Fimmtudagur 13.11.2014 - 10:15 - 4 ummæli

Útlendingafordómar hjá Árna Páli, eða …?

[Þessi grein birtist fyrst í Kvennablaðinu í gær]

Í ræðu á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar þann 1. nóvember síðastliðinn sagði formaður flokksins, Árni Páll Árnason, meðal annars þetta:

„Íslendingar með meiri menntun flytja utan. Útlendingar með litla skólagöngu flytja til landsins.“

Ég sendi Árna Páli tölvupóst fyrir viku (og síðan tvær ítrekanir) og spurði hvað hann hefði fyrir sér í þessari staðhæfingu. Hann hefur ekki svarað. Einu gögnin sem ég hef rekist á sem tengjast þessu er Viðhorfskönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og Fjölmenningarseturs frá október 2009. Sú könnun gefur alls ekki áreiðanlega mynd af skólagöngu innflytjenda á Íslandi, af því að hún er byggð á svörum fólks sem náðist í og vildi taka þátt, svo ekki er tryggt að úrtakið sé dæmigert. En þetta eru einu gögn sem ég hef rekist á um þetta (eftir ábendingu í góðum pistli Árna Matthíassonar um útlendingafordóma, í Morgunblaðinu 4. nóvember).

Af þeim innflytjendum sem svöruðu viðhorfskönnuninni 2009 höfðu um 22% lokið starfsnámi eða iðnnámi, um 13% bóklegu framhaldsskólanámi og um 51% háskólanámi. Nú veit kannski enginn hvaða skólagöngu þeir Íslendingar hafa lokið sem flust hafa frá landinu síðustu árin, en samkvæmt tölum Hagstofunnar höfðu árið 2010 aðeins um 25% Íslendinga lokið háskólanámi og um 36% framhaldsskóla.

Nú er auðvitað ekki útilokað að Árni Páll hafi í höndunum gögn sem styðji staðhæfingu hans, en ég leyfi mér að efast um það, sérstaklega í ljósi þess að hann vill ekki svara spurningu minni, sem ætti að vera einfalt mál, ef hann getur bent á slík gögn. Sá grunur er því sterkur að hér sé Árni Páll að staðhæfa hluti sem hann veit ekki.

Það væri kannski ekki stórmál þótt formaður stjórnmálaflokks henti á lofti tölfræðilegar staðhæfingar sem hann hefur ekki neinar heimildir fyrir, en það er verra en bagalegt að gera slíkt í máli sem þessu, þar sem fordómar gegn útlendingum eru óþægilega algengir á Íslandi og ekki bætandi á þá.

Það gerir þetta mál líka verra að þetta er ekki í fyrsta sinn sem Árni Páll hefur sagt „óheppilega“ hluti um útlendingamál. Í kosningasjónvarpi RÚV í sveitarstjórnarkosningunum síðastliðið vor, þar sem fjallað var um útspil Framsóknar í moskumálinu, sagði Árni nefnilega að það væri eðlilegt og málefnalegt að fólk hefði „ótta í brjósti um stöðu sína og um fólk frá framandi löndum“. Þótt hægt sé að skilja slíkan ótta, sérstaklega í samfélagi þar sem stöðugt dynur á okkur fordómaáróður, þá er skelfilegt að formaður stjórnmálaflokks haldi því fram að hann sé eðlilegur og málefnalegur.

Ég geri ekki ráð fyrir að Árni Páll sé rasisti í venjulegri merkingu þess orðs, en rasisminn, eins og svo margt annað ljótt, læðist gjarnan bakdyramegin inn í hugskot okkar. Ég geri líka ráð fyrir að langflestu Samfylkingarfólki bjóði við útlendingaandúð, og vilji ekki sjá slíkt í flokki sínum. En þá þarf líka að taka til í huga formannsins, og sjá til þess að hann losi sig við vafasamar hugmyndir og falli ekki aftur í þá gryfju að éta upp fordómana sem eru illu heilli á sveimi í samfélaginu.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 12.11.2014 - 12:58 - 3 ummæli

Hneyksli ef saksóknari áfrýjar ekki í lekamáli

Í dag féll dómur í lekamálinu, eftir að Gísli Freyr Valdórsson, aðstoðarmaður innanríkisráðherra, játaði sök sína í gær. Mál þetta hefur staðið í tæpt ár, valdið gríðarlegum átökum í samfélaginu, rýrt verulega tiltrú almennings til stjórnsýslunnar, orðið til þess að ráðuneyti hefur verið skipt upp, tekið umtalsverðan tíma frá starfi Alþingis og kostað samfélagið tugi milljóna vegna meðferðar þess hjá hinum ýmsu stofnunum.

Þar að auki er um að ræða svívirðilegt brot gegn einstaklingum sem ekki gátu borið hönd fyrir höfuð sér, brot framin af opinberum starfsmanni í krafti stöðu sinnar. Við broti af þessu tagi liggur allt að þriggja ára fangelsi, enda er eðlilega talið til refsiþyngingar að opinber starfsmaður misnoti aðstöðu sína með þessum hætti.

Það er hafið yfir allan vafa að tilgangurinn með lekanum var að koma höggi á hælisleitanda, til að fegra málstað ráðherra sem var búinn að ákveða að vísa manninum úr landi (líklega á ólöglegum forsendum og án nokkurs tillits til mannúðlegra sjónarmiða), og þess vegna er augljóst að brotið er framið til  að bæta ímynd yfirboðara aðstoðarmannsins, og því til ávinnings fyrir hann. Það er því rangt sem dómarinn í málinu, Arngrímur Ísberg, heldur fram í dómnum:

„Hins vegar er ekki fallist á að sýnt hafi verið fram á að ákærði hafi komið minnisblaðinu á framfæri í því skyni að afla sér eða öðrum óréttmæts ávinnings, hvorki fjárhagslegs né annars.“

Það væri því hneyksli ef ríkissaksóknari áfrýjar ekki þessum ótrúlega væga dómi, yfir manni sem hefur sett samfélagið á annan endann í ár, með alvarlegu lögbroti sínu í opinberu starfi og samviskulausum lygum, þar sem hann annars vegar lak viðkvæmum trúnaðarupplýsingum og hins vegar falsaði viðbót við minnisblað sem látið var líta út eins og það væri allt frá ráðuneytinu komið.  Í ofanálag reyndi Gísli Freyr, í skriflegri vörn sinni í málinu, að klína grunsemdum á ræstingafólk í ráðuneytinu fyrir þann glæp sem hann sjálfur framdi.

Það er hins vegar ekkert nýtt að Arngrímur Ísberg felli dóma þar sem hann skríður fyrir valdníðingum í opinberum stöðum. Um fleiri slíka dóma, þar sem geðþóttaákvarðanir lögreglu eru settar ofar stjórnarskrá, má lesa hér.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 5.11.2014 - 10:15 - 7 ummæli

Löggan má drepa þig. Þú mátt ekki vita af hverju.

Í gær fengu nokkrir þingmenn, þeir sem sitja í allsherjar- og menntamálanefnd, að skoða þær reglur sem lögreglan hefur sett um notkun sína á vopnum. Það hefur væntanlega verið lögreglan sjálf sem allra náðarsamlegast leyfði nokkrum manneskjum á þinginu, sem á að fara með æðsta vald þjóðarinnar, að berja augum þessar leynilegu reglur, með því skilyrði að þingmennirnir tækju ekki afrit og segðu alls engum frá.

Alþingi á reyndar, eðlilega, að hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu, en eins og gildir um fleiri mál (t.d. mannréttindi mótmælenda) virðist lögreglan vera hafin yfir öll lög í landinu, þar með talda stjórnarskrána.

Lögreglan er sem sagt með reglur, sem hún hefur sett sjálf, um það hvenær hún megi drepa þig. En þú mátt ekki vita við hvaða aðstæður hún telur að henni sé það leyfilegt. Og nei, það er enginn sem hefur neitt eftirlit með þessu, lögreglan ræður því alveg sjálf hverja hún má drepa og hvenær.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 13.10.2014 - 10:15 - 27 ummæli

Ósannindamanneskjan Þórey Vilhjálmsdóttir

Þórey Vilhjálmsdóttir, sem enn er aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, sem enn er innanríkis-(en ekki dóms- og lögreglumála-, en samt hælisleitendamála)ráðherra, hefur stefnt tveim blaðamönnum DV fyrir meiðyrði. Ástæðan er að þeir héldu því fram að Þórey væri „starfsmaður B“, sem nefndur var í dómi héraðsdóms í lekamálinu. Örfáum klukkutímum eftir að þetta ranghermi birtist í DV var það leiðrétt, og beðist afsökunar, og blaðamennirnir sendu þar að auki strax fréttatilkynningu til fjölmiðla til að tryggja að ranghermið fengi ekki meiri útbreiðslu.

Blaðamennirnir, Jón Bjarki Magnússon og Jóhann Páll Jóhannsson, höfðu sem sagt skrifað frétt þar sem haldið var fram að „starfsmaður B“ væri Þórey, en leiðréttu það strax þegar þeir komust að því að þar var átt við hinn aðstoðarmanninn, Gísla Frey Valdórsson, sem nú sætir ákæru í lekamálinu.

Þórey hugsaði sig vel og lengi um, eins og kemur fram í yfirlýsingu frá henni um stefnuna. Niðurstaða þessarar vönduðu ígrundunar hennar var að eðlilegt sé að ummælin skammlífu verði dæmd „dauð og ómerk“ og að blaðamennirnir greiði henni þrjár milljónir króna vegna þess miska sem þetta nokkurra klukkustunda ranghermi hefði valdið henni.

Þetta er þó ekki nóg, finnst Þóreyju. Hún komst að þeirri niðurstöðu, þegar hún hafði hugsað málið vandlega, að eðlilegt væri að blaðamennirnir sætu í fangelsi í eitt ár vegna þessa.

Nú vill svo til að í sjálfri stefnunni, sem birt hefur verið opinberlega, eru rangfærslur um það sem blaðamennirnir skrifuðu um þetta mál. Í stefnunni stendur meðal annars:

„Sú umfjöllun náði svo hámarki með þeim ummælum sem krafist er ómerkingar á þar sem beinlínis er fullyrt að stefnandi hafi lekið minnisblaðinu án þess að þær staðhæfingar eigi sér nokkra stoð í raunveruleikanum.“

Eins og sjá má af upphafi stefnunnar, þar sem þau ummæli eru talin upp sem krafist er ómerkingar á, er hvergi „fullyrt að stefnandi hafi lekið minnisblaðinu“. Einnig segir í yfirlýsingu Þóreyjar:

„Ýjað var að því í nokkra mánuði að ég hafi lekið trúnaðargögnum þar til að blaðamennirnir bitu höfuðið af skömminni með því að birta umræddar ásakanir sem sannaðar staðhæfingar í blaðinu þann 20. júní sl.“

Þetta er líka rangt; því er hvergi haldið fram í blaðinu að um sé að ræða sannaðar staðhæfingar þess efnis að Þórey hafi lekið skjalinu.

Þórey ber sem sagt rangar sakir á blaðamenn í stefnunni, sakir sem vega að starfsheiðri þeirra, og þær ásakanir hefur hún enn ekki dregið tilbaka, mörgum dögum eftir að þær birtust. Þeir Jón Bjarki og Jóhann Páll munu þó ekki ætla að stefna Þóreyju fyrir meiðyrði, né heldur krefjast þess að hún dúsi í svartholinu í heilt ár.

Þórey hefur reyndar oftar en einu sinni sagt ósatt um lekamálið, þótt ástæðulaust sé að telja það allt upp einu sinni enn. Þess má hins vegar geta að þegar ég spurði hana, í tölvupósti, hvort hún hefði haft lekaskjalið eða eitthvert svipað skjal undir höndum svaraði hún, þann 7. janúar í ár, að hún hefði ekki haft það. Miðað við það sem kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 7. apríl er hins vegar ljóst að hún hafði fengið skjalið í tölvupósti þann 19. nóvember. Hér eru spurningarnar sem ég spurði Þóreyju:

Hér að neðan er texti minnisblaðs sem virðist vera það sama og fjallað var um í fréttum Fréttablaðsins/Vísis og Morgunblaðsins fyrir nokkrum vikum. Að gefnu tilefni spyr ég þig eftirfarandi spurninga:

1. Hefur þú haft þetta minnisblað, eða minnisblað með svipuðum texta, undir höndum?

2. Hefur þú afhent aðilum utan ráðuneytisins þetta minnisblað eða minnisblað með svipuðum texta um mál Tony Omos?

Og svar hennar:

Nei ég hef ekki haft þetta minnisblað og því augljóslega ekki sent það heldur.

Þórey Vilhjálmsdóttir vill að blaðamenn sem leiðréttu ranghermi um hana fáum klukkustundum eftir að það birtist verði dæmdir til að greiða henni nokkrar milljónir, og látnir sitja í fangelsi í ár. Sjálf segir hún hins vegar ósatt um blaðamennina á opinberum vettvangi, og í starfi sínu sem háttsettur starfsmaður ráðuneytis.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 10.10.2014 - 19:51 - 12 ummæli

Landlæknir mælir með fækkun einkabíla

Yfirlýsing frá Landlækni  (sem lesa má hér) vegna frumvarps til laga um verulegar takmarkanir á innflutningi bifreiða til einkanota:

Rannsóknir sýna að bifreiðaslys valda gríðarlegu tjóni á heilsu þeirra sem í þeim lenda, og einnig gífurlegum kostnaði heilbrigðiskerfisins vegna umönnunar og endurhæfingar þeirra sem lifa af. Einnig hafa rannsóknir sýnt að aðstandendur þeirra sem lenda í bifreiðaslysum og láta lífið eða örkumlast eru að öllu jöfnu undir miklu andlegu álagi í langan tíma, stundum áratugum saman þegar um er að ræða fólk sem verður ósjálfbjarga af völdum slíkra slysa. Þetta veldur ekki einungis lakari andlegri heilsu, sem einnig veldur kostnaði í heilbrigðiskerfinu, heldur má gera ráð fyrir að mikill fjöldi vinnustunda tapist vegna umönnunar aðstandenda.

Rannsóknir hafa einnig sýnt að því fleiri bifreiðir sem eru í umferð, því fleiri eru slysin. Það er því ljóst að með því að takmarka verulega innflutning á bifreiðum mun bifreiðaeign landsmanna minnka til muna á tiltölulega stuttum tíma.

Afleiðingarnar af færri bifreiðum í umferð verða því ótvírætt umtalsverð fækkun alvarlegra slysa, og lækkun kostnaðar í heilbrigðiskerfinu.

Auk þess sem að ofan greinir hafa rannsóknir sýnt að hæfileg dagleg hreyfing hefur í för með sér mikla heilsubót, og ljóst er að því færri sem eiga eigin bifreiðir því meira mun fólk þurfa að ganga. Fækkun bifreiða til einkanota mun augljóslega auka göngur almennings og bæta þar með lýðheilsu.

Því styður landlæknir eindregið framkomið frumvarp um að innflutningur einkabifreiða verði takmarkaður, með það að markmiði að einkabifreiðum verði fækkað um 50% á næstu tíu árum.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 7.10.2014 - 10:15 - 6 ummæli

Ekki vara við ef hætta er á ferðum!

„Fjármálastöðugleikaráð birtir tilmæli sín og rökstuðning fyrir þeim í heild eða að hluta, nema birting þeirra geti haft neikvæð áhrif á fjármálastöðugleika. Fari stjórnvald ekki að tilmælum fjármálastöðugleikaráðs skal einnig birta skriflegan rökstuðning viðeigandi stjórnvalds nema birtingin geti haft neikvæð áhrif á fjármálastöðugleika.“
Hversu vel gafst þessi leyndarhyggja, til verndar „fjármálastöðugleika“, fyrir síðasta hrun?  Ljóst er að ýmsir aðilar innan æðstu stjórnsýslu vissu að bankarnir voru að falli komnir um hálfu ári áður en þeir féllu.  Í stað þess að segja sannleikann þögðu þeir ekki bara, heldur lugu bókstaflega blákalt um góða stöðu bankanna, til að vernda „fjármálastöðugleika“.
Dettur einhverjum í hug að það hafi verið skynsamlegt að halda þessari stöðu leyndri í hálft ár í viðbót?
Hefði það ef til vill getað takmarkað tjónið af falli bankanna ef sagt hefði verið satt og rétt frá því hve illa þeir stóðu þegar það var orðið ljóst?
Hefði ef til vill verið betra að segja almenningi í landinu frá vonlausri stöðu bankanna, í stað þess að lána þeim tugi milljarða af almannafé rétt fyrir hrun?
Hverra hagsmuni er meiningin að verja með þeirri leynd sem á að einkenna starf þessa ráðs?  Af hverju ætti það að þjóna hagsmunum almennings að fá ekki að vita þegar hætta er á ferðum?

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur