Föstudagur 05.10.2012 - 23:26 - FB ummæli ()

Elliði bragðar á eigin meðali

Elliði Vignisson var um árabil einn harðasti talsmaður algerlega frjáls framsals á veiðiheimildum. Nú er öldin önnur og orðið hefur alger viðsnúningur á skoðunum Elliða til frjáls framsals kvótakerfisins. Ef málið væri ekki jafn alvarlegt og raun ber vitni, og í raun sorglegt, mætti eflaust hlæja að því.

Fyrir örfáum árum þegar Elliði taldi að útgerðarmenn í Vestmannaeyjum væru ofan á í kvótakerfinu líkti hann þeim á blogginu sínu við verstu kommúnista, sem leyfðu sér að tala um að sporna þyrfti við því að Vestfirðingar misstu allar veiðiheimildir og hefðu ákveðinn forgang á að nýta fiskimiðin við strendur byggðanna.

Í dag, þegar Elliði fær að bragða á því meðali sem hann taldi rétt að Vestfirðingar tækju inn án nokkurra kveinstafa,  er hljóðið orðið beiskara í bæarstjóra Vestmannaeyinga.  Núna, þegar byggðaeyðingarmáttur kvótakerfisins er farinn að kveikja sína elda í Vestmannaeyjum, er bæjarstjórinn farinn að tala um nauðsyn þess að tryggja öryggi og rétt sjávarbyggðanna. Það er því af sem áður var.

Átakanlegur er sá málflutningur að kenna veiðigjaldinu einu um öryggisleysi íbúa sjávarbyggðanna, en vissulega má leiða að því líkur að það herði á neikvæðum áhrifum kerfisins. Veiðigjaldið er hugmynd Sjálfstæðisflokksins til þess að þjóðin sætti sig við óréttlátt og afar vont kvótakerfi, en það þurfti ekki mikinn spámann til þess að sjá að gjaldið myndi aðeins hækka þegar það á annað borð var komið á.

Vonandi munu framámenn í Sjálfstæðisflokknum, sem nýlega hafa opinberað efasemdir um óbreytt kerfi, s.s. Elliði og Ásbjörn Óttarsson, verða menn til að skoða róttækar breytingar á stýringu fiskveiða, en í því felast gríðarleg tækifæri fyrir sjávarútveginn.  Það ætti öllum að vera ljóst að óbreytt kerfi, burt séð frá umræddu veiðigjaldi, ógnar mjög öllu atvinnulífi í Vestmannaeyjum og á Snæfellsnesi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur