Fimmtudagur 21.03.2013 - 16:25 - FB ummæli ()

Sigurður Ingi og Ólína eru Samherjar

Leikrit fjórflokksins er orðið langdregið, þreytt og mjög dýrt fyrir þjóðfélagið.

Látið er í veðri vaka að staðið sé í meiriháttar deilum, en þegar betur er að gáð er varla blæbrigðamunur á þrætuefnunum. Skólabókardæmi um það er deila Ólínu Þorvarðardóttur, spunameistara „nýs fiskveiðistjórnunarfrumvarps“, og Sigurðar Inga Jóhannssonar framsóknarmanns um auðlindaákvæði nýrrar stjórnarskrár.

Bæði eru þau sammála um að stjórna áfram með núverandi kvótakerfi og hindra nýliðun í greininni þó svo að kerfið hafi gefist afar illa, hvetji til brottkasts og hafi brugðist öllum upphaflegum markmiðum sínum. Þorskaflinn nú er rétt um þriðjungur þess sem hann var fyrir daga kvótakerfisins.

Ljóst er að bæði vilja þau halda áfram með kerfið óbreytt og fara í engu yfir vel rökstudda gagnrýni á kerfið. Einfaldar breytingar og aukið frelsi til fiskveiða gætu orðið gríðargóður búhnykkur fyrir þjóðarbúið.

Samherjarnir eru sammála um að festa núverandi kerfi í sessi, eina ágreiningsmálið er að Ólína vill skattleggja einokunarréttindin aðeins meira heldur en Sigurður Ingi.

Það er bara óvart þannig að 82,5% þjóðarinnar staðfesti það í kosningunum 20. október sl. að auðlindirnar ættu að vera í þjóðareign. Þessi opinberun Framsóknarflokksins á andstöðunni við þjóðarviljann í þessu máli gæti reynst flokknum dýrkeypt í komandi kosningum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur