Miðvikudagur 03.10.2012 - 22:24 - FB ummæli ()

Ásbjörn Óttarsson sló bjartan tón!

Í vikunni sótti ég fund þingmanna Norðvesturkjördæmis, sem haldinn var fyrir sveitarstjórnarmenn á Norðurlandi vestra. Fundurinn stefndi í það að verða hefðbundinn rétt eins og útvarpsmessa á sunnudagsmorgni, þar sem fátt nýtt gerist. Rætt var um refaveiðar og vegagerð og Guðbjartur flutti sína gamalkunnu predikun um að hér hefði hefði orðið hrun í boði Sjálfstæðisflokksins. Boðskapurinn var, eins og áður, að skera ætti meira niður í ríkisrekstri á Norðurlandi vestra en annars staðar á landinu.

Ásbjörn Óttarsson kom á óvart og sló nýjan og jákvæðan tón í umræðunni um landsins gagn og nauðsynjar. Hann flutti hreinskilna ræðu þar sem hann viðurkenndi að fiskveiðiráðgjöfin, sem flokkurinn hans hefur hingað til staðið vörð um, gengi alls ekki upp. Þar greindi hann frá því að ráðgjöf og leyfilegt aflamark á ýsu væri ekki í neinum takti við það sem sjómenn skynjuðu á miðunum. Einn fundarmanna orðaði það þannig að það væri svo mikið af ýsu í sjónum að hún væri nánast farin að ganga á land. Bent var á að ýsustofninn hefði vaxið þegar veitt var umfram ráðgjöf og síðan mælst stöðugt minni þegar farið var að veiða í samræmi við ráðgjöfina. Ásbjörn tók með ræðu sinni undir þær gagnrýnisraddir sjómanna og fjölmargra, sem hafa bent á að fiskveiðiráðgjöfin hafi verið verulega gagnrýniverð og að hægt sé að gera betur. Hingað til hefur, svo undarlegt sem það nú er, verið reynt að þagga niður málefnalega gagnrýni á reiknisfiskifræði stjórnvalda. Umræðan um raunverulega stjórn fiskveiða hefur nú týnst í deilum um skattlagningar og veiðigjöld.

Þessi þöggun er furðuleg í ljósi þess að breytingar, sem gætu leitt til aukinnar veiði, væru verulegur búhnykkur fyrir þjóðarbúið og gætu sömuleiðis auðveldað skynsamar og réttlátar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu.
Hreinskilinni ræðu þingmannsins ber að fagna og vonandi nær hann að koma einhverju viti fyrir aðra þingmenn flokks síns.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur