvað fór úrskeiðis í aðdraganda hrunsins. En það er blaut tuska í andlitið á öllum þeim sem hafa látið sig dreyma um Nýtt Ísland, í stað hins gamla og gerspillta, að fela einum af þeim sem tóku þátt í lygaherferðinni fyrir hrun að „gera tillögur um hvernig best fari á því að setja samræmda heildarumgjörð laga og reglna um alla starfsemi á fjármálamarkaði.“

Það er dapurlegt að Steingrímur J. skuli setja hrunverja í að skipuleggja fjámálakerfi framtíðarinnar. Og, þótt Jón hafi starfað lengi erlendis virðist hann ekki sjálfur hafa lært hvað það þýðir að taka ábyrgð á gerðum sínum, og þar með afleiðingunum af þeim. Þegar kemur að því að axla ábyrgð í raun, þá gildir enn um flest valdafólk á Íslandi að það er, eins og ein Facebook-vinkona mín orðaði það í dag, „með axlir eins og á maltflösku“.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur