Laugardagur 06.04.2013 - 19:47 - FB ummæli ()

Morgunblaðið hrasar

Morgunblaðið er eldra en flestar stofnanir landsins, nýlega orðið aldargamalt. Það má segja að það sé orðið hluti af „kerfinu“ og þegar það birtir fregnir af ríkisstofnunum er hætt við því að gagnrýni skorti.

Í Morgunblaðinu í dag segir af miklum árangri Hafrannsóknarstofnunar við að byggja upp þorskstofninn. Þessu til staðfestingar er sýnt línurit af útgefnum kvóta frá 1984 til dagsins í dag og vitnað í niðurstöður nýafstaðins vorralls stofnunarinnar.

Horft er framhjá þeirri staðreynd að niðurstaða Hafró sýndi að stofninn hefur farið minnkandi frá því í fyrra og að útgefinn kvóti endurspeglar ekki alltaf raunverulega veiði. Aldurssamsetning stofnsins nú, gefur til kynna að vegna þess hversu gamall fiskurinn er orðinn og að yngri árgangar eru fáliðaðir í stofninum, þá eru allar líkur á að stofninn fari ört minnkandi á næstu árum.

Ekki er heldur einu orði minnst á að þegar lagt var af stað í núverandi stjórnun var stefnt að því að fá 500 þúsund tonna jafnstöðuafla af þorski á ári og losna við sveiflur í aflabrögðum.

Um síðustu aldamót töldu sömu sérfræðingar að sú stefna, að veiða minna til að geta veitt meira seinna, væri loksins að skila árangri. Margir muna eftir því hvernig fór um sjóferð þá. Menn töldu sig vera að ná verulegum árangri með stjórnuninni og að  niðurskurðurinn á tíunda áratugnum væri loksins að skila ávexti, en í kjölfarið kom mikill niðurskurður á veiðiheimildum. Aftur töldu menn sig vera að sjá árangur af stjórnuninni næstu árin. Enn eitt bakslagið kom árið 2007 og nú árið 2013 telja sömu aðilar enn á ný að stórkostlegur árangur sé handan við hornið, það eina sem skorti á sé að það vanti nýliðun í stofninn.

Athyglisvert er að fram kemur í Morgunblaðinu að það eina sem vantar upp á að uppbyggingin heppnist, sé að það komi sambærileg nýliðun í þorskstofninn og  var á árunum fyrir árið 1985, þ.e. á þeim árum sem meint ofveiði á að hafa farið fram.

Ætla menn ekki að fara að tengja að þegar veiðar eru minnkaðar þá er eðlilega minna pláss fyrir nýliðun í stofninum.

Sérfræðingar Morgunblaðsins ættu að taka saman meðaltals þorskafla síðustu 10 ára og bera hann saman við meðaltöl áratugina á undan. Nokkuð ljóst er að þeir myndu komast að því að veiðiráðgjöfin hefur ekki leitt til aukins afla heldur stöðugt minni afla. Það er því tímabært að fara málefnalega yfir gagnrýni á veiðiráðgjöfina og gaumgæfa hvort ekki sé hægt að gera betur. Augljóst er að við erum ekki á réttri leið.

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins í dag kokgleypti gleðifréttirnar um meintan árangur fiskveiðiráðgjafarinnar, en skammaði samt sem áður núverandi stjórnarflokka fyrir árásir á sjávarútveginn! Staðreyndin er því miður sú að núverandi stjórnarflokkar hafa viðhaldið sömu stjórnun og Sjálfstæðisflokkurinn hefur aðhyllst síðustu tvo áratugina, þess vegna hefði leiðarahöfundur frekar átt að þakka Steingrími J. fyrir.

Eini ágreiningur Sjálfstæðisflokksins og stjórnarflokkanna snýst ekki um stjórnun sjálfra veiðanna heldur um skattlagningu á hagnaði þeirra örfáu sem hafa sérréttindi til að nýta sameiginlega auðlind landsmanna.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur