Fimmtudagur 06.12.2012 - 23:24 - FB ummæli ()

Baðstjóri ESB

Ég er nýkominn úr námsferð hóps sveitarstjórnarmanna til Brussel, þar sem Evrópuþingið var sótt heim.  Ferðin var vel skipulögð og fengu námsmennirnir að hlýða á fjölda fyrirlestra þar sem skipulag og gangverk sambandsins voru kynnt.  Eftir langa fyrirlestratörn á öðrum degi námskeiðsins ákvað ég að skella mér í sundlaug í höfuðborg Evrópu, enda voru erindin farin að renna saman í eitt suð.  Það var ekki auðhlaupið að því að finna slíkt mannvirki. Það var ekki fyrr en eftir lipra þjónustu íslensku utanríkisþjónustunnar og þriggja belgískra leigubílstjóra að laugin Poseidon fannst á endanum.

Ekki fannst mér sundlaugin í höfuðborg Evrópu standast samanburðinn við sundlaugina í höfuðstað Norðurlands vestra á Sauðárkróki, þrátt fyrir að laugin á Króknum þyki vera í lakara lagi á íslenskan mælikvarða.  Þegar í laugina var komið fékk ég ákúrur fyrir að stinga mér til sunds án sundhettu og komu mér þær þrifnaðarreglur verulega á óvart þar sem að algerlega óheimilt var að þrífa sig án sundfatnaðar fyrir sundferðina og reyndar var enga sápu að finna í baðklefanum!

Mér finnst furðulegt að heyra á það minnst að Íslendingar geti tekið að sér  fiskveiðistjórn ESB og jafnvel lagt til mann í embætti fiskveiðstjórans í ljósi algers árangursleysis íslenska kvótakerfisins, ósanngirninnar og sóunar kerfisins.  Miklu nær væri ef við gerðum Evrópu þann greiða að taka að okkur nýtt embætti baðstjóra Evrópusambandsins og forystu í reglugerðum varðandi sundlaugar. Það er gott að geta boðið fram krafta sína á þeim sviðum sem maður er hæfur á.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur