Þriðjudagur 11.09.2012 - 23:57 - FB ummæli ()

Þörf ræða forseta lýðveldisins

Setning Alþingis þann 11. september fór fram í skugga víggirðingar og almenns vantrausts á stórum hluta þingheims. Ólafur Ragnar Grímsson forseti flutti þarfa ræðu þar sem að hann minnti þingmenn á hina óþægilegu framangreindu staðreynd.

Vantraustið má að mestu leyti rekja til þess að ríkisstjórnin, sem kjörin var til breytinga, hefur helgað krafta sína endurreisn gamla Íslands. Óskir almennings hafa verið hunsaðar á meðan fulltrúar sérhagsmuna hafa ráðið stefnu stjórnvalda. Enginn velkist í vafa um að stjórnarflokkarnir og reyndar fjórflokkurinn í heilu lagi taki meira mið af málflutningi Samtaka fjármálafyrirtækja en Hagsmunasamtaka heimilanna. Sjónarmið almannahagsmuna eru iðulega látin víkja fyrir þröngum sérhagsmunum klíka á borð við LÍÚ.  Afleiðingin er sú að verðtryggingin lifir enn góðu lífi, reyndar svo góðu lífi að lögð var niður nefnd sem hafði það hluverk að minnka vægi verðtryggingarinnar. Festa á illræmt kvótakerfi í sessi út öldina og dómar Hæstaréttar hafa verið hunsaðir ef að þeir hafa raskað ró fjármálafyrirtækja. Hörðustu deilurnar á þinginu hingað til hafa snúist um það hvort að enginn stjórnmálamaður ætti að sæta ábyrgð, Geir Haarde einn, eða þá hvort að samverkamenn hans hefðu átt að deila með honum sakamannabekknum.

Með samþykkt nýrrar stjórnarskrár stjórnlagaráðs virkjast beint lýðræði, sem verður til þess að almenningur hefur meiri möguleika á að hafa áhrif með beinum hætti á mikilsverð mál, sem fulltrúalýðræðið hefur hingað til hikstað á. Hætt er við því að sömu öfl og vilja óbreytt vald sérhagsmuna reyni nú að tala nýja stjórnarskrá niður.  Enginn efi er um það í mínum huga að beint lýðræði muni endurreisa traust á Alþingi þar sem að fulltrúarnir, sem þar sitja, munu í auknum mæli þurfa að taka tillit til almannahagsmuna.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur