Fimmtudagur 07.02.2013 - 17:02 - FB ummæli ()

Að hjakka í sama farinu

Sama hvað kemur upp á varðandi síldina þá er niðurstaða stjórnvalda alltaf sú sama, þ.e. að draga enn frekar úr veiðum. Aldrei er niðurstaðan á þá leið að skoða hlutina upp á nýtt eða frá nýju sjónarhorni. Helst er reynt að þagga niður og gera þá sem koma fram með málefnaleg rök ótrúverðuga.

Á síðustu árum hefur orðið vart við sníkjudýrasýkingu í síldarstofninum. Allir líffræðingar og bændur vita það að sníkjudýr eru fylgifiskur þess þegar það þrengist um hjörðina. Aukning sníkjudýra er skýrt merki um það að stofn sé mjög stór og þoli auknar veiðar. Í stað þess að nota tilefnið til þess að skoða hlutina upp á nýtt og auka veiðar, þá er ráðlagt að draga úr veiðum, sem gengur þvert á lögmál viðtekinnar vistfræði. Nú þegar síldin gengur hvað eftir annað á land eru hlutirnir ekki skoðaðir í nýju ljósi og farið yfir hvort það eigi að auka veiðar. Nei aldeilis ekki. Atburðirnir eru notaðir til þess að réttlæta það að minnka veiðar enn frekar, jafnvel þó svo að fréttir hermi að firðir landsins séu fullir af smásíld. Ekki nóg með það heldur virðist vera sem að óprúttnir sjórnmálamenn ætli sér að nota málið til þess að koma í veg fyrir það að gerðar verði vegabætur og þverun fjarða. Það er látið eins og útreikningar Hafró séu óskeikulir, þrátt fyrir að þeir sýni oft gjörólíkar niðurstöður á milli  mánaða og jafnvel vikna.

Það er ekki að undra að á meðal sjómanna og almennings í sjávarbyggðum landsins sé almenn vantrú á ráðgjöf og stjórnun fiskveiða. Það er eins og enginn þingmaður þori að taka upp gagnrýna umræðu um það hvernig málin hafa þróast.

Það er grátlegt að krakkarnir í Grundarfirði séu núna að aðstoða við að fénýta illa lyktandi fiskhræ í stað þess að þau fái að kynnast því að veiða og vinna síldina.

Er ekki kominn tími til að ræða það að fiskveiðistjórnunin er ekki að ganga upp?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur