Þriðjudagur 12.10.2010 - 21:20 - FB ummæli ()

Klofnar þjóðin

Það er greinilega tekist á um skuldavanda heimilanna á bak við tjöldin. Í kjölfar mótmælanna fór Ögmundur af stað til að finna raunverulega lausn á skuldavandanum. Eitthvað sækist honum það seint og um leið hefst grátkór lífeyrissjóða og annarra lánadrottna. Þögn verkalýðsforustunnar vegna gjaldþrota heimila landsmanna er æpandi. Við vitum að Steingrímur er á móti almennum aðgerðum og er sammála AGS um sértæka skuldaaðlögun. Þess vegna má búast við að þessi tvö sjónarmið takist á núna. Steingrímur fer ekki mikinn í fjölmiðlum núna og er það í samræmi við fyrri reynslu því hann virðist rífast mest yfir orðnum hlut.

Spunakóngarnir sjá eflaust eftir því að hafa tekið Ögmund um borð en hvernig gátu þeir reiknað út mótmælin þar sem smákökur drottningarinnar áttu að duga pöplinum.

Þessi ósérhlífna ósvífni lánadrottna gagnvart lántakendum er farin að segja til sín. Hún kemur fram í þeim afarkostum sem lántakendur verða að sæta. Þegar haft er í huga að nýju bankarnir fengu húsnæðislánin með afslætti frá þeim gömlu er þetta óskiljanalegt. Það er til fé til afskrifta. Þegar við bætist ruglið með Magma málið, brjálæðislegur niðurskurður í heilbrigðismálum og biðraðir eftir matargjöfum er ekki von á mikilli samúð almennings.

Uppistaðan af mótmælum hefur verið í formi eggja og hávaða. Það hefur aldrei verið styttra í valdbeitingu, það er eins og almenningur sé að gefa stjórnvöldum smá ráðrúm til að bæta ráð sitt.  Síendurtekin vonbrigði almennings hafa áhrif á réttlætistilfinningu fólks. Á einhverjum tímapunkti finnst réttlæting fyrir því að beita ofbeldi. Eftir mótmælin um daginn vöknuðu vonir en ef þær verða að engu þá má búast við mjög kröftugu andsvari almennings. Sennilega skásti kosturinn þó hann sé ekki góður.

Samtímis flytur Steingrímur mál sitt fyrir alþjóðlegum lánadrottnum í Goldman Sachs bankanum í Washington. Það getur vel verið að Steingrími hugnist að vera spaði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi en það er ekki líklegt til að hagnast almenningi í skuldavanda á Íslandi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 9.10.2010 - 22:36 - FB ummæli ()

Áminning

Það er sennilega eitthvað bogið við okkur Íslendinga. Sjálfsagt er það ástæðan fyrir því hvað við erum spes, eða þannig sko. Siðan hrunið varð hefur verið örtröð af mönnum, konum og samtökum sem hafa rætt almennar afskriftir á skuldum heimila. Það eru liðin tvö ár. Í dag er ákveðið að reikna út dæmið! Er þetta ekki dæmigert að við gerum allt á elleftu stundu eða gjarnan of seint.

Það hefur verið talið of dýrt fyrir samfélagið okkar að fara í almennar afskriftir. Nú á að reikna það loksins út. Hitt er ljóst að fjöldagjaldþrot eru einnig mjög kostnaðarsöm.

Sjálfstæðisflokkurinn og Lilja Mósesdóttir hafa stungið upp á því að skattleggja séreignasparnað landsmanna núna í stað þess að skattleggja hann þegar hann er tekinn út. Þá er ríkið að taka vaxtalaust lán hjá sjálfu sér. Þar gætu verið um 100 milljarðar.

Frjálslyndi flokkurinn hefur lengi talað fyrir auknum veiðum og verið sárt um að gull hafsins fái að deyja ellidauða engum til gagns. Ef veiðar eru auknar um 30% þá myndast 60 milljarðar. Um 80% af kostnaði sjávarútvegsins er innlendur og því munu 50 milljarðar koma innlendu hagkerfi til góða.

Við öll erum minnug þess að núverandi ríkisstjórn var sköpuð í kjölfar mikilla mótmæla. Ríkisstjórnin hefur frá upphafi talið sitt mikilvægasta mál að koma heimilum landsmanna til hjálpar. Núna verður ríkisstjórnin að forgangsraða í þágu heimilanna. Mánudaginn 4 október fékk hún áminningu, næst gæti það verið brottrekstur.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 8.10.2010 - 21:57 - FB ummæli ()

Reiknistokkarnir í ráðuneytinu…

Það er orðið greipt í þjóðarsálina að við verðum að spara. Oft verið talið sem dyggð og merki um ráðdeildarsemi en getur verið tvíeggja sverð þegar heildræn áhrif eru könnuð.

Í kreppu er ekki talið skynsamlegt að spara. Það er aðgerð sem er kreppudýpkandi og skýrsla sérfræðinga um slíkt hefur verið birt þar sem niðurstaðan var sú að ráðstafanir AGS hefðu greinilega verið kreppudýpkandi(http://www.cepr.net/documents/publications/imf-2009-10.pdf). Þar var gangrýndur sérstaklega hastarlegur niðurskurður og óraunhæfar væntingar um hagvöxt. Auk þess kemur fram í skýrslunni að AGS hafði slakað á klónni í nokkrum löndum þar sem mótmæli voru kröftug.

Mjög mikill niðurskurður er nú boðaður á sjúkrastofnunum hringinn í kringum landið. Þessi niðurskurður mun verða mjög skaðlegur. Eins og fyrr segir er hann kreppudýpkandi og mun alls ekki hjálpa okkur við það að komast úr kreppunni. Í annan stað munu skaðleg áhrif hans verða mun meiri á landsbyggðinni því efnahagur hinna dreifðu byggða er svo miklu viðkvæmari en þéttbýlisins. Rætt er um að hundruðir manna muni missa vinnuna með þessum niðurskurði. Ruðningsáhrif munu koma fram í því að grundvöllur fyrir rekstri heimila á viðkomandi stöðum á landinu brestur. Af þeim sökum munu mun fleiri flytja á brott og áhrifin á tekjur viðkomandi sveitarfélaga verða margföld miðað við upphaflega fjöldann sem sagt verður upp. Hætt er við að Reykjavík verði millilending viðkomandi fjölskyldna á leið sinni til útlanda.

Sökum fyrri stefnu stjórnvalda hafa viðkomandi sjúkrastofnanir verið að byggja sig upp á liðnum árum. Þar sem þekking er kjarninn í sjúkrastofnunum hafa stjórnendur kappkostað að fá ungt vel menntað starfsfólk heim í hérað. Að snúa núna stefnunni í 180 gráður er glórulaus sóun.

Í þriðja lagi þá er verið að skerða þá þjónustu sem hingað til hefur verið boðið upp á. Þeir landsmenn sem búa úti á landi hafa haft verri aðgang að sérfræðiþjónustu en þeir sem búa við stærstu þéttbýlisstaðina. Að höggva núna með 40-50% niðurskurði eftir mörg mögur niðurskurðarár er hrein og klár aftaka. Reiknistokkarnir í ráðuneytinu geta sjálfsagt reiknað sig niður á hvaða niðurstöðu sem er en það segir mér enginn að það að senda alla sjúklinga suður á kostnað ríkisins til að leggjast í dýrustu kojur lansdsins sé hagkvæmt.

Að umbylta kjörum almennings í kjölfar hamfara eða kreppu heitir katastrófu kapitalismi og hefur hingað til verið aðalsmerki Milton Freedmans og strákanna frá Chicago. Að núverandi ríkisstjórn skuli gera slíka stefnu að sinni er enn ein sönnun þess að hugsunarháttur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins mengar huga ráðherranna okkar.

Ef stjórnvöld vilja endurskipuleggs sjúkrastofnanir á landsbyggðinni er mun betra að gera það í næsta góðæri þegar allir geta útvegað sér nýja vinnu án vandræða. Til að stytta biðina eftir næsta góðæri skal alls ekki skera niður sjúkrastofnanir núna, það er kreppudýpkandi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 7.10.2010 - 22:20 - FB ummæli ()

Stund milli stríða

Þór Saari sagði á þingi í dag, eftir fund með ráðherrunum, að honum findist að Ögmundur væri viljugur til að leysa skuldavanda heimilanna en Jóhanna og Steingrímur væru enn þá hálfvolg. Þetta kemur ekki á óvart í sjálfu sér. Steingrímur er í Whasington á haustfundi AGS og mun ræða við helstu lánadrottna heimsins. Spurningin er hvort hann muni fá frekari tilsögn í katastrófu kapítalisma sem okkur er boðið upp á þessa dagana hér á Íslandi.

Ögmundur sagði á Alþingi í dag að lengja ætti frestinn á nauðungaruppboðum. Það er í andstöðu við viljayfirlýsingu íslenskra stjórnvalda við AGS. Vonandi er þetta merki um að við ætlum að ráða okkar málum sjálf en ekki láta AGS stjórna okkur í einu og öllu.

Mótmælendur, skuldugir einstaklingar, hafa fundið smjörþefinn af því valdi sem samstaðan gefur. Mér er til efs að fólk sætti sig við áframhaldandi óréttlæti. Enn hefur hinn raunverulegi forsendubrestur verið rekinn heim til föðurhúsanna.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 6.10.2010 - 14:37 - FB ummæli ()

Getur Alþingi sett lög

Það er ekki auðvelt að átta sig á hvert við erum að fara. Nokkuð ljóst er að skuldavandi heimilanna er kominn í sviðsljósið og er það vel. Margir aðilar hafa margrætt vandamálið og lausnir á því. Hagsmunasamtök heimilanna hafa unnið þar ótrúlega gott starf. Þrátt fyrir það hélt ríkisstjórnin að hún hefði leyst málin en svo komu mótmælin sem settu strik í reikninginn. Í viljayfirlýsingu stjórnvalda til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru vandamál heimilanna rædd. Þegar stjórnvöld hafa útlistað í henni hvað þau eru búin að framkvæma kemur þessi setning:

With the framework now finalized, our focus will be on encouraging greater participation by households.

Úrræði stjórnvalda er núna „finalized“ þ.e.a.s. lokið. Þetta skrifa þau undir 13. september s.l.. Verkefnið framundan er að hvetja heimilin til meiri þátttöku. Þegar rætt er um þátttöku heimilanna er átt við að heimilin gangi frá skuldamálum sínum eftir þeim kjörum sem eru í boði. Eins og mótmælin bera með sér eru þau kjör ekki að skila þeim árangri sem skuldugir einstaklingar áttu von á. Stjórnvöld lofa í viljayfirlýsingunni að afnema frestanir á uppboðum því frestanir hafi þau óæskilegu áhrif að einstaklingar séu ófúsir til að gera upp sín mál;

like the moratorium on home foreclosures—the continuance of which represent a barrier to debtor participation.

Við lestur viljayfirlýsingarinnar og skýrslu AGS er það ljóst að bæði stjórnvöld og sjóðurinn töldu nóg að gert í skuldavanda heimilanna. Auk þess er þeim kappsmál að gengið sé frá þessum málum. Excel skjölin hjá AGS kalla á fastar stærðir en ekki einhverja mannlega óvissu. AGS segir í skýrslu sinni að ef farið verði í kostnaðarsamar aðgerðir vegna skuldugra heimila þá muni stjórnvöld þurfa að skera enn meira niður og hækka skatta enn meira.

Þess vegna veit ég ekki hvaða ráðrúm er til staðar núna hjá stjórnvöldum. Það virðist nokkuð ljóst að AGS vill ekki frekari aðstoð til handa heimilunum og telur ríkissjóð ekki geta staðið undir því. Ég tel það ekki líklegt til árangurs að skipta um ríkisstjórn og senda Bjarna Ben að ræða við AGS. Þar sem nauðungaruppboðin eru að eiga sér stað núna verður að gera eitthvað núna. Þess vegna verða allir þingmenn sem einn að semja lög núna sem stöðva nauðungaruppboðin strax, meðan lausn er fundin.

Stóra spurningin er, getur Alþingi sett slík lög í andstöðu við AGS?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 5.10.2010 - 17:36 - FB ummæli ()

Hvað viljum við

Ástandið er eitthvað svo absúrd. Við erum strax farin að deila um hvers konar fólk var á Austurvelli í gær. Reynt er að gjaldfella mótmælendur eins og ríkjandi stjórnvöld reyndu líka veturinn 2008-9. „Þið eruð ekki þjóðin“ stendur þó enn óhaggað á toppnum.

Enn aðrir telja sjálfum sér trú um að núverandi stjórnvöld hafi gert allt sem í mannlegu valdi er hægt að gera.

Sjálfstæðisflokkurinn lætur sig sjálfsagt dreyma um völd en ekki eru margir sem trúa á að þeirra nálgun sé eitthvað skárri.

Það sem ég les í mótmælin er að núverandi stjórnvöld standi við kosningaloforðin, ef þeim er það fyrirmunað þá hafa viðkomandi flokkar ekkert umboð lengur til að stjórna landinu. Það er ekki boðið upp á neinn milliveg í þessu samhengi, að menn hafi staðið sig skítsæmilega miðað við….

Ástæðan er augljós, það er að núverandi ríkisstjórn vill ekki fara í almenna skuldaniðurfærslu hjá skuldsettum heimilum. Þar slær hjarta hennar í takt með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Afleiðingin er í algjörri andstöðu við kosningaloforðin. Ef skuldavandi heimilanna verður ekki leystur verður upplausn í þjóðfélaginu. Ef AGS hefur sitt fram verður engin millistétt eftir á Íslandi.

Ég tel að aðalatriðið sé að hafna stefnu AGS gagnvart skuldsettum heimilum. Eina leiðin er að allir Alþingismenn sameinist um það og fái þjóðina til að standa með sér í þeirri kröfu. Ef við stöndum saman þá mun sjóðurinn gefa eftir. Ef við ætlum að skoða málin fram eftir hausti eða rífast um hver er bestur verða nauðungarsölurnar afstaðnar og ekki mikið að gera úr því.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 4.10.2010 - 21:20 - FB ummæli ()

Hlutverk banka….

Í umræðunni um bankahrunið og afleiðingar þess eru skiptar skoðanir. Hluti þjóðarinnar telur að ástæðan séu jeppar og önnur eyðsla. Þess vegna ber okkur að axla byrðarnar án þess að kvarta. Einnig að þetta sé þrautaganga með fórnum sem við eigum meira eða minna skilið.

Sú hugmyndafræði að almenningur sé skyldugur til að taka á sig mikla þrautagöngu til að komast til fyrirheitna landsins er röng. Þegar Móses lagði af stað yfir eyðimörkina voru allir jafnsettir en í okkar tilfelli er hluti sem  sleppur. Það er engan veginn hægt að leyfa sér að horfa fram hjá þessari staðreynd í umfjöllun um hrunið og afleiðingar þess. Sú nálgun er blind og siðlaus.

Nauðsynlegt er að horfa í gegnum hugtök eins og „auðmenn“ eða „ fjármagnseigendur“ og reyna að skilja hvers vegna staðan er eins og hún er í dag. Lítill hluti samfélagsins lánar okkur hinum peninga til að við getum verslað. Þegar við skrifum undir lánaskilmálana lofum við að endurgreiða lánið með vöxtum eða tapa eigum okkar að öðrum kosti.

Bankar lifa á vöxtunum en hvernig verður varan til sem þeir framleiða þ.e. peningarnir.

Bankar hafa einkaleyfi á því að framleiða peninga. Bankar geta ekki búið til pening nema einhver taki lán hjá bankanum. Lánin geta verið í ýmsu formi en aðalatriðið er að enginn peningur er búinn til nema einhver taki lán. Peningar eru þess vegna skuld. Þegar skuldin er greidd hverfur peningurinn úr umferð. Ef allir í heiminum myndu borga allar sínar skuldir væri enginn peningur til og við gætum ekki einu sinni keypt okkur eina bæjarins bestu.

Sameiginleg reynsla okkar er sú að þegar banki lánar peninga minnkar ekki upphæðin á bankabókunum okkar hinna. Enda starfa bankar ekki þannig heldur býr bankinn til nýjan pening þegar einhver kemur og tekur lán. En hvar fær þá bankinn þá peningana fyrir nýja láninu, hann býr þá til eins og ég sagði, úr engu, bara stimplar þá inn í tölvuna.

Að framleiða heilan helling úr engu og fá vexti í þokkabót skýrir ríkidæmi banka og völd þeirra. Kjörnir fulltrúar okkar mega ekki búa til peningana okkar og eru því valdalausir eins og við höfum upplifað upp á síðkastið. Steingrímur getur bara búið til pening með því að taka lán hjá bönkunum í formi ríkisskuldabréfa.

Það skiptir því sennilega litlu máli hverjir sitja í ráðherrastólunum.

Er ekki full þörf á því að endurskoða hvernig við stöndum að peningamyndun hjá okkur. Er eðlilegt að lítill hópur einstaklinga hafi einkaleyfi á peningamyndun? Hvað kennir sagan okkur í þessum efnum?  Ef hið opinbera sæi um peningamyndunina færi þá ekki hagnaðurinn til almennings og gæti hugsanlega komið í stað skatta í núverandi mynd?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 2.10.2010 - 22:39 - FB ummæli ()

Okur

Ástandið er slæmt,

ástandið er ekki vegna aukins kostnaðar af vinnuafli, launum eða félagslegum umbótum. Orsökin er að bankar eru stikkfrí-ríki í ríkinu. Þeir orsökuðu hrunið og ætlast til þess að almenningur endurfjármagni þá og greiði upp lánin sín líka.

Formúlan virðist vera á þá leið að skera niður hjá hinu opinbera og skattleggja almenning. Ekki má leggja neina skatta á banka. Aftur á móti geta stjórnvöld tekið lán hjá bönkum og ef greiðslubyrði lánanna verður erfið þá á bara að skera meira niður.

Almenningur missir eigur sínar til bankanna og heldur áfram að borga af lánunum og bankinn getur lánað nýjum aðilum fyrir eignunum sem þeir eru ný búnir að hrifsa til sín.

Þessi formúla er að raungerast um allan heim og núna á Íslandi. Niðurskurður hins opinbera helgast af skuldum þess við bankana. Enn vex grasið, kýrnar gefa okkur mjólkina og sjómenn veiða fisk. Raunhagkerfið er til staðar en er laskað vegna framgöngu banka sem lánuðu yfir sig. Það er eitthvað mjög sérstakt við banka, þeir komast upp með allt eins og ofdekraður unglingur.

Kannski ekki skrítið að Jésú velti um borðum þeirra í musterinu forðum daga.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 1.10.2010 - 22:13 - FB ummæli ()

Hvers vegna fljúga egg

Steingrímur sagði í dag;

„Fólk verði hins vegar að sýna þolinmæði og Íslendingar verði að reyna að komast gegnum erfiðleikana saman sem þjóð.“

Halldór Ásgrímsson fékk afskrifaðar skuldir hjá Landsbankanum enda var hann ekki á Austurvelli í dag. Þeir sem voru mættir í dag á Austurvöll voru flestir að mótmæla því að fjölskyldum er hent út af heimilum sínum í stórum stíl. Við verðum að skilja það að viðkomandi fjölskyldur eru að yfirgefa ævistarfið, ævisparnaðinn, uppeldisstöðvar barnanna og flytja í fátækt. Fátækt er ekki bara orð, fátækt er ástand sem hefur mjög alvarlegar afleiðingar.

Fólk verði hins vegar að sýna þolinmæði og Íslendingar verði að reyna að komast gegnum erfiðleikana saman sem þjóð.

Á miðvikudaginn sameinuðust verkalýðsfélög í Evrópu um mótmæli víðs vegar um alla álfuna. Mótmælin beindust gegn niðurskurði, launalækkunum, atvinnuleysi, minni eftirlaunum og niðurskurði í velferðarmálum. Sérstaklega var bent á að allar þessar ráðstafanir voru orsakaðar af bankahruni sem bankarnir áttu mesta ábyrgð á. Þrátt fyrir það sameinast stjórnvöld í Evrópu um að bankarnir fái sitt en almenningur blæðir.

Fólk verði hins vegar að sýna þolinmæði og Íslendingar verði að reyna að komast gegnum erfiðleikana saman sem þjóð.

Ástandið á Íslandi er eins en íslensk verkalýðsforusta gerir ekkert í líkingu við þá evrópsku. Hvorki íslensk verkalýðsforusta né sú hreyfing var hvergi sjáanleg á Austurvelli í dag. Aftur á móti mætti þjóðin á Austurvöll og sagði sína skoðun. Barátta dagsins í dag snýst um völd fjármálastofnana yfir stjórnvöldum þjóða. Við kjósum okkur þingmenn en bankarnir stjórna þeim síðan, nánast án tillits  til hverja við kjósum. Umbun þeirra er hæfilegar afskriftir skulda fyrir vel unnin störf í þágu bankanna. Til að vinna upp tapið borgar almenningur eða missir eigur sýnar á brunaútsölum.

Af þessu tilefni sagði fjármálaráðherra Íslands í dag eftirfarandi;

Fólk verði hins vegar að sýna þolinmæði og Íslendingar verði að reyna að komast gegnum erfiðleikana saman sem þjóð.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 30.9.2010 - 18:24 - FB ummæli ()

Kominn á Eyjuna

Þá er ég orðinn eyjubloggari. Ég vil  þakka forráðamönnum Eyjunnar fyrir að gefa mér kost á því. Vonandi verð ég miðlinum ekki til mikillar skammar.

Landsdómur hefur verið mál málanna síðustu daga. Sennilega mun það mál hafa minnsta þýðingu fyrir hag almennings í nánustu framtíð. Hugsanlega mun Landsdómsmálið hafa þýðingu fyrir okkur þegar fram í sækir. Mál sem eru óleyst og öllu mikilvægari eru; vaxandi fátækt, skuldavandi heimilanna, atvinnuleysi, kvótamálið og  eignarhald á auðlindum landsins. Þessum málum ber Alþingi að sinna og auk þess hefur núverandi ríkisstjórn lofað því að slá skjaldborg um heimilin. Við bíðum enn eftir skjaldborginni.

Það er sívaxandi fjöldi heimila sem lenda í greiðsluerfiðleikum sem enda með gjaldþroti. Stöðug fjölgun á nauðungaruppboðum er merki þess að þau úrræði sem eru til staðar duga ekki fjölda fólks. Af þeim sökum þarf að gera mun betur og eini raunhæfi möguleikinn er almennar afskriftir skulda. Spurningin er hvort það er ætlun stjórnvalda.

Ef skýrsla AGS frá því í apríl 2010 er skoðað fást svör að hluta.

„Staff and authorities agreed that across-the-board debt write-downs, as some had proposed, were not an option, in light of heavy and unaffordable costs (well beyond provisions on financial firms’ books) and the moral hazard this would create.“

Hér kemur fram að ekki sé hugmyndin að fara út í almennar afskriftir og yfirvöld séu því sammála. Af þeim sökum getur almenningur lagt allar slíkar vangaveltur á hilluna.

Auk þess lofa íslensk stjórnvöld að gera ekkert frekar fyrir skuldsett heimili að loknum smá viðbótum fyrir lok júní s.l.. Einnig verður frystingum lána aflétt.

„The authorities stressed that after these refinements they plan not to introduce any further modifications to the framework and indeed would allow the twice-extended moratorium on foreclosures to expire with no further extensions.“

Í skýrslu AGS, frá því í apríl, er kvartað undan linkind stjórnvalda við að segja þjóðinni að þau úrræði sem eru til staðar nú þegar verða ekki aukin;

„Staff has been concerned that while the authorities are converging on a framework, the piecemeal approach to-date has fueled public expectations about generous—but unaffordable—measures in the future. Some adjustments should be implemented in the near-term to fill gaps and address design problems in the existing framework. The right approach remains to emphasize targeted, voluntary, and fiscally- affordable measures, and it will be important to temper expectations by communicating that further measures will not be forthcoming.“

Við lestur þessara gagna er augljóst að sá mikli fjöldi sem er á leið í gjaldþrot mun ekki fá neina frekari aðstoð. Við misskildum allan tímann að skjaldborgin var ætluð bönkunum en ekki okkur. Veturinn mun verða mörgum mjög erfiður.

Að ríkisvaldið samþykki að hafna hluta þjóðarinnar mun sjálfsagt verða efni fyrir Landsdóm-síðar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur