Mánudagur 13.4.2015 - 09:15 - 1 ummæli

Er Einar Steingrímsson á móti menntun leikskólakennara?

[Þessi pistill birtist fyrst í Kvennablaðinu í gær]

Í aðdraganda rektorskjörs í HÍ hefur eitt og annað sem ég hef sagt á Facebook verið dregið fram og rætt á netinu og víðar. Mér finnst bæði sjálfsagt og nauðsynlegt að fólk sem situr í valdastöðum eða sækist eftir því þurfi að standa fyrir máli sínu, jafnvel varðandi hluti sem það sagði fyrir löngu. Hins vegar hefur verið snúið svolítið út úr sumu af því sem ég hef sagt, meðal annars Facebook-status sem ég skrifaði fyrir tveim og hálfu ári um menntun leikskólakennara.

Það sem ég sagði í þessum status var að ég teldi ekki að það ætti að krefjast þess að leikskólakennarar þyrftu margra ára bóklegt háskólanám. Ég sagði hins vegar ekki það sem margir hafa haldið fram, að leikskólakennarar þyrftu enga menntun, hvað þá að ég teldi eitthvað rangt við að þeir hefðu slíka menntun.

Þessi status var ekki skrifaður sem stefnuyfirlýsing, enda hefur rektor engin völd til að skipta sér af menntunarkröfum leikskólakennara. Ef ég hefði slík völd myndi ég að sjálfsögðu ekki taka neinar ákvarðanir út frá eigin hugmyndum sem kastað hefði verið fram á Facebook, hvað þá fyrir nokkrum árum, heldur leita fyrst álits sérfræðinga og foreldra og engar ákvarðanir taka fyrr en eftir ítarlegar úttektir og greiningar (öfugt við það slugs sem mér finnst allt of algengt í íslenskri stjórnsýslu).

Ég hef margoft lýst því yfir að ég muni sem rektor ekki skipta mér beinlínis af akademísku starfi deilda háskólans; ég legg áherslu á að allar ákvarðanir um slíkt séu teknar á jafningjavettvangi, þ.e.a.s. innan viðkomandi deildar eða sviðs. Ég hef t.d. svarað spurningum um þetta varðandi kynjafræði og guðfræði á framboðssíðunni minni, og sagt einmitt þetta: Ég mun sem rektor ekki skipta mér af því hvernig akademíska starfið fer fram innan einstakra deilda; slíkt á að vera á ábyrgð viðkomandi deilda og sviða.

Ég vil líka endurtaka það sem ég hef sagt oft á ýmsum vettvangi, að mér finnst vond sú afstaða sem er ansi algeng að háskólanám sé alltaf „merkilegra“ en annað nám. Ég fór sjálfur gegnum iðnnám (í stálskipasmíði í Slippstöðinni á Akureyri, áður en ég lauk svo stúdentsprófi úr öldungadeild). Í því námi, sem mér fannst afar gefandi og skemmtilegt, áttaði ég mig á því að gott starfsnám er ekkert síður krefjandi, bæði hvað varðar hæfileika og ástundun, en háskólanám, þótt af ólíkum toga sé. Þess vegna hef ég efasemdir um þá hugmynd að fyrir öll störf þurfi nám af því tagi sem á að fara fram í háskólum, þar sem höfuðáherslan er á fræðilegt bóklegt nám.

Umfram allt finnst mér mikilvægt að almenningur leyfi sér að ræða á opinberum vettvangi, eins og Facebook, alls kyns málefni sem koma okkur við, ekki síst allt menntakerfið. Og þótt mikilvægt sé að færa rök fyrir máli sínu held ég að það sé betra fyrir umræðuna að við séum óhrædd við að tjá skoðanir sem fara í bága við „viðtekin sannindi“, jafnvel þótt þær séu ekki afrakstur af löngum pælingum. Án slíkra skoðanaskipta verður umræðan aldrei sérlega frjó.

Þeim sem vilja spyrja spurninga eða leggja orð í belg um rektorsframboð mitt, og annað sem viðkemur Háskóla Íslands, bendi ég á Facebook-síðuna sem er helguð framboði mínu.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 9.4.2015 - 10:15 - 7 ummæli

Þversagnir og staðreyndaförðun í Háskóla Íslands

[Þessi pistill birtist fyrst í Kvennablaðinu í gær]

Ég er stundum skammaður fyrir að skamma Háskóla Íslands of mikið, og sumir velta því fyrir sér af hverju ég sé að sækja um starf við skóla sem ég finni allt til foráttu. Nú er það reyndar svo að ég er alltaf að benda á að í skólanum sé margt gott, bæði talsvert af góðu vísindafólki sem sumt er framúrskarandi á alþjóðavettvangi og mikil þekking á því hvað séu góðir kennsluhættir. En skólinn eyðir rannsóknafé sínu í of litlum mæli í það sem gott er innan hans, og víða eru góðir kennsluhættir algerlega hunsaðir. Með því að breyta þessu hvoru tveggja væri hægt að gera Háskóla Íslands miklu betri en hann er í dag, og það er það sem mig langar að gera. En til að bæta starf skólans þurfum við fyrst að horfast í augu við vandamálin og viðurkenna þau. Fyrr munum við ekki laga þau.

Hér ætla ég að rekja nokkur atriði í málflutningi forystu skólans sem fara í bága við starf hennar, og sem í sumum tilvikum eru bókstaflega slík fegrun á sannleikanum að við myndum hundskamma nemendur okkar fyrir að leyfa sér slíkt.

Er Háskóli Íslands einn af 300 bestu í heiminum?

Forystu skólans, ekki síst Kristínu Ingólfsdóttur rektor og aðstoðarrektornum Jóni Atla Benediktssyni sem býður sig fram til rektors, hefur orðið tíðrætt um að HÍ hafi komist inn á lista Times Higher Education yfir 300 bestu háskóla heims, þar sem hann situr nú í 250.-275. sæti. Það sem forystan nefnir aldrei er að þetta er bara einn af a.m.k. fimm vel þekktum listum yfir bestu háskóla heims. Hér eru hinir fjórir listarnir, og staða HÍ á þeim:

US News & World Report: 500 bestu, HÍ ekki með
Shanghai: 500 bestu, HÍ ekki með
CWUR: HÍ í sæti 516
QS: 800 bestu, HÍ ekki með

Ef við skoðum gögnin með þeim hætti sem háskólafólk með lágmarks virðingu fyrir góðum vinnubrögðum gerir, í stað þess að velja bara úr þeim það sem hentar okkar „málstað“, þá er staðreyndin þessi: Á helstu listum yfir bestu háskóla í heimi er HÍ að meðaltali einhvers staðar fyrir neðan 500. sæti.

Fræðsluhlutverk HÍ gagnvart samfélaginu

Mikið er talað, sérstaklega í „hátíðarræðum“, um mikilvægt fræðsluhlutverk HÍ í samfélaginu. Merkilegt nokk er HÍ þó ekki í hópi þeirra skóla heims sem leggja kapp á að birta sem mest af efni námskeiða almenningi á netinu, heldur er það efni sem birt er á Uglunni, innri vef skólans, nánast alltaf lokað almenningi. Ekki nóg með það; efni margra, ef ekki flestra, námskeiða er lokað öllum nema þeim sem hafa tekið viðkomandi námskeið. Þannig geta nemendur ekki einu sinni kynnt sér efni námskeiða sem þeir eiga eftir að taka, hvað þá að þeir geti fræðst um aðrar greinar.

Er HÍ í fararbroddi í nýsköpun og tækniþróun?

Forystuhlutverk HÍ í nýsköpun og tækniþróun er oft dásamað af forystu skólans. Samt er ennþá algengt að námsmat, jafnvel í umfangsmiklum undirstöðunámskeiðum, einskorðist við skriflegt lokapróf, í mikilli tímaþröng, þar sem nemendur eru einangraðir frá öllum tólum og gögnum sem venjan er að nota við lausn verkefna á viðkomandi sviði. Burtséð frá því að kennsluhættir af þessu tagi eru ekki til þess fallnir að þjálfa nemendur í góðum vinnubrögðum, hvað þá að frammistaða þeirra í slíku sé metin til einkunnar, þá er þetta sérkennilegur tvískinnungur í háskólastarfi á 21. öld.

Er ritstuldur alvarlegt brot?

Gríðarleg áhersla er lögð á það í öllu háskólastarfi að kynna aldrei hugverk annarra sem sín eigin. Þar sem háskólastarf snýst fyrst og fremst um hugverk er brot gegn þessu ekki síður alvarlegt en fjárdráttur í banka. Nemendum HÍ er, eins og í öðrum háskólum, refsað fyrir brot á þessu. Hins vegar eru engar sérstakar reglur um viðurlög ef akademískir starfsmenn brjóta af sér með þessum hætti. Miðað við upplýsingar frá forystu skólans hefur kennara aldrei verið refsað fyrir slíkt brot. Samt vita allir að það er ekki vegna þess að ekki hafi verið framin gríðarlega alvarleg brot af því tagi. Hvernig er hægt að búast við að nemendur taki brýningar um alvarleika ritstuldar þegar þeir vita að kennarar komast upp með slíkt án viðurlaga?

Er HÍ alþjóðlegur háskóli?

Stefna Háskóla Íslands hefur í níu ár verið að skólinn eigi að verða öflugur rannsóknaháskóli á alþjóðavettvangi. Samt er ansi margt „séríslenskt“ í starfi skólans, sem aldrei fást sannfærandi skýringar á af hverju ætti að vera nauðsynlegt. Að þessu leyti minnir málflutningur forystunnar óþægilega oft á gorgeirinn í klappliði útrásarinnar fyrir hrun.

HÍ er með 18 blaðsíðna vinnumatskerfi sem liggur til grundvallar launagreiðslum og framgangi, þar sem eingöngu er metið magn, t.d. fjöldi birtinga, jafnvel í íslenskum tímaritum á svo alþjóðlegum sviðum sem sálfræði, en ekkert hirt um gæði framlags starfsmanna. Þetta er óþekkt í þeim skólum sem HÍ segist vilja líkjast. Það er líka afar algengt í góðum háskólum erlendis að leita út fyrir skólann þegar ráðið er í forystustörf. Ástæðan er augljós; bæði eiga utanaðkomandi oft auðveldara með að sjá hvað er gott og hvað slæmt í starfi skólans (og viðurkenna það), og eins er erfitt fyrir okkur flest að taka á erfiðum vandamálum í hópi fólks sem við höfum lengi tilheyrt, og þar sem við eigum vini og jafnvel óvini.

En það eru auðvitað engar „séríslenskar“ aðstæður sem afsaka heimóttarskapinn og afdalamennskuna í forystu HÍ, sem bitnar helst á því sem best er í starfi skólans. Og sú innræktun sem þar hefur átt sér stað í hundrað ár er ekki af hinu góða.

Til að HÍ geti eflst til muna, sem allar forsendur eru fyrir, þarf hann forystu sem leggur áherslu á að segja satt, viðurkenna mistök og vandamál, og einbeita sér að því að laga þau, í stað þess að flagga innistæðulausu skrumi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 7.4.2015 - 22:15 - 2 ummæli

Afsökunarbeiðni vegna ranghermis

Í tveimur pistlum sem birtust 14. október 2013 og 21. janúar 2014, fór ég með rangt mál um samband Háskóla Íslands og forstjóra Hjartaverndar, Vilmundar Guðnasonar.  Vilmundur er einn af öflugustu vísindamönnum landsins, og því mikill fengur fyrir HÍ að hafa í sínum röðum, en það sem ég sagði um ástæður ráðningar hans til skólans var ekki rétt, og á það var mér bent í dag.  Ég hef sett athugasemd fremst í báða pistlana, og einnig þar sem þetta kemur fyrir í hvorum þeirra.  Vilmund Guðnason og lesendur bið ég hér með afsökunar á þessum afglöpum mínum.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 25.2.2015 - 10:57 - Rita ummæli

Fjármögnun Háskóla Íslands

[Þessi grein birtist fyrst í Kvennablaðinu 24. febrúar]

Í fréttum RÚV í gærkvöldi  (byrjar á 5:53) töluðu bæði forseti læknadeildar Háskóla Íslands, Magnús Karl Magnússon, og háskólaráðsmaðurinn Jakob Ó. Sigurðsson um bága fjárhagsstöðu skólans, og Magnús talaði um að það þyrfti að endurfjármagna háskólakerfið í heild sinni og að þetta þyrftu frambjóðendur til rektors HÍ að láta til sín taka.

Til að sannfæra stjórnvöld um að skynsamlegt sé að veita meira fé í HÍ þarf skólinn að leggja fram sannfærandi stefnu sem felur í sér þess konar breytingar á starfi hans sem líklegar eru til að nýta fjármuni hans betur. Ekki bara til að bregðast sem best við núverandi fjárskorti, heldur líka til að tryggt sé að aukið fé verði vel notað.

Eitt af því sem oft er kvartað yfir, og örugglega réttilega, er að í HÍ séu of margir nemendur miðað við kennara. Ein leið til að laga þetta er að fjölga kennurum. Hin leiðin er að fækka nemendum, og við verðum að vera tilbúin að ræða þann möguleika, og hvort það sé e.t.v. skynsamlegt út frá gæðum skólans, jafnvel þótt hann fengi miklu meira fé. Þótt vissulega sé hægt að þjóna þörfum nemenda með talsvert ólíkan bakgrunn og getu eru takmörk fyrir því hversu mikil sú breidd má vera áður en hún kemur niður á kennslunni.

Það hefur verið rætt um að endurskipuleggja háskólakerfið í heild sinni frá því fyrir hrun. Eftir hrun var talað um það sem nauðsyn, í ljósi yfirvofandi niðurskurðar, en út úr því kom nákvæmlega ekki neitt. Eitt af því sem Háskóli Íslands ætti að vera tilbúinn að ræða í þeim efnum er hvort Ísland ætti að hafa svipað tvískipt kerfi og er í flestum sambærilegum löndum, þar sem lítill hluti nemenda stundar nám í háskólum með mikla áherslu á rannsóknir, en meirihlutinn í skólum þar sem áherslan er á kennslu. Það er a.m.k. erfitt að skilja af hverju Ísland á að geta staðið undir háskólakerfi þar sem allt akademískt starfsfólk hefur rannsóknaskyldu.

Ein leið til að nýta fé HÍ betur er að aflétta rannsóknaskyldunni á því starfsfólki sem ekki stundar rannsóknir af þeim gæðum sem stefna skólans miðast við að efla, þ.e.a.s. rannsóknum sem standast alþjóðlegan samanburð. Þannig myndi sparast mikill tími, sem hægt væri að nota í annað, meðal annars að sinna kennslu og þróun hennar betur.

Hér má lesa um heildarstefnu mín fyrir HÍ.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , ,

Þriðjudagur 24.2.2015 - 10:15 - 3 ummæli

Góð háskólakennsla og slæm

[Þessi grein birtist fyrst í Kvennablaðinu 23. febrúar]

Líklega hafa allir sem gengið hafa í háskóla kynnst bæði góðri og slæmri kennslu. Það er reyndar einstaklingsbundið hvað hentar hverjum nemanda best, og sömuleiðis geta kennarar átt auðveldara með að gera góða hluti með einni aðferð frekar en annarri. Þó eru til kennsluaðferðir sem mér finnst óhætt að segja að séu alltaf vondar. Ég tek til dæmis hiklaust undir það sem Edda Konráðsdóttir, oddviti Röskvu, sagði í nýlegu viðtali, að námsmat sem byggir eingögnu á lokaprófi sé úrelt. Og ekki bara úrelt, heldur hefur slíkt námsmat aldrei verið til þess fallið að hvetja nemendur.

Eins og ég skýrði frá nýlega ætla ég að sækja um starf rektors við Háskóla Íslands. Eitt af því sem mig langar að koma til leiðar eru fjölbreyttari kennsluhættir og námsmat sem stuðlar að betri menntun nemenda.

Hvert er markmið námsins?

Reynsla mín af háskólakennslu er frá Svíþjóð, Íslandi og Skotlandi, auk þess sem ég var aðstoðarkennari með námi í Bandaríkjunum. Ég var sjálfur í grunnnámi við University of Pennsylvania og doktorsnámi við MIT. Eins og nánast er algilt um bandaríska háskóla lærði ég margt annað í grunnnáminu en aðalfagið stærðfræði (og heimspeki sem ég tók sem aukafag), svo ég kynntist kennsluháttum í ýmsum deildum. Sammerkt þeim öllum var mikil áhersla á sífellda verkefnavinnu yfir alla önnina, og námsmatið byggðist að stórum hluta, stundum alfarið, á verkefnavinnu. Þetta virðist gilda um flesta háskóla í Bandaríkjunum, og hugmyndin er einföld:

Til að nemendum gangi vel í námi þurfa þeir að vinna stöðugt; nám snýst ekki um að troða í sig staðreyndum á skömmum tíma og skila þeim svo aftur í nokkurra klukkustunda prófi, heldur um að tileinka sér ákveðna færni. Þótt óhjákvæmilegt sé að nemendur læri utanað ýmsar staðreyndir, þá sæmir það ekki góðri kennslu að gera þess konar utanbókarlærdóm að markmiði í sjálfu sér, heldur ætti utanbókarþekking að vera afleiðing vinnunnar.

Slík verkefni eru breytileg eftir námsgreinum, og geta til dæmis verið að skrifa ritgerð um strauma og stefnur í menntavísindum á miðri tuttugustu öld eða að greina leysanleika í tilteknum flokki diffurjafna, eða að lýsa samspili ýmissa frumulíffæra. Þótt óhjákvæmilegt sé að nemendur læri (nánast utanað) ýmiss konar einfaldar staðreyndir, eins og t.d. hvenær Piaget setti fram tilteknar kenningar, eða formúlu fyrir lausnum fyrsta stigs diffurjöfnu, eða hvað er sérstakt við erfðaefni hvatbera, þá sæmir það ekki góðri kennslu að gera þess konar utanbókarlærdóm að markmiði í sjálfu sér, hún á að þjálfa nemendur til að takast á við verkefni sem enn hafa ekki verið samin.

Sennilega myndu flestir kennarar taka undir þessar tvær staðhæfingar:

  • Til að nemendum gangi vel í námi þurfa þeir að vinna stöðugt.
  • Námsmat hefur afgerandi áhrif á hegðun nemenda í náminu.

Þrátt fyrir að þetta sé flestum ljóst eru dæmi um að æðstu menntastofnanir landsins bjóði upp á námskeið þar sem námsmatið byggist alfarið á skriflegu lokaprófi, þar sem nemendur eru bæði í tímapressu og einangraðir frá umheiminum og þeim tækjum sem við notum núorðið öll til að sækja okkur upplýsingar. Að háskólar, sem vilja láta líta á sig sem framverði þróunar, sætti sig við það er illskiljanlegt.

Hvernig fer góð kennsla fram?

Það er ekki til nein algild uppskrift að góðum kennsluháttum en ég álít að til þess að gera námskeið gott þurfi kennari að geta svarað eftirfarandi spurningum:

  • Hvert er markmið námskeiðsins? (Hvað eiga nemendur að geta að því loknu?)
  • Hvað þurfa nemendur að gera til að ná því markmiði?
  • Hvað get ég gert til að nemendurnir geri það?

Svarið við fyrstu spurningunni má ekki aðeins vera „að nemendur geti svarað spurningum úr tilteknu námsefni“ og svarið við annarri spurningunni má ekki bara vera leslisti, heldur verður kennarinn að vita í hvaða færni nemendur þurfa að þjálfast. Síðast en ekki síst þarf kennarinn að vita hvernig hann hjálpar nemendunum sem best til að öðlast þá færni.

Þegar ég fékk í fyrsta sinn tækifæri til að búa til nýtt námskeið velti ég því fyrir mér hvernig ég hefði sjálfur viljað hafa kennsluna, sem nemandi, enda var ég ekki sáttur við hversu margir stærðfræðingar kenndu stærðfræðina eins og þeim var „kennd“ hún, en ekki eins og þeir lærðu hana í raun. Niðurstaðan var að ég vildi vinna við umfangsmikil og erfið verkefni, og geta kallað á kennara þegar ég strandaði, til að komast á flot aftur.

Þetta var þriðja árs námskeið í stærðfræði fyrir töluvnarfræðinema. Það var að hluta byggt á fyrirlestrum en í stað hefðbundinna „dæmatíma“ þar sem kennari reiknar á töflu, var áherslan á vinnutíma þar sem nemendur unnu að erfiðum skilaverkefnum og fengu aðstoð kennara eftir þörfum. Í lokin var svo munnlegt próf en markmið þess var eingöngu að ganga úr skugga um að nemandinn hefði náð raunverulegum tökum á viðfangsefninu; einkunnin byggðist undantekningalítið á þeim úrlausnum sem þeir höfðu skilað.

Það er hægt að bæta kennsluna við HÍ

Þetta er auðvitað ekki eina kennsluaðferðin sem ég tel góða í stærðfræði, hvað þá í öðrum greinum, aðeins eitt dæmi um það sem hægt er að gera til að bæta kennsluna. Háskóli Íslands býr yfir ágætri þekkingu miðað við margt sem kemur fram í Handbók fyrir kennara og þá þekkingu þarf að nýta betur.

Það útheimtir hinsvegar vinnu og áhuga að þróa góðar kennsluaðferðir og við getum ekki búist við framförum nema sú vinna kennara sé metin að verðleikum og þeim búnar kjöraðstæður til að ná markmiðum sínum. Ég tel því mikilvægt að næsti rektor HÍ skapi starfsfólki þær aðstæður sem þarf til að slík þróunarvinna megi blómstra.

Á blogginu mínu og Facebook-síðunni er hægt að koma á framfæri spurningum og innleggi í umræðuna um háskólamálin, en einnig með því að senda mér póst, annað hvort á Facebook eða á einar@alum.mit.edu.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , ,

Fimmtudagur 12.2.2015 - 09:15 - 12 ummæli

Sæki um starf rektors við Háskóla Íslands

Ég hef ákveðið að sækja um stöðu rektors við Háskóla Íslands. Ástæðan er sú að ég þykist vita hvernig hægt væri að bæta skólann til muna, í samræmi við yfirlýsta stefnu hans, og því finnst mér sjálfsagt að bjóðast til að leiða slíkt breytingastarf.

Það eru starfsmenn og stúdentar háskólans sem velja rektor, og af því að ég er ekki í aðstöðu til að koma stefnu minni á framfæri við þá innan skólans ætla ég að gera það með því að birta hana hér, og á Facebook-síðu sem ég hef sett upp í þeim tilgangi. Ég mun leitast við að svara spurningum sem fólk kann að hafa um stefnu mína og hvernig ég hyggst ná markmiðum hennar, á báðum þessum síðum. Spurningum er hægt að koma á framfæri með því að tjá sig í athugasemdakerfinu hér að neðan, eða á Facebook-síðunni, og með því að senda mér póst, annað hvort á þá síðu eða á netfang mitt, einar@alum.mit.edu.

Eins og að ofan segir lít ég svo á að það þurfi að gera umtalsverðar breytingar á starfi HÍ til að skólanum miði vel áfram í þá átt sem stefna hans markar. Því legg ég áherslu á það sem þarf að breyta, í stefnu minni sem ég birti hér að neðan, og sem ég mun skila með umsókn minni.

Ég veit ekki hvernig háskólinn hyggst standa að kynningu á þeim umsækjendum sem verða metnir hæfir, en mér skilst að hingað til hafi enginn utan skólans áður sótt um starf rektors (enda var það lengi vel ómögulegt), og svo virðist sem skipulagið á þessu ferli miðist enn við að umsækjendur séu úr skólanum, eða a.m.k. búsettir á Íslandi. Ég vona þó að skólinnn sjái til þess að umsækjendur utan skólans fái tækifæri til að kynna stefnu og hugmyndir sínar vandlega fyrir þeim sem munu kjósa rektor.

Á heimasíðu minni við University of Strathclyde í Glasgow má meðal annars finna ferilskrá mína.

Hér að neðan er stefna mín, og hér á pdf-formi.


 

Stefna mín fyrir Háskóla Íslands

Yfirlýst stefna Háskóla Íslands er að verða umtalsvert betri, í samanburði við það sem best gerist í heiminum í rannsóknum og kennslu. Þessi stefna er í aðalatriðum góð, en til að markmið hennar geti orðið að veruleika þarf að gera eftirfarandi breytingar:

  • Efla rannsóknastarf skólans með því að veita rannsóknafé hans fyrst og fremst til þeirra sem eru virkir og öflugir þátttakendur á þeim alþjóðavettvangi sem nánast allt fræðastarf tilheyrir.
  • Gera þeim sem aðallega munu stunda kennslu kleift að einbeita sér að henni, og umbuna þeim fyrir gott starf á þeim vettvangi.
  • Afleggja núverandi vinnumatskerfi og meta í staðinn gæði framlags starfsmanna, bæði í rannsóknum og kennslu.

Rannsóknir

Til að efla rannsóknastarf skólans þarf að nota það fé sem ætlað er til rannsókna í það starf sem stenst gæðakröfurnar sem yfirlýst stefna skólans miðast við. Það þýðir meðal annars að ekki ættu allir akademískir starfsmenn að hafa rannsóknaskyldu. Horfast verður í augu við að hluti akademískra starfsmanna skólans stundar ekki rannsóknir af þeim gæðum og umfangi sem miða verður við, og því ættu þeir starfsmenn að einbeita sér að kennslu. Þannig yrði hægt að veita meira fé í rannsóknir þeirra sem stunda gott fræðastarf í alþjóðlegum samanburði.

Sérstaklega þarf að stuðla að uppbyggingu góðra rannsóknahópa, af því að það örvar starf þeirra sem fyrir eru og laðar að öflugt vísindafólk á öllum stigum. Uppbyggingu slíkra hópa á að hafa í huga þegar rannsóknafé er útdeilt í samkeppni innan skólans.

Til að gera okkur grein fyrir stöðu hinna ýmsu deilda skólans í alþjóðavísindasamfélaginu ætti að láta gera ítarlega óháða úttekt á rannsóknastarfi þeirra. Slíkar úttektir ætti svo að endurtaka á fimm ára fresti, til að meta framfarir. (Hér má t.d. benda á úttektir sem gerðar voru í háskólunum í Helsinki, Uppsölum og Lundi árin 2005-8, en þeir eru meðal samanburðarháskóla HÍ sem nefndir eru í stefnu skólans.)

Kennsla

Það er of algengt að háskólar láti sig litlu varða hvernig kennsla fer fram og hversu vel hún gagnast nemendunum. Þótt ekki séu til neinar töfraaðferðir sem allir geta notað þá eru til vondar kennsluaðferðir sem enn tíðkast of víða, og sem ekki eru til þess fallnar að hjálpa nemendum að menntast á skilvirkan hátt. Góður háskóli verður að vinna markvisst að því að bæta kennsluna og skapa umhverfi sem gerir kennarum kleift að leggja metnað sinn í það. Hlutverk kennara er fyrst og fremst að aðstoða nemendur við að ná sjálfstæðum tökum á því sem námið snýst um, en ekki bara að tileinka sér þekktar aðferðir við að leysa þekkt viðfangsefni. Sérstaklega verður að styðja þá sem vilja prófa nýjungar, halda saman reynslunni af slíku og sjá til að hún sé aðgengileg öðrum kennurum.

Séu nemendur óánægðir með kennsluna er það undantekningalítið merki um að eitthvað sé að, og við því þarf alltaf að bregðast. Það er því mikilvægt að fá fram skoðanir nemenda um það sem miður fer, og reyna að bæta úr því sé um réttmæta gagnrýni að ræða. Því þarf að sjá til þess að stöðugt sé fylgst með viðhorfum nemenda, og að þeir geti alltaf komið skoðunum sínum á framfæri við óháða aðila innan skólans, sem eru í aðstöðu til að hafa áhrif til úrbóta.

Það er ekki auðvelt að meta gæði kennslu, en þar sem hún er annað af tveimur aðalhlutverkum háskóla verður ekki vikist hjá því. Þetta er sérlega mikilvægt þegar rannsóknaskylda verður aflögð hjá sumum starfsmönnum, sem verður þá umbunað fyrst og fremst fyrir það sem þeir gera vel í kennslunni. Á þessu verða yfirmenn deilda og sviða að bera ábyrgð.

Skipa þarf sérstakan aðstoðarrektor yfir kennslumálin, sem ber ábyrgð á að unnið sé af alefli að því að bæta kennsluna stöðugt í öllum skólanum.

Vinnumat

Núverandi vinnumatskerfi HÍ fyrir rannsóknastarf hefur afgerandi áhrif á framgang og laun. Það hvetur starfsmenn til að birta mikið, og í mörgum smáum hlutum, en gerir nánast engan greinarmun á gæðum. Þetta fer í bága við markmið skólans um að verða sterkur í rannsóknum í alþjóðlegum samanburði. Í staðinn þarf að meta gæði rannsóknastarfs einstakra starfsmanna á þann hátt sem almennt er gert í alþjóðlega fræðasamfélaginu, með jafningjamati.

Einn möguleiki er að fá, á fárra ára fresti, hóp óháðs (erlends) fræðafólks til að meta framlag hvers starfsmanns síðustu fimm árin eða svo. Niðurstaða úr slíku mati myndi ráða skiptingu rannsóknafjárins milli sviða, eða hugsanlega deilda, en ekki til einstakra starfsmanna. Það væri síðan á ábyrgð sviðs- og/eða deildarforseta að ákvarða rannsóknahlutfall hvers starfsmanns. Kerfi af þessu tagi hefur verið notað við Háskólann í Reykjavík í nokkur ár og mat á gæðum rannsókna háskóladeilda, sem hefur áhrif á útdeilingu rannsóknafjár frá hinu opinbera, fer t.d. fram með ofangreindum hætti í Bretlandi (þar sem metnar eru fjórar bestu greinar hvers starfsmanns frá siðustu fimm árum, a.m.k. í raunvísindum).

Skynsamlegast er að afnema það kerfi launauppbóta sem fást á grundvelli vinnumats, og miða við að hver starfsmaður sé á föstum launum.

Ákvörðun launa þarf að byggjast á mati á gæðum starfs, bæði í kennslu og rannsóknum, en ekki á magni framlags. Þær ákvarðanir verða að vera á ábyrgð sviðs- og deildaforseta, og byggjast á eins vönduðu mati og hægt er að koma við. Nauðsynlegt er að starfsmenn geti komið sjónarmiðum sínum á framfæri við slíkar ákvarðanir, og hugsanlega væri hægt að skipa fulltrúa starfsmanna sem gætu talað máli þeirra og gætt þess að sanngirni væri viðhöfð.

Ráðningar og framgangur

Til að styrkja rannsóknir skólans er nauðsynlegt þegar ráðið er í akademískar stöður að ráða alltaf öflugt (eða efnilegt ungt) rannsóknafólk. Nánast allar slíkar stöður á að auglýsa á alþjóðavettvangi og sjá til þess að umsóknarfrestur og aðrar tímasetningar geri stöðurnar samkeppnishæfar alþjóðlega. Kröfur fyrir framgang í starfi þurfa að vera sambærilegar við þá skóla sem raunhæft er að við getum náð að gæðum í fyrirsjáanlegri framtíð.

Nýdoktorastöður, sem eru mikilvægar fyrir frjótt rannsóknaumhverfi, þurfa að vera aðlaðandi á alþjóðamarkaðnum. Ekki ber að líta á þær sem fordyri að föstu akademísku starfi innan skólans, því slíkar stöður eiga ekki síst að stuðla að hreyfanleika í alþjóðasamfélaginu. Í lektorsstöður á að ráða fólk sem mjög líklegt er að uppfylli kröfur um framgang í prófessorsstöðu innan 10 ára, og styðja það vel í uppbyggingu rannsókna sinna og kennslu.

Akademískir starfsmenn eiga að bera uppi kennslu skólans, með aðstoð doktorsnema og nýdoktora. Stundakennara á að nota sem minnst, og fyrst og fremst þar sem nauðsynleg sérþekking er ekki sjálfsagður hluti af fræðasviðum fastra starfsmanna.

Hvert getum við náð?

Í stefnu HÍ 2006-11 voru taldir upp átta háskólar sem HÍ vildi bera sig saman við og sem lenda gjarnan á listum yfir hundrað bestu háskóla í heimi. Það er óraunsætt að gera ráð fyrir að HÍ geti orðið jafn góður þessum skólum á næstu tíu árum, og tilgangslítið að reyna að horfa lengra fram í tímann þegar starf skólans er skipulagt. Við stefnum samt í rétta átt með því að bera okkur saman við þessa skóla.

Það er ekki skynsamlegt að reyna að ná hátt á listum yfir góða háskóla með því að einblína á þau atriði sem þar eru mæld. Til dæmis getur ekki verið markmið í sjálfu sér að fjölga doktorsnemum; fjölgun þeirra á að vera afleiðing þess að skólinn bjóði upp á sterkt og aðlaðandi rannsóknaumhverfi á sumum sviðum. Við þurfum einfaldlega að bæta starf skólans, og þótt það sé ekki auðvelt er það ekki heldur flókið mál. Til þess þurfum við að laða til okkar æ fleira gott rannsóknafólk, búa því umhverfi sem það þrífst í, og leggja okkur fram um að bæta alla kennslu skólans.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , ,

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur