Fimmtudagur 10.1.2013 - 13:21 - Rita ummæli

Ógn af gróðureldum

Þó oft sé erfitt að vekja athygli á því sem ber að varast og undirbúa sig undir með fyrirvara þá ber okkur skylda til þess.

Mörg munum við áreiðanlega eftir sinueldunum á Mýrum í Borgarfirði árið 2006. Þá brunnu um 70 ferkílómetrar lands. Eldarnir og reykurinn svo miklir að gervihnattamyndir birtust af hamförunum.

Við vorum minnt á þetta sumarið 2012 þegar eldur kviknaði í gróðri í Laugardal við Ísafjarðardjúp og reyndist erfitt að slökkva vegna óhagstæðs veðurs og ónógs tækjabúnaðar.

Þeir sem best þekkja til segja að það sé bara spurning um hvenær, en ekki hvort, gróðureldar á Íslandi leggi undir sig húsaþyrpingar á borð við sumarbústaðabyggðir og aðra mannabústaði. Þá er um leið hætta á manntjóni.

Við erum ekki nógu vel undirbúin undir slíkar hamfarir. Þetta ætlum við að ræða á málþingi um gróðurelda sem stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur ákveðið að halda í Borgarnesi 17. janúar nk. í samstarfi við fjölda fagaðila og stofnana sem eiga aðkomu að þessum málum. Málþingið hefst kl. 10:00 og stendur til kl. 16:00

Þar er ætlunin að ræða og miðla upplýsingum um leiðir til að auka viðbúnaðargetu slökkviliða með samstarfi sveitarfélaga og stofnana og skilgreina ábyrgð sveitarfélaga og annarra stjórnvalda.

Fjallað verður um reynsluna af baráttu við gróðurelda, lagt mat á möguleika slökkviliða til að ráða niðurlögum þeirra og rætt um hvaða úrbóta er þörf hvað varðar mönnun slökkviliða, búnað þeirra og fjárhagslega áhættu sveitarfélaga af völdum gróðurelda.

Einnig verður fjallað um aðgerðir til forvarna og áhrif gróðurelda á náttúruna.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 3.1.2013 - 20:54 - 4 ummæli

Orkumál á Vestfjörðum – Hvalárvirkjun væri almennilegt varaafl

Í upphafi vil ég óska öllum gleðilegs og gæfuríks árs.

Eðlilega hefur verið töluverð umræða um samgöngumál og orkumál eftir óveðrið sem geisaði á Vestfjörðum og víðar undanfarna daga. Rétt viðbrögð hjá almenningi er að halda sig heima. Reikna má með að einhvern tíma taki að opna vegi eftir slík veður, sérstaklega þar sem vegur um varhugaverðar hlíðar á borð við Súðavíkurhlíð er hluti þjóðvegarins. Það er komin allnokkur ár síðan Fjórðungsþing Vestfirðinga samþykkti ályktun um Súðavíkurgöng sem skyldu koma á eftir Dýrafjarðargöngum. Til þess þarf fjármagn sem er af skornum skammti hjá ríkinu.

Mesta umræðan hefur verið um orkumálin því varaflið klikkaði hjá Orkubúi Vestfjarða og kom það flestum á óvart. Hörkuduglegir starfsmenn Orkubúsins hafa lagt sig fram um að leysa málin við erfiðar aðstæður og alls staðar komið rafmagn þó margt eigi enn eftir að leysa.

Það þarf að taka varaaflsmálin miklu fastari tökum heldur en gert hefur verið. Margoft hefur verið kallað eftir því en málið tekið vettlingatökum þrátt fyrir miklar yfirlýsingar ráðherra og þingmanna. Ég minni t.d. á ummæli Össurar Skarphéðinssonar frá því að hann var iðnaðarráðherra þar sem hann sagði þessi mál í forgangi og ávítaði nánast bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar fyrir að vera með nöldur yfir þessum málum.

Þessi ályktun er ein margra sem komið hafa frá Vestfirðingum um þessi mál og snýr að virkjun Hvalár í Ófeigsfirði en með því að virkja þar næðist hringtenging rafmagns um Vestfirði og almennilegt varaafl með tengingu yfir Djúp til Ísafjarðar:

Áskorun til ríkisstjórnar Íslands varðandi virkjun Hvalár í Ófeigsfirði.

Undirritaðir beina þeim eindregnu tilmælum til ríkisstjórnar Íslands að hún beiti sér fyrir að tengigjöld Hvalárvirkjunar verði greidd úr sameiginlegum sjóði allra landsmanna, ríkissjóði.
Forsenda þess að Hvalárvirkjun verði að veruleika á allra næstu árum er sú að virkjunaraðilar þurfi ekki að bera tengikostnað virkjunarinnar við raforkuflutningskerfi Landsnets.
Virkjun Hvalár mun skipta sköpum fyrir atvinnuuppbyggingu og mannlíf á Vestfjörðum og má m.a. benda á eftirfarandi þætti.
1. Fjöldi nýrra starfa á byggingartíma virkjunarinnar.
2. Að lokinni byggingu virkjunarinnar og tengingu hennar við raforkuflutningskerfi Landsnets á Ísafirði verður afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum orðið ásættanlegt.
3. Með auknu framboði á tryggri  raforku opnast nýir möguleikar í atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum og má í því sambandi benda á gagnaver, en staðsetning þeirra á svæðum þar sem lítil hætta er á jarðskjálftum er eftirsóknarverð. 

Ísafirði 21. apríl 2009
Með von um skjót viðbrögð

f.h. Ísafjarðarbæjar
Halldór Halldórsson, bæjarstjóri

f.h. Fjórðungssambands Vestfirðinga
Aðalsteinn Óskarsson, framkvæmdastjóri

f.h. Orkubús Vestfjarða
Kristján Haraldsson, Orkubússtjóri

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 9.12.2012 - 18:17 - Rita ummæli

Sveitarfélögin og stjórnarskráin

Þann 16. nóvember síðastliðinn lagði meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis fram frumvarp til stjórnskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Frumvarpið er að stærstum hluta byggt á tillögum Stjórnlagaráðs en við gerð þess var höfð hliðsjón af niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram fór í október og tillögum sérfræðinganefndar sem yfirfór tillögur Stjórnlagaráðs. Ljóst er að hér er um að ræða mál sem getur snert sveitarfélögin á margvíslegan hátt og er því vart við öðru að búast en að sveitarfélögin vilji fá tækifæri til að tjá sig um efni frumvarpsins.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur reynt eftir mætti að fylgjast með framvindu þessa máls undanfarin ár en hins vegar hefur sambandið aldrei átt beina aðkomu að málinu, t.d. var því ekki boðið að tilnefna fulltrúa í stjórnlaganefnd. Sambandið hefur hins vegar eftir megni reynt að koma á framfæri sjónarmiðum um tiltekna þætti málsins, m.a. á fundi með fulltrúum í stjórnlagaráði í júní 2011 og á fundi með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í nóvember sama ár.
Út úr því samráði kom ýmislegt jákvætt og er sá kafli frumvarpsins sem fjallar um sveitarfélögin til þess fallinn að styrkja stjórnskipulega stöðu sveitarstjórnarstigsins umtalsvert. Má í því sambandi sérstaklega vísa til nýrra ákvæða um nálægðarreglu í 106. gr. og samráðsskyldu við undirbúning lagafrumvarpa sem varða sveitarfélögin með beinum hætti í 108. gr.

Það er samt í raun fyrst núna, þegar frumvarp til stjórnskipunarlaga er lagt fram á Alþingi, sem talist getur tímabært að vinna heildstæða umsögn um þær tillögur sem felast í frumvarpinu. Þetta er ekki einfalt verkefni og í frumvarpinu eru fjölmörg umdeild ákvæði. Til að vinna vandaða umsögn þarf að fara yfir sjálft frumvarpið, skýringar við það og önnur gögn sem liggja til grundvallar frumvarpinu, þar á meðal álit sérfræðinganefndar sem falið var að yfirfara frumvarpstillögur Stjórnlagaráðs.
Vegna umfangs og mikilvægis málsins er hér ekki um að ræða verkefni sem hægt er að vinna á örfáum dögum, allra síst í því mikla annríki sem jafnan er í nóvember og desember vegna þingmála og lagafrumvarpa sem unnið er að í ráðuneytum. Nægir til áréttingar að benda á að frumvarpið ásamt skýringum við það er 252 blaðsíður.
Raunar hlýtur sama staða að vera uppi hjá þeim þingnefndum sem óskað er eftir að veiti umsögn um málið og hjá opinberum stofnunum og öðrum hagsmunaaðilum sem hljóta að þurfa að fjalla um málið. Að áliti sambandsins er raunhæfur umsagnarfrestur um svo viðamikið mál 6-8 vikur, jafnvel þótt verkefnið verði sett í forgang, en ljóst er að starfsmenn sambandsins eða einstakra sveitarfélaga geta ekki lagt öll önnur verkefni til hliðar á meðan málið er til umsagnar. Þannig eru fjölmörg mikilvæg frumvörp til umfjöllunar á Alþingi eða í lokaundirbúningi í ráðuneytum, svo sem frumvörp til laga um almenningssamgöngur, persónukjör í sveitarstjórnum og meðhöndlun úrgangs. Allt eru þetta mál sem skipta sveitarfélögin verulegu máli.

Einnig er ástæða til að benda á að þar sem frumvarpið er lagt fram af meirihluta þingnefndar fylgir því ekki umsögn um möguleg fjárhagsleg áhrif á sveitarfélögin, sbr. 129. gr. sveitarstjórnarlaga, þar sem kveðið er á um að umsögn skuli fylgja öllum stjórnarfrumvörpum sem geta haft fjárhagsleg áhrif á sveitarfélögin. Sambandið telur þó afar mikilvægt að slík umsögn verði unnin enda er augljóst að áhrif einstakra ákvæða stjórnskipunarlaga, t.d. um framfærslurétt, fræðslumál og fleiri atriði geta haft gríðarleg fjárhagsleg áhrif fyrir sveitarfélögin.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða hefur Samband íslenskra sveitarfélaga óskað eftir því við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis að rúmur umsagnarfrestur verði veittur sveitarfélögum og samtökum þeirra til að fjalla um frumvarpið. Svar hefur ekki ennþá borist við þessari beiðni sambandsins. Það er hins vegar alveg ljóst að sambandið mun ekki skila endanlegri umsögn sinni um frumvarpið fyrir 13. desember, eins og þingnefndin hefur óskað eftir. Það er einfaldlega eindregin afstaða af hálfu sambandsins að sýna verði því verkefni sem heildarendurskoðun stjórnarskrár íslenska lýðveldisins er, meiri virðingu en svo að gefa þeim, sem um málið þurfa að fjalla aðeins tveggja vikna umsagnarfrest.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 22.3.2012 - 19:33 - Rita ummæli

Sveitarstjórnarmál, 26. landsþing 23. mars

Árlega halda sveitarstjórnarmenn á Íslandi landsþing undir merkjum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Á morgun þann 23. mars höldum við landsþing á Hótel Natura (Loftleiðir). Þingið hefst kl. 9:30 og stendur allan daginn. Öll 75 sveitarfélögin á Íslandi eiga sína fulltrúa á landsþingum og alltaf er góð mæting.

Lýðræðismál, efling sveitarstjórnarstigsins og notendastýrð persónuleg aðstoð eru meginefni þingsins að þessu sinni. Við þurfum að ræða íbúalýðræði í samhengi við breytingar á sveitarstjórnarlögum og fleira sem er að gerast. Það er ekki allt sem sýnist í þessum málum og oft er umræðan á villigötum.

Í setningarræðu minni á morgun mun ég koma inn á þessu meginefni þingsins en einnig ræða tónlistarskólamálin sem við héldum að við hefðum leyst með samningi við ríkisstjórnina 13. maí í fyrra. Svo reyndist ekki vera því þrátt fyrir hátimbraðar yfirlýsingar fjögurra ráðherra við undirritunina fylgir hugur ekki máli. Fljótlega kom í ljós að endurskoða þurfti forsendur samningsins eins og rætt var um í aðdraganda hans og á undirritunardegi. Þá muna ráðherrarnir skyndilega ekki neitt.

Meira um þetta allt á landsþinginu og svo hugsanlega hér á síðunni seinna.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 6.2.2012 - 11:18 - Rita ummæli

Dagur leikskólans 6. febrúar

Leikskólar um allt land halda upp á Dag leikskólans í dag, 6. febrúar og bjóða aðstandendum leikskólabarna, sveitarstjórnarfólki og öðrum áhugasömum um leikskólastarfið að sækja þá heim.

Ísland er eina landið sem hefur veitt leikskólastiginu þann sess í skólakerfinu að skilgreina hann í lögum sem fyrsta skólastigið í skólakerfinu. Á undanförnum áratugum hefur staða  leikskólans í samfélaginu styrkst jafnt og þétt.  Lög og námskrár um leikskóla hafa verið skrifaðar til að tryggja leikskólabörnum sem best náms- og uppeldisskilyrði, menntun starfsfólks færð á háskólastig og faglegar kröfur til starfs leikskóla hafa aukist.  Gerð er mikil krafa til leikskóla og er ekki annað að sjá en að stjórnendur og starfsfólk þeirra standi vel undir þeim kröfum enda er starfsstéttin metnaðarfull.

Dvalartími barna á leikskóla er misjafnlega langur.  Skólaskýrsla Sambands íslenskra sveitarfélaga 2011 sýnir að undanfarin þrettán ár hefur dagleg viðvera barna á leikskóla lengst mjög mikið og stöðugt fleiri börn dvelja í 7-8 klukkustundir eða meira á leikskóla á degi hverjum. Þannig dvöldu 43% leikskólabarna í 7-8 klukkustundir eða lengur árið 1998 en 89% árið 2010.  Þá er aukning í ásókn í þjónustu leikskóla, en árið 1998 sóttu 69% barna á aldrinum 1-5 ára leikskóla en það hlutfall er komið upp í 82% árið 2010. 
Aldurssamsetning leikskólabarna hefur breyst þannig að fleiri börn tveggja ára og yngri dvelja nú á leikskólum en áður.
Mikill meirihluti barna ver daglega meiri tíma með starfsfólki leikskóla en með foreldrum eða öðrum uppalendum.  

Ábyrgð leikskólanna er því mikil og áríðandi að þar starfi gott og vel menntað starfsfólk. Það er því afar gleðilegt að sjá hversu ánægðir foreldrar eru með starfsemi leikskólanna í landinu samkvæmt viðhorfskönnunum. Þar kemur fram að 90-95% foreldra lýsa yfir ánægju sinni með þjónustuna. Sveitarfélögin geta verið stolt af slíkri niðurstöðu. Alltaf má þó gera betur og mikilvægt er að sveitarfélögin og aðrir rekstraraðilar leikskóla hugi vel að umhverfi barnanna og öryggi þeirra í því vinnuumhverfi sem þeim er búið. 

Samband íslenskra sveitarfélaga tekur nú þátt í stefnumótunarvinnu til að finna leiðir til þess að efla leikskólana, m.a. með því að auka áhuga á leikskólakennaranámi og jafna hlutfall karla og kvenna sem starfa á leikskólum. Það er áhyggjuefni að nýnemum í leikskólakennaranámi hefur fækkað um 40% frá árinu 2007 og er m.a. þörf á að kanna hvort lög sem samþykkt voru árið 2008 um lengingu kennaranáms hafi aukið á þetta vandamál. Í aðdraganda þeirra lagasetningar taldi sambandið ástæðu til þess að opna í ríkara mæli fyrir raunfærnimat við inntöku í leikskólakennaranámið og auka einnig möguleika ófaglærðs starfsfólks með langa og góða starfsreynslu til þess að sækja sér styttri, hagnýta menntun sem gæfi tiltekin starfsréttindi. Það er enn óbreytt skoðun undirritaðs að þessa tillögu sambandsins hefði átt að nýta betur.

Full ástæða er samt til þess að vekja athygli framhaldsskólanema og atvinnuleitenda á því að leikskólakennaramenntun er nám sem veitir lögvarin starfsréttindi og atvinnumöguleikar eru mjög góðir að námi loknu. Sérstaklega vil ég hvetja unga karlmenn til þess að íhuga þennan valkost þegar þeir velja sér háskólanám. Reynslan sýnir að ungir karlar sem koma til starfa í leikskóla meðfram námi í framhaldsskóla eru líklegir til þess að sækja sér leikskólakennaramenntun eftir jákvæða upplifun af leikskólastarfinu. Sveitarfélögin ættu því að kynna leikskólastarfið betur fyrir bæði piltum og stúlkum, hvetja leikskólastjóra til þess að ráða karlmenn til starfa og bjóða upp á kynningu í grunn- og framhaldsskólum, t.a.m. í tengslum við starfsfræðslu og starfskynningar í efstu bekkjum grunnskóla.

Að lokum vil ég hvetja alla sem koma að málefnum leikskólans, hvort sem það eru stjórnendur, starfsfólk eða foreldrar og sveitarstjórnarfólk, til að vera dugleg að heimsækja leikskólana sína í tilefni dagsins. Undirritaður og Haraldur F. Gíslason formaður Félags leikskólakennara ætla að heimsækja Leikskólann Hof í Reykjavík í tilefni dagsins.

Halldór Halldórsson
formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 4.1.2012 - 20:21 - 2 ummæli

Til vinnu

Í upphafi árs vil ég óska þess að árið 2012 verði okkur gæfuríkt og uppbyggilegt. Það er jafnframt ósk mín að umræðan í samfélaginu verði áfram gagnrýnin, helst gagnrýnni en verið hefur, en laus við skítkast og upphlaup sem alltof algengt er. Leggjum áherslu á málefnin.

Ég læt nýjasta leiðara minn í Sveitarstjórnarmál hér inn á vefinn. Hann fjallar um atvinnu, atvinnuleysi, félagslega öryggisnetið og mikilvægi þess að nýta tækifærin sem við höfum en erum ekki að nýta nægjanlega vel.

Leiðari desember 2011

Hlynnum arði í jurtagarði,
yndi best er það,
hress í hlýjum klæðum
hrósum landsins gæðum,
hollt er heima hvað.

Svo orti Halla Eyjólfsdóttir á Laugabóli í Ísafirði við Djúp fyrir meira en 60 árum síðan. Hún orti ófá ljóðin sem sum hver fljúga enn eftir að nágranni hennar Sigvaldi Kaldalóns ljáði þeim vængi með lögum sínum.

Þetta orti Halla í tilefni af erfiðum tímum, fjárskorti, vöruskorti og fátækt sem var víða mikil á þeim tíma. Þó langt sé síðan eiga þessi orð einstaklega vel við í dag og ávallt. Við erum nefnilega rík af landsins gæðum og eigum að vera stolt af því og nýta okkur það þó þjóðin hafi orðið fyrir áfalli og sé enn að vinna sig út úr því.

Við getum gert enn betur úr okkar landsins gæðum og megum ekki verða of kreddufull varðandi nýtingu sjálfbærra náttúruauðlinda okkar. Tækifærin eru þrátt fyrir allt mjög mikil í þessu landi. Það er einstakt í okkar tilfelli að okkar gæði getum við nýtt að svo miklu leyti með sjálfbærum hætti, framleitt orku, nýtt fiskistofna og skapað innlend verðmæti í ríkari mæli en við gerum í dag. En um leið og þetta er sagt skulum við hafa hugfast að í því tilliti erum við ekki eyland. Við þurfum markað fyrir okkar vöru, ferðalanga frá öðrum löndum, viðskiptavini af öllum toga. Þess vegna eru okkar hagsmunir ekki síður en nágranna okkar í öðrum löndum að vel gangi hjá þeim.

Frekari verðmætasköpun er okkur svo mikilvæg vegna þess að enn vantar of marga vinnu og enn erum við að sjá þörfina fyrir félagslega aðstoð aukast. Sveitarfélög hafa lagt sig fram við að halda félagslega netinu, öryggiskerfinu okkar, þéttriðnu þrátt fyrir efnahagsleg áföll. Liður í því er samkomulag um átak fyrir atvinnulausa á næsta ári. Samkomulagið kemur í veg fyrir hugmyndir ríkisvaldsins um að fella fólk af atvinnuleysisskrá í 3 mánuði árið 2012. Samband íslenskra sveitarfélaga barðist gegn þeim hugmyndum enda þarf atvinnulaust fólk atvinnuúrræði en ekki neyðaraðstoðina sem fólgin er í fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna. Við þurfum að koma fólki út á atvinnumarkaðinn. Átakið ,,Til vinnu” er aðferð til þess en hún er tímabundin og við verður að taka sjálfbært atvinnulíf sem bætir við sig starfsfólki vegna aukinnar verðmætasköpunar. Til að það geti orðið verðum við að nota þau tækifæri sem Ísland býr yfir íbúum þess til heilla.

Ég sendi sveitarstjórnarfólki, fjölskyldum þess og landsmönnum öllum hugheilar jóla- og nýárskveðjur með þökkum fyrir gott samstarf á árinu 2011.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 18.10.2011 - 08:02 - 1 ummæli

Pólitískt vandamál

Nú sit ég sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins í Strasbourg. Þau eru haldin tvisvar á ári. Ísland á þrjú sæti í þessum hluta Evrópuráðsins (The Congress of Local and Regional Authorities of the Council of Europe). Mér finnst umræðan mjög oft merkilega lík því sem við þekkjum á Íslandi um mörg mál. Í morgun hefur staðið yfir umræða um samskipti ríkis og sveitarstjórnarstigs. Hver ræðumaðurinn á fætur öðrum, frá ótal löndum í Evrópu, hefur staðið hér upp og lýst yfir vandamálum vegna kreppunnar og um leið vandamálum í samskiptum við ríkisvaldið.

Og hver eru þessi vandamál í samskiptum við ríkisvaldið. Jú því er lýst með svipuðum hætti og ég lýsti í setningarræðu minni á Fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í síðustu viku. Það snýst mikið um vald ríkisins og skort á samráð um fjölmörg mál. Það snýst um viðhorf og skort á virðingu fyrir kjörnum fulltrúum á sveitarstjórnarstiginu.

Sumt af því sem hér hefur verið sagt gæti ég tekið undir en sem betur fer eru gleðilegar undantekningar varðandi þessi samskipti. Ég tel að nýsamþykkt sveitarstjórnarlög muni hjálpa okkur í því sambandi. Þar skiptir t.d. miklu máli að nú er lagaskylda að meta afleiðingar laga og reglugerða á fjárhag sveitarfélaga.

Sumir sem tóku til máls hér í morgun sögðu að samskipti ríkis og sveitarfélaga væru pólitískt vandamál og vandamál hugarfarsins. Ég vona að við séum á réttri leið á Íslandi með þessi samskipti eins og ég sagði á Fjármálaráðstefnunni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 12.10.2011 - 13:41 - Rita ummæli

Fjármálaráðstefna 13. og 14. okt.

Á morgun, 13. október kl. 10:00 verður árleg fjármálaráðstefna sveitarfélaganna sett. Fulltrúar sveitarfélaganna hringinn í kringum landið koma til tveggja daga ráðstefnu til að fjalla um stöðu sveitarfélaganna, stöðu ríkissjóðs, fjárlög, fjárhagsáætlanir og framtíðarhorfur. Það er áhugavert fyrir fjölmiðlafólk að fylgjast vel með fjármálaráðstefnunni og þeim upplýsandi erindum sem þar verða flutt. Oft er fjallað um rekstrarstöðu sveitarfélaga í fjölmiðlum og þarna gefst upplagt tækifæri til að fá mikið af upplýsingum á tiltölulega stuttum tíma.

Að öllu jöfnu hafa sveitarstjórnarmenn verið ánægðir með fjármálaráðstefnur, telja að þær skili miklum upplýsingum og leggi þannig inn í þá miklu vinnu sem nú stendur yfir í sveitarfélögunum við fjárhagsáætlun ársins 2012.

Hefð er fyrir því að fjármálaráðherra ávarpi fjármálaráðstefnu og taki þátt í umræðum. Af og til kemur forsætisráðherra líka með ávarp og það mun forsætisráðherra okkar gera á morgun.

Mörg áhugaverð erindi verða flutt, m.a. um stöðu sveitarfélaganna í dag og getu þeirra til að ná skuldum niður fyrir 150% markið á næstu 10 árum eins og skylt verður skv. nýsamþykktum sveitarstjórnarlögum. Staða sveitarfélaganna er mjög misjöfn og því er sérlega áhugavert að fylgjast með erindi á borð við þetta þar sem tölulegar staðreyndir eru bornar á borð. Þær sýna að staða íslenskra sveitarfélaga er vel viðráðanleg þegar á heildina er litið.

Ýmis fyrirtæki og einstaklingar hafa fengið ákveðna lagfæringu mála sinna vegna erlendra lána en það hefur ekki átt við um sveitarfélögin sem eru að takast á við þau mál eftir bestu getu. Þegar hrunið verður er ríkissjóður því sem næst skuldlaus en því miður voru sveitarsjóðir margir hverjir mjög skuldsettir eftir mikla uppbyggingu og fjárfestingu í þeim sveitarfélögum. Fyrir hrun kölluðum við það vaxtarsveitarfélög. Þegar þetta er haft í huga er ekki óeðlilegt að við þurfum að gefa okkur tíma til að ná fyrri stöðu með niðurgreiðslu skulda og verulega aðhaldi í rekstri.

Aukinn hagvöxtur myndi hjálpa sveitarfélögum og þjóðfélaginu öllu við að komast hraðar út úr núverandi ástandi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 27.9.2011 - 14:08 - Rita ummæli

Sveitarfélögin og stjórnarskrá

Neðanritað er leiðari sem ég skrifaði í síðasta tbl. Sveitarstjórnarmála.

Í lok júlí afhenti stjórnlagaráð forseta Alþingis frumvarp til stjórnskipunarlaga. Rétt eins og skoðanir hafa verið skiptar um skipan stjórnlagaráðs verður án efa hart deilt um ýmsar þeirra tillagna sem settar eru fram í skjalinu, t.d. um náttúruauðlindir og um hlutverk forseta Íslands.

Þó skoðanir séu skiptar innan stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga um þörf þess að endurskoða stjórnarskrána og niðurstöðu stjórnlagaráðs þá var að sjálfsögðu fylgst með störfum þess og þá einkum mótun ákvæða um sveitarfélögin.  Fulltrúar sambandsins og stjórnlagaráðs funduðu sérstaklega um þau ákvæði og var það tækifæri nýtt til þess að kynna þær áherslur á sjálfsstjórnarrétt sveitarfélaga sem fram koma í Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga. Einnig var rætt um megináherslur í frumvarpi til nýrra sveitarstjórnarlaga, sem nú liggur fyrir Alþingi.

Í sjöunda kafla frumvarps að nýrri stjórnarskrá er að finna mun ítarlegri ákvæði um sveitarfélögin en í gildandi stjórnarskrá. Sveitarfélögin fá því umtalsvert meira vægi og sterkari stöðu gagnvart ríkisstjórn og Alþingi í stjórnarskránni ef tillögur stjórnlagaráðs ná fram að ganga. Nýmæli koma fram í 106. og 108. gr. frumvarpsins. Í fyrrnefnda ákvæðinu er kveðið á um svonefnda nálægðarreglu og hljóðar greinin svo: Á hendi sveitarfélaga, eða samtaka í umboði þeirra, eru þeir þættir opinberrar þjónustu sem best þykir fyrir komið í héraði svo sem nánar skal kveðið á um í lögum. Síðarnefnda greinin fjallar um samráðsskyldu ríkisins við sveitarfélögin og hljóðar hún svo: Samráð skal haft við sveitarstjórnir og samtök þeirra við undirbúning lagasetningar sem varðar málefni sveitarfélaga.

Það sem einkum vantar upp á að evrópusáttmálinn geti talist að fullu innleiddur hér á landi er að sveitarfélög geta ekki borið undir dómstóla meint brot gegn sjálfsstjórnarréttinum, sbr. 11. gr. sáttmálans. Á þetta atriði var sérstaklega bent í erindi sambandsins til stjórnlagaráðs en stjórnlagaráð virðist ekki hafa gert sér grein fyrir mikilvægi þessa og leggur ekki fram tillögur að breytingum í frumvarpinu.

Það hlýtur að vera sameiginlegt markmið sveitarstjórna um land allt að sjálfsstjórnarrétturinn verði viðurkenndur á sem gleggstan hátt í nýrri stjórnarskrá, þótt jafnframt verði að virða þá skoðun sem fjölmargir hafa lýst, að stjórnskráin sé ágæt eins og hún er. Sambandið mun því væntanlega árétta framangreind tvö atriði í umsögn sinni til Alþingis og fylgja þeim sjónarmiðum eftir við þau tækifæri sem gefast á komandi mánuðum og misserum. Svo er að sjá hvernig Alþingi vinnur úr framkomnum hugmyndum stjórnlagaráðs. Þar og síðan hjá þjóðinni liggur valdið til breytinga á stjórnarskrá, stjórnlagaráð hefur einungis stöðu ráðgefandi nefndar í stjórnarskrármálinu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 25.9.2011 - 22:02 - 2 ummæli

Hjúkrunarheimili

Það er fagnaðarefni að fleiri hjúkrunarheimili verði byggð á næstu misserum hér á landi. Víða hefur verið barist fyrir bættri aðstöðu þeirra sem þurfa að dvelja á hjúkrunarheimili. Sveitarfélög hafa lagt fram áætlanir og beiðnir um fjármagn frá ríkinu til byggingar hjúkrunarheimila og til rekstrar þeirra. Þetta er verkefni sem ríkið á skv. lögum að sinna þó sveitarfélögin eigi að koma að því í litlum mæli. Þrátt fyrir að þetta sé verkefni ríkisins eru mörg dæmi þekkt um að sveitarfélög hafi orðið að taka á sig stærri hluta rekstrar en reiknað er með vegna þess að ríkið heldur sig við fastar og fyrirfram ákveðnar fjárhæðir en sveitarfélögin klára svo málið þrátt fyrir að í raun sé það ekki þeirra hlutverk.

Um þessar mundir er umræða um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að heimila nokkrum sveitarfélögum að byggja hjúkrunarheimili. Þetta er ánægjuleg ákvörðun og ekki að heyra annað en að flestir ef ekki allir séu ánægðir með að bæta eigi aðstöðu á þessum stöðum. Hins vegar hefur verið umræða um aðferð ríkisins við fjármögnun þessara hjúkrunarheimila. Ég talaði sjálfur um þetta í viðtali í sjónvarpinu þann 17. september sl.

Tilefni þessarar umræðu er sú staðreynd að ríkið er að fara sömu leið og sum sveitarfélög fóru fyrir nokkrum árum og var mjög gagnrýnd. Þ.e. að láta annan byggja og skuldsetja sig en greiða framkvæmdina til baka á ákveðnum árafjölda. Nokkur sveitarfélög gerðu þetta með samningum við fyrirtækið Fasteign sem þau áttu jafnframt hlut í og greiddu leigu til þess fyrirtækis en áttu ekki eignirnar. Þessi sveitarfélög sýndu skuldbindingu ekki með öðrum hætti í ársreikningi en með athugasemdum. Þessu var svo breytt hjá sveitarfélögunum og gert skylt að birta skuldbindinguna með öðrum skuldum í efnahagsreikningi.

Hins vegar er ríkið ekki að gera þetta og það hefur verið gagnrýnt. Ég kalla þetta tvískinnung í viðtalinu 17. september. Þó aðferðin sé gagnrýnd og bent á þennan tvískinnung, þ.e. að annars vegar voru sveitarfélögin gagnrýnd og reglum breytt en sömu aðferð og gagnrýnt var að sveitarfélögin notuðu er svo beitt ríkismegin. Ég get ekki merkt í þessari gagnrýni að nokkur vilji vinna gegn því að hjúkrunarheimili verð byggð eins og t.d. Björn Valur alþingismaður er að tala um í nýlegum skrifum sínum. Það er einungis verið að tala um aðferðina við fjármögnun og hvernig ríkið færir skuldbindinguna í sínum reikningum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur