Þriðjudagur 02.10.2012 - 12:11 - FB ummæli ()

Súlan og raunveruleikinn

Með hruni hefði mátt búast við að kerfi, sem brugðust, væru endurskoðuð í stað þess að þau væru stagbætt.

Eitt þeirra kerfa, sem brást algerlega, eru lífeyrissjóðirnir, sem studdu við og fjármögnuðu útrásarvíkingana. Tap lífeyrissjóðanna var gífurlegt á samkrullinu við fjárglæframennina og ekki sér fyrir endann á því hversu mikið tapið verður. Það ætti að blasa við að eftir að helstu verkalýðsleiðtogar Íslands hafa setið í umboði sjóðanna inni í fjárfestingarfélögum í Lúx, sem stofnuð voru í gegnum skúffufélög á Tortola, þurfi að staldra við og stokka upp kerfið.

Í stað þess að stjórnun og stefna sjóðanna sé tekin til endurskoðunar eru núna uppi hugmyndir um að hækka það hlutfall launatekna, sem rennur inn í sjóðina úr 12% upp í 15,5%, til að standa undir skuldbindingum og tapi sjóðanna. Þá er staðið í vegi fyrir afnámi verðtryggingarinnar og vaxtalækkunum,vegna þess að það lækkar til skamms tíma uppblásna Excelsúluna sem stöðugt er einblýnt á. Þessi afstaða er sér í lagi furðuleg þar sem lífeyrissjóðirnir eiga nú þegar fullt í fangi með að finna arðsöm verkefni fyrir það gríðarlega mikla fé, sem þeir eru núna að sýsla með, sem nemur tæplega einni og hálfri þjóðarframleiðslu.

Hvers vegna á að bæta í þegar menn eiga fullt í fangi með að sinna því sem þeir hafa þegar úr að spila?

Hver er hin raunverulegi lífeyrissjóður? Hinn raunverulegi lífeyrissjóður eru þau verðmæti sem vinnandi fólk getur látið af hendi rakna á hverjum tíma til þeirra sem hættir eru að vinna. Sömuleiðis eru það auðlindir þjóðarinnar, þ.e. fiskimiðin og orkan. Hávaxtastefnan og verðtryggingin verða augljóslega til þess að tækifærum til raunverulegrar atvinnusköpunar fer fækkandi og sífellt dýrara verður fyrir ungt fólk að koma sér þaki yfir höfuðið, sem leiðir til þess að ungt fólk ákveður að flytja af landi brott. Ef svo verður í auknum mæli þá fyrst verður lífeyrissjóðakerfið í verulegum vanda.

Er ekki orðið tímabært að endurskoða séríslensk kerfi s.s. lífeyrissjóðakerfið og kvótakerfið í sjávarútveginum, sem sögð eru þau  bestu í heimi, en eru þegar betur er að gáð þau verstu – eða ætlum við að halda áfram blekkingarleiknum?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur