Þriðjudagur 04.09.2012 - 14:08 - FB ummæli ()

Hvar eru blessuð Bændasamtök Íslands?

Margir bændur eru í þeim hópi sem á um sárt að binda vegna fautalegrar innheimtu bankanna á ólöglegum gengistryggðum lánum.

Það dæmi sem ég hef hér fyrir framan mig er af bændum; hjónum, sem komin eru á sextugsaldur. Þau eru krafin um vel á sjötta hundrað þúsund krónur mánaðarlega í greiðslur af ólöglegu láni. Eftir því sem liðið hefur á árið hafa hjónin átt erfiðara með að standa í skilum þar sem Seðlabankinn hefur hækkað gríðarlega þá breytilegu vexti sem endurgreiðslur lánsins miðast við. Afleiðingar vaxtahækkananna eru þær að mánaðarlegar afborganir hafa hækkað um nokkra tugi þúsunda króna. Aukinn mánaðarlegur kostnaður vegna lánsins bættist síðan ofan á önnur ófyrirséð útgjöld búsins s.s. vegna bilunar á dráttarvél og bifreið. Þrengri fjárhagsstaða leiddi til þess að hjónin óskuðu eftir því að lengt yrði í láninu og mánaðarlegar afborganir lækkaðar.

Landsbankinn, ríkisbankinn, sem skuldar fólkinu í raun stórfé, þar sem að hann hefur fengið ofgreidda fjárupphæð sem nemur vel á annan tug milljóna króna, hefur sett það skilyrði fyrir lækkun á mánaðarlegri afborgun, að vextir lánsins verði hækkaðir gríðarlega.

Hvers konar stjórnvöld leyfa lögbrjótinum að setja brotaþolanum afarkosti? Jú það er „Norræna velferðarstjórnin.“

Að mínu mati mættu Bændasamtök Íslands beita sér af mun meiri hörku fyrir þá bændur, sem komnir eru í ólöglega skuldakreppu stjórnvalda og banka. Vissulega er málið viðkvæmt fyrir stjórnvöld, sem þarf að semja við um gerð búvörusamninga, en ráðherrar ríkisstjórnarinnar líta fallna dóma Hæstaréttar, sem snúa að gengistryggðu lánunum, sem högg. Það er engu að síður  óhætt að hvetja hagsmunasamtök bænda til að beita sér af meiri krafti í málinu, sem brennur á fjölmörgum bændum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur