Föstudagur 01.02.2013 - 15:23 - FB ummæli ()

Steingrímur J. neglir og Ólína fagnar

Með nýju frumvarpi um „stjórn fiskveiða“  gerir Steingrímur J. Sigfússon sitt ýtrasta til þess að festa illræmt kvótakerfi í sessi. Það er  gert þvert á fyrirheit Vg og Samfylkingar fyrir síðustu kosningar og sömuleiðis á þjóðarviljann eins og hann kom skýrt fram í atkvæðagreiðslu um auðlindaákvæði  nýrrar stjórnarskrár.

Það er eins gott fyrir þjóðarhag að Steingrímur J. renni á rassinn með þetta mál, rétt eins og með alla „stórkostlegu“ Icesavesamningana, þar sem nýja frumvarpið felur í sér að stjórnarflokkarnir vilja niðurnegla til frambúðar:

  1. Stjórnun sem hefur gefist afar illa, þorskaflinn síðustu áratugina í kvótakerfinu er ekki nema svipur hjá sjón, frá því sem hann var fyrir daga þess, enda  hvetur kerfið til brottkasts og sóunar.
  2. Þrönga sérhagsmuni á kostnað almennings.
  3. Að ekki verði leyfðar frjálsar handfæraveiðar næstu áratugina.
  4. Ennþá veikari sjávarbyggðir, sem nú þegar hafa farið illa út úr núverandi kerfi, þar sem ætlunin er að draga um helming úr byggðakvótum og sömuleiðis línuívilnun.( Sjá töflu bráðabirgðaákvæði VIII)

Steingrímur hefur sömuleiðis „afrekað“ það að stúta almennri úthlutun á skötuselsveiðum, sem Jón Bjarnason var búinn að koma á.  Um tíma áttu sjómenn möguleika á að leigja skötuselskvóta og jafnræði ríkti. Önnur afrek Icesavesráðherrans hafa verið að skera niður leyfilegan afla handfærabáta á makrílveiðum úr 3 þús tonnum í 8 hundruð tonn og einnig má minna á að hann skar síldarkvóta minni báta á lagnetum úr 2 þúsund tonnum  í 8 hundruð.

Þessi afrek Steingríms J. komu mér alls ekki á óvart, en það sem kemur óþægilega á óvart er að Ólína Þorvarðardóttir skuli taka þátt og klappa fyrir ruglinu og bullinu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur