Miðvikudagur 24.10.2012 - 22:56 - FB ummæli ()

Peningana frekar í börnin en kerfisvarðhunda

Á fundi sveitarstjórnar Skagafjarðar lagði ég til að sveitarfélagið léti af þeirri ætlan að ganga í samtök sem kalla sig Samtök sjávarútvegssveitarfélaga. Stjórn samtakanna er að mestu skipuð harðsvíruðum fylgismönnum kvótakerfisins en formaður samtakanna er Svanfríður Inga Jónasdóttir á Dalvík. Með stofnun samtakanna er einsýnt að verið er að stofna enn eitt vígið til þess að koma í veg fyrir vitræna umræðu um stjórn fiskveiða. Fyrsta ályktun samtakanna bar þess skýr merki en hún innihélt mótsagnakenndar rangfærslur.

Mér finnst miklu nær að mörghundruð þúsund krónur af skattfé Skagfirðinga séu nýttar í að gera  eitthvað fallegt fyrir börnin okkar en að punga því í gamla staðnaða kerfisvarðhunda.

Ég læt hér fylgja með bókun mína frá sveitarstjórnarfundinum:

 „Sveitarstjórnarfulltrúi Frjálslyndra og óháðra, Sigurjón Þórðarson, styður ekki aðild Sveitarfélagsins Skagafjarðar að Samtökum sjávarútvegssveitarfélaga. Ástæðan er sú að margir þeirra sveitarstjórnarmanna, sem hafa valist til forystu í samtökunum, hafa um árabil stutt núverandi kvótakerfi og gera enn, sem hefur leitt til þess að veiðiheimildir hafa flust frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins með tilheyrandi hörmungum fyrir landsbyggðina og þjóðina alla.

Fyrsta ályktun Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga er og í meginefnum kolröng, þ.e.a.s. sú staðhæfing að fólki, sem vinnur við veiðar og vinnslu hafi fækkað alla síðustu öld. Mikill uppgangur var í sjávarútvegi á Íslandi framan af tuttugustu öldinni, allt þar til kvótakerfið var sett á, en það leiddi til aflasamdráttar og stöðnunar. Umtalsverðar tækninýjungar hafa ekki orðið við botnfiskveiðar á síðustu áratugum, enda eru togararnir þeir sömu og fyrir daga kvótakerfisins og sjómennirnir á þeim jafn margir og áður. Helstu breytingarnar eru að leyfilegur afli er helmingi minni en hann var áður.

Ekki er hægt að taka undir þá rakalausu fullyrðingu í ályktun samtakanna að veiðigjaldið auki á meinta hagræðingu í greininni, því að ef svo væri þá væri undarlegt að standa gegn gjaldtökunni.“

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur