Úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar eru mjög afgerandi og jákvæð. Fólkið kaus með breytingum og að tryggt verði að auðlindir s.s. fiskveiðiauðlindin verði áfram í eigu þjóðarinnar. Niðurstaðan var þvert á fyrirskipanir tvíeykisins Bjarna Benediktssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, en þeir gáfu út þá línu að frumvarpinu skyldi hafnað. Fólk sá í gegnum röklausan málflutning flokksformannanna til stuðnings sérhagsmunaöflunum á kostnað þjóðarhags.
Nú er komið að vendipunkti hjá silfurskeiðadrengjunum. Ætla þeir að draga sína flokka í leiðangur studdan af ÍNN og Morgunblaðinu á móti afgerandi vilja þjóðarinnar, eða munu þeir greiða fyrir og virða þjóðarviljann?
Ef þeir velja fyrri kostinn er alveg ljóst að flokkar, sem áður voru fjöldahreyfingar, munu smám saman breytast í sértrúarsöfnuði. Aftur á móti, ef þeir taka hinn kostinn og reyna að nálgast vilja þjóðarinnar, sérstaklega í auðlindamálum og lýðræðisumbótum, mun hinn venjulegi flokksmaður ef til vill geta fyrirgefið þeim.