Stjórnkerfið er í gríðarlegri kreppu. Fjármálastofnanir virða ekki dóma Hæstaréttar, álit Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna er sett til hliðar og Ríkisendurskoðun lítur á það sem sitt hlutverk að leyna þjóðina í stað þess að upplýsa.
Reyndar er það svo að hjá Ríkisendurskoðun hafa lengi viðgengist undarleg vinnubrögð. Til dæmis að gefa út torræðar skýrslur um augljósa spillingu við einkavæðingu bankanna og bæta síðan gráu ofan á svart með því að gefa Halldóri Ásgrímssyni sérstakt heilbrigðisvottorð þegar hann seldi sér og sínum stóran hlut í Búnaðarbankanum.
Eftir hrun virðist lítið hafa breyst. Ráðamenn þjóðarinnar horfa gapandi og ráðalausir á lögbrotin og grípa ekki inn í þrátt fyrir að vera bent á þau og þeim lýst í smáatriðum. Dæmin eru víða. Meirihluti Vg og Framsóknarflokksins í sveitarstjórn Skagafjarðar hefur leynt gögnum, meðal annars leynilegum fjármögnunarsamningi við Kaupfélag Skagfirðinga vegna framkvæmda, sem munu verða til þess að sveitarfélagið sprengir lögbundið 150% skuldaþak sitt. Fyrir fjórum vikum var Ögmundi bent á þetta, en hann hefur ekkert aðhafst. Hann hefur gert tilraun til að vísa málinu frá sér í afkima stjórnsýslunnar, sem tekur heila meðgöngu að fá úrlausn hjá.
Mér finnst sú spurning verðug, hvort sé alvarlega af meirihlutanum að brjóta lögin eða af Ögmundi að horfa framhjá löbrotunum, sem honum ber að taka á.
Hvar endar þetta? Það er vissulega alvarlegt að ræna banka, en það er ekki síður alvarlegt ef lögreglan horfir aðgerðarlaus á.