Þriðjudagur 4.1.2011 - 22:52 - 2 ummæli

Ekki eru stóru orðin spöruð.

Staðsetning og mengun.
Það hefur ýmislegt verið sagt og skrifað um sorpbrennslustöðina Funa í gegnum árin. Trúlega eru flestir sammála því að stöðin var reist á óheppilegum stað á sínum tíma innst í hinum lognkyrra Skutulsfirði. Þegar sú ákvörðun var tekin voru þáverandi bæjarfulltrúar vissir um að stöðin mengaði ekki og gæti þess vegna verið inni í bænum á milli húsa eins og sorpbrennslustöðvar eru víða erlendis. Þá hafði það áhrif að fólk vildi nýta orku frá stöðinni til hitunar húsa. Þessi ákvarðanataka er reyndar fyrir mína tíð sem íbúa í Ísafjarðarbæ en ég hef lesið fundargerðir og blaðagreinar frá þessum tíma.

Brennsla áfram eða urðun?
Það hefur legið fyrir að Funa yrði að endurnýja eða hætta yrði brennslu og fara aðrar leiðir. Á síðasta kjörtímabili var ákvarðanataka undirbúin með skipan sorpnefndar sem lagði til að Funi yrði endurnýjaður. Þáverandi meirihluti var ekki sannfærður um þessa leið og vildi frekar bera saman kosti með útboði á frekari flokkun, endurvinnslu og urðun. Þáverandi minnihluti var ekki sáttur við þessa leið og lagði til að Funi yrði endurnýjaður og ekkert beðið með það. Undirritaður sagði ítrekað í tengslum við þá umræðu að útboð yrði að ráða endanlegri niðurstöðu en ég setti fyrirvara við endurbyggingu Funa því ég hefði ekki trú á því að hægt væri að endurbyggja Funa þannig að við losnuðum við þá mengun og sjónmengun sem væri okkur þyrnir í augum. Þessi ummæli má heyra á fleiri en einni upptöku af bæjarstjórnarfundum.

Núverandi bæjarstjórn hefur svo komist að þeirri niðurstöðu eftir útboð að flokkun og endurvinnsla verði aukin og það sem eftir verður fari til urðunar.

Upplýsingar um mælingar.
Áhyggjur af mengun hafa verið til staðar og margoft fjallað um hana og mælingar í fjölmiðlum og í fundargerðum umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar.

Í flestum tilvikum hefur verið fjallað um þá sjónmengun sem fylgt hefur Funa þegar reykur fyllir fjörðinn við ákveðin veðurfarsskilyrði og áhyggjum lýst af því að um hættulega mengun væri að ræða. Sérfræðingar útskýrðu að um einhvers konar ljósbrot væri að ræða og vísuðu svo til mælinga sem í langflestum tilvikum voru innan leyfilegra marka skv. starfsleyfi Funa. Þetta má lesa um í fjölmiðlum því fréttir um Funa hafa í gegnum árin verið mjög algengar og oft hægt að vitna í þessar upplýsingar á vef Funa.

Díoxín var ekki mælt vegna þess að starfsleyfi Funa og fleiri brennslustöðva á landinu gerir ekki ráð fyrir slíkum mælingum.

Díoxínmæling.
Mæling á díoxíni og lágmark þess efnis er ekki í starfsleyfi Funa. Ísland fékk undanþágu frá slíkum reglum og var Funi meðal þeirra sem þurfti ekki að uppfylla skilyrði varðandi díoxín.

Á vef Umhverfisstofnunar má lesa þetta: ,, Umhverfisstofnun tók saman skýrslu árið 2010 um útstreymi þrávirkra lífrænna efna þar sem m.a. kemur fram að dregið hefur úr heildarlosun díoxíns á Íslandi um 66% frá 1990 til ársins 2008 og um 82% í sorpbrennslu og úrgangsmeðhöndlun.“

Skoðið bls. 22 sem sýnir að mesta díoxínmengunin er á Suðvesturlandi.

Á vef Umhverfisstofnunar má líka sjá þetta:

Díoxínmæling Díxoínmæling 2007 (ng/m3) Metin árslosun 2008 miðað við viðmiðunarstaðla (g I-TEQ)
Vestmannaeyjar 8,4 0,338
Skutulsfjörður 2,1 0,087
Kirkjubæjarklaustur 9,5 0,020
Svínafell 0,020

Þarna má sjá að langminnst af díoxíni af þessum stöðvum kemur frá Funa. Þá kemur líka í ljós að metin árslosun er mun minni frá Funa en í Vestmannaeyjum. Taka ber skýrt fram að allar þessar stöðvar eru undanþegnar díoxínmælingum skv. starfsleyfum þeirra.

Nú hefur komið í að díoxín hefur mælst í mjólk á bænum Engidal sem er rétt hjá Funa. Ekki er lengur tekið við mjólk frá bænum og málið er í rannsókn. Fram kom hjá forstjóra Umhverfisstofnunar í Kastljósi Sjónvarpsins 4. janúar að niðurstaða rannsókna kæmi ekki í ljós fyrr en eftir mánuð. Málið er því í höndum sérfræðinga sem munu rannsaka hversu mikið tjón getur hafa hlotist af mengun frá Funa. Þetta er alvarlegt mál sem ber að nálgast faglega og án upphrópana þar til heildarmyndin er ljós.

Stóru orðin
Þegar það kemur í ljós að díoxín hefur mælst í mjólk í Engidal er brugðist við á ýmsum stöðum.

Bæjarstjórn ákveður að loka Funa strax en ekki þremur vikum síðar eins og áætlað var.

Umhverfisráðherra kallar eftir upplýsingum frá Umhverfisstofnun og tekin er ákvörðun um að gefa tveggja ára aðlögun að díoxínkröfum hjá þeim stöðvum sem eru undanþegnar. Funi er ein þeirra stöðva sem má vera í rekstri tvö ár í viðbót skv. þessari ákvörðun en það skiptir ekki máli þar sem stöðin hefur verið stöðvuð.

Þingmaður Norðvesturkjördæmis Ólína Þorvarðardóttir óskar eftir fundi um málið í umhverfisnefnd Alþingis.

Þessi viðbrögð eru að mínu mati til mikillar fyrirmyndar. Farið er yfir málið frá öllum hliðum.

En þessu til viðbótar skrifar þingmaðurinn Ólína greinar um mengunarhneykslið og lætur það ekki nægja heldur gefur í skyn að Ísafjarðarbær hafi tekið rekstur Funa og fjárhagslega hagsmuni fram yfir hag og heilsu íbúanna. Hún bætir við umhyggju fyrir rekstraraðila Funa en það eru ummæli sem maður skilur ekki alveg því rekstraraðili Funa er Ísafjarðarbær.

Ég skil þessi ummæli í greinum og viðtölum þannig að hún sé að fullyrða að þáverandi bæjarstjórn og bæjarstjóri hafi látið fjárhagslegar forsendur ráða ferð en ekki hagsmuni íbúanna, þarna tekur þingmaðurinn mjög sterkt til orða um kjörna fulltrúa og embættismenn Ísafjarðarbæjar. Því til viðbótar fullyrðir hún um heilsufarsvandamál sem gæti skapað ótta hjá fólki án þess að málið hafi verið rannsakað að fullu.

Þessi viðbrögð eru ekki til fyrirmyndar, þetta eru upphrópanir sem geta ekki þjónað neinum tilgangi öðrum en þeim að hræða fólk. Það er ábyrgast á þessu stigi að stilla öllum fullyrðingum í hóf.

Nú þegar eru miklar upplýsingar til um málið, t.d. samanburður við aðrar brennslustöðvar eins og í töflunni í þessari grein og í frétt á mbl.is í dag, 4. janúar.

Hvað ætlar þingmaðurinn að segja við íbúa í Vestmannaeyjum og á Kirkjubæjarklaustri? Stöðin á Kirkjubæjarklaustri er í íþróttahúsinu og hitar upp sundlaugina. Hún mælist með 9,5 en Funi 2,1. Hvað ætlar þingmaðurinn að segja um sveitarstjórnir þessara byggðarlaga og eftirlitsaðila?

Verður það 4,5 sinnum meira en hún hefur þegar látið flakka um bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar og eftirlitsaðila?

Kastljós 4. janúar.
Kristín Linda Árnadóttir forstjóri Umhverfisstofnunar sat fyrir svörum ásamt Daníel Jakobssyni bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar. Hún sagði frá fundi með sóttvarnarlækni og Matvælastofnun, þar hafi komið fram að engin merki séu um að heilsa fólks á svæðinu sé í hættu. Ég skildi hana þannig að þar með væri ekki verið að útiloka að eitthvað geti hafa gerst heldur að það sé ólíklegt.

Hún sagði líka frá því að fólk andar ekki díoxíni að sér heldur borðar það, t.d. í feitum fiski. Það kom líka fram að díoxín er alls staðar í umhverfinu. Og hún sagði að Umhverfisstofnun legði áherslu á ábyrga umræðu um þessi málefni.

Það er ekki vanþörf á að taka undir þessi orð.

Halldór Halldórsson
fv. bæjarstjóri

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 2.1.2011 - 21:03 - 1 ummæli

Karp eða umræða?

Ætli skoðanaskipti á Íslandi séu með öðrum hætti en í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við? Eða í öðrum löndum yfirleitt? Ég velti þessu fyrir mér vegna þess að oft finnst manni umræðan í vefheimum vera ómálefnaleg og beinlínis vond. A.m.k. á þetta við um ýmsar athugasemdir sem koma við fréttir og bloggfærslur. Ég fyrir mitt leyti les þetta helst ekki. Er þetta kannski svona alls staðar? Erum við jafn málefnaleg og nágrannar okkar í öðrum löndum eða erum við þjóðflokkur sem getur ekki komið sér saman um nokkurn skapaðan hlut og tökum allt persónulega?

Svo velti ég fyrir mér hversu stór hluti þjóðarinnar það er sem tekur þátt í opinberri umræðu. Er það hálft prósent eða eitt prósent? Mér segir svo hugur að það sé mikill minnihluti sem tekur þátt því stundum sér maður bloggara rífast við sjálfa sig eða því sem næst.

Þessar vangaveltur komu upp í hugann þegar ég velti fyrir mér pólitískri umræðu sem framundan er árið 2011. Mér leiðist karp og skítkast en ég vil gjarnan að sem flestir setji fram uppbyggilega gagnrýni og sem flestar uppbyggilegar hugmyndir. Ég skrifa t.d. af og til um sjávarútvegsmál og mínar skoðanir á þeim. Það sem ég set þar fram eru mínar skoðanir á þeim málaflokki en þeir sem setja athugasemdir sínar undir þær greinar mínar falla ansi oft í þá gryfju að merkja mig þar með einhverjum hagsmunum eða hagsmunahópum. Það er byggt á misskilningi þeirra sjálfra en er kannski hugsað til að afvegaleiða umræðuna og gera mín rök og skoðanir ómerkilegri en annarra. Ég spyr mig a.m.k. þeirrar spurningar.

Mig langar sem sagt til að sjá uppbyggilegri umræða árið 2011. Sem mesta gagnrýni en hún á að vera uppbyggilega og til gagns ekki til að ,,taka niður“ einhverja einstaklinga hvort sem maður er sammála þeim eða ekki.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 1.1.2011 - 13:12 - Rita ummæli

Markmiðið er að gera betur

Þennan leiðara skrifaði ég í nýjasta hefti Sveitarstjórnarmála sem komu út rétt fyrir jólin:

Heildarsamkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um yfirfærslu þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga var undirritað þann 24. nóvember sl. Sú þjónusta sem ríkið hefur veitt fötluðu fólki samkvæmt lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðra færist því til sveitarfélaganna frá og með 1. janúar 2011.

Yfirfærsla á þjónustu við fatlaða frá ríkinu til sveitarfélaganna hefur verið á dagskrá sveitarstjórnarfólks um langt árabil og því er gleðiefni að hún sé loksins að verða að veruleika. Með flutningnum fer fram viðamesta endurskipulagning á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga frá því að rekstur grunnskólanna var fluttur yfir til sveitarfélaganna árið 1996.

Yfirfærslan er ferli sem hefst á nýju ári og tekur við af vönduðu ferli sem unnið hefur verið frá því í mars 2007 en þá hóf verkefnisstjórn störf sín. Sveitarstjórnarmenn hafa lært mikið af yfirtöku grunnskólans á sínum tíma. Þegar litið er á þann flutning í heild sinni er óhætt að fullyrða að vel hafi tekist til. Hins vegar er ljóst að sveitarfélögum var ekki gefinn nægilegur kostur á að aðlaga þá starfsemi innan lagaramma heldur eru lög og reglugerðir mjög íþyngjandi fyrir sveitarfélögin varðandi rekstur grunnskólans og voru frá fyrsta degi. Það er mikilvægt að hið háa Alþingi og ríkisstjórn séu þess minnug að sveitarfélögum stýra fulltrúar sem íbúarnir velja og þeim er vel treystandi til þess að gera vel í þjónustu við íbúana. Ekki þarf að negla allt niður í lagaramma sem erfitt getur reynst að starfa innan. Stundum getur kerfið snúist meira um sjálft sig en þá sem skipta öllu máli, þ.e.a.s. þá sem þjónustunnar eiga að njóta.

Meðal þess sem komið er í reynslubankann er að semja um endurmat á forsendum eftir að ákveðinn tími er liðinn. Það atriði er tryggt við yfirfærsluna nú því árið 2014 mun fara fram heildarmat á faglegum og fjárhagslegum þáttum yfirfærslunnar. Það er að mínum dómi eitthvert mikilvægasta atriði samkomulagsins.

Markmiðið með yfirfærslunni er að eitt stjórnsýslustig beri faglega og fjárhagslega ábyrgð á stærstum hluta almennrar félagsþjónustu. Í öðru lagi er yfirfærslunni ætlað að styrkja sveitarstjórnarstigið og einfalda verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Síðast en ekki síst er markmiðið að bæta þjónustu við fatlaða og auka möguleikana á að laga hana að þörfum notenda með hliðsjón af ólíkum aðstæðum.

Við Íslendingar erum aðilar að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra en honum er ætlað að tryggja fötluðum sama aðgang að samfélaginu og öðrum. Markmið samningsins eru að stuðla að því að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra, jafnframt því að vernda og tryggja slík réttindi og frelsi, og að auka virðingu fyrir mannlegri reisn þeirra. Sveitarfélögunum gefst nú kærkomið tækifæri til þess að bæta aðgengi og þjónustu við fatlað fólk í nærumhverfi sínu. Því má segja að yfirfærsla málaflokksins sé mikilvægt skref í réttindamálum fatlaðra.

Starfumhverfi starfsmanna sveitarfélaga er fjölbreytilegt og mun auðgast enn frekar um áramótin því við yfirfærslu málaflokksins fá um 1.400 ríkisstarfsmenn nýjan vinnuveitanda hjá viðkomandi sveitarfélögum. Þeir verða dýrmæt viðbót við þann öfluga starfsmannahóp sem nú þegar sinnir velferðarþjónustu sveitarfélaga og býð ég þá hjartanlega velkomna í hópinn.

Tíminn mun leiða í ljós hversu vel tekst til við þessa viðamiklu yfirfærslu. Ljóst er að verkefnið er krefjandi fyrir sveitarfélögin í landinu, væntingar eru mjög miklar en ég heyri samt á fólki að það gerir sér grein fyrir því að yfirfærslan tekur tíma og ekki er hægt að gera allt í einu. Það bendir þó allt til þess að sveitarfélögin, sem flest hver starfa saman á þjónustusvæðum, muni standa sig vel í þessu nýja hlutverki.

Ég óska íbúum, kjörnum fulltrúum og starfsfólki sveitarfélaga um land allt velfarnaðar, árs og friðar.

Halldór Halldórsson
formaður

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 11.12.2010 - 18:28 - 2 ummæli

Þröskuldar Vegagerðarinnar

Þessi grein var birt á bb.is og strandir.is fyrir nokkru síðan. Nafngift Vegagerðarinnar á þessari nýju leið okkar sem ökum mikið til og frá Ísafirði hefur ekki enn náð sátt við mig a.m.k.

Alltof oft finnst mér að Vegagerðin taki upp nöfn á vegi eða leiðir sem ekki eru í takt við almenna vitund, staðarþekkingu heimamanna, hefð eða almenna umræðu.

Á sínum tíma fannst mér t.d. undarlegt að ákveða að hætta að tala um Hestakleif sem leiðina milli Ísafjarðar og Mjóafjarðar og fara að tala um Eyrarfjall. Hestakleifin fannst mér hljóma vel, nafnið hafði verið notað lengi en Vegagerðin gerði sitt til að breyta því. Í dag skiptir þetta ekki öllu máli því sem betur fer höfum við fengið betri veg í stað leiðarinnar sem kölluð var Hestakleif en Vegagerðin vildi endilega kalla Eyrarfjall.

Ég man eftir tilraunum Vegagerðarinnar til að hætta að tala um Bröttubrekku og nota eitthvað allt annað heiti. Komið var í veg fyrir það sem betur fer en ég man að það kostaði töluverð átök og blaðaskrif.

Nú ætlar Vegagerðin sér að breyta heitinu á leiðinni um Arnkötludal og Gautsdal. Og það þarf endilega að kalla leiðina Þröskulda eftir örnefni hæst á leiðinni. Undirstrika að þetta sé leið um þröskulda sem í huga fólks þýðir fyrirstaða. Margir muna eftir slagorðinu: ,,Þjóðfélag án þröskulda.“ Það var sett fram til að undirstrika þörf fyrir bætt aðgengi. Fjarlægja þröskuldana, þá batnar aðgengið. En Vegagerðin vill endilega hafa þröskuldana.

Undirritaður sendi línu á starfsmann Vegagerðarinnar og lýsti óánægju með þessa nafngift. Sá góði maður svaraði því til að þetta væri ekki ákveðið, fólk þyrfti að venjast ólíkum hugmyndum um nöfn o.s.frv. En þegar maður fer inn á síðu Vegagerðarinnar þá er nafnið Þröskuldar þar. Það er ekkert verið að gefa okkur færi á að venjast nafninu, það er búið að ákveða þetta.

Með þessu er valtað yfir samhljóða samþykktir sveitarstjórna Reykhólahrepps og Strandabyggðar og virt að vettugi nafnið sem fékk lögbundna kynningu í matsskýrslu um umhverfisáhrif Arnkötludalsvegar.

Ég legg til að Vegagerðin hlusti á heimamenn og noti Arnkötludalsnafnið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 3.12.2010 - 20:13 - Rita ummæli

Yfirfærsla á málefnum fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga – upplýsingavefur

Með undirritun heildarsamkomulags milli ríkis og sveitarfélaga um flutning á málefnum fatlaðra er framundan metnaðarfullur og mikilvægur flutningur á stóru þjónustuverkefni sem varðar fatlaða einstaklinga í þessu landi og starfsfólk sem vinnur við málaflokkinn. Sveitarstjórnarfólk og starfsfólk sveitarfélaga nálgast nýtt viðfangsefni af auðmýkt og metnaði og býður fatlaða velkomna í þjónustu sveitarfélaganna og starfsfólk velkomið til starfa frá og með 1. janúar 2011 gangi nauðsynlegar lagabreytingar eftir á Alþingi Íslendinga.

Í langan tíma hefur staðið til að flytja heildarþjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga. Ástæðan er sú að flestir telja að sveitarfélögin geti gert enn betur en ríkið í þjónustunni enda sinna sveitarfélögin nærþjónustu við íbúana. Með því að hafa þjónustuna á einni hendi, í þessu tilfelli hjá sveitarfélögunum, er dregið úr hættu á því að hin svokölluðu gráu svæði séu til staðar en þau verða alltof oft til þar sem ríki annars vegar og sveitarfélög hins vegar vísa hvort á annað varðandi þjónustu. Viðræður um yfirfærslu höfðu staðið lengi yfir þegar upp úr viðræðum slitnaði árið 2001 vegna þess að ekki náðist samkomulag um endurskoðun samninga.

Á Landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldið var á Akureyri árið 2006 var málið tekið upp að nýju og viðræður við ríkið hófust í byrjun ársins 2007.

Þann 23. nóvember 2010 var skrifað undir heildarsamkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um yfirfærsluna. Er þar með lokið löngu samningsferli sem hófst snemma árs 2007 í sérstakri verkefnisstjórn með fulltrúum ríkis og sveitarfélaga og á síðari stigum fulltrúum hagsmunasamtaka fatlaðra. Óhætt er að fullyrða að mikil og vönduð vinna hefur átt sér stað varðandi yfirfærslu á þessum mikilvæga þjónustuþætti. Mikil vinna hefur verið unnin í verkefnisstjórninni og út um allt land þar sem þjónustusvæði hafa verið samþykkt en gert er ráð fyrir því að ekkert þjónustusvæði við fatlaða sé með færri íbúa en 8000.

Nú er málið í höndum Alþingis sem eðli málsins samkvæmt hefur síðasta orðið varðandi nauðsynlegar lagabreytingar til að gera yfirfærsluna mögulega. Þó tíminn sé stuttur hefur málið verið unnið í mjög nánu samstarfi ríkis og sveitarfélaga allan tímann.

Markmiðið með yfirfærslunni er eftirfarandi:

a. bæta þjónustu og auka möguleika til að laga hana að þörfum notenda með hliðsjón af ólíkum aðstæðum
b. stuðla að samþættingu nærþjónustu við íbúa sveitarfélaga,
c. tryggja að eitt stjórnsýslustig beri ábyrgð á stærstum hluta almennrar félagsþjónustu, bæta samhæfingu og draga úr skörun ábyrgðarsviða stjórnsýslustiga,
d. tryggja góða nýtingu fjármuna,
e. styrkja sveitarstjórnarstigið,
f. einfalda verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Á vef sambandsins er búið að opna sérstakan þjónustuvef vegna málefna fatlaðs fólks. Notendur þjónustunnar munu án efa geta nýtt sér upplýsingavefinn til að glöggva sig á ýmsu sem varðar yfirfærsluna en sambandið mun einnig byggja upp síður með upplýsingum sem einkum snúa að notendum. Málið brennur á mörgum og er fólk hvatt til að kynna sér málið á vefnum.

Það verður að hafa þann mikilvæga fyrirvara á þeim upplýsingum sem hér birtast, að þær miða við að lagarammi verkefnisins og fjárhagsrammi þess verði í samræmi við tillögur sem ráðherrar munu flytja á Alþingi. Eðli málsins samkvæmt er það hins vegar þingið sem á lokaorðið um þessa þætti. Skammur tími er til stefnu og mikil þörf á því að ekki verði frekari dráttur á að starfsmenn og sveitarfélög fái tilteknar upplýsingar. Af þeirri ástæðu var sú ákvörðun tekin, í samráði við ráðuneyti, að birta sem mest af tiltækum upplýsingum, en með þeim fyrirvara sem að ofan greinir.

Sambandið mun fylgjast með framvindu málsins á Alþingi og kappkosta að uppfæra upplýsingarnar þegar og ef breyting verður á málum í meðförum þingsins. Af þeirri ástæðu eru dagsetningar víða settar inn í upplýsingar til þess að undirstrika að útfærsla er háð því að tillaga nái fram að ganga. Jafnframt eru notendur hvattir til þess að kynna sér stöðu þingmála á Alþingisvefnum. 

Sveitarstjórnarfólk nálgast þetta nýja þjónustuverkefni sveitarfélaganna af miklum metnaði og fagnar því að þjónusta við fatlaða einstaklinga skuli framvegis verða verkefni sveitarfélaganna.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 4.6.2010 - 13:56 - Rita ummæli

Meira um persónukjör

Í kringum og eftir sveitarstjórnarkosningarnar er umræða um persónukjör. Eins og fyrr tala margir kjósendur um að þeir vilji geta valið fólk en síður flokka. Mér finnst það skiljanlegt og hef lengi verið hlynntur því að breyta aðferðum okkar við val á fulltrúum.

Ríkisstjórnin lagði fram frumvarp um persónukjör á síðasta ári. Bæði kom það of seint fram og það var meingallað. Sveitarfélögin gátu ekki fallist á það og margir alþingismenn, trúlega meirihluti, voru á móti því.

Gallinn við frumvarpið var sá að samkvæmt því mátti bara raða fólki á þeim lista sem viðkomandi kaus. Prófkjör á kjördag eins og ég kallaði það. Mín skoðun var og er sú að nauðsynlegt hefði verið að opna þetta meira og heimila kjósendum að velja nafn eða nöfn til viðbótar af öðrum listum.

Þá var sú tillaga einnig sett fram af hálfu undirritaðs á stjórnarfundi í Sambandi ísl. sveitarfélaga og það kom fram í umsögn sambandsins að hugsanlega mætti auglýsa eftir tilraunasveitarfélögum til að gera tilraunir með persónukjör og í framhaldi af því ákveða hvaða leið væri vænlegust. Ekkert af þessu var gert heldur sett fram frumvarp sem ekki var samþykkt sökum tímaskorts og sökum skorts á þeirri framsýni sem þurfti, þ.e. að kjósendur hefðu meira val um fólk.

Þetta skrifaði ég í fyrra á þessa síðu í grein um persónukjör:
,,Þó þetta sé óútfært liggur fyrir vilji sveitarfélaganna til að láta reyna á persónukjör. Á okkar vettvangi hefur verið rætt um hvort gera eigi tilraun í nokkrum sveitarfélögum frekar en að byrja með þetta í öllum sveitarfélögum landsins á sama tíma. Ekki er verið að útiloka að breytt lög nái til allra sveitarfélaga en það er spurning með svona mikla breytingu hvort ekki eigi að gera tilraun fyrst hjá þeim sem gefa sig fram sem tilraunasveitarfélög.“

Þá skrifaði ég leiðari í Sveitarstjórnarmál í september 2009 um persónukjör. Þar kom m.a. þetta fram:
,,Það er mat undirritaðs að íbúar hafi á tilfinningunni að þeir hafi meiri áhrif á málefni sveitarfélaga en ríkisins. Þess vegna hefur umræðan um persónukjör og breyttar aðferðir við kosningar snúist enn frekar um val á fulltrúum á Alþingi heldur en til sveitarstjórna. Og með það í huga er frekar undarlegt að ekki hafi verið boðið upp á persónukjör í alþingiskosningunum í vor.  En umræðan snýst líka um sveitarstjórnir og það er áhugi hjá sveitarstjórnarmönnum að stíga myndarleg skref til þess auka áhrif og völd íbúanna.

 Að þessu sögðu veldur frumvarp til laga um kosningar til sveitarstjórna vonbrigðum. Þar er kynnt til sögunnar svokölluð forgangsröðunaraðferð þar sem vannýtt atkvæði eru færð milli frambjóðenda í samræmi við forgangsröðun kjósandans. En það er varla hægt að segja að kjósandinn fái að taka þátt í persónukjöri skv. frumvarpinu. Ástæðan er sú að frumvarpið gerir ráð fyrir því að kjósandi fái einungis að raða frambjóðendum á þeim lista sem hann kýs. Ekki er gert ráð fyrir því að kjósandi fái að velja frambjóðendur af öðrum listum. Það er í huga undirritaðs persónukjör. Frumvarpið er í rauninni listakjör með heimild til að raða listanum sem kjósandi velur. Prófkjör á kjördag.

Það er sjálfsagt og eðlilegt að reyna nýjar leiðir í kosningum. Kjósendur vilja það og við sem einhver áhrif höfum á það eigum að vinna að því að betrumbæta kosningakerfið og auka lýðræðið og lýðræðisvitundina. Þetta frumvarp gengur ekki nógu langt í því auk þess sem það verður í fyrsta lagi að lögum þegar nokkuð er liðið á haustið eða veturinn en þá eru kosningaundirbúningur kominn á fullt hjá framboðum í sveitarfélögunum.“

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 28.5.2010 - 15:56 - 4 ummæli

Jákvæðni og framtíðarsýn virka

Á morgun ganga kjósendur að kjörborðinu eftir stutta kosningabaráttu á flestum stöðum. Stutta en snarpa víðast hvar.

Margt hefur gerst, víða eru ný framboð að undirstrika að lýðræðið virkar þrátt fyrir allt á landinu bláa. Kjósendur munu svo ákveða hverjum þeir treysta best til að stjórna sínu sveitarfélagi. Þetta snýst jú um það. Hverjir eru hæfastir til að nýta tekjur sveitarfélagsins á sem skynsamastan hátt.  Kjósendur hafa ekki verið eins meðvitaðir um rekstrarþáttinn í mjög langan tíma enda hefur árferði verið erfitt og sums staðar hafa sveitarfélög lent í vandræðum. Kröfurnar hafa verið dempaðar niður. Það mátti alveg.

Í mínu sveitarfélagi, Ísafjarðarbæ, hefur verið kosningabarátta undanfarna daga. Til viðbótar við framboð D-lista, B-lista og Í-lista Samfylkingar, Vinstri grænna og Frjálslyndra kom glaðbeitt framboð Kammónista en þar er ungt og jákvætt fólk að beita sér.

Mér finnst D-listinn og reyndar B-listinn líka hafa ásamt Kammónistum verið með jákvæða kosningabaráttu með áherslu á málefni. Kannski er ekkert óeðlilegt hjá þeim sem hafa verið í meirihluta að telja sig þurfa að svara rangfærslum og slíku. Mér finnst það nauðsynlegt svo kjósendur hafi réttar upplýsingar.

Mitt fólk á D-listanum hefur farið um allan bæ, Ísafjörð, Hnífsdal, Suðureyri, Flateyri, Þingeyri. Alls staðar er gengið í hús, haldnir fundir, kíkt á vinnustaði, farið um borð í báta og skip alveg niður í vélarrúm þurfi þess. Þau hafa verið með jákvæðni og framtíðarsýn í farteskinu og eru að mínu mati mjög flottur hópur reynslumikilla einstaklinga sem munu standa sig vel við stjórnvölinn hjá Ísafjarðarbæ.

Hvernig sem fer er ávallt ástæða til að gleðjast yfir kosningum og þeim heilaga rétti sem hverju og einu okkar er færður til að hafa áhrif á okkar umhverfi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 20.4.2010 - 12:07 - 3 ummæli

Já er það?

Ef Samfylkingin vissi að fjármálakerfið væri rotið, feyskið, ónýtt svo vitnað sé í örfá af ummælum undanfarinna daga, m.a. í Ingibjörgu Sólrúnu fv. formann Samfylkingarinnar, hvers vegna var eftirspurnin eftir því að komast í stjórn með Sjálfstæðisflokknum svona mikil?

Hvers vegna setti Ingibjörg Sólrún einstakling í stól viðskiptaráðherra (í þjóðfélagi þar sem stofnað var til fjármálakerfisins með pólitískri spillingu svo aftur sé vitnað í ISG) sem hún treysti ekki til verka?

Hvers vegna sóttust Vinstri Grænir eftir því að komast í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum á þessum tíma?

Getur það verið vegna þess að engan grunaði hvað væri í vændum? Líka þeir sem segjast í dag hafa séð þetta allt fyrir?

Er það ekki?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 6.4.2010 - 16:30 - 2 ummæli

Sjósports-, siglingamiðstöð

Þegar ég las um frekari hugmyndir um uppbyggingu á hinu góða skíðasvæði Akureyringa í Hlíðarfjalli datt mér i hug að deila með lesendum þeim hugmyndum sem eru í undirbúningi hér fyrir vestan varðandi siglingar.

Á Ísafirði er töluverð hefð fyrir vélknúnum skemmtibátum og skútum í eigu heimamanna. Notkun bátanna var blandaðri hér áður fyrr og verður kannski aftur ef strandveiðarnar festa sig í sessi sem nokkurs konar sjósport.

Áhugamenn um siglingar hér í bæ hafa lengi talað fyrir bættri aðstöðu fyrir þessa báta þannig að hér megi bjóða upp á enn betri aðstöðu fyrir bæði heimabáta og aðkomubáta. Þá er verið að tala um báta annars staðar af landinu og erlendis frá.

Rökstuðningurinn fyrir slíkri aðstöðu hjá okkur kemur eiginlega af sjálfu sér. Svæðið er algjört draumasvæði fyrir sjósport. Við erum með Ísafjarðardjúpið, firðina sunnan við okkur, Jökulfirðina og Hornstrandir. Og svo er Grænland innan seilingar fyrir stærri skútur og báta. Hér á Ísafirði er t.d. fyrirtæki sem siglir með ferðalanga á skútu til Grænlands frá Ísafirði.

Til að bæta aðstöðuna hafa verið settar út tvær bryggjur, önnur bara yfir sumarið, innan við Eyrina á Ísafirði. Þær eru semsagt Pollmegin eins og sagt er. Siglingamenn og bæjaryfirvöld sjá fyrir sér fleiri bryggjur, betri aðstöðu og svo aðstöðu í landi fyrir starfsemina, t.d. geymslu yfir vetrarmánuðina.

Hvernig tengist þetta uppbyggingu í Hlíðarfjalli? Jú á sínum tíma var ákveðið að Vetraríþróttamiðstöð Íslands ætti að vera á Akureyri. Fjármagn var ákveðið í málið á móti framlagi heimamanna og það hefur átt sér stað glæsileg uppbygging sem laðar að sér ferðamenn og skapar verðmæti.

Með sama hætti má skapa verðmæti og laða að sér ferðamenn, ekki síst erlendis frá, með því að ákveða að Siglingamiðstöð Íslands verði á Ísafirði og til þess verði ákvarðað fjármagn að sjálfsögðu á móti framlagi heimamanna.

Hér eru frábærar aðstæður til þess að framkvæma þessa hugmynd sem engan veginn er ný af nálinni. Hefðin er til staðar, náttúran býður upp á allt hið besta og hafnaraðstæður góðar og vilji til að gera þær enn betri.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 31.3.2010 - 12:23 - Rita ummæli

Skýrsla um sveitarstjórnarstigið á Íslandi

Á þingi sveitarstjórnarhluta Evrópuráðsins sem haldinn var um miðjan mars (Council of Local and Regional Authorities) var skýrsla um sveitarstjórnarstigið á Íslandi kynnt.

Eitt af verkefnum sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins er að gefa ráðherranefnd ráðsins reglulegar skýrslur um stöðu sveitarstjórnarstigsins í aðildarríkjum, sérstaklega með tilliti til Evrópusáttmálans um sjálfstjórn sveitarfélaga sem Ísland hefur verið aðili að síðan 1991.

Ísland hefur verið aðili að Evrópuráðinu síðan 1950 og nú eru 47 Evrópuríki í ráðinu.

Stjórnskipunarnefnd þingsins ákvað í fyrra að láta fara fram úttekt á íslenska sveitarstjórnarstiginu þar sem Ísland er eitt fárra landa sem aldrei hefur verið tekið út með þessum hætti og með hliðsjón af þeirri stöðu sem landið er í vegna efnahagshrunsins.

Esther Maurer, borgarfulltrúi í Zürich, var fengin til að vera flutningsmaður málsins. Hún sótti Ísland heim í júní sl., ásamt ritara nefndarinnar, Stéphanie Poirel, og Prófessor Francesco Merloni, sem er forseti óháðrar sérfræðinganefndar um Evrópusáttmálann. Þau hittu fulltrúa sveitarfélaga, ráðherra sveitarstjórnarmála, samgöngunefnd Alþingis og forseta stjórnmálafræðideildar HÍ.

Skýrsla þeirra var kynnt  17.-19. mars sl.  í Evrópuráðinu í Strasbourg.

Niðurstaða skýrslunnar er sú að löggjöf og framkvæmd sé í meginatriðum í samræmi við Evrópusáttmálann og að íslensk sveitarfélög séu að bregðast með markvissum hætti við þeim úrlausnarefnum sem kreppan hefur skapað.

Í skýrslunni er m.a.s. tekið fram að viðbrögðin geti verið til  fyrirmyndar fyrir önnur lönd.

Þótt skýrslan sé í meginatriðum jákvæð er mælt með því að ráðherranefnd Evrópuráðsins beini nokkrum ábendingum til íslenskra stjórnvalda. Ábendingarnar snúast flestar um að þörf sé á að útfæra tiltekin lagaákvæði í sveitarstjórnarlögum á skýrari og nákvæmari hátt. Nánar þá lúta þær að því að:

Tryggja betur lagagrundvöll nálægðarreglunnar þannig að það liggi skýrar fyrir hvaða verkefnum sveitarfélög eigi að sinna eða eftir hvaða sjónarmiðum eigi að fara við verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og hvernig meta eigi að nálægðarreglan sé virt.

  1. skoða hvort veita eigi Reykjavík sem höfuðborg sérstaka lagastöðu og viðurkenna að borgin gegni sérstökum verkefnum sem höfuðborg og beri af því kostnað umfram önnur sveitarfélög. Í skýringum er einnig fjallað um að ástæða geti verið til að skoða mismunandi flokka sveitarfélaga eftir stærð, m.a. með tilliti til verkefna, ef sameiningar skili ekki nægilega stórum sveitarfélagaeiningum.
  2. innleiða Evrópusáttmálann um sjálfstjórn sveitarfélaga með beinum hætti með sérstökum lögum.
  3. skýra betur í lögum við hvaða aðstæður ráðherra sveitarstjórnarmála getur beitt eftirlitsvaldi sínu og málsmeðferð við þær kringumstæður. Reyndar er tekið fram í skýringum að Ísland standi öðrum löndum framar hvað varðar sjálfstæði sveitarfélaga að því leyti að lög kveði ekki á um almennt og reglubundið eftirlit með athöfnum þeirra.
  4. skýra betur við hvaða aðstæður ríkisvaldinu er skylt að hafa samráð við sveitarfélög, hvenær því er skylt að fara eftir umsögn sveitarfélaga og hvernig málsmeðferð skuli háttað. Þrátt fyrir þetta er tekið fram að ákvæði íslensku sveitarstjórnarlaganna um samráðsskyldur ríkisins séu ekki aðeins í samræmi við Evrópusáttmálann heldur sé ástæða til að benda á þau sem fyrirmynd.
  5. hækka lágmarksíbúafjölda fyrir lögþvingaðar sameiningar og setja viðmið sem stuðla að því að við sameiningar verði til sveitarfélög sem séu landfræðilega og fjárhagslega starfhæfar einingar, um leið og þess sé gætt eins og kostur er að virða vitund íbúanna um sitt sveitarfélag.
  6. setja á laggirnar stuðningssjóð fyrir sveitarfélög, sem hafa orðið verst fyrir barðinu á efnahagshruninu, svo þau geti haldið áfram að veita nauðsynlega félagslega þjónustu.
  7. veita sveitarfélögum sérstaka lagaheimild til að skjóta ákvörðunum ríkisvaldsins til dómstóla sem þau telja fela í sér brot á sjálfsstjórnarrétti þeirra skv. Evrópusáttmálanum.

Skýrslan fékk ekki mikla umræðu á þinginu í Strasbourg. Noregur og Ísland ræddu hana og svo auðvitað skýrsluhöfundur.

Umræður á þinginu í Strasbourg fara að mestu í málefni fyrrum austantjaldslandanna. Það var á þeim að heyra (í spjalli utan þingsins) varðandi sjálfsstjórnarrétt sveitarfélaga á Íslandi og stöðu þeirra að ekki væri um nein vandamál að ræða. Ísland væri öðrum löndum góð fyrirmynd á sveitarstjórnarstiginu og eftirsóknarvert að komast í þá stöðu sem Ísland væri í með sitt sveitarstjórnarstig.

Skýrslan er áhugaverð lesning, þar er margt jákvætt en margar góðar ábendingar líka. Hjá okkur er ýmislegt í góðu lagi en við erum ekki svo blind að átta okkur ekki á því að margt má líka betur fara. Að því er líka unnið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur